Hoppa yfir valmynd

Samskipti skóla og trúfélaga

Mennta- og menningarmálaráðherra gaf út 29. apríl 2013 eftirfarandi meginviðmið um samskipti skóla og trúfélaga:

1.

  1. Leggja ber áherslu á mikilvægi vandaðrar trúarbragðafræðslu í fjölmenningarsamfélagi. Þættir í slíkri fræðslu geta verið vettvangsheimsóknir til trúfélaga og að fulltrúum þeirra sé boðið í kennslustund til að fræða um trú sína og trúfélag.
  2. Mikilvægt er að fræðsla þessi og heimsóknir sé gerð á vegum skólans og í þeim tilgangi að fræða nemendur um tiltekin trúarbrögð, inntak þeirra, helgidóma og siði en feli ekki í sér innrætingu tiltekinna trúarskoðana eða tilbeiðslu.
  3. Vettvangsheimsóknir til trúfélaga og heimsóknir fulltrúa  þeirra í skóla skulu taka mið af ofangreindu og vera innan ramma aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla.

2.

  1. Heimsóknir í kirkjur í tengslum við stórhátíðir kristninnar telst hluti af fræðslu um trúarhátíðir og menningarlega arfleifð þjóðarinnar.
  2. Gæta þarf þess að foreldrar og skólaráð séu upplýstir tímanlega um námstilhögun, námsefni og vettvangsferðir. Sama gildir um leik- og framhaldsskóla þar sem það á við.

3.

  1. Eftir fremsta megni skal forðast að nemendur og foreldrar séu settir í þá aðstöðu að þurfa að gera grein fyrir lífsskoðunum sínum.
  2. Um almenna kynningu eða auglýsinga á starfsemi trúfélaga í skólum skulu gilda sömu reglur og um kynningu annarra félagasamtaka.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vill ítreka að leik- og grunnskólar eru á forræði sveitarfélaga og þau bera ábyrgð á samstarfi skóla við aðila utan hans, skv. 5. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008. Sambærileg ákvæði er að finna í gildandi lögum um leik- og framhaldsskóla. Mælst er til að sveitarfélög setji sér reglur um samskipti trúfélaga og skóla.  Þar sem sjálfsræðisaldur er bundinn við 18 ára ber framhaldsskólum að taka tillit til þessara viðmiða þar til nemendur hafa náð þeim aldri. Framkvæmd og eftirlit með leik- og grunnskólum er á vegum sveitarfélaga.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði hinn 4. október 2012 starfshóp til að gera tillögur um samskipti skóla og trúfélaga á öllum skólastigum. Starfshópurinn var skipaður hagsmunaaðilum sem tilnefndir voru af Biskupsstofu, Heimili og skóla, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Siðmennt auk fulltrúa ráðuneytisins. Á grundvelli tillagna starfshópsins voru framangreind viðmið gerð.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum