Hoppa yfir valmynd
C. Orkuframleiðsla og smærri iðnaður

Lýsing

C.2 Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja - Aðgerðin felur í sér að ljúka rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja hér á landi og tryggja að ekki verði bakslag í þeirri þróun sem þegar hefur orðið.

Staða


Aðgerðin er í framkvæmd.

Íslenskir fiskimjölsframleiðendur hafa á undanförnum áratugum notað olíu og rafmagn við framleiðslu sína. Þar sem öryggi í flutningi og dreifingu í raforkukerfinu er takmarkað og eftirspurn fiskimjölsverksmiðja sveiflukennd hefur olían verið nauðsynlegur varaaflgjafi í vinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á þarf að halda.

Olíunotkun fiskimjölsverksmiðja hefur dregist saman undanfarin 20 ár og hefur aldrei verið minni en síðustu tvö árin, 2019 og 2020, sbr. Mynd 30. Markmiðið um að ekki verði bakslag í jákvæðri þróun áranna á undan hefur því náðst. Tvær fiskimjölsverksmiðjur hér á landi brenna enn jarðefnaeldsneyti í sinni framleiðslu, á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Til þess að ná fullri rafvæðingu þarf að koma til veruleg fjárfesting í flutningskerfi raforku.

Framkvæmd

Lokið verður við orkuskipti í fiskimjölsverksmiðjum í samvinnu við þá aðila sem reka verksmiðjurnar. Á undanförnum árum hefur mikill árangur náðst við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja að frumkvæði fyrirtækja í þeim rekstri og mikilvægt er að klára endanlega þau orkuskipti þar sem það er tæknilega framkvæmanlegt.

Hluti losunar frá fiskimjölsverksmiðjum fellur undir evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS) og því ekki undir beina ábyrgð Íslands. Losun frá fiskimjölsverksmiðjum er í eðli sínu sveiflukennd en í heildina hefur hún dregist saman síðastliðin ár. Árið 1997 var losun frá fiskimjölsverksmiðjum sem fellur undir beina ábyrgð Íslands mest, rúmlega 180 þúsund tonn en var komin niður í tæplega 12 þúsund tonn árið 2018. Tryggja þarf að ekki verði bakslag í þessari þróun og vinna að því að hætta með öllu olíubrennslu í fiskimjölsframleiðslu hér á landi.

Meðal þess sem unnið verður með er hvernig tryggja megi orkuafhendingu til staða þar sem fiskimjölsverksmiðjur eru starfræktar, hvernig leysa megi aðrar tæknilegar hindranir á borð við heimtaugar og hvernig tryggja megi að verð á raforku til fiskimjölsverksmiðja verði ekki óhagstæðara en verð á olíu. Þegar hefur verið rætt við Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda og fulltrúa einstakra verksmiðja.

Ábyrgð

Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árangursmælikvarði

Magn jarðefnaeldsneytis sem fiskimjölsverksmiðjur nota til orkuframleiðslu.[1]

 

Mynd 30 Olíunotkun fiskimjölsverksmiðja til orkuframleiðslu árin 2003-2020

Eins og sjá má á Mynd 30 hefur orðið mikill samdráttur í notkun olíu í fiskimjölsverksmiðjum. Ólíklegt er að lengra verði komist án umfangsmikillar fjárfestingar í flutningskerfi raforku.


[1] Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda, gögn send Umhverfisstofnun vegna losunarbókhalds.

Áhrif á ríkissjóð

Aðgerðin hefur ekki í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð en felst í samvinnu framleiðenda og orkufyrirtækja.

Áhrif á losun

Áætlað er að með þessari aðgerð muni losun frá fiskimjölsverksmiðjum árið 2030 hafa dregist saman um ríflega 9 þúsund tonn af CO2-ígildum miðað við spá um þróun samkvæmt grunnsviðsmynd.

 

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum