Hoppa yfir valmynd

Undirbúningur

Samráð, greiningar og útfærsla aðgerða

Áætlunin var unnin af verkefnisstjórn Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Í henni sitja fulltrúar úr forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, auk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem fer með formennsku.

Fyrsta útgáfa áætlunarinnar kom út haustið 2018. Fram að þeim tíma hafði ekki verið sett fram fjármögnuð aðgerðaáætlun hér á landi. Meginþáttum loftslagsáætlunarinnar hefur nú verið hrint í framkvæmd og þegar verið gripið til fjölmargra aðgerða. Samhliða hefur verið unnið úr athugasemdum úr opnu umsagnarferli, aðgerðir útfærðar, nýjum bætt við og viðamiklar greiningar hafa farið fram á væntum ávinningi aðgerða.

Áætlunin er framlag Íslands til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Henni er ætlað að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og leggja grunninn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.

Hvernig fór samráð fram?

Þegar fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunarinnar var kynnt í september 2018 kom fram að um væri að ræða fyrstu útgáfu. Fram kom að áætlunin yrði í kjölfarið uppfærð og þá yrði meðal annars tekið tillit til athugasemda, auk þess sem lagt yrði mat á ávinning aðgerða. Aðgerðir í fyrstu útgáfu voru misjafnlega langt komnar – sumar voru þegar ákveðnar í stjórnarsáttmála og jafnvel á framkvæmdastigi, aðrar í undirbúningi og enn aðrar settar fram sem hugmyndir sem þörfnuðust umræðu og útfærslu. Fjármagn til aðgerða var tryggt í fjármálaáætlun 2019-2023 og því lá fyrir að unnið yrði að framkvæmd og útfærslu ákveðinna aðgerða samhliða því sem vinna stæði yfir við uppfærslu áætlunarinnar sjálfrar og annarrar útgáfu hennar. 

Aðgerðaáætlunin var sett í samráðsgátt stjórnvalda þann 10. september 2018 og frestur til umsagna gefinn til 15. nóvember. Öllum gafst kostur á að veita umsögn og viðbrögðin voru afar mikil. Samtals bárust 40 umsagnir, margar í fjölmörgum liðum og mjög ítarlegar. 

Umsagnirnar sýna að umfangsmikil þekking og áhugi er á loftslagsmálum í samfélaginu. Þær geyma mikinn fróðleik og hugmyndir einstakra aðila um hvernig ná megi árangri; þar koma auðvitað fleiri að en stjórnvöld.

Í kjölfar umsagnaferlisins var ákveðið að fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga fengi sæti í verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar, enda eru sveitarfélög stjórnvald og fjölmörg verkefni í áætluninni unnin í samstarfi við eða að frumkvæði þeirra. Fulltrúi Sambandsins gekk til liðs við verkefnastjórn á vormánuðum 2019.

Til viðbótar umsögnum í samráðsgátt var öllum sem sendu inn umsögn við áætlunina boðið á samráðsdag í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þann 7. júní 2019. Þar gafst gestum tækifæri til að fara yfir athugasemdir sínar og ábendingar og ræða málin beint við verkefnisstjórn Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum

 Að auki voru fjölmargir fundir haldnir með fulltrúum hinna ýmsu samtaka, hagaðila og hópa – ýmist með verkefnisstjórn, sérfræðingum í ráðuneytum eða ráðherrum.

Hér má nefna sérstaka fundi með fulltrúum frá Strætó bs., Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi íslenskra fiskimjölsverksmiðja, Reykjavíkurborg, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Bændasamtökum Íslands, Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Sorpu bs. Umhverfis- og auðlindaráðherra fundaði auk þess sérstaklega með fulltrúum allra stóriðjufyrirtækja á Íslandi, auk flugfélaga. Margvíslegir fundir umhverfis- og auðlindaráðherra með einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum voru auk þess gagnlegir við vinnslu aðgerðaáætlunarinnar, jafnvel þótt þeir hafi ekki verið haldnir sérstaklega um áætlunina heldur um loftslagsmál almennt.

Fulltrúum ungs fólks sem skipulagt hafa loftslagsverkföll hér á landi var boðið til fundar með forsætisráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála þann 27. september 2019, auk þess sem verkefnisstjórn var í kjölfarið falið að hitta þau. Sá fundur fór fram 18. október 2019. Fulltrúar loftslagsverkfallanna áttu auk þess sérstaka fundi með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra og í tvígang með umhverfis- og auðlindaráðherra. Loftslagsmálin voru auk þess til umfjöllunar á fundi ríkisstjórnarinnar þann 15. mars 2019 með ungmennaráði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Sérstakt samráð vegna orkuskipta í samgöngum fór að hluta til fram í gegnum Grænu orkuna, samráðsvettvang ríkis og atvinnulífs um orkuskipti. Græna orkan kortlagði hagaðila í fjórum flokkum innan samgangna (fólksbifreiðar, hópbifreiðar, landflutningar og vinnuvélar, hafnir og skip) og bauð fulltrúum þeirra þátttöku í vinnustofum.

Niðurstöður samráðs

Umsagnir og ábendingar á fundum lögðu grunn að frekari mótun aðgerðaáætlunarinnar. Þær gögnuðust við útfærslu og framkvæmd einstakra aðgerða. Þær nýttust til að móta áherslur í áætluninni og skjalið í heild sinni. Í þeim voru ýmsar hugmyndir að nýjum aðgerðum.

Farið var ítarlega yfir umsagnirnar og þær flokkaðar eftir því hvernig þær sneru að áætluninni – hvort þær lutu til að mynda að heildaráherslum, uppsetningu eða einstaka aðgerðum og útfærslu þeirra. Almennt mátti greina mikla ánægju með að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefði litið dagsins ljós. Þær athugasemdir sem voru almennar og um áætlunina sneru að miklu leyti að mikilvægi þess að traustar greiningar myndu liggja að baki aðgerðum í næstu útgáfu áætlunarinnar, sem og að samráð yrði viðhaft.

Almennt var mikill áhugi á aðgerðum um fræðslu, stofnun Loftslagssjóðs og útfærslu aðgerða tengdum orkuskiptum í samgöngum, svo dæmi séu tekin. Margvíslegar ábendingar bárust vegna framsetningar aðgerða og skiptingu þeirra í flokka eftir uppsprettu losunar og uppfærð útgáfa ber merki þess. 

Ákall var í umsögnum og á fundum eftir áherslu á breyttar ferðavenjur. Kallað var eftir aðgerðum fyrir hjólandi og gangandi, óskað eftir ferðavenjukönnun og því að breyttum ferðavenjum yrði lyft í áætluninni til jafns við orkuskipti í vegasamgöngum. Auk þess var mikilvægi orkuskipta í almenningssamgöngum undirstrikað. Í uppfærðri útgáfu hefur verið tekið tillit til þessara þátta. 

Mörg vildu sjá áherslu á bætta nýtingu og baráttu gegn neyslu og sóun. Í uppfærðri útgáfu hefur þetta verið dregið fram í sérstökum kafla (sjá flokk F í aðgerðum: Úrgangur og sóun). Í kjölfar samráðs var auk þess ákveðið að beina sjónum að því hvernig ríkið getur farið á undan með góðu fordæmi og haft mikilvæg áhrif út í samfélagið. Aðgerðir í ríkisrekstri eru nú dregnar sérstaklega fram. 

Dæmi um nýjar aðgerðir sem rötuðu inn í áætlunina í kjölfar samráðs eru aðgerðir til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum, styðja við orkuskipti í þungaflutningum, fanga kolefni frá stóriðju, bæta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og draga úr losun frá byggingariðnaði.

Rýni Loftslagsráðs

Loftslagsráð tók fyrstu útgáfu áætlunarinnar til rýni í febrúar 2019 og aðra útgáfu í apríl 2020. Loftslagsráð var stofnað árið 2018 og meginhlutverk þess er meðal annars að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands sem tengjast loftslagsmálum. Í ráðinu eiga meðal annars sæti fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga og félagasamtaka auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma.

Unnið var úr ábendingum sem bárust og því er nánar gerð skil í pdf-útgáfu uppfærðrar áætlunar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum