Hoppa yfir valmynd

Útreikningar

Umfangsmikil vinna hefur farið fram við að meta aðgerðir í áætluninni

Fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum kom út haustið 2018 en í þeirri útgáfu lá ekki fyrir mat á áhrifum aðgerða á útblástur gróðurhúsalofttegunda. Mikil vinna hefur síðan þá verið lögð í að meta hver áhrif einstakra aðgerða eru.

Sérfræðingar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins komu að mati á aðgerðum með tilliti til áhrifa á losun í náinni samvinnu við sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Sérfræðingar hjá Landgræðslunni og Skógræktinni mátu áhrif aðgerða sem varða bætta landnotkun.

Nauðsynlegt reyndist að afla frekari upplýsinga um ákveðnar aðgerðir og útfærslumöguleika þeirra áður en hægt var að meta áhrif á losun. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mat sérstaklega áhrif af kolefnisgjaldi og Efla verkfræðistofa mat möguleika á orkuskiptum á sjó og samdrætti í losun vegna F-gasa. Auk þess var aðgerð til að hraða útskiptingu eldri bifreiða sérstaklega metin. Greiningarnar má allar finna hér á vefnum (sjá tengla neðst á forsíðunni).

Eftir að ofangreindar greiningar og útreikningar lágu fyrir lagði vísindafólk við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sjálfstætt mat á aðgerðirnar undir stjórn Brynhildar Davíðsdóttur, prófessors, að undanskildum aðgerðum sem snúa að úrgangi, F-gösum og landnotkun. Þau mátu væntan samdrátt vegna aðgerða heildstætt fyrir hvern flokk fyrir sig. Fyrst var losun metin þar sem gert var ráð fyrir venjubundinni þróun, svokallaðri grunnsviðsmynd, þar sem metin er sú losun sem búist er við án aðgerða í aðgerðaáætlun. Stuðst var við grunnspár Umhverfisstofnunar eins og kostur var. Því næst voru metin áhrif aðgerða í aðgerðaáætlun á losun innan hvers flokks og heildarsamdráttur vegna allra aðgerða metinn til ársins 2030. Miðað var við að tryggja samræmi í forsendum milli þessara greininga og skýrslu Umhverfisstofnunar frá 2019 um framreiknaða losun til ársins 2035 en sú vinna verður í framtíðinni grunnur að mati á losun.

Losun vegna orku, svo sem frá vegasamgöngum, var metin með hermi-líkaninu UniSyD_IS sem byggist á kvikum kerfislíkönum (system dynamics). Líkanið hefur verið í þróun miðað við íslenskar aðstæður síðan 2013 og aðferðafræðin hlotið ritrýni fræðasamfélagsins.

Líkanið notar raungögn og forsendur til þess að herma árlega framtíðarþróun samgangna og orkunotkunar á Íslandi til ársins 2050 þar sem annars vegar er gert ráð fyrir venjubundinni þróun (grunnsviðsmynd) og hins vegar aðgerðum sem tilteknar eru í aðgerðaáætluninni. Líkanið hermir meðal annars breytingar á samsetningu bílaflotans, VKT (e. vehicle-kilometers-travelled), og eftirspurn eftir eldsneyti, þar sem tekið er tillit til orkumarkaða og hegðunar neytenda, innviða og stefnumarkandi ákvarðana.

Nánar um mat á aðgerðum má sjá í umfjöllun við hverja aðgerð fyrir sig, sem og í Viðauka II: Forsendur við mat aðgerða (bls. 149).

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum