Íþróttir
Meginmarkmið stjórnvalda á sviði íþróttamála er að sem flestir hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga. Þá vilja stjórnvöld efla íþróttaiðkun barna og unglinga í skóla og frjálsu félagastarfi íþróttahreyfingarinnar. Í íþróttalögum segir meðal annars að mennta- og menningarmálaráðuneyti fari með yfirstjórn íþróttamála að því leyti sem ríkið lætur þau til sín taka.
Íþróttastefna
Íþróttastefnan er sameiginleg stefna þeirra aðila sem bera ábyrgð á málaflokknum, sem eru ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin. Stefnan byggist á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf á Íslandi skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum. Hún tekur að auki á öllum helstu þáttum íþrótta í félagastarfi og hvernig opinberir aðilar og atvinnulíf geti stutt við það starf. Þá er lögð sérstök áhersla á að auka hreyfingu barna og unglinga á öllum skólastigum.
Stefna í íþróttamálum tekur mið af þeim lagaskyldum sem ríkið hefur samkvæmt íþróttalögum, alþjóðalögum og samningum sem tengjast opinberum aðilum og frjálsum félagasamtökum, sem fara með íþróttamál í landinu. Auk þess birtist hún í framlögum á fjárlögum til íþróttamála og áherslum mennta- og menningarmálaráðherra hverju sinni. Til þess að vinna að framgangi stefnunnar er mikilvægt að aðilar sem bera ábyrgð á málaflokknum, þ.e. ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin, hafi með sér samráð og samstarf. Byggt er á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf á Íslandi skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum.
Íþróttanefnd / Íþróttasjóður
Íþróttanefnd hefur því hlutverki að gegna að vera ráðuneytinu til ráðgjafar í íþróttamálum. Nefndin gerir tillögur til ráðuneytisins um fjárframlög til íþróttamála í fjárlögum og um úthlutun úr Íþróttasjóði. Fé það sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar samkvæmt ákvörðun Alþingis í fjárlögum hverju sinni skal veita til sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar, útbreiðslu- og fræðsluverkefna, íþróttarannsókna og ýmissa annarra verkefna. Umsýsla íþróttasjóðs er hjá Rannís.
Þjóðarleikvangar
Reglugerð um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum, nr. 388/2018, gildir um viðurkenningu íþróttamannvirkja sem þjóðarleikvanga í íþróttum, með hvaða hætti slík viðurkenning er veitt og skilyrði sem sett eru fyrir viðurkenningu. Gátlista sérsambanda vegna umsókna má finna hér.
Launasjóður stórmeistara í skák
Launasjóður stórmeistara í skák var stofnaður með lögum árið 1990 og fyrst var veitt úr sjóðnum árið 1991. Markmið sjóðsins er að skapa íslenskum stórmeisturum í skák fjárhagslegan grundvöll til að helga sig skáklistinni. Þeir stórmeistarar sem þiggja laun úr sjóðnum hafa kennslu- og fræðsluskyldu við Skákskóla Íslands auk þess að sinna rannsóknum og tefla fyrir Íslands hönd.
Lyfjaeftirlit
Ráðuneytið ber ábyrgð á lyfjaeftirliti í íþróttum og er aðili að alþjóðasamningi UNESCO um lyfjaeftirlit og samningi Evrópuráðsins um sama efni. Samkvæmt þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem fram koma í þessum samningum ber ráðuneytið ábyrgð á lyfjaeftirliti ásamt ÍSÍ.
Skákskóli Íslands
Skákskóli Íslands hefur verið starfræktur af Skáksambandi Íslands í samvinnu við ráðuneytið frá árinu 1991 skv. lögum 76/1990. Hlutverk skólans er að annast skákkennslu og hafa með höndum hvers kyns fræðslu sem miðar að því að efla vöxt og viðgang skáklistarinnar á Íslandi. Skólinn heldur námskeið á landsvísu í samvinnu við skákhreyfinguna og skóla landsins. Stjórn skólans er skipuð þremur aðilum, til þriggja ára og skipar ráðherra einn og Skáksamband Íslands tvo í samráði við Félag íslenskra stórmeistara.
Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri
Árið 1995 var stofnað til samstarfsverkefnis ráðuneytisins, Akureyrarbæjar, Íþróttasambands Íslands og Íþróttabandalags Akureyrar um uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri. Sett var reglugerð um miðstöðina reglugerð nr. 362/1995, sbr. reglugerð nr. 364/1995. Ríkissjóður hefur lagt Vetraríþróttamiðstöðinni til framlag til rekstrar til móts við Akureyrarbæ.
Alþjóðlegt samstarf
Erlent samstarf á íþróttasviði er talsvert. Alþjóðasamningar á sviði Evrópuráðsins eru þrír og þar af er einn í endurskoðun:
Samningur Evrópuráðsins um lyfjaeftirlit frá 1989, sem undirritaður var á Íslandi.
Samningur um hagræðingu úrslita kappleikja sem Ísland hefur undirritað en ekki staðfest ennþá.
Samningur um öryggi og þjónustu á íþróttaleikvöngum sem er endurskoðun eldri samnings um ofbeldi áhorfenda á íþróttaleikvöngum, sérstaklega knattspyrnuvöllum.
Ísland er einnig aðili að alþjóðasamningi UNESCO um lyfjaeftirlit sem fylgt er eftir fyrir hönd Evrópuríkja af nefnd á vegum Evrópuráðsins. Einnig er Ísland aðili að íþróttanefnd Evrópuráðsins (Enlarged Partial Agreement on Sport, EPAS) sem fjallar um íþróttir almennt. Að auki er talsvert norrænt samstarf á milli ráðuneyta Norðurlanda á sviðum íþróttamála, sem hittast tvisvar á ári og skiptast á upplýsingum og fjalla um þau alþjóðamál sem eru á döfinni hverju sinni. Um áratugi verið norrænt samstarf um íþróttamannvirki og er haldin ráðstefna einu sinni á ári.
Sjá einnig:
Yfirlit um lög
Yfirlit um reglugerðir
Gagnlegt
Menningarmál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.