Hoppa yfir valmynd

Skipulagt tómstunda- og félagsstarf

Samkvæmt lögum er stjórnvöldum ætlað, í samstarfi við félög og félagasamtök á sviði æskulýðsmála, að stuðla að því að ungt fólk eigi þess kost að taka þátt í skipulögðu félags- og tómstundastarfi við sem fjölbreyttust skilyrði.

Með því er átt við starfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Þjálfun í lýðræðislegri þátttöku er mikilvægur þáttur í öllu slíku starfi.

Æskulýðsstefna

Æskulýðsráð

Hlutverk æskulýðsráðs er samkvæmt æskulýðslögum að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum, gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum, veita umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi, leitast við að efla æskulýðsstarfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál, efna til funda og ráðstefna um æskulýðsmál, taka þátt í erlendu samstarfi um æskulýðsmál eftir nánari ákvörðun ráðherra, stuðla að þjálfun og menntun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða og sinna öðrum þeim verkefnum sem ráðherra kann að fela því.

Æskulýðssjóður

Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka. Einkum er horft til verkefna sem eru unnin fyrir börn og ungmenn og/eða með virkri þátttöku þeirra, þjálfun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða, nýjungar og þróunarverkefni og samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka. Umsýsla sjóðsins er hjá Rannís.

Æskulýðsrannsóknir

Frá árinu 1992 hefur ráðuneytið stuðlað að reglubundnum rannsóknum á stöðu og líðan æskunnar í landinu undir heitinu Ungt fólk. Rannsóknirnar gefa færi á að fylgjast með menntun, menningu, tómstundum, íþróttaiðkun, líðan, áhugasviðum og framtíðarsýn barna og ungmenna. Þær eru gagnlegar fyrir stjórnvöld og þá aðila er vinna með börnum og ungmennum, þ.e. æskulýðssamtök, íþróttasamtök og fleiri auk þess að hafa reynst sveitarfélögum notadrjúgar við stefnumótun í málaflokknum.

Samskiptaráðgjafi

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs vinnur að því að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Evrópskt og norrænt samstarf

Erasmus+ og European Solidarity Corps

Ísland hefur tekið þátt í styrkjaáætlun Evrópusambandsins frá árinu 1994 og hefur áætlunin styrkt fjölmörg verkefni og veitt ungu fólki tækifæri til þess að kynnast æskulýðsstarfi í Evrópu. Áætlunin hefur vaxið mikið á síðastliðnum árum og tekur til sífellt fleiri þátta. Nýtt tímabil áætlunar hófst árið 2021 þar sem heildarfjármagn til áætlunarinnar eykst töluvert. Meðal nýjunga er áætlunin European Solidarity Corps þar sem leggur áhersla er lögð á samfélagsleg verkefni í gegnum sjálfboðaliðastarf. Á Íslandi hýsir Rannís Landskrifstofu Erasmus+.

Evrópuráðið

Ráðuneytið sinnir nefndarstörfum í stýrinefnd Evrópuráðsins um ungt fólk, CDEJ. Nefndin vinnur m.a. að gæðaviðmiðum til að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Nefndin stendur einnig fyrir lýðræðis- og mannréttindafræðslu. Nefndin vinnur í nánu samstarfi við ráðgjafaráð um ungt fólk sem er skipað ungu fólki frá frjálsum félagasamtökum í Evrópu. Evrópuráðið hefur staðið fyrir margvíslegum verkefnum í aðildarríkjunum. Eitt þeirra verkefna er „Ekkert hatur“ sem SAFT hefur haldið utan um.

Norræna ráðherranefndin

Norræna barna- og ungmennanefndin, NORDBUK, veitir ráðgjöf og samhæfir allt starf Norrænu ráðherranefndarinnar að málefnum barna og ungmenna. Nefndin vinnur að margvíslegum verkefnum sem eru til þess fallin að efla ungt fólk og norrænt samstarf. NORDBUK veitir styrki til verkefna og æskulýðssamtaka og er umsýsla styrkjaáætlunarinnar hjá Norrænu menningargáttinni.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 3.4.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum