Hoppa yfir valmynd

Grunnskólar

Börn og ungmenni á aldrinum 6-16 ára sækja grunnskóla og hverju sveitarfélagi er skylt að sjá öllum börnum á þessum aldri fyrir skólavist. Skólaskylda er til 16 ára aldurs.

Hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska nemenda og veita þeim tækifæri til að tileinka sér þekkingu, leikni og hæfni sem býr þá undir frekara nám og þátttöku í lýðræðissamfélagi. Veita skal nemendum í skyldunámi í opinberum skólum kennslu þeim að kostnaðarlausu.

Grunnskóli er vinnustaður nemenda. Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska.

Starfsemi grunnskóla á að taka mið af því markmiði að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna og að þeir njóti bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Þess skal gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs. Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um námsumhverfi þeirra, námstilhögun og fyrirkomulag skólastarfs, sem og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.

Frá upphafi grunnskóla skulu nemendur eiga val í námi sínu, svo sem um viðfangsefni, námsaðferðir og námsgreinar, í samræmi við viðmið í aðalnámskrá grunnskóla og skipulag skóla. Markmiðið með því er að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og skapa sveigjanleika í skólastarfi.

Meginmarkmið grunnskólastarfs er að:

  • stuðla að víðsýni hjá nemendum
  • efla færni þeirra í íslensku máli, skilning nemenda á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn
  • veita nemendum tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska.
  • leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.

Innritun barna í grunnskóla

  1. Skrá þarf barn sitt í grunnskóla á vef viðkomandi sveitarfélags. Í flestum tilvikum þarf rafræn skilríki. Hafið samband við sveitarfélagið ef þið þurfið aðstoð.
  2. Kennitölu er úthlutað við skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Fyrir ríkisborgara utan EES-svæðisins gerist það eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt.
  3. Til að fá rafræn skilríki fara foreldrar barna með farsímann sinn og kennitölu, ásamt ökuskírteini eða vegabréfi, til símafyrirtækis síns. Sótt er um rafræn skilríki á eftirfarandi afgreiðslustöðum.
  4. Hafið samband við sveitarfélag ef þið hafið ekki fengið svar við umsókn innan tveggja vikna.
  5. Sveitarfélagið sendir staðfestingu til foreldra um grunnskólavist. Þar koma fram upplýsingar um næstu skref.

Ábyrgð á grunnskólastarfi

Rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Einnig eru starfræktir sjálfstæðir grunnskólar.

Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, skólaþjónustu og stuðningi í grunnskólum, mati og eftirliti með starfi skólanna, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu. Sveitarfélög setja almenna stefnu um grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess. Sveitarstjórn á að koma á samstarfi leikskóla og grunnskóla annars vegar og grunnskóla og framhaldsskóla hins vegar.

Í hverju sveitarfélagi á að vera starfandi skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla í umboði sveitarstjórnar. Meginhlutverk skólanefnda er margþætt en þeim ber m.a. að tryggja að öll skólaskyld börn sem rétt eiga á skólavist í sveitarfélaginu njóti lögboðinnar menntunar og að fylgjast með framkvæmd náms og kennslu í sveitarfélaginu og gera tillögur til skólastjóra og/eða sveitarstjórnar um umbætur í skólastarfi.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með yfirstjórn málefna grunnskóla, setur grunnskólum aðalnámskrá, leggur grunnskólum til námsgögn, hefur eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga, styður þróunarstarf í skólum og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum. Ráðuneytið hefur ennfremur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög þessi, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um.

Hlutverk foreldra

Foreldrar grunnskólabarna gæta hagsmuna barna sinna. Foreldrar eiga rétt á að velja grunnskóla innan sveitarfélags fyrir börn sín samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Þeir eiga rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinn.

Skólum ber að leitast við að tryggja þeim foreldrum sem ekki tala íslensku eða nota táknmál viðeigandi túlkaþjónustu.

Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námi þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra. Foreldrar barna á skólaskyldualdri bera ábyrgð á að það innritist í skóla og sæki skóla.

Þurfi grunnskólanemendur frí frá skóla verða foreldrar að sækja um leyfi fyrir slíku sem og tilkynna um veikindi. Öll röskun á námi sem hlýst af leyfum frá skóla er á ábyrgð foreldra/forráðamanna og skulu þau sjá til þess að nemandi vinni það upp sem hann kann að missa úr námi.

Verði misbrestur á skólasókn, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður komi til, skal skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóra ber að fara að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð slíkra mála.

Stuðningur við nemendur

Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.

Sveitarfélög skulu tryggja að viðeigandi skólaþjónusta sé veitt í grunnskólum, ákveða fyrirkomulag hennar og stuðla að því að hún fari fram innan skóla. Sveitarfélög bera ábyrgð á að þjónustan sé veitt og kostnaði við hana. Skólastefnur sveitarfélaga eiga að fjalla um með hvaða hætti sveitarfélög sinna skólaþjónustunni.

Sjá nánar í reglugerð um skólaþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.

Nemendur með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn

Grunnskólar eiga að taka á móti nemendum sem eru að hefja skólagöngu, eru að skipta um skóla eða hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku á að taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Foreldrar eiga á þeim tímamótum að fá upplýsingar um skólagöngu barnsins og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum greint frá rétti þeirra til túlkaþjónustu.

Kennsla í grunnskólum fer fram á íslensku. Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá.

Skólastjóra er heimilt að veita nemendum undanþágu frá námi í tilteknum námsgreinum ef gild rök mæla með því.

Tilkynningarskylda skóla til barnaverndarnefnda

Kennurum, starfsfólki og stjórnendur í leikskólum, og öðrum sem vegna starfa sinna hafa afskipti af málefnum barna, ber skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart ef þau verða var við að barn búi við óviðundandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða ef barn stofnar heilsu sinni eða annarra í alvarlega hættu.

Sjá nánar verklagsreglur um tilkynningaskyldu starfsmanna skóla.

Hlutverk barnaverndarnefnda er að gæta hagsmuna barna og styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu.

Frístundastarf í grunnskólum

Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla (6-9 ára) skal gefinn kostur á þátttöku í fjölbreyttu frístunda- og tómstundastarfi með það að markmiði að efla sjálfstraust og félagsfærni þeirra.. Starfsemi frístundaheimila byggist á gæðaviðmiðum sem sett hafa verið þar sem lögð er áhersla á að umhverfi starfsins einkennist af öryggi, fagmennsku og virðingu þar sem jákvæð samskipti og lýðræðislegir starfshættir eru í hávegum hafðir í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sveitarfélög fara með faglegt forræði frístundaheimila, ákveða skipulag starfsemi þeirra og rekstrarform með samþættingu skóla- og frístundastarfs og þarfir barna að leiðarljósi.

Megináherslur viðmiðanna má nálgast á veggspjaldi sem einnig hefur verið þýtt á ensku og pólsku.

Mat á skólastarfi í grunnskólum

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á grunnskólum fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins. Lagt er mat á starfsemi skóla með hliðsjón af gildandi gæðaviðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám.

Sjá einnig: Eftirfylgni og umbótaáætlanir ytra mats

Aðalnánámskrá grunnskóla

Aðalnámskrá grunnskóla er rammi um skólastarfið og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra og öðrum upplýsingar um tilgang og starfsemi leikskóla.

Aðalnámskrá grunnskóla kom út árið 2011 og greinahluti hennar árið 2013. Hún hefur verið uppfærð umtalsvert síðan þá. Nýjustu útgáfu hennar má nálgast á vefnum adalnamskra.is.

Nám að loknum grunnskóla

Nám í framhaldsskólum miðar að því að koma til móts við ólíkar þarfir og óskir nemenda með því að bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir og námsskipulag. Fræðsluskylda er til 18 ára aldurs sem þýðir að stjórnvöldum ber að tryggja rétt þeirra barna sem sækjast eftir því að stunda nám í framhaldsskóla fram að 18 ára aldri.

Skólastjórar grunnskóla og skólameistarar framhaldsskóla bera ábyrgð á samstarfi grunn- og framhaldsskóla, sem m.a. felst í upplýsingagjöf milli skóla og til nemenda og foreldra um nám á framhaldsskólastigi og hvernig samstarfi verði best háttað.

Mikilvægt er að grunnskólanemendur fái trausta náms- og starfsráðgjöf sem auðveldar þeim að velja nám við hæfi í framhaldsskóla. Einnig er hægt að leita beint til umsjónarkennara í grunnskóla og til framhaldsskóla um upplýsingar og ráðgjöf.

Innritun í framhaldsskóla er á ábyrgð Menntamálastofnunar og fer fram á vefnum Menntagátt.is. Gagnlegar upplýsingar um námsframboð má finna á vef Áttavitans.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 25.10.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum