Hoppa yfir valmynd

Íþróttir

Meginmarkmið stjórnvalda á sviði íþróttamála er að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga. Þá vilja stjórnvöld efla íþróttaiðkun barna og unglinga í skóla og frjálsu félagastarfi íþróttahreyfingarinnar. Í íþróttalögum segir meðal annars að mennta- og barnamálaráðuneytið fari með yfirstjórn íþróttamála að því leyti sem ríkið lætur þau til sín taka.

Íþróttastefna

Íþróttastefnan er sameiginleg stefna þeirra aðila sem bera ábyrgð á málaflokknum, sem eru ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin.  Stefnan byggist á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf á Íslandi skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum. Hún tekur að auki á öllum helstu þáttum íþrótta í félagastarfi og hvernig opinberir aðilar og atvinnulíf  geti stutt við það starf.  Þá er lögð sérstök  áhersla á að auka hreyfingu barna og unglinga á öllum skólastigum.

Stefna í íþróttamálum tekur mið af þeim lagaskyldum sem ríkið hefur undirgengist samkvæmt íþróttalögum, alþjóðalögum og samningum sem hafa einnig áhrif á starfsemi sveitarfélaga og íþróttahreyfinguna sem starfa að íþróttamálum í landinu. Auk þess birtist stefna málaflokksins í framlögum á fjárlögum til íþróttamála og áherslum mennta- og barnamálaráðherra hverju sinni. Til þess að vinna að framgangi stefnunnar er mikilvægt að aðilar sem bera ábyrgð á málaflokknum, þ.e. ríkið, sveitarfélögin og íþróttahreyfingin, hafi með sér samráð og samstarf.

Íþróttanefnd / Íþróttasjóður

Íþróttanefnd hefur því hlutverki að gegna að vera ráðuneytinu til ráðgjafar í íþróttamálum og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun úr Íþróttasjóði. Fé það sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar samkvæmt ákvörðun Alþingis í fjárlögum hverju sinni skal veita til sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar, útbreiðslu- og fræðsluverkefna, íþróttarannsókna og ýmissa annarra verkefna. Umsýsla íþróttasjóðs er hjá Rannís.

Þjóðarleikvangar

Reglugerð um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum, nr. 388/2018, gildir um viðurkenningu íþróttamannvirkja sem þjóðarleikvanga í íþróttum, með hvaða hætti slík viðurkenning er veitt og skilyrði sem sett eru fyrir viðurkenningu. Gátlista sérsambanda vegna umsókna má finna hér

Ofbeldi, einelti eða áreiti

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs vinnur að því að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Lyfjaeftirlit

Ráðuneytið ber ábyrgð á lyfjaeftirliti í íþróttum og er aðili að alþjóðasamningi UNESCO um lyfjaeftirlit og samningi Evrópuráðsins um sama efni. Samkvæmt þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem fram koma í þessum samningum ber ráðuneytið ábyrgð á lyfjaeftirliti ásamt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.

Skákskóli Íslands

Skákskóli Íslands hefur verið starfræktur af Skáksambandi Íslands í samvinnu við ráðuneytið frá árinu 1991 skv. lögum 76/1990. Hlutverk skólans er að annast skákkennslu og hafa með höndum hvers kyns fræðslu sem miðar að því að efla vöxt og viðgang skáklistarinnar á Íslandi.  Skólinn heldur námskeið á landsvísu  í samvinnu við skákhreyfinguna og skóla landsins.  Stjórn skólans er skipuð þremur aðilum, til þriggja ára og skipar ráðherra einn og Skáksamband Íslands tvo í samráði við Félag íslenskra stórmeistara.

Launasjóður stórmeistara í skák

Launasjóður stórmeistara í skák var stofnaður með lögum árið 1990 og fyrst var veitt úr sjóðnum árið 1991. Markmið sjóðsins er að skapa íslenskum stórmeisturum í skák fjárhagslegan grundvöll til að helga sig skáklistinni.  Þeir stórmeistarar sem þiggja laun úr sjóðnum hafa kennslu- og fræðsluskyldu við Skákskóla Íslands auk þess að sinna rannsóknum og tefla fyrir Íslands hönd.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands á Akureyri

Árið 1995 var stofnað til samstarfsverkefnis ráðuneytisins, Akureyrarbæjar, Íþróttasambands Íslands og Íþróttabandalags Akureyrar um uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri. Sett var reglugerð um miðstöðina reglugerð nr. 362/1995, sbr. reglugerð nr. 364/1995.

Alþjóðlegt  samstarf

Erlent samstarf á íþróttasviði er talsvert. Alþjóðasamningar á sviði Evrópuráðsins eru:

Einnig er Ísland aðili að íþróttanefnd Evrópuráðsins (Enlarged Partial Agreement on Sport, EPAS) sem fjallar um íþróttir almennt. Að auki er talsvert norrænt samstarf á milli ráðuneyta Norðurlanda á sviðum íþróttamála, sem hittast reglulega og skiptast á upplýsingum og fjalla um þau alþjóðamál sem eru á döfinni hverju sinni. Um áratugi verið norrænt samstarf um íþróttamannvirki og er haldin ráðstefna einu sinni á ári.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 9.1.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum