Hoppa yfir valmynd

Alþjóðlegt samstarf

Mennta- og barnamálaráðuneytið annast samskipti við fjölda erlendra stofnana og samtaka á sviði menntamála. Markmið samstarfsins er margþætt en mikilvægt er að það styðji við stefnumótunarvinnu ráðuneytisins á hverjum tíma, stuðli að myndun tengslanets á ýmsum sviðum og styðji við innleiðingu samstarfsáætlana Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins.

Norrænt samstarf á sviði menntamála

Samstarfi Norðurlanda á sviði rannsókna og menntunar er stýrt af norrænum ráðherrum menntamála og rannsókna, saman sitja þeir í ráðherranefnd um menntun og rannsóknir. Samstarfið miðar fyrst og fremst að því að efla norrænan virðisauka á eftirfarandi meginsviðum:

  • Skólasamstarf og fullorðinsfræðsla.
  • Æðri menntun og rannsóknir.
  • Tungumálasamstarf á Norðurlöndum.
  • Upplýsinga- og samskiptatækni.

Í gegnum norræna samstarfið gefst tækifæri til að sækja um fjármögnun mennta-, rannsókna- og tungumálasamstarfs á Norðurlöndum.

NordPlus er menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur það að markmiði að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum. Sjá nánar um NordPlus á vef Rannís.

Norrænir samningar um menntamál og tungumál

Evrópusamstarf

Aðild Íslands að EES-samningnum veitir rétt til þátttöku í margvíslegu samstarfi á sviði menntamála við ríki innan ESB, EFTA ríkin og ríki sem hafa gert sérstaka samstarfssamninga um menntamál við ESB. Evrópusamstarfinu má skipta gróflega í tvo flokka: Samstarf um menntastefnu, þróun og úrbætur í menntamálum og samstarfsáætlanir, sem eru sjóðir sem veita fé til samstarfsverkefna sem miða að umbótum í menntun.

Samstarf um menntastefnu, þróun og úrbætur í menntamálum

Ísland tekur m.a. þátt í ET2020 vinnuhópum ESB á sviði menntamála:

Eurydice upplýsingarnetið veitir upplýsingar- og greiningar um evrópsk menntakerfi og menntastefnur. Menntamálastofnun hefur umsjón með umsýslu Eurydice á Íslandi.

Þá tekur Ísland þátt í Bologna ferlinu um þróun háskólamála og Kaupmannahafnarferlinu um þróun starfsmenntamála.

Samstarfsáætlanir

Erasmus+ mennta- og æskulýðsáætlun ESB er stærsta menntaáætlun í heiminum. Erasmus+ samstarfsverkefni eru þróunar- eða yfirfærsluverkefni á öllum skólastigum sem unnin eru í samstarfi skóla, fræðslustofnana og aðila í atvinnulífi í að minnsta kosti þremur Evrópulöndum. Markmið áætlunarinnar eru m.a. að styðja verkefni sem miða að því að efla grunnfærni einstaklinga, s.s. læsi, og stærðfræði, ýta undir sköpunargáfu og frumkvöðlakennslu, vinna gegn brotthvarfi, innleiða upplýsingatækni í menntun, efla starfsmenntun og almennt auka gæði í menntun á öllum skólastigum og í atvinnulífi. 

Cedefop

Cedefop er stofnun ESB um þróun starfsmenntunar og hefur Ísland tekið þátt í starfsemi stofnunarinnar frá 1995. Menntamálastofnun er Refernet landstengiliður. Refernet er samstarfsnet um öflun og miðlun upplýsinga um starfsmenntamál. 

Evrópuráðið

Evrópuráðið sinnir fjölbreytilegum málaflokkum og hefur staðið að gerð um það bil 200 alþjóðasamninga. Mennta- og barnamálaráðuneytið tekur þátt í vinnu menntamálanefndar Evrópuráðsins, hjá Tungumálamiðstöðinni í Graz og ýmsum vinnuhópum.

OECD (Efnahags- og framfarastofnunin)

Þátttaka Íslands nær til um 200 ólíkra efnisþátta innan stofnunarinnar þ. á m. samvinnu á sviði fjármála, skattamála, menntamála, vísinda, félags- og atvinnumála, stjórnsýslu, umhverfis- og þróunarmála. Á sviði menntamála ber hæst PISA rannsóknirnar, sem Ísland hefur tekið þátt í frá árinu 2000. Árlega birtir OECD upplýsingar um menntamál í ritinu Education at a Glance og þar eru birtar tölur og upplýsingar um skólamál á Íslandi. Þá hafa sérfræðingar á vegum OECD komið að úttektum og tillögugerð um ýmsa þætti menntamála hér á landi, t.d. um starfsnám, háskólamenntun og fleira.

Annað alþjóðasamstarf á sviði menntamála

UNESCO

Ísland gerðist aðili að UNESCO – Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna þann 8. júní 1964. Meginmarkmið UNESCO er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála. Starfsemi UNESCO skiptist í grófum dráttum í fjóra þætti eða svið, en þau eru:

  1. menntun,
  2. menning,
  3. náttúra og vísindi og
  4. fjölmiðlar.

UNESCO ber ábyrgð á framkvæmd Heimsmarkmiðs 4, menntun fyrir alla, sem snýst um að tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi. Stofnunin hefur verið í forystuhlutverki í menntamálum bæði á alþjóðavísu og svæðisbundið, ekki síst fyrir tilstuðlan frumkvæðis og samvinnu aðildarríkja stofnunarinnar við gerð alþjóðasamninga á sviði menntunar.

Mennta- og barnamálaráðuneytið staðfesti nýlega við UNESCO stuðning Íslands við Parísaryfirlýsinguna: Áskorun um fjárfestingar allra þjóða í framtíð menntunar.

Sjá nánari upplýsingar á vef íslensku UNESCO-nefndarinnar.

Atlantic Rim Collaboratory

Atlantic Rim Collaboratory er fjölþjóðlegur samstarfsvettvangur í menntamálum. Stofnfundurinn var haldinn í Reykjavík 13.-15. september 2016. Hvatamaður að stofnun þessa samstarfsvettvangs er Andy Hargreaves prófessor við Boston háskólann í Bandaríkjunum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 11.8.2022
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira