Hoppa yfir valmynd

Samgöngur á landi

Tíu aðgerðir eru settar fram til að stuðla að breyttum ferðavenjum og orkuskiptum í vegasamgöngum

Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum, þúsund tonn CO2-ígilda

Tíu aðgerðir eru settar fram til að stuðla að breyttum ferðavenjum og orkuskiptum í vegasamgöngum - Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum, þúsund tonn CO2-ígilda

Mynd: Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum árin 2005 og 2018 og áætluð losun 2030 með aðgerðum.

Orkuskiptin á fleygiferð – aukin áhersla á breyttar ferðavenjur

Losun frá vegasamgöngum

Losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum stafar af bruna jarðefnaeldsneytis í ökutækjum á landi og telur stærstan einstaka hluta þeirrar losunar sem tilheyrir beinni ábyrgð Íslands. Losunin var 776 þúsund tonn árið 2005 og 979 þúsund tonn árið 2018. Með aðgerðum í  aðgerðaáætlun og þróun samkvæmt grunnsviðsmynd er áætlað að losun árið 2030 verði komin niður í 615 þúsund tonn CO2-ígilda. Það er 21% samdráttur miðað við árið 2005. Vert er að undirstrika að þar sem losun frá vegasamgöngum hefur aukist mikið hér á landi síðastliðin ár er um að ræða alls 37% samdrátt miðað við losun ársins 2018.

Grunnsviðsmyndin sýnir mikinn samdrátt í losun og skýrist það til dæmis af tækniþróun og auknu framboði á vistvænum bifreiðum, auk aðgerða sem þegar hafði verið ráðist í áður en aðgerðaáætlunin kom út, s.s. varðandi ívilnanir – sjá frekari útskýringu í Viðauka II: Forsendur við mat aðgerða.

Losun frá vegasamgöngum jókst frá 1990 til 2007 og dróst svo saman í hruninu og árin þar á eftir. Losunin í þessum flokki var árið 2018 alls 33% af heildarlosun á ábyrgð Íslands. Frá 2014 hefur hún aukist verulega og raunar aldrei verið meiri. Munar þar miklu um aukningu í umferð ferðamanna.

Orkuskiptin eru á fleygiferð hér á landi. Hlutfall nýskráðra vistvænna bíla á Íslandi er það næsthæsta í heiminum, aðeins í Noregi er hlutfallið hærra. Framboð á rafbílum og tengiltvinnbílum eykst hratt, sem og innviðir til að þjóna þeim. Metfjöldi rafbíla var skráður í mars 2020 eða 41% nýskráðra fólksbíla. Af heildarfjölda fólksbíla í umferð voru um 10% vistvænir í lok maí 2020.

Betur má ef duga skal. Þótt hreinorkubílar og aðrar vistvænar bifreiðar hafi verið 46% af nýskráðum bifreiðum fyrstu fimm mánuði ársins 2020 þá eru hins vegar þegar í umferð á Íslandi um 200 þúsund bensín- og dísilfólksbílar auk fjölda flutningabifreiða, hópbifreiða og ýmissa stærri ökutækja, sem skýrir af hverju samdráttur verður ekki samstundis í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum. Nýir jarðefnaeldsneytisbílar losa þó um 30% minna en þeir sem voru á markaði um aldamót.

Losun frá vegasamgöngum jókst um 25% frá 2005 til 2018 en fyrirséð er að hún muni dragast mikið saman með orkuskiptum í vegasamgöngum og breyttum ferðavenjum

Losun frá vegasamgöngum frá 2005 til 2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Losun frá vegasamgöngum jókst um 25% frá 2005 til 2018 en fyrirséð er að hún muni dragast mikið saman með orkuskiptum í vegasamgöngum og breyttum ferðavenjum

Mynd: Söguleg losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum og þróun losunar með aðgerðum.

Undir vegasamgöngur fellur meðal annars losun frá fólksbifreiðum, hópbifreiðum, sendibifreiðum og flutningabifreiðum. Á myndinni að neðanmá sjá skiptinguna á milli flokka farartækja.

Stærsti hluti losunar frá vegasamgöngum er vegna fólksbifreiða en þar á eftir koma futningabifreiðar

Losun frá mismunandi fokkum farartækja frá 1990 til 2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Stærsti hluti losunar frá vegasamgöngum er vegna fólksbifreiða en þar á eftir koma futningabifreiðar

Mynd: Söguleg skipting losunar gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum eftir flokkum.

Aðgerðir

Í innsendum athugasemdum við fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar, sem og á samráðsfundum sem voru haldnir í kjölfarið, kom fram skýrt ákall um að lyfta breyttum ferðavenjum til jafns við orkuskipti í vegasamgöngum. Uppfærð aðgerðaáætlun ber merki þessa. Kaflinn Samgöngur á landi skiptist því í tvennt.

Breyttar ferðavenjur

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
A.1 Innviðir fyrir virka ferðamáta
Í framkvæmd
-10 þúsund tonn CO2-ígilda
A.2 Ívilnanir fyrir virka ferðamáta 
Í framkvæmd (ný aðgerð)
Metin með A.1
A.3 Efling almenningssamgangna Í framkvæmd
-16 þúsund tonn CO2-ígilda

Undir breyttum ferðavenjum er að finna aðgerð um innviði fyrir virka ferðamáta en með slíkum ferðamátum er til að mynda átt við hjólreiðar og göngu. Þarna er einnig að finna nýja aðgerð um ívilnanir fyrir virka ferðamáta sem tóku gildi í janúar 2020. Aðgerð um eflingu almenningssamgangna hefur fengið stóraukið vægi með fyrirhugaðri uppbyggingu Borgarlínu og samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var haustið 2019.

Orkuskipti í samgöngum

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030
A.4 Ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki
Í framkvæmd
-51 þúsund tonn CO2-ígilda
A.5 Innviðir fyrir vistvæn ökutæki
Í framkvæmd
Metin með A.4-A.7 og G.1
A.6 Lög og reglur vegna orkuskipta
Í framkvæmd
Metin með A.4-A.7 og G.1
A.7 Nýskráning bensín- og dísilbíla óheimil árið 2030
Í undirbúningi
Metin með A.4-A.7 og G.1
A.8 Orkuskipti í þungaflutningum 
Í undirbúningi (ný aðg.)
Aðgerð í mótun, ekki metin
A.9 Vistvænir bílaleigubílar 
Í undirbúningi (ný aðg.)
Aðgerð í mótun, ekki metin 
A.10 Skylda ríkisaðila til að kaupa vistvænar bifreiðar
Í framkvæmd
-1 þúsund tonn CO2-ígilda

Undir orkuskiptum í vegasamgöngum er að finna ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki sem nýverið voru bæði framlengdar og nýjum bætt við. Stuðningur við innviði fyrir vistvæn ökutæki verður stóraukinn og margvísleg verkefni hafa þegar verið sett af stað til þess, svo sem fjölgun hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið. Enn skortir þó innviði fyrir aðra orkugjafa, svo sem metan og vetni, sem eru forsenda þess að flutningabílar geti verið knúnir öðru en jarðefnaeldsneyti.

Með útfærðri aðgerð um lög og reglur vegna orkuskipta verður lagt kapp á að viðeigandi lög og reglugerðir styðji við orkuskiptin og nýskráning bensín- og dísilbíla er sem fyrr bönnuð eftir 2030. Þar er um fólksbíla að ræða. Enn fremur verður ráðist í sérstaka, nýja aðgerð til að flýta orkuskiptum í þungaflutningum. Losun frá hverri þungabifreið er margfalt meiri en frá hverri fólksbifreið, auk þess sem þær aka hlutfallslega meira. Önnur ný aðgerð snýr að vistvænum bílaleigubílum. Áhrif innkaupa bílaleiga á samsetningu bílaflotans eru veruleg þar sem bílaleigubílar eru tæpur helmingur allra nýskráðra bifreiða á Íslandi. Áhrifin á losun gróðurhúsalofttegunda eru tvíþætt: Annars vegar vegna aksturs ferðamanna, sem er að minnsta kosti fjórðungur af öllum einkaakstri á landinu, og hins vegar þegar fyrrverandi bílaleigubílar verða að heimilisbílum landsmanna á eftirmarkaði.

Loks má nefna aðgerð um skyldu ríkisaðila til að kaupa vistvænar bifreiðar sem hefur verið útfærð frá því í fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunarinnar. Frá og með árinu 2020 kaupa ríkisaðilar að meginreglu ekki nýja bensín- og dísilbíla. Einnig má nefna að aðgerð G.11, um skipulagsgerð og loftslagsmál, tengist meðal annars aðgerðum í samgöngum á landi.

Það verður hlutverk verkefnisstjórnar um orkuskipti, með fulltrúum fjögurra ráðuneyta, að gæta að samhæfingu aðgerða og áætlana er varða orkuskipti. Hún tekur á móti greiningum sem ráðist verður í, vinnur tillögur um næstu skref og endurskoðar aðgerðaáætlun um orkuskipti en samkvæmt henni skal hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi vera komið upp í 30% árið 2030. Verkefnisstjórnin leggur 1. desember 2020 fram tillögur um forgangsverkefni og kostnaðarskiptingu fyrir árin 2021-2023.

Vert er að undirstrika að gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða hjá ríki, sveitarfélögum og víða í samfélaginu til að auka við stafrænar lausnir en slíkt dregur úr ferðaþörf. Verkefnastofa um stafrænt Ísland í fjármála- og efnahagsráðuneytinu vinnur til dæmis með afar viðamiklum hætti að því að aðstoða opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning. Eins má búast við því að fjarvinna muni aukast í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins sem aftur sparar ferðir starfsfólks til og frá vinnustöðum.

Áhrif flestra samgönguaðgerða á losun gróðurhúsalofttegunda eru ekki metin sérstaklega fyrir hverja aðgerð, heldur sameiginlega vegna samlegðaráhrifa þeirra hver á aðra. Samdráttur sem verður vegna einnar aðgerðar leggst ekki endilega ofan á samdrátt frá annarri heldur hafa aðgerðirnar innbyrðis áhrif hver á aðra. Ívilnanir vegna rafbíla sem leiða til aukinnar notkunar hreinorkubíla geta til dæmis haft þau áhrif að samdráttur í losun vegna aukinnar notkunar almenningssamgangna verður minni. Þetta stafar af því að þegar hreinorkubílum fjölgar í samfélaginu verður um leið líklegra en áður að manneskja sem nýtir sér almenningssamgöngur geri það í staðinn fyrir að nota hreinorkubíl en ekki bensín- eða dísilbíl. Sjá „áhrif á losun“ í aðgerðunum sjálfum, sem og í 4. kafla: Mat á áhrifum aðgerða.

Ítarleg umfjöllun um aðgerðirnar er í Viðauka I: Lýsing á einstaka aðgerðum.

Árangursmælikvarðar

Hlutfall fólks sem notar reiðhjól, hlaupahjól og rafmagnshjól í ferðum.
Hlutfall fólks sem fer ferða sinna gangandi.
Fjöldi innfluttra reiðhjóða og rafmagnshjóla.
Hlutfall fólks sem notar almenningssamgöngur.
Meðalbílafjöldi á heimili.
Hlutfall vistvænna bifreiða í nýskráningum, eftir flokkum bifreiða og orkugjafa.
Hlutfall vistvænna bifreiða af heildarfjölda bifreiða í umferð.
 Hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum á landi.
 Heildarfjöldi hleðslu-, metan og vetnisstöðva á landinu.
 Fjöldi bifreiða á hverja hraðhleðslustöð.
 Áætlun um uppbyggingu innviða til orkuskipta hefur verið gefin út.
 Fjöldi nýskráninga bensín- og díselbifreiða.
 Fjöldi nýskráninga vistvænna þungaflutningabifreiða.
 Hlutfall vistvænna bifreiða af nýskráðum bifreiðum bílaleigufyrirtækja.
 Hlutfall vistvænna bifreiða í nýskráningum ríkisbifreiða.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum