Hoppa yfir valmynd

Menntun án aðgreiningar leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun

Í þessum kafla er athyglinni beint að 1. viðmiði:

Allir í skólasamfélaginu sjái í menntun án aðgreiningar sem leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun.

Meginviðfangsefnið sem liggur til grundvallar þessu viðmiði og öllum vísbendingum sem því tengjast er:

Hvort skýr og sameiginlegur skilningur er lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar.

Viðhorf ólíkra hópa innan menntakerfisins til þessa meginviðfangsefnis voru könnuð með kjarnaspurningunni:

Hvernig skilur þú hugtakið menntun án aðgreiningar?

Bein umfjöllun átti sér stað:

 á fundum rýnihópa, í skólaheimsóknum og með netkönnun.

Óbein umfjöllun átti sér stað:

 í einstaklingsviðtölum og með úrvinnslu rannsóknargagna.

Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi í heild

Meginniðurstöður í tengslum við 1. viðmið

Styrkleikar sem menntakerfið býr yfir að því er viðmiðið varðar

Í öllum þáttum gagnasöfnunarinnar kom fram skýr skilningur viðmælenda á því að hugmyndin um samfélag og menntun án aðgreiningar er reist á grundvallarsjónar­miðum um lýðræði og félagslegt réttlæti. Flestir sem sinna menntamálum deila þeirri skoðun að mikilvægt sé að vinna að menntun án aðgreiningar til að auka efnahagslega og félagslega velferð í landinu: Að koma þurfi til móts við þarfir allra barna og sjá til þess að þau hafi tækifæri til að spjara sig í menntakerfi sem gerir þeim kleift að ná árangri í námi og hindrar félagslega útskúfun.

Það er almenn skoðun á öllum stigum menntakerfisins, meðal þeirra sem stýra því á landsvísu, í sveitarfélögunum og innan skólanna sjálfra, að flestir Íslendingar skilji hvaða hag þjóðin öll hefur af fjölbreytileika bæði samfélags og menntakerfis. Mikil samstaða er um markmiðin að baki stefnu um menntun án aðgreiningar og þeir sem sinna menntamálum eru þeirrar skoðunar að full ástæða sé til að nýta þá samstöðu í starfinu sem fyrir höndum er. Svörin sem aflað var í úttektinni sýna einnig að flestir í skólasamfélaginu eru á einu máli um að menntun án aðgreiningar varðar alla nem­end­ur, ekki aðeins tiltekna hópa með sérþarfir. Þá leggja margir þann skilning í menntun án aðgreiningar að undir hana falli allt starf í hverjum skóla, og að allir nemendur og allt starfsfólk séu þátttakendur í breiðu lærdómssamfélagi.

Margir í skólasamfélaginu telja þó aðkallandi að gera skýrari grein fyrir hugtakinu menntun án aðgreiningar eins og það er notað á Íslandi. Líta má á það sem styrk­leika hversu víðtæk samstaða er um að skýra þurfi betur hugtökin sem notuð eru í tengslum við menntun án aðgreiningar og leggja drög að árangursríkri framkvæmd stefnunnar.

Brýnustu úrlausnarefni

1.1 Ríkir góður skilningur á hugtakinu menntun án aðgreiningar meðal allra í skóla­samfélaginu, einnig foreldra og nemenda?

Þessi vísbending, sú fyrsta sem hugað var að í úttektarvinnunni, kann að vega þar þyngst, því að víðtækur almennur skilningur á hugtakinu menntun án aðgreiningar er grundvallarforsenda niðurstaðna að því er varðar öll hin viðmiðin.

Samkvæmt niðurstöðum netkönnunarinnar er það skoðun flestra á vettvangi skól­anna, og þá einnig foreldra, að stefnan um menntun án aðgreiningar varði réttindi allra nemenda og foreldra þeirra/aðstandenda og að hún verði að fela í sér leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun. Þetta var jafnframt skoðun flestra þeirra sem tóku þátt í söfnun gagna á annan hátt og voru úr hópi þeirra sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga. Að auki virðist ríkja víðtæk sam­staða meðal allra hópa skólasamfélagsins um hina opinberu stefnu um menntun án aðgreiningar.

Aftur á móti er það einnig almenn skoðun þeirra að nauðsynlegt sé að skýra betur hugtakið menntun án aðgreiningar. Hvarvetna í skólasamfélaginu lítur meiri hluti viðmælenda svo á að einkar mikilvægt sé að skýra hugtakið menntun án aðgrein­ingar með tilliti til íslenskra aðstæðna sérstaklega, eins og lagt var til í mati á fram­kvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar, sjá skýrslu mennta- og menn­ingar­málaráðuneytisins, 2015.

Sumir vísa til þess að hugtakið „menntun án aðgreiningar“ sé að því leyti óhentugt að það samsvari ekki nógu nákvæmlega erlenda hugtakinu inclusive education. Önnur hugtök hafa því verið notuð í ýmsu samhengi. Þeir sem rætt var við á vett­vangi skólanna bentu einkum á að misræmi væri milli þess skilnings sem foreldrar, kennarar og skólastjórnendar leggja í hugtakið menntun án aðgreiningar og mark­miðanna sem liggja til grundvallar opinberri stefnu á þessu sviði.

Þar eð nokkuð vantar á sameiginlegan skilning á hugtakinu verður einnig munur á því hvernig menntun án aðgreiningar er talin samræmast almennri menntastefnu og hvað hún þýðir í reynd. Margir benda á að bil sé milli hugsjónarinnar um menntun án aðgreiningar og hvernig staðið sé að framkvæmd hennar. Notkun ráðamanna og þeirra sem annast fræðslu á hugtakinu „menntun án aðgreiningar“ kemur öðrum í skólasamfélaginu stundum fyrir sjónir eins og merkimiði á starfinu sem unnið er, án þess að nokkrar breytingar hafi átt sér stað á því starfi í reynd. Margir í skólasam­félaginu, m.a. foreldrar, svara því til að í menntastefnu undanfarinna ára hafi verið lögð sérstök áhersla á menntun án aðgreiningar. Fulltrúar sveitarfélaga og skóla segjast þó margir í vafa um hvaða þýðingu þetta hafi fyrir dagleg störf þeirra. Margir telja að menntun án aðgreiningar sé nú rædd á öðrum nótum en áður var, en kennslu­hættir hafi ekki breyst. Einkum segist margt starfsfólk skóla óvisst um hvaða breytingar væri unnt að gera og hvað ætti að breytast þegar litið sé til núgildandi reglna um fjárveitingar og fjárframlög og stofnanakerfisins sem smíðað hefur verið utan um þær.

Vegna þessarar óvissu um þýðingu menntunar án aðgreiningar fyrir daglegt skóla­starf telja margir, einkum þeir sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitar­félaga, að ræða þurfi ítarlega og með þátttöku sem flestra í skólasamfélaginu hvað þjóðfélag án aðgreiningar feli í sér, og umræðan takmarkist þannig ekki við skólana.

Fram hefur komið að slík umræða verði að einkennast af gagnsæi og skýrri notkun hugtaka, því að það geti valdið erfiðleikum í mótun og framkvæmd opinberrar stefnu ef þeir sem sinna málaflokknum gera sér ekki skýra grein fyrir hugtökum, markmiðum og tilgangi sem býr að baki stefnunni. Sú skoðun er ríkjandi í öllum hópum skólasamfélagsins að nauðsynlegt sé að skýra notkun hugtaksins menntun án aðgreiningar til þess að:

  • leysa úr „núverandi ágreiningi“ um skilgreiningu á menntun án aðgreiningar sem orðið hafi vart í umræðum og á margvíslegum vettvangi í menntakerfinu,
  • skýra hlutverk og ábyrgðarsvið einstakra hópa skólasamfélagsins að því er varðar framkvæmd opinberrar stefnu, eftirlit og mat,
  • unnt verði að veita skýrari og árangursríkari leiðsögn um aðferðir til að hrinda stefnunni um menntun án aðgreiningar í framkvæmd á vettvangi sveitar­fél­aga og einstakra fræðslustofnana.

1.2 Sjá allir í skólasamfélaginu í menntun án aðgreiningar leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun?

Það er almenn skoðun hvarvetna í skólasamfélaginu að sú óvissa sem nú ríkir um hugtakið „menntun án aðgreiningar“ leiði til mismunandi túlkunar á því hvað stefn­an geti falið í sér þegar til kastanna kemur, og hvað falli utan hennar. Í vinnunni við úttektina hefur komið skýrt fram að skoðanir eru mjög skiptar um hvernig standa beri að framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar í menntakerfinu í heild (almennum skólum og sérskólum) og í mismunandi aldurshópum (leikskóla, grunn­skóla og framhaldsskóla). Skólastarf án aðgreiningar er skilgreint með mismunandi hætti eftir aðstæðum í hverjum skóla. Þeir sem sinna menntamálum kalla eftir meiri umræðum, jafnt innan sem utan menntakerfisins, til þess að auka skilning á því að menntun án aðgreiningar snýst um að bæta menntun og virða jafnan rétt nemenda.

Sumir fulltrúar sveitarfélaga og skóla telja að menntun án aðgreiningar sé almennt lögð að jöfnu við þá tilhögun að nemendur sem greindir hafa verið með sérþarfir (sérþarfir í námi eða fötlun) sæki almenna skóla og bekki, fremur en að um sé að ræða leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun. Um aðra nemendur, til dæmis þá sem hafa mikla námshæfileika, koma úr hópi innflytjenda eða frá heimil­um sem standa höllum fæti félagslega eða efnalega, eru taldir í áhættuhópi eða hafa námsþarfir af öðru tagi, en hljóta ekki „greiningu“ er iðulega ekki fjallað í umræðum um menntun án aðgreiningar.

Í þessu endurspeglast misræmi sem sumir í skólasamfélaginu telja eiga sér djúpar rætur í stefnumörkun á þessu sviði. Þótt skýr stefna hafi verið mótuð um menntun án aðgreiningar er formleg greining á fötlun eða sérþörfum enn ein helsta forsenda fjárframlaga til skóla. Sú tilhögun styrkir þá hugmynd að stefna um menntun án aðgreiningar varði fyrst og fremst nemendur með sérþarfir. (Ítarlegri umfjöllun um þetta er að finna í undirköflum 5.1 og 5.3.)

Nokkurs misskilnings gætir einnig í þeirri skoðun, sem fram hefur komið í umræðum í skólasamfélaginu, að stefnan um menntun án aðgreiningar snúist um þarfir „hvers og eins barns“ og krefjist þess að hver nemandi fái sérstakt námsefni og sérstaka stundaskrá. Bent er á að þar sé um óvinnandi verkefni að ræða. Einkum þykir mörgu starfsfólki skóla sem áherslan á einstaklingsbundna kennslu valdi því að menntun án aðgreiningar virðist óraunsætt markmið.

Í augum margra í skólasamfélaginu tengist hugtakið menntun án aðgreiningar fyrst og fremst kennslu nemenda með sérþarfir, þ.e. „sérkennslu“ sem nemendur fá eftir að þeir hafa verið greindir með sérþarfir í námi, í stað þess að það varði gæða­mennt­un fyrir alla nemendur. Umræður snerust oft um það hvernig standa bæri að stuðningskennslu fyrir einstaka nemendur og fámenna hópa, sérkennsluhópa, sérdeilda og sérskóla innan menntakerfis án aðgreiningar. Mörgum í skólasamfélag­inu þykir óljóst hvaða hlutverki sérkennslu er ætlað að gegna í slíku kerfi. Fjölda­margir veltu fyrir sér sambandinu milli sérkennslu og námsaðstoðar við einstaka nemendur og aukinnar hæfni meðal starfsliðs almennra skóla til að stunda kennslu án aðgreiningar.

Viðmælendur úr öllum hópum skólasamfélagsins tóku fram að mismunandi hug­mynd­ir væru uppi um menntun án aðgreiningar í leikskólum, grunnskólum og fram­haldsskólum. Munurinn á því hvernig hugsað er um menntun án aðgreiningar elur af sér mismunandi framkvæmd og mismunandi kennsluhætti eftir skólastigum. Margir töldu að framkvæmd menntunar án aðgreiningar væri auðveldari í yngstu aldurshópunum þar eð námskröfurnar sem gerðar væru til barna á þeim aldri væru ólíkar þeim sem eldri nemendur þyrftu að standa undir. Þá eru rök færð fyrir því að gera megi ráð fyrir umtalsverðum mun á þroska og námsgetu hjá yngstu börnunum og að þau muni sigrast á slíkum erfiðleikum þegar þau eldast.

Margir fulltrúar sveitarfélaga og skóla telja þó miður að stefnan um menntun án að­greiningar skuli vera túlkuð með mismunandi hætti, og einkum að munur sé á þeirri túlkun eftir því hvort um grunnskóla eða framhaldsskóla er að ræða. Fram kemur hjá sumum að þótt ein stefna hafi verið mótuð um menntun án aðgreiningar séu væntingar til hennar mismunandi eftir skólastigum, sem og kröfurnar sem gerðar séu. Framhaldsskólar nota til dæmis ákveðna aðgreiningu og sérúrræði sem ekki væri talið viðeigandi að nota í grunnskóla. Margir í skólasamfélaginu telja þessar ólíku væntingar stuðla að ójöfnuði í skólunum.

Sumir lýstu þeirri skoðun að til þess að efla þann skilning á stefnunni um menntun án aðgreiningar að hún feli í sér leið til að gefa öllum nemendum kost á gæða­menntun þurfi að kynna hana skipulega á öllum stigum kerfisins. Margir nefndu þó að enda þótt leitast væri við að stunda kennslu að öllu leyti án aðgreiningar í ein­stökum skólum væri sú viðleitni ekki studd nægilega vel með framfylgd stefnunnar í kerfinu sem heild. Umræður þurfi að fara fram til þess að ábyrgð verði tekin á öllum nemendum á öllum skólastigum. Margir nefndu þó einnig að meiri stuðnings, eftir­fylgni og fjármuna væri þörf hvarvetna í menntakerfinu.

1.3 Er stuðningur við rannsóknir á menntun án aðgreiningar meðal allra í skólasamfélaginu?

Hvarvetna í skólasamfélaginu virðist ríkja samstaða um þá skoðun að rannsóknir geti stuðlað að því með mikilvægum hætti að byggja upp menntun án aðgreiningar á Íslandi. Sú skoðun virðist þó einnig almenn að of lítið sé um rannsóknir á menntun án aðgreiningar eins og staðið er að henni hér á landi. Í hugum margra tengist þetta þörfinni á almennri umræðu um hugmyndirnar sem að baki liggja, með þátttöku ráðuneyta, sveitarstjórna, stéttarfélaga, skóla og foreldra. Sumum, einkum þeim sem starfa á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, þykir sem á Íslandi sé fyrst og fremst horft til annarra landa, þ.e. alþjóðlegra rannsókna. Íslendingar verði að líta sér nær og leggja meiri rækt við innlendar rannsóknir.

Í öllum hópum skólasamfélagsins var þeirri skoðun hreyft að efla þyrfti á Íslandi rannsóknir sem nota mætti til að efla skólastarf án aðgreiningar á grundvelli gagn­reyndra aðferða. Þetta verður ekki gert nema bæði ríki og sveitarfélög leggi háskól­um og öðrum skólastigum til fjármuni í þessum tilgangi. Sömuleiðis verður að nýta á skilvirkari og markvissari hátt þá sérfræðikunnáttu á sviði rannsókna sem fyrir er í háskólum og á öðrum skólastigum.

Viðmælendur voru á einu máli um að einkar mikilvægt væri að grafast fyrir um bestu starfsvenjur á sviði menntunar án aðgreiningar og læra af þeim. Margir þeirra tóku þó undir þá skoðun að töluverð skil væru milli „kenningarinnar“ um menntun án aðgreiningar og þess hver framkvæmdin væri í skólum landsins, og að lítið væri vitað um hvernig best væri að standa að málum við íslenskar aðstæður. Einkum bar á því að starfsfólk skóla teldi lítil tengsl vera milli rannsókna á háskólastigi og starfs­ins sem unnið væri á öðrum skólastigum. Þetta kæmi niður á því hversu vel rann­sóknir sem nú væru stundaðar nýttust til að örva nýbreytni í skólastarfi án aðgrein­ingar.

Skorturinn á slíkum tengslum yrði einnig til þess að skólar fengju lítinn stuðning til að nýta rannsóknir til að draga fram óskráða þekkingu starfsfólks á því hvaða að­ferðir skila bestum árangri í skólastarfi án aðgreiningar. Nokkur dæmi eru um ný­stár­legar starfendarannsóknir sem lúta að kennsluaðferðum á leik-, grunn- og fram­haldsskólastigi og í sérskólum. Þess eru einnig dæmi að háskólar og aðrir skólar standi að sameiginlegum starfendarannsóknum. Almennt eru slík verkefni þó tiltölulega fá og lítil umfangs, auk þess sem þau virðast ráðast af óformlegu framtaki þeirra sem að þeim standa eða áhuga lítilla hópa eða einstaklinga meðal starfsfólks. Þeir sem tekið hafa þátt í slíkum verkefnum staðfestu að lítið hefði verið gert til að víkka starfendarannsóknir á nýbreytni í kennslu og nýta þær til að auka þekkingu, skilning og færni í starfi í víðara samhengi.

Svör ólíkra hópa í skólasamfélaginu benda til þess að breytilegt sé hvaða rannsókn­ar­efni eru talin varða mestu. Hjá sumu starfsfólki skóla, svo og fulltrúum háskól­anna, kemur fram að þegar ákvarðanir eru teknar á vettvangi ríkis og sveitarfélaga sé ekki alltaf hugað nægilega vel að niðurstöðum rannsókna. Þeir sem sinna mennta­málum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga telja aftur á móti að vinna þurfi markvissari rannsóknir á árangursríku skólastarfi án aðgreiningar sem þeir geti nýtt sér í störfum sínum, og jafnframt geti komið að gagni í öllu skólastarfi á Íslandi.

Mat á vísbendingunum er sem hér segir:

1.1 Vísbendingin Góður skilningur ríkir á hugtakinu menntun án aðgreiningar meðal allra í skólasamfélaginu, einnig foreldra og nemenda er á því stigi að: 
       úrbóta er þörf.


1.2 Vísbendingin Allir í skólasamfélaginu sjá í menntun án aðgreiningar leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun er á því stigi að:
    úrbóta er þörf.

1.3 Vísbendingin Stuðningur er við rannsóknir á menntun án aðgreiningar meðal allra í skólasamfélaginu er á því stigi að:
    úrbóta er þörf.

1. viðmiðið í heild, Allir í skólasamfélaginu sjái í menntun án aðgreiningar leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun, er á því stigi að:
    úrbóta er þörf.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum