Hoppa yfir valmynd

Úrgangur og sóun

Þrjár aðgerðir eru settar fram til að draga úr losun frá úrgangi

Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi, þúsund tonn CO2-ígilda

Þrjár aðgerðir eru settar fram til að draga úr losun frá úrgangi Þróun losunar gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi, þúsund tonn CO2-ígilda

Mynd. Losun gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi og sóun árin 2005 og 2018 og áætluð losun 2030 með aðgerðum.

Hægt að ná miklum árangri með réttum aðgerðum

Losun frá úrgangi og sóun

Mikill meirihluti losunar vegna meðhöndlunar úrgangs kemur frá urðun úrgangs, einkum vegna losunar metans og annarra gróðurhúsalofttegunda sem myndast við niðurbrot lífbrjótanlegra efna í úrganginum. Afgangurinn er frá meðhöndlun skólps, brennslu úrgangs og frá jarðgerð úr úrgangi. Losun frá meðhöndlun úrgangs var 330 þúsund tonn árið 2005 og 276 þúsund tonn árið 2018. Með aðgerðum í aðgerðaáætlun og þróun samkvæmt grunnsviðsmynd er áætlað að losunin verði árið 2030 komin niður í 113 þúsund tonn CO2-ígilda (mynd 18). Það er 66% samdráttur miðað við árið 2005 og 59% miðað við 2018.

Í innsendum athugasemdum við fyrstu útgáfu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, sem og á samráðsfundum í kjölfarið, var skýrt ákall um enn meiri þunga á að draga úr neyslu og sóun. Uppfærð aðgerðaáætlun ber merki þessa. 

Þróun losunar frá úrgangi má sjá á myndinni hér að neðan. Losun frá meðhöndlun úrgangs jókst frá 1990 til ársins 2007 þegar hún náði hámarki. Samdrátt í losun má að mestu rekja til aukningar í endurvinnslu og söfnunar á metani á tveimur urðunarstöðum á Íslandi, auk þess sem meðferð úrgangs hefur farið batnandi með meiri flokkun og endurvinnslu. Magn úrgangs hefur þó aukist síðustu ár með auknum efnahagsvexti. Loftslagsáhrif neyslu og sóunar birtast meðal annars í úrgangsmálum – í einnota hlutum sem hent er eftir notkun, matvælum sem fleygt er í ruslið og á urðunarstöðum.

Mikill samdráttur verður í losun frá úrgangi næstu tíu árin með aðgerðum

Losun frá úrgangi frá 2005 til 2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Mikill samdráttur verður í losun frá úrgangi næstu tíu árin með aðgerðum Losun frá úrgangi frá 2005 til 2030, þúsund tonn CO2-ígilda

Mynd. Söguleg losun gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi og þróun losunar með aðgerðum.

Aðgerðir

Aðgerð 
Staða
Losunaráhrif 2030 
F.1 Urðunarskattur
Í undirbúningi
-28 þúsund tonn CO2-ígildi
F.2 Bann við urðun lífræns úrgangs
Í undirbúningi
-104 þúsund tonn CO2-ígildi
F.3 Minni matarsóun
Í framkvæmd
-14 þúsund tonn CO2-ígildi

Aðgerðir í þessum flokki eru ýmist komnar vel af stað eða í undirbúningi. Unnið er að útfærslu urðunarskatts og stefnt er að því að umhverfis- og auðlindaráðherra mæli á haustþingi 2020 fyrir frumvarpi á Alþingi sem gerir meðal annars ráð fyrir banni við urðun lífræns úrgangs, í samræmi við aðgerðaáætlun í drögum að nýrri stefnu um meðhöndlun úrgangs. Ráðist hefur verið í verkefni til að draga úr matarsóun og starfshópur sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði vinnur auk þess að tillögum að aðgerðum sem geta dregið úr matarsóun. Aðgerðir í öðrum flokkum í aðgerðaáætluninni tengjast sömuleiðis úrgangi, neyslu og sóun og má þar nefna aðgerð um G.7 um sjálfbær opinber innkaup og aðgerðir G.4 og G.5 um fræðslu um loftslagsmál fyrir almenning og menntun um loftslagsmál í skólum.

Fram undan er ærið verkefni þar sem ríki heims verða að hætta að henda hráefni og fleygja hlutum – en hugsa hagkerfið heldur í hring. Tilkynnt var árið 2019 um hálfan milljarð króna aukalega í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til að efla hringrásarhagkerfið hér á landi, auk þess sem margvísleg vinna þessu tengd á sér nú stað. Mörg verkefni sem ætlað er að draga úr sóun hafa verið unnin á grundvelli Saman gegn sóun, stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir 2016-2027, og verða þau fleiri á næstu árum. Einnig réðist Umhverfisstofnun sem dæmi í átakið Er einnota óþarfi? sem byggðist á tillögum til umhverfis- og auðlindaráðherra til að draga úr plastmengun.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er jafnframt langt á veg komin vinna við útgáfu á nýrri almennri stefnu um meðhöndlun úrgangs til næstu 12 ára. Þar verður lögð áhersla á að draga úr urðun úrgangs og auka endurvinnslu og endurnýtingu. Báðar þessar stefnur eru liður í að stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi og því að stýra úrgangsmálum í farveg sem samræmist þeirri forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs sem er í gildi – að samfélagið færist í átt frá sóun og förgun og yfir í meiri nýtni og endurvinnslu. Í drögum að síðarnefndu stefnunni eru meðal annars aðgerðir sem felast í álagningu urðunarskatts, banni við urðun lífræns úrgangs og í stuðningi við nýsköpun í endurvinnslu úrgangs. Sjálfbær framleiðsla á vörum er jafnframt mikilvægur hluti farsæls hringrásarhagkerfis. Búast má við að kröfur til framleiðenda muni aukast, svo sem um nýtingu á endurunnu hráefni til framleiðslu og að framleiða endingargóðar vörur með orkunýtni að leiðarljósi. Helst það í hendur við þá þróun sem verið hefur í þá átt að auka ábyrgð framleiðenda á vörum eftir að líftíma þeirra er lokið. Ábyrgð framleiðenda er meðal þess sem verður tekið á í frumvarpi til breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs sem stefnt er að því að leggja fram á Alþingi haustið 2020.

Með þessum mikilvægu aðgerðum er mögulegt að stíga stór skref í þá átt að lágmarka eins og kostur er losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá meðhöndlun úrgangs. Matvæli eru stór hluti þess lífræna úrgangs sem urðaður er á Íslandi og því er aðgerð sem stuðlar að minni matarsóun einnig til þess fallin að draga úr urðun.

Árangursmælikvarðar

Magn urðaðs úrgangs.
Magn lífræns úrgangs sem fer í urðun.
Magn matarúrgangs.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum