Hoppa yfir valmynd
A. Samgöngur á landi

Lýsing

A.1 Innviðir fyrir virka ferðamáta - Aðgerðin felur í sér uppbyggingu innviða til að fjölga fólki sem notar virka ferðamáta, svo sem hjólreiðar og göngu.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.


Hjóla- og göngustígar eru ýmist lagðir af sveitarfélögum eða af Vegagerðinni í samvinnu við sveitarfélög með mótframlagi þeirra. Lagning göngu- og hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu er hluti af samgöngusáttmála ríkisins og SSH. Verkefnið nær eingöngu til lagningar stíga með beinni aðkomu ríkisins.

Ljóst er að aukin notkun virkra ferðamáta dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra mengandi efna frá samgöngum. Innviðir fyrir fjölbreytta ferðamáta eru bestir í stærstu þéttbýliskjörnum. 

Árið 2019 var í fyrsta sinn gerð ferðavenjukönnun sem tók til landsins alls. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samgöngustofa, Isavia og Vegagerðin stóðu að könnuninni fyrir hönd samgönguráðs ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).  Sú könnun verður næst framkvæmd haustið 2022 en góðar vísbendingar um notkun á höfuðborgarsvæðinu má fá úr ferðavenjukönnunum sem gerðar eru árlega af ýmsum aðilum og ársfjórðungslegum hjólatalningum Reykjavíkurborgar sem og gögnum úr sjálfvirkum teljurum á stofnhjólastígum.

Framkvæmd

Hjóla- og göngustígar verða markvisst byggðir upp til að auka enn frekar vægi virkra ferðamáta og gera fleirum kleift að velja þá. 

Með viðamiklum hætti verður stutt við gerð stofnstíga fyrir gangandi og hjólandi bæði í þéttbýli og á milli þéttbýlisstaða. Á höfuðborgarsvæðinu verður unnið eftir samgöngusáttmálanum sem ríki og sex sveitarfélög undirrituðu í september 2019. Sáttmálinn felur meðal annars í sér stórátak við uppbyggingu nýrra hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu sem samsvarar 70-100 km af stígum, auk þess sem byggðar verða göngubrýr og undirgöng.

Samhliða verður samkvæmt samgönguáætlun 2020-2034 haldið áfram í framkvæmdum við hjólastíga milli þéttbýliskjarna innan vinnusóknarsvæða, í samstarfi við og með mótframlagi frá viðkomandi sveitarfélögum. Auk þess verður hugað að hjólastígum meðfram þjóðvegum.

Ferðavenjukönnun hefur nú verið lögð fyrir á landsvísu til að fá góðar upplýsingar um val fólks á ferðamátum. Slíkt hafði ekki áður verið gert. Ferðavenjukannanir verða í framhaldinu unnar reglulega og uppbygging innviða og ívilnanir fyrir virka ferðamáta (sjá aðgerð A.2) endurskoðuð reglulega með tilliti til árangurs.

Ábyrgð

Innviðaráðuneytið

Árangursmælikvarði

  • Hlutfall fólks sem notar reiðhjól, hlaupahjól og rafmagnshjól í ferðum.
  • Hlutfall fólks sem fer ferða sinna gangandi.[1]

Markmiðið er að ganga og hjólreiðar verði 30% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2040 en samkvæmt ferðavenjukönnun samgönguráðs og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið 19% árið 2019.

Eins og sjá má á Mynd 6 hér að neðan var vart marktækur munur árið 2019 á fjölda þeirra sem ganga og hjóla á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.

Mynd 6 Hlutfall virkra ferðamáta af ferðum á landsbyggð og höfuðborgarsvæði árið 2019

 

Mynd 7 Hlutfall virkra ferðamáta af ferðum á höfuðborgarsvæði árin 2014, 2017 og 2019

Mynd 7 sýnir að hlutfall þeirra sem ferðuðust með virkum ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu árin 2014, 2017 og 2019 hefur lítið breyst.


[1] Mælikvarðinn er fenginn úr ferðavenjukönnun samgönguráðs og SSH sem unnin verður á þriggja ára fresti. Árið 2019 náði könnunin í fyrsta skipti einnig til landsbyggðarinnar. Spurt var: Hvernig fórst þú/fór barnið þitt í ferðina? Nánari upplýsingar um könnunina og frekari niðurstöður má sjá á vef Stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/verkefni/samgongur-og-fjarskipti/samgonguaaetlun/ferdavenjukonnun-samgongurads-og-ssh/

Áhrif á ríkissjóð

Í samgönguáætlun 2020-2034 er gert ráð fyrir 750 milljóna króna árlegu framlagi til innviða fyrir reiðhjól á starfssvæði Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2024. Að auki er gert ráð fyrir 3 milljarða króna framlagi sem kemur til framkvæmda síðar á gildistíma samgönguáætlunarinnar.
Samtals renna því um 6 milljarðar króna af hálfu ríkisins til hjólastíga á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2020-2034.

Á landsbyggðinni verður haldið áfram að styrkja lagningu hjólastíga í og á milli þéttbýlisstaða í samstarfi við sveitarfélög – sérstaklega innan vinnusóknarsvæða, og er gert ráð fyrir að framlag ríkisins muni nema um 250-300 milljónum króna árlega fram til ársins 2034. → Samtals renna því um 4 milljarðar króna af hálfu ríkisins til hjólastíga á landsbyggðinni á tímabilinu 2020-2034.

Á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni er þannig samtals gert ráð fyrir um 10 milljörðum króna á tímabilinu 2020-2034 til hjóla- og göngustíga.

Áhrif á losun

Aðgerðin er metin sameiginlega með aðgerðum um ívilnanir fyrir virka ferðamáta. Það er gert vegna samlegðaráhrifa þeirra. Áætlað er að með þessum samverkandi aðgerðum muni losun frá vegasamgöngum árið 2030 hafa dregist saman um 10 þúsund tonn CO2-ígilda miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum