Hoppa yfir valmynd

Grunnskólar

Árin sem barn stundar nám í grunnskóla eru mikilvægt mótunarskeið þess sem einstaklings og þjóðfélagsþegns. Grunnskólanum er ætlað að gefa nemendum tækifæri til að tileinka sér þekkingu, leikni og hæfni sem býr þá undir nám að loknum grunnskóla og ævilangt. Mennta- og menningarmálaráðuneyti mótar menntastefnu grunnskóla í aðalnámskrá en sérhver grunnskóli á sjálfur að skipuleggja starfsemi sína og gera eigin áætlanir sem byggja á markmiðum laga um grunnskóla og aðalnámskrá.

Í grunnskóla er lögð undirstaða að þátttöku einstaklinga í lýðræðisþjóðfélagi og þau manngildi ræktuð sem styðja eiga alhliða þroska þeirra, efla vitund um íslenska menningu og virðingu fyrir menningu annarra þjóða. Grunnskólinn er 10 ára skóli sem börnum og unglingum á aldrinum 6-16 ára er skylt að sækja og hverju sveitarfélagi er skylt að sjá öllum börnum á þessum aldri fyrir skólavist.

Ábyrgð sveitarfélaga

Sveitarfélögin bera meginábyrgð á skólahaldi og framkvæmd grunnskólalaga. Veita skal nemendum í skyldunámi í opinberum skólum kennslu þeim að kostnaðarlausu. Starfsemi einkarekinna grunnskóla fellur undir grunnskólalög og sækja ber um leyfi til starfrækslu þeirra til Menntamálastofnunar. Sjá einnig upplýsingar um grunnskóla á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Frístundastarf í grunnskólum

Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Þau eru frístundavettvangur barna með áherslu á val barna, frjálsan leik og fjölbreytileika í viðfangsefnum og umhverfi. Við skipulag þjónustu frístundaheimila skal tekið mið af þörfum, þroska og áhuga hvers og eins. Sveitarfélög fara með faglegt forræði frístundaheimila, ákveða skipulag starfsemi þeirra og rekstrarform með samþættingu skóla- og frístundastarfs og þarfir barna að leiðarljósi.

Gefin hafa verið út viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, margbreytileika, stjórnun og menntun starfsfólks. 

Mat á skólastarfi

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á leik- grunn- og framhaldsskólum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis. Lagt er mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Um innra mat gildir að hver grunnskóli á að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfsins og sveitarfélögin eiga að fylgja því eftir þannig að það leiði til umbóta í skólastarfinu.

Menntastefna

Menntastefna stjórnvalda á hverjum tíma birtist annars vegar í lögum og hins vegar í námskrám. Þá móta ráðherrar áherslur í menntamálum eins og til dæmis birtist í Hvítbók um umbætur í menntun.

Nám í framhaldsskóla að loknum grunnskóla

Námsskipulag og nám á framhaldsskólastigi miðast m.a. við að koma til móts við mismunandi þarfir og óskir nemenda sem eru að hefja framhaldsskólanám með því að bjóða fjölbreyttar námsleiðir og veita þannig tækifæri til að stunda nám eftir áhugasviði hvers og eins. Hægt er að leita til umsjónarkennara og námsráðgjafa um aðstoð við val á námi eða leita beint til framhaldsskóla um upplýsingar og ráðgjöf.Nám í framhaldsskólum greinist á fjölmargar námsbrautir sem eru ólíkar að inntaki og lengd. Sumir framhaldsskólar bjóða aðeins nám á bóknámsbrautum en aðrir eru bæði með starfsnám og bóklegt nám. Innritun í framhaldsskóla er á ábyrgð Menntamálastofnunar og fer fram á  Menntagátt.is. Gagnlegar upplýsingar eru á vef Áttavitans.

Námskrá

Aðalnámskrá grunnskóla er rammi um skólastarfið og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla.

Námsmat og próf

Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi. Megintilgangur námsmats er að kanna stöðu nemenda, nota niðurstöður til að leiðbeina þeim um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Menntamálastofnun sér um próf og námsmat.

Nemendur með sérþarfir

Sveitarfélögum er skylt að sjá til þess að skólaskyld börn, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr.  lög um málefni fatlaðs fólks, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir, eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Nánar er kveðið á um þetta í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla og í reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum.

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira