Hoppa yfir valmynd

Fjármögnun

Fjármagn til aðgerða er á ólíkum tímaás og fer í gegnum stjórnkerfið eftir mismunandi leiðum

Fjármagn eyrnamerkt loftslagsmálum

Þegar fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var kynnt haustið 2018 kom fram að henni fylgdu 6,8 milljarðar króna og var þar miðað við fjármálaáætlun 2019-2023. Það fjármagn var sérstaklega eyrnamerkt loftslagsmálum og fór í gegnum umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Með fjármálaáætlun 2020-2024 jukust enn framlög til málaflokksins og í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020 vegna efnahagsáhrifa Covid-19 var síðan gert ráð fyrir 600 milljónum króna aukalega til orkuskipta og grænna lausna. Útfærsla þeirra verkefna stendur yfir en gert er ráð fyrir 550 milljónum króna vegna orkuskipta og kolefnisbindingar á árinu 2020 og 50 milljónum króna aukalega í nýsköpun í gegnum Loftslagssjóð.

Fjármagn sem sérstaklega er eyrnamerkt loftslagsmálum rennur til dæmis til uppbyggingar hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið, kolefnisbindingar, endurheimtar votlendis og rannsókna og vöktunar vegna loftslagsbreytinga. Það fer einnig í aðgerðir gegn matarsóun, ýmiss konar úttektir og greiningar, fræðslu og eflingu stjórnsýslu til að takast á við auknar skuldbindingar í loftslagsmálum, svo dæmi séu tekin.

Skattastyrkir og breyttar ferðavenjur

Margvíslegar aðgerðir sem tengjast loftslagsmálum beint og eru hluti af aðgerðaáætluninni eru fjármagnaðar með öðrum hætti og í gegnum önnur ráðuneyti. Framlag ríkisins til uppbyggingar samgöngumannvirkja samkvæmt Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, þar með talið Borgarlínu og hjóla- og göngustíga, er til að mynda að lágmarki 45 milljarðar króna til ársins 2033. Þetta er því verkefni til margra ára. Verkefni geta hins vegar einnig verið stök eða haft miklu skemmri tímaramma. Ferjan Herjólfur var til að mynda rafvædd og kostnaðurinn, um 800 milljónir króna, greiddur á einungis tveimur árum.

Kostnaður ríkissjóðs vegna loftslagsmála er einnig í formi skattastyrkja. Síðastliðin ár hefur ríkissjóður gefið eftir hluta af virðisaukaskatti vegna kaupa á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðum til þess að hvetja til kaupa á þeim í stað bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Bara á árinu 2019 námu slíkir skattastyrkir tæplega 2,7 milljörðum króna. Ívilnanirnar hafa nú verið framlengdar og útvíkkaðar og ýmsir skattastyrkir bæst við, meðal annars vegna vistvænna hópbifreiða í almenningsakstri, rafmagnshjóla og reiðhjóla. Áætlað er að með þessu verði skattastyrkirnir ríflega 3,4 milljarðar króna á árinu 2020.

Myndin hér að neðan sýnir stærstu fjármögnunarliði aðgerðaáætlunarinnar og hvernig fjármagnið dreifist yfir tíma. Á myndinni er miðað við árið 2018 en fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kom út það ár.

Áætlunin er fjármögnuð á ýmsa vegu

Fjármagn til aðgerða í loftslagsmálum er á ólíkum tímaás og fer í gegnum stjórnkerfið eftir mismunandi leiðum

Áætlunin er fjármögnuð á ýmsa vegu

Mynd. Fjármögnun stærstu verkefna sem tengjast loftslagsmálum á árunum 2018-2033.

Gildandi fjármálaáætlun tekur til áranna 2020-2024. Þegar einungis er miðað við þau ár sést að á fimm ára tímabili renna að lágmarki 46 milljarðar króna til stærstu verkefna í loftslagsmálum hér á landi. Taka ber fram að ekki er um tæmandi lista að ræða, þar sem fjármagn til aðgerða fellur ekki allt undir þá liði sem þar eru tilgreindir, auk þess sem flestir skattastyrkirnir gilda út árið 2023 og áframhald þeirra verður metið þegar nær dregur, byggt á mati á þörf.

46 milljarðar á 5 árum vegna stærstu verkefna

Miðað við gildandi fjármálaáætlun og strstu liðina sem tengjast loftslagsmálum

46 milljarðar á 5 árum vegna stærstu verkefna

Mynd. Fjármögnun stærstu verkefna sem tengjast loftslagsmálum miðað við gildandi fjármálaáætlun, 2020-2024.

Loftslagsmál: Fjármögnun

- Milljónir króna 


2020  2021  2022  2023  2024  Samtals 

 
Umhverfs- og auðlindaráðuneytið 


         
Fjármagn sérstaklega eyrnamerkt loftslagsmálum  1.635*  1.385  1.685  2.185  2.185  
Samtals   1.635  1.385  1.685  2.185  2.185  9.075

 
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

           
Ívilnanir vegna vistvænna ökutækja, virkra ferðamáta og hleðslustöðva 3.410 3.590 3.965 3.175 180**
Samtals í formi skattastyrkja  3.410  3.590  3.965  3.175  180   14.320

 
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

           
Breyttar ferðavenjur — styrkir vegna strætó  1.718  1.736  1.754  1.773  1.792  
Breyttar ferðavenjur — styrkir til Borgarlínu, göngu- og hjólastíga  3.015  3.011  3.020  2.510  2.630  
Samtals  4.733 4.747 4.774 4.283 4.422 22.959

 

Heildarfármagn eftir árum

 
9.778

 
9.722

 
10.424

 
9.643

 
6.787

 
46.354

             

* Með viðbótarfjármagni úr sérstöku fjárfestingaátaki vegna efnahagsáhrifa Covid-19.
** Ívilnanirnar gilda út árið 2023 og áframhald þeirra verður metið þegar nær dregur, byggt á mati á þörf

Tafla. Fjármögnun stærstu verkefna sem tengjast loftslagsmálum miðað við gildandi fjármálaáætlun, 2020-2024, brotið niður á einstaka liði.

Við hverja aðgerð fyrir sig í aðgerðaáætluninni má sjá umfjöllun um kostnað undir liðnum „áhrif á ríkissjóð“.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum