Hoppa yfir valmynd

Háskólar

Háskólar eru sjálfstæðar menntastofnanir sem sinna kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Þeir stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Þeir eru hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi og styrkja innviði íslensks samfélags og efla samkeppnisstöðu þess. 

Háskólar mennta nemendur með kennslu og þátttöku í vísindarannsóknum og búa þá undir að gegna störfum sem krefjast fræðilegra vinnubragða, þekkingar og færni. Háskóli undirbýr nemendur til ábyrgrar þátttöku í lýðræðissamfélagi. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð. Háskólar ráða skipulagi starfsemi sinnar og ákveða hvernig henni er best fyrir komið.

Háskólar á Íslandi

Háskólar á Íslandi eru sjö: fjórir opinberir háskólar (Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum – Hólaskóli, og Landbúnaðarháskóli Íslands) og þrír einkareknir háskólar (Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst). Allir háskólarnir fá ríkisframlag í takt við nemendafjölda og samsetningu námsframboðs, en einungis einkareknir háskólar mega taka skólagjöld af nemendum sínum. 

Gæðaráð íslenskra háskóla

Gæðaráð íslenskra háskóla er skipað sex erlendum sérfræðingum sem gera úttektir á gæðum náms í íslenskum háskólum. Í rammaáætlun gæðaráðsins um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi er meðal annars kveðið á um að fara skuli fram kerfisbundið mat á gæðum háskólastarfsins og það felst í innra mati (sjálfsmati) háskólanna og í ytra mati Gæðaráðs á háskólunum. Gæðaráð getur einnig tekið að sér sértækari úttektir á starfi háskólanna þegar þess gerist þörf eða kallað er eftir slíkum úttektum frá stjórnvöldum.

Stefnumótun um nám á háskólastigi

Stefnumótun fyrir háskólakerfið í heild er stýrt af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti í samráði við háskóla og aðra hagaðila og byggir bæði á reglubundinni greiningu á stöðu háskólakerfisins hér á landi og virku samráði við stofnanir og aðra hagsmunaaðila. Á árinu 2015 birti ráðuneytið umfangsmikla úttekt á háskólum og vísindum hér á landi þar sem upplýsingar um sögu, þróun og stöðu háskóla- og vísindakerfisins eru teknar saman og hefur hún verið nýtt til að undirbyggja stefnumótun fyrir komandi ár. Í lögum um opinber fjármál og greinargerðum með þeim eru tilgreind markmið ríkisins með háskólum. Háskólar setja sér svo eigin stefnur um starfsemi sína til nokkurra ára í senn. Sumir háskólar hafa einnig sett sér stefnur um einstakar áherslur svo sem jafnréttismál og alþjóðamál.

Viðurkenning á fræðasviðum háskóla

Einungis mega þær stofnanir kalla sig háskóla og bjóða upp á háskólanám sem hlotið hafa viðurkenningu til þess frá ráðherra menntamála. Í viðurkenningu háskóla felst staðfesting á því að starfsemi hans sé í samræmi við lög um háskóla og reglur. Viðurkenningar háskóla eru byggðar á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi og er ætlað að stuðla að því að íslenskir háskólar uppfylli gæðakröfur og standist alþjóðlegan samanburð. Viðurkenning er bundin við tiltekin fræðasvið og tiltekna undirflokka viðkomandi fræðasviðs. Háskólar geta eingöngu starfað á þeim undirflokkum fræðasviða sem viðurkenning þeirra nær til. Sérstakalega þarf að sækja um viðurkenningu til að bjóða upp á doktorsnám. Sem stendur hafa Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Landbúnaðarháskóli Íslands einir viðurkenningu til að bjóða upp á nám til doktorsprófs.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 15.8.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum