Hoppa yfir valmynd

Markmið og skuldbindingar

Loftslagsbreytingar virða hvorki landamæri né losunarbókhald

Ísland er aðili að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Loftslagssamningnum) og öll útfærsla markmiða í loftslagsmálum hér á landi tekur mið af alþjóðlegu og evrópsku regluverki. Það tryggir að markmið Íslands séu skýr, skiljanleg og samanburðarhæf á alþjóðavettvangi.

Þegar Parísarsamningurinn var samþykktur árið 2015 sendi Ísland líkt og önnur aðildarríki Loftslagssamningsins inn svokallað landsmarkmið um samdrátt í losun til ársins 2030. Ísland tilkynnti að það myndi taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021-2030 miðað við árið 1990. Norðmenn sendu inn sambærilegt landsmarkmið.

Með þessu fyrirkomulagi eru Ísland, Noregur og aðildarríki ESB með eitt sameiginlegt framlag gagnvart Parísarsamningnum en innri reglur ríkjanna ákvarða hlutdeild og skyldur hvers ríkis.

Krafa er á aðildarríki Parísarsamningsins um að uppfæra framlög sín gagnvart samningnum á fimm ára fresti með tilliti til nýjustu vísindarannsókna. Íslensk stjórnvöld tilkynntu markmið um aukinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í desember 2020 úr þáverandi markmiði um 40% samdrátt miðað við árið 1990 í 55% samdrátt eða meira til ársins 2030, í samfloti með ESB og Noregi.

Ekki liggur fyrir hvernig ábyrgð verður skipt milli ríkja nú þegar ákveðið hefur verið að markmið um sarmdrátt hækki úr 40% í 55%. Gert er ráð fyrir að tillögur að nánari útfærslu markmiðanna liggi fyrir um mitt ár 2021.

Þar sem að útfærsla liggur ekki fyrir varðandi 55% markmiðið miða útskýringar hér fyrir neðan við markmið um 40% heildarsamdrátt í losun til ársins 2030 í samfloti með aðildarríkjum ESB og Noregi.


Sameiginlegt markmið Evrópuríkja gagnvart Parísarsamningnum

Sameiginleg markmið Evrópuríkja gagnvart Parísarsamningnum

Mynd. Sameiginlegt markmið Evrópuríkja gagnvart Parísarsamningnum.

Sameiginlega markmiðið er þrískipt eins og sést á myndinni hér að ofan. Það er útfært þannig að hluti þess samdráttar sem á að eiga sér stað í losun skiptist niður á ríkin og myndar beinar skuldbindingar þeirra. Sú losun er því á beinni ábyrgð ríkjanna (e. ESR – Effort Sharing Regulation, sjá lið 1). Hluti samdráttarins fellur á viðskiptakerfi með losunarheimildir (e. ETS - Emission Trading System, sjá lið 2). Töluleg markmið hvað báða þessa þætti varðar miðast við árið 2005. Í þriðja lagi gilda sérstakar reglur varðandi landnotkun (e. Land Use, Land-Use Change, and Forestry, sjá lið 3).

  1. Markmið fyrir beina ábyrgð ríkja (ESR) er reiknað út frá samræmdum forsendum þar sem meðal annars er litið til landsframleiðslu á mann og möguleika ríkja til að draga úr losun. Ríkin skulu sameiginlega ná 30% samdrætti í þeirri losun sem fellur undir beinar skuldbindingar ríkja miðað við árið 2005. Hvert aðildarríki hefur fengið skilgreint markmið um þann lágmarkssamdrátt sem það þarf að ná. Við útreikninga á markmiði einstakra ríkja var meðal annars horft til þjóðarframleiðslu á mann og kostnaðarhagkvæmni aðgerða í viðkomandi ríki. Lágmarksframlag Grikklands er til dæmis 16% samdráttur miðað við 2005, Noregs 40%, Tékklands 14%, Þýskalands 38% og Íslands 29%. Íslensk stjórnvöld hafa þó lýst því yfir að markmið þeirra sé eftir sem áður að ná 40% samdrætti í losun, líkt og kveðið var á um í fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

  2. Markmið fyrir viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) er sameiginlegt fyrir allt kerfið. Ekki er tilgreint einstakt markmið fyrir hvert ríki heldur er í heildina stefnt að 43% samdrætti í losun innan kerfisins miðað við árið 2005. Stór hluti losunar fyrirtækja á Íslandi á sér stað í kerfinu sem innleitt var á Íslandi árið 2012.
      → 
    Saman eiga  liðir 1 og 2 að ná 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Evrópuvísu miðað við árið 1990.

  3. Markmið fyrir landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt (LULUCF) eru ekki talin með innan beinna skuldbindinga ríkja á sama hátt og til dæmis losun frá jarðefnaeldsneyti. Markmiðið er að nettólosun vegna landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar megi ekki aukast frá ákveðnum viðmiðunarárum. Verði aukning á losun þurfa loftslagsaðgerðir að aukast sem því nemur.

Parísarsamningurinn gengur út á að halda hnattrænni hlýnun innan 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er. Til að það geti gerst þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins hratt og mögulegt er og ná hnattrænu kolefnishlutleysi upp úr 2050.

Hvert ríki ákveður sitt framlag til samdráttar í losun gagnvart Parísarsamningnum. Með ítarlegu bókhaldi um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda er fylgst vel með framkvæmd aðgerða og árangri þeirra í hverju ríki, auk þess sem hnattrænt stöðumat um árangur aðgerða er gert á fimm ára fresti.

Ljóst er að þau markmið um samdrátt í losun, sem aðildarríki Loftslagssamningsins kynntu í aðdraganda Parísarráðstefnunnar árið 2015, munu hvergi nærri duga til að halda hlýnun andrúmsloftsins vel undir 2°C, hvað þá 1,5°C.2 Á vettvangi Loftslagssamningsins er fylgst vandlega með þróun loftslagsbreytinga og þeim skilaboðum sem vísindin færa okkur um stöðu mála og umfang þeirra aðgerða sem nauðsynlegt er að grípa til. Þannig er krafa á aðildarríki Parísarsamningsins um að uppfæra framlög sín gagnvart samningnum á fimm ára fresti með tilliti til nýjustu vísindarannsókna. Fyrsta uppfærsla framlaga átti sér stað árið 2020 og Ísland tók þátt í því líkt og önnur ríki.

Loftslagsbreytingar virða hvorki landamæri né losunarbókhald og mikilvægt er að taka á losun óháð því hvar hún bókfærist. Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum miðar að þessu.

Aðgerðir í áætluninni tengjast skuldbindingum Íslands á ólíkan hátt

Mikilvægt er að taka á losun gróðurhúsalofttegunda óháð því hvar hún bókfærist

Aðgerðir í áætluninni tengjast skuldbindingum Íslands á ólíkan hátt

Mynd. Ólíkir flokkar losunar gróðurhúsalofttegunda og tengsl þeirra við aðgerðaáætlun.

  • Í minnsta ferningnum, þeim bláa (nr. 1), er losun sem telst vera á beinni ábyrgð Íslands og Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr.
    → Hér undir fellur til dæmis losun frá vegasamgöngum, skipum sem sigla á milli íslenskra hafna, orkuframleiðslu og smærri iðnaði, F-gösum, landbúnaði og úrgangi. Flestar aðgerðanna í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum miða að því að draga úr þessari losun þótt áætlunin taki einnig til þeirrar losunar sem er í hinum ferningunum.

  • Í næstminnsta ferningnum, þeim bleika (nr. 2), er losun sem Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr í samfloti með aðildarríkjum ESB og Noregi.
    → Hér bætist við minnsta ferninginn sú losun sem fellur undir evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS). Þetta er til dæmis losun frá iðnaðarferlum í stóriðju en einnig losun vegna flugs innan Evrópu og vegna innanlandsflugs. Ísland tekur þátt í ETS-kerfinu og þar er ábyrgð á losun færð yfir á fyrirtækin sjálf innan kerfisins sem þurfa að eiga heimildir fyrir allri sinni losun. Heimildum innan kerfisins fækkar síðan markvisst með tímanum.

  • Í næststærsta ferningnum, þeim græna (nr. 3), er öll losun frá Íslandi.
    → Hér bætist við tvo minnstu ferningana sú losun sem á sér stað vegna landnotkunar. Þetta er til dæmis losun frá illa förnu landi og losun frá landi sem hefur verið ræst fram. Tekið er á þessu með endurheimt votlendis, bættri landnotkun og kolefnisbindingu í gegnum landgræðslu og skógrækt. Í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eru viðamiklar aðgerðir sem ganga út á þetta og eru ekki síst mikilvægar til að ná markmiðinu sem Ísland hefur sjálft sett sér um kolefnishlutleysi árið 2040.

  • Innan stærsta ferningsins (nr. 4) er öll losun sem tengist Íslandi.
    → Hér bætast alþjóðaflug og alþjóðasiglingar við hina þrjá ferningana. Þetta er til dæmis losun frá millilandasiglingum, siglingum skemmtiferðaskipa og flugi á milli landa utan Evrópu. Umrædd losun birtist ekki í losunarbókhaldi Íslands en unnið er að því að draga úr henni á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO.

Utan við ferningana er síðan kolefnisspor vöru og þjónustu, svo sem innfluttra vara. Einstök ríki eru samkvæmt regluverkinu ábyrg fyrir losun heima fyrir en ekki fyrir kolefnisspori innflutnings. Úr þessu kolefnisspori þarf þó augljóslega líka að draga því loftslagsváin spyr ekki um landamæri. 

Kolefnishlutleysi árið 2040

Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda. Kolefnishlutleysi er lykilmarkmið í Parísarsamningnum, sem er drifinn áfram af því markmiði að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt. Þetta kallar á að heimslosun nái hámarki án frekari tafar og lækki ört, þar til jafnvægi verður náð í losun og bindingu um miðja öldina. Ríki heims, sveitarfélög, borgir og fyrirtæki eru nú farin að huga að kolefnishlutleysi því brjóta þarf hnattrænt markmið niður í minni einingar.

Ísland vill fara á undan með góðu fordæmi og hefur sett sér sem markmið að ná kolefnishlutleysi árið 2040 í stað 2050.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum horfir til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 en einnig er með henni lagður grunnur að áðurnefndu markmiði um kolefnishlutleysi. Ör samdráttur í losun skiptir miklu, auk þess sem hér er lagður grunnur að stórauknum aðgerðum til aukinnar kolefnisbindingar. Gerð verður sérstök áætlun um kolefnishlutleysi.

Nánar má lesa um markmið og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum í Viðauka III í áætluninni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum