Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um aðgerðir í loftslagsmálum

Með aðgerðum í nýrri útgáfu Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum er áætlað að árið 2030 muni losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands hafa dregist saman um ríflega milljón tonn af CO2-ígildum miðað við losun ársins 2005. Þetta þýðir að Ísland nær skuldbindingum sínum í loftslagsmálum um 29% samdrátt í losun frá 2005 og gott betur eða 35% samdrætti. Til viðbótar við þetta eru aðgerðir í mótun taldar geta skilað 5-11% samdrætti, eða samtals 40-46%.

Áhersla hefur verið lögð á að hrinda aðgerðum strax í framkvæmd. Þannig eru 28 af 48 aðgerðum þegar komnar til framkvæmda.

Fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kom út haustið 2018. Fram að þeim tíma hafði ekki verið sett fram fjármögnuð aðgerðaáætlun hér á landi.

Mat á ávinningi aðgerða: Í fyrstu útgáfu aðgerðaáætlunar lá ekki fyrir mat á áhrifum einstakra aðgerða á losun gróðurhúsalofttegunda. Síðan hefur mikil vinna verið lögð í að meta áhrif aðgerðanna. Matið var í höndum sérfræðinga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sérfræðinga Umhverfisstofnunar og teymis vísindafólks við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. 

Samráð: Samhliða mati á ávinningi aðgerða hefur verið unnið úr athugasemdum úr opnu umsagnarferli. Öllum sem vildu gafst kostur á að veita umsögn um fyrstu útgáfuna, auk þess sem fram fóru fjölmargir fundir um efni áætlunarinnar með fulltrúum ýmissa samtaka, hagaðila og hópa. 

Nýjar aðgerðir: Ný útgáfa áætlunarinnar samanstendur af 48 aðgerðum og þar af eru 15 aðgerðir sem ekki voru í fyrstu útgáfu. Breyttar ferðavenjur fá meira vægi en áður, úrgangsmál og sóun eru dregin sérstaklega fram, lögð er áhersla á hvata til umskipta, auk þess sem dregnar eru fram aðgerðir þar sem ríkið fer á undan með góðu fordæmi. Dæmi um nýjar aðgerðir eru aðgerðir til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum, styðja við orkuskipti í þungaflutningum, fanga kolefni frá stóriðju, bæta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og draga úr losun frá byggingariðnaði. 

Skýrari framsetning: Aðgerðunum er nú skipt eftir því hvernig þær tengjast skuldbindingum Íslands, sem og því hvaðan losunin kemur. Allt kallast þetta á við innsendar athugasemdir og niðurstöður úr samráði við vinnslu áætlunarinnar. 

Árangursmælikvarðar: Við allar aðgerðir er nú að finna árangursmælikvarða á framgang aðgerðanna. Fylgst er með þeim yfir tíma til að sjá hvernig aðgerðunum miðar og hvort þær virki sem skyldi.

Í áætluninni eru samtals 48 aðgerðir og á myndinni hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir þær allar.

Þú getur einnig séð pdf með því sama með því að smella hér.

 

Ný útgáfa áætlunarinnar samanstendur af 48 aðgerðum og þar af eru 15 nýjar sem ekki voru í fyrstu útgáfu. Aðgerðir sem hafa bæst við milli útgáfa eru aðgerðir sem snúa að því að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum, styðja við orkuskipti í þungaflutningum, fanga kolefni frá stóriðju, bæta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og draga úr losun frá byggingariðnaði.

Þá bættust einnig við aðgerðir sem ganga út á orkuskipti í skipum á vegum ríkisins, ívilnanir fyrir virka ferðamáta, föngun kolefnis frá jarðvarmavirkjunum, kolefnishlutleysi í nautgriparækt og kortlagningu á ástandi lands.

Frá fyrri útgáfu hefur fjórum aðgerðum verið bætt við sem snúast um að búa til hvata til þeirra umskipta sem verða að eiga sér stað í samfélaginu. Ein aðgerðanna snýst um sjálfbær opinber innkaup og felur í sér að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða við öll innkaup ríkisins. Önnur snýst um að öll lagafrumvörp verði í framtíðinni metin með tilliti til loftslagsáhrifa þeirra. Sú þriðja felur meðal annars í sér að kanna fýsileika þess að gefa út græn ríkisskuldabréf og snýst ekki síst um að senda skýr skilaboð til fjárfesta. Loks eru allir opinberir aðilar nú skyldaðir til að setja sér loftslagsstefnu og markmiðið að hið opinbera verði til fyrirmyndar í loftslagsmálum.

Ísland er aðili að Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og öll útfærsla markmiða í loftslagsmálum hér á landi tekur mið af alþjóðlegu og evrópsku regluverki. Það tryggir að markmið Íslands séu skýr, skiljanleg og samanburðarhæf á alþjóðavettvangi.

Þegar Parísarsamningurinn var samþykktur árið 2015 sendi Ísland líkt og önnur aðildarríki Loftslagssamningsins inn svokallað landsmarkmið um samdrátt í losun til ársins 2030. Ísland tilkynnti að það myndi taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021-2030 miðað við árið 1990. Norðmenn sendu inn sambærilegt landsmarkmið.

Með þessu fyrirkomulagi eru Ísland, Noregur og aðildarríki ESB með eitt sameiginlegt framlag gagnvart Parísarsamningnum en innri reglur ríkjanna ákvarða hlutdeild og skyldur hvers ríkis. Við útreikninga á markmiði einstakra ríkja var meðal annars horft til þjóðarframleiðslu á mann og kostnaðarhagkvæmni aðgerða í viðkomandi ríki. Lágmarksframlag Grikklands er til dæmis 16% samdráttur miðað við 2005, Noregs 40%, Tékklands 14%, Þýskalands 38% og Íslands 29%. Íslensk stjórnvöld stefna þó eftir sem áður á að ná að minnsta kosti 40% samdrætti í losun.

Þannig má segja að Ísland hafi skuldbundið sig alþjóðlega til þess að ná 29% samdrætti fram til ársins 2030 en markmið núverandi ríkisstjórnar sé þó hærra; eða að minnsta kosti 40% samdráttur. Þá hafa stjórnvöld sett sér markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.


Kolefnishlutleysi lýsir ástandi þar sem jafnvægi hefur náðst milli losunar og bindingar gróðurhúsalofttegunda. Kolefnishlutleysi er lykilmarkmið í Parísarsamningnum sem er drifinn áfram af því markmiði að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og eins nálægt 1,5°C og hægt er. Þetta kallar á að heimslosun nái hámarki án frekari tafar og lækki ört, þar til jafnvægi verður náð í losun og bindingu um miðja öldina. Ríki heims, sveitarfélög, borgir og fyrirtæki eru nú farin að huga að kolefnishlutleysi því brjóta þarf hnattrænt markmið niður í minni einingar.

Íslensk stjórnvöld hafa sett markmið um að kolefnishlutleysi verði náð eigi síðar en árið 2040. Aðgerðaáætlun þessi horfir til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 en einnig er lagður grunnur að því að ná markmiði um kolefnishlutleysi. Ör samdráttur í losun skiptir miklu, auk þess sem í áætluninni eru stórauknar aðgerðir til að binda kolefni úr andrúmslofti og stöðva losun frá landi. Gerð verður sérstök áætlun um kolefnishlutleysi.


Fjármagn til aðgerða í loftslagsmálum er á ólíkum tímaás og fer í gegnum stjórnkerfið eftir mismunandi leiðum.

Þegar fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var kynnt haustið 2018 kom fram að henni fylgdu 6,8 milljarðar króna og var þar miðað við fjármálaáætlun 2019-2023. Það fjármagn var sérstaklega eyrnamerkt loftslagsmálum og fór í gegnum umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Með fjármálaáætlun 2020-2024 jukust enn framlög til málaflokksins og í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020 vegna efnahagsáhrifa Covid-19 var síðan gert ráð fyrir 600 milljónum króna aukalega til orkuskipta og grænna lausna.

Margvíslegar aðgerðir sem tengjast loftslagsmálum beint og eru hluti af aðgerðaáætluninni eru síðan fjármagnaðar með öðrum hætti og í gegnum önnur ráðuneyti. Á myndinni hér að neðan sjást stærstu liðirnir sem tengjast loftslagsmálum. Á fimm ára tímabili renna að lágmarki 46 milljarðar króna til stærstu verkefna í loftslagsmálum hér á landi. Taka ber fram að ekki er um tæmandi lista að ræða, þar sem fjármagn til aðgerða fellur ekki allt undir þá liði sem þar eru tilgreindir, auk þess sem flestir skattastyrkirnir gilda út árið 2023 og áframhald þeirra verður metið þegar nær dregur, byggt á mati á þörf.


Já. Ísland er þátttakandi í samfélagi þjóða og það skiptir máli að ríki rísi undir skyldum sínum og ábyrgð samkvæmt Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamningnum.

Ísland getur verið mikilvægt fordæmi. Markmið um kolefnishlutleysi árið 2040, bann við nýskráningu bensín- og dísilbíla, hröð orkuskipti í samgöngum, öflug kolefnisbinding og fleiri aðgerðir senda skýr skilaboð um mikilvægi aðgerða gegn loftslagsvánni. Ísland hefur t.d. möguleika á að ná miklum árangri við að umbylta orkugjöfum fyrir bílaflota heillar þjóðar og sýna umheiminum hvernig það er hægt.

Árangur í loftslagsmálum skiptir máli fyrir samkeppnishæfni landsins. Mikilvægt er að Ísland verði ekki eftirbátur annarra ríkja heldur einmitt í fremstu röð í loftslagsmálum í heiminum. Kolefnishlutlaust Ísland hefur til að mynda mörg tækifæri í för með sér.

Ísland hefur rödd á alþjóðavettvangi. Stjórnvöld hafa notað hana með skipulegum hætti til að tala um loftslagsvána og nauðsyn þess að ríki heims bregðist hratt við. Þetta er til dæmis gert í formlegum ávörpum, á leiðtogafundum og tvíhliða fundum. Auk þess hefur sú afstaða verið undirstrikuð að mannréttindi, félagslegt réttlæti og jafnrétti kynjanna séu samtengd loftslagsmálum og allar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verði að taka mið af því.

Íslenskar loftslagslausnir geta haft áhrif langt út fyrir landsteinana.

Loftslagsmál og umhverfismál eru gegnumgangandi í markmiðum íslenskrar þróunarsamvinnu. Eitt af tveimur meginmarkmiðum Íslands í þróunarsamvinnu er verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Í því felst meðal annars að gripið verði til aðgerða vegna loftslagsbreytinga.

Áætlunin verður í Samráðsgátt stjórnvalda í þrjá mánuði og eftirfylgni hennar tryggð með skilvirkum hætti. Eftir því sem aðgerðum vindur fram verða þær uppfærðar í rafrænni útgáfu áætlunarinnar hér á vefsíðunni.

Árlega verður unnin stöðuskýrsla þar sem farið verður yfir framgang aðgerða og lagt mat á árangur. Aðgerðaáætlunin í heild sinni skal samkvæmt lögum endurskoða á fjögurra ára fresti en til að byrja með verður þó ráðist fyrr í uppfærslu hennar.

Áætlunin verður rýnd með tilliti til áhrifa aðgerða á mismunandi tekjuhópa og greind með tilliti til kostnaðar og ábata, meðal annars þjóðhagslegra áhrifa aðgerða. Hefst sú vinna strax í haust.

Í aðgerðaáætluninni er enn fremur kveðið á um að gefi mælingar til kynna að losun verði í framtíðinni meiri en skuldbindingar segja til um beri umhverfis- og auðlindaráðherra ábyrgð á því að gripið verði til viðeigandi ráðstafana. Gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp með slíku ákvæði.

Vísindin sýna fram á hraðar breytingar á vistkerfum jarðar. Ísbreiður og jöklar á jörðinni eru að minnka vegna loftslagsbreytinga, sjávarborð að hækka og sjórinn að súrna. Lífbreytileika um allan heim er ógnað og það er ekki að ósekju að æ oftar er talað um hamfarahlýnun og neyðarástand í loftslagsmálum.

Vísindin gefa okkur sífellt skýrari skilaboð um að vandinn sé meiri en fyrri spár hafa sýnt og að breytingarnar séu hraðari en áður var talið. Vísindin undirstrika jafnframt nauðsyn þess að tafarlaust sé brugðist við. Hefjast þarf handa strax og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda umframkolefni úr andrúmslofti til að sporna við breytingunum.

Að draga úr losun er margbrotið viðfangsefni. Losunin er samþætt öllu okkar hagkerfi – atvinnuvegum, framleiðslu, neyslu, samgöngum og landnotkun, svo nokkur dæmi séu nefnd – en baráttan gegn loftslagsvánni er svo brýn að hún kallar á aðgerðir á öllum sviðum. Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum tekur mið af þessu.


Gróðurhúsalofttegundir eru margar og missterkar en viðmiðið er CO2 eða koldíoxíð. Í útreikningum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda eru áhrif annarra gróðurhúsalofttegunda því umreiknuð yfir í CO2-ígildi.

Eitt tonn CO2-ígilda samsvarar þannig einu tonni af CO2.


Losun sem rekja má til margs konar mannlegra athafna telst vera losun á beinni ábyrgð Íslands. Þar má nefna losun frá vegasamgöngum, skipum sem sigla milli íslenskra hafna, orkuframleiðslu og smærri iðnaði, F-gösum (m.a. notuð sem kælimiðlar í iðnaði), landbúnaði og vegna meðhöndlunar úrgangs.

Flestar aðgerðanna í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum miða að því að draga úr þessari losun þótt áætlunin taki einnig til losunar sem ekki fellur undir beina ábyrgð Íslands.
Losun sem telst ekki á beinni ábyrgð Íslands er meðal annars losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS). Á Íslandi er það fyrst og fremst losun frá iðnaðarferlum í stóriðju, vegna flugs innan Evrópu og vegna innanlandsflugs. Viðskiptakerfið er helsta stjórntæki ESB til að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og á að skila 43% samdrætti í losun á Evrópuvísu til 2030 miðað við 2005. Innan kerfisins er ábyrgðin á samdrættinum færð á um 11.000 fyrirtæki og um 4.000 flugrekstraraðila.

Losun vegna landnotkunar s.s. losun frá illa förnu landi og losun frá landi sem hefur verið ræst fram er einnig utan beinna skuldbindinga. Tekið er á þessari losun með endurheimt votlendis, bættri landnotkun og kolefnisbindingu í gegnum landgræðslu og skógrækt.

Losun sem á sér stað í alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum, til dæmis millilandasiglingum, siglingum skemmtiferðaskipa og flugi milli landa utan Evrópu er einnig utan beinna skuldbindinga Íslands en unnið er að því að draga úr þeirri losun á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Já! Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var kynnt 23. júní 2020 og sett í Samráðsgátt stjórnvalda sama dag. Hægt var að skila inn umsögnum um áætlunina til 20. september 2020.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum