Hoppa yfir valmynd

Skip og hafnir

Fimm aðgerðum er ætlað að draga úr losun frá skipum og höfnum en tvær þeirra eru enn í mótun og samdráttur vegna þeirra ekki reiknaður inn í áætlunina að svo stöddu

Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda frá skipum og höfnum, þúsund tonn CO2-ígilda

Fimm aðgerðum er ætlað að draga úr losun frá skipum og höfnum en tvær þeirra eru enn í mótun og samdráttur vegna þeirra ekki reiknaður inn í áætlunina að svo stöddu

Mynd: Losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum og höfnum árin 2005 og 2018 og áætluð losun 2030 með aðgerðum.

Losun dregist saman en tækifæri til frekari samdráttar

Losun frá skipum og höfnum

Langstærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá skipum og höfnum er frá fiskiskipum og á sér stað vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Losunin í þessum flokki var 769 þúsund tonn árið 2005 og 596 þúsund tonn árið 2018. Með aðgerðum í aðgerðaáætlun og þróun samkvæmt grunnsviðsmynd er áætlað að losun árið 2030 verði komin niður í 449 þúsund tonn CO2-ígilda. Það er 42% samdráttur miðað við árið 2005 og 25% samdráttur miðað við 2018. Þess ber að geta að aðgerðin orkuskipti í sjávarútvegi er í mótun og vænt áhrif hennar því ekki metin í aðgerðaáætluninni. Aðgerðin Orkuskipti í skipum á vegum ríkisins er einnig í mótun.

Haftengd starfsemi í landi, svo sem frystihús og fiskimjölsverksmiðjur, fellur samkvæmt reglum um losunarbókhald ekki undir þennan flokk heldur Orkuframleiðslu og smærri iðnað (sjá flokk C). Auk þess telst losun frá flutninga- og skemmtiferðaskipum ekki til losunar á beinni ábyrgð Íslands, nema eldsneyti sé tekið á Íslandi og siglt sé á milli íslenskra hafna. Þá fellur sú losun undir strandsiglingar.

Tekið er á millilandasiglingum á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Frá árinu 2018 hafa stór skip sem leggjast við hafnir innan ESB þó verið hluti af ETS-kerfinu. Eins og staðan er í dag munu þó engin skip vera í umsjá Íslands, þar sem þau íslensku skip sem ná þessari þyngd og myndu falla undir kerfið eru skráð með heimahöfn í öðrum ríkjum.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum og strandsiglingum hefur dregist verulega saman frá því að hún náði hámarki árið 1996, eða um 40%, sjá þróunina á myndinni hér fyrir neðan. Þessi samdráttur skýrist af ýmsum þáttum en ekki síst betri sóknarstýringu og að dregið hefur úr veiðum á fjarlægum miðum. Árangur hefur því náðst en enn eru tækifæri til frekari samdráttar og nauðsynlegt að nýta þau svo Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Umrædd losun er enda tæplega fimmtungur af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð Íslands.

Sömu sjónarmið gilda um orkuskipti í skipum og í vegasamgöngum. Það er loftslagsvænna og hagkvæmara til lengri tíma að nota innlenda endurnýjanlega orku en innflutt jarðefnaeldsneyti. Tækniþróun í skipum hefur ekki verið jafn ör og í bifreiðum en brýnt er að nýta allar leiðir til að ýta undir nýjar loftslagsvænar lausnir.

Losun frá skipum og höfnum hefur dregist saman frá árinu 2005 – fram undan er að móta frekari aðgerðir til að ná meiri samdrætti

Losun frá skipum og höfnum frá 2005 til 2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Losun frá skipum og höfnum hefur dregist saman frá árinu 2005 – fram undan er að móta frekari aðgerðir til að ná meiri samdrætti

Mynd. Söguleg losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum og höfnum og þróun losunar með aðgerðum.

Eins og sést á myndinni að ofan er áætlað að aðgerðir í aðgerðaáætlun og þróun samkvæmt grunnsviðsmynd leiði til 42% samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda frá þessum flokki árið 2030 m.v. 2005. Inn í það mat vantar ávinning tveggja aðgerða sem enn eru í mótun. Grunnsviðsmyndin byggist á nýrri spá Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um eldsneytisnotkun í sjávarútvegi 2020-2035 – sjá nánar í Viðauka II: Forsendur við mat aðgerða.

Langstærsti hluti losunar gróðurhúsalofttegunda í þessum flokki kemur sem fyrr segir frá fiskiskipum. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá skiptingu losunar gróðurhúsalofttegunda milli fiskiskipa og strandsiglinga.

Stærsti hluti losunar í þessum fokki kemur frá fskiskipum

Losun frá fskiskipum og strandsiglingum frá 1990 til 2018, þúsund tonn CO2-ígilda

Stærsti hluti losunar í þessum fokki kemur frá fskiskipum

Mynd. Söguleg skipting losunar gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum og strandsiglingum.

Aðgerðir

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
B.1 Orkuskipti í sjávarútvegi
Í undirbúningi
Aðgerð í mótun, ekki metin
B.2 Rafvæðing hafna
Í framkvæmd
-11 þúsund tonn CO2-ígildi
B.3 Bann við notkun svartolíu
Í framkvæmd
 Ekki hægt að meta*
B.4 Orkuskipti í ferjum
Í framkvæmd
-4 þúsund tonn CO2-ígildi
B.5 Orkuskipti í skipum á vegum ríkisins
Í framkvæmd (ný aðgerð)
Aðgerð í mótun, ekki metin

*Loftslagsáhrif birtast í samdrætti sótagna

Aðgerðir í þessum flokki eru ýmist þegar komnar til framkvæmda eða í undirbúningi. Fram undan er eins og áður sagði að útfæra orkuskipti í sjávarútvegi og verður þar meðal annars horft til innleiðingar grænna ívilnana til að flýta orkuskiptum í sjávarútvegi. Þetta er lykilaðgerð til að draga úr losun frá skipum og höfnum en þar sem hún er enn í mótun eru áhrif hennar ekki metin í aðgerðaáætluninni. Þar sem losun frá fiskiskipum var alls 18% af losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2018 gæti aðgerðin gæti skilað umtalsverðum samdrætti. Starfshópur fimm ráðuneyta mun skila af sér tillögum í 1. desember 2020 um hvernig flýta megi orkuskiptum í sjávarútvegi.

Styrkir verða auglýstir fyrri hluta árs 2020 vegna rafvæðingar hafna og reglugerð sem felur í sér bann við notkun svartolíu við strendur Íslands tók gildi 1. janúar 2020. Orkuskipti í ferjum eru ýmist hafin eða fram undan. Nýr Herjólfur hefur verið tekinn í notkun og mun þegar fram líða stundir sigla alfarið á rafmagni milli lands og eyja. Hríseyjarferjan Sævar verður þegar þar að kemur endurnýjuð með nýsmíði sem rafmagnsferja. Orkuskipti í skipum á vegum ríkisins er ný aðgerð sem felur í sér að draga markvisst úr notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa í skipum á vegum ríkisins, öðrum en ferjum.

Vert er að nefna að nú stendur yfir rannsóknarverkefni sem leitt er af Samorku og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um mat á orkuþörf ef farið yrði í full orkuskipti í íslenska skipaflotanum með beinni raforkunýtingu eða framleiðslu á vetni með rafgreiningu. Jafnframt er skoðuð notkun á jarðgasi, metanóli og lífdísil. Með verkefninu er þess vænst að afla megi upplýsinga sem lagt geti grunn að framtíðarorkuskiptum á hafi og þar með orkuþörf, innviðauppbyggingu og öðru sem máli skiptir til þess að orkuskiptin gangi sem best og hraðast fyrir sig.

Verkefnið fram undan er skýrt: Að leita allra leiða til að ná orkuskiptum í sjávarútvegi hið fyrsta. Ítarleg umfjöllun um aðgerðirnar í þessum flokki er í Viðauka I: Lýsing á einstaka aðgerðum.

Árangursmælikvarðar

Árleg notkun jarðefnaeldsneytis í sjávarútvegi.
Notkun jarðefnaeldsneytis á aflaeiningu.
Fjöldi hafna þar sem heimafloti er tengdur.
Fjöldi hafna þar sem þjónustubátar tengjast rafmagni.
Fjöldi hafna þar sem farmskip geta tengst rafmagni.
Fjöldi hafna þar sem háspennutenging er í boði.
Hlutfall svartolíu af heildarnotkun skipaeldsneytis.
Fjöldi atvika ólöglegrar notkunar svartolíu innan íslenskrar lögsögu.
Fjöldi og hlutfall ferja á Íslandi sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti.
Hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildarorku ríkisskipa.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum