Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 315/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 315/2017

Fimmtudaginn 19. október 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. ágúst 2017, A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. ágúst 2017, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 30. september 2015 og var umsóknin samþykkt. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í ágúst 2017 kom í ljós að kærandi hafði í maí 2017 fengið greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna um greiðslurnar til Vinnumálastofnunar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. ágúst 2017, var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda vegna ótilkynntra tekna. Skýringar bárust frá kæranda sama dag þar sem fram kom að hann hefði gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun fengi upplýsingar frá skattyfirvöldum um þær tekjur sem hann hefði.

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2017, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans yrði felldur niður frá og með 22. ágúst 2017 í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann lét hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt 14. gr. laganna. Kærandi var einnig krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 330.669 kr. að meðtöldu 15% álagi. Frekari skýringar bárust frá kæranda sama dag þar sem fram kom að hann hefði ekki talið sér skylt að tilkynna sérstaklega um bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði þar sem hann teldi það vera opinberar upplýsingar. Vinnumálastofnun fjallaði um skýringar kæranda á fundi 26. ágúst 2017 og var fyrri ákvörðun staðfest. Þá bárust frekari skýringar frá kæranda 29. ágúst 2017 þar sem hann ítrekaði fyrri afstöðu sína. Vinnumálastofnun fjallaði um skýringar kæranda á fundi 14. september 2017 og var fyrri ákvörðun staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. ágúst 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. október 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki talið þörf á að tilkynna Vinnumálastofnun um bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og greiðslur frá lífeyrissjóði þar sem um opinberar upplýsingar væri að ræða. Kærandi telur að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé ólögleg en skilja verður kæruna þannig að hann krefjist þess að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greitt úr lífeyrissjóðum samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna stofnuninni um það. Ákvörðun um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, sé tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006. Þar sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða.

Vinnumálastofnun tekur fram að á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysisbóta hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysistrygginga. Í lögum nr. 54/2006 sé að finna ákvæði þar sem sú skylda sé ítrekuð. Í 3. mgr. 9. gr. laganna sé tekið fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans. Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda, en þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segir meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Af þessum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrir fram um tekjur til stofnunarinnar. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar er að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um tekjur og að auki er farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum starfsleitarfundum stofnunarinnar, en kærandi hafi mætt á slíkan fund þann 24. september 2015.

Þar sem kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni fyrir fram um tekjur sínar beri honum að sæta viðurlögum samkvæmt 59. gr. laga nr. 54/2006. Upplýsingum sem stofnunin afli sjálf í eftirliti sínu verði ekki jafnað við tilkynningu frá atvinnuleitanda, enda afli stofnunin slíkra upplýsinga eftir á. Þá sé ljóst að upplýsingar liggi ekki fyrir í tekjuskrá Ríkisskattstjóra fyrr en nokkru eftir að tekna sé aflað og þá eftir útgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil. Af þeim sökum sé ekki hægt að líta á slíka skráningu sem ígildi tilkynningar atvinnuleitanda sem lögum samkvæmt beri að tilkynna um tekjur fyrir fram svo að unnt sé að taka tillit til þeirra við útreikning og greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið sökum þess að ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun hjá stofnuninni. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi því verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Stofnuninni sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta, en í athugasemdum með 39. gr. frumvarps því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiddar lífeyrissjóðsgreiðslur samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta en þær tekjur skuli koma til frádráttar á greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi því verið skertar afturvirkt og af þeim sökum hafi myndast skuld, samtals að fjárhæð 330.669 kr., sem honum beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Skuld kæranda verði skuldajafnað við síðari tilkomnar atvinnuleysisbætur í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, en samkvæmt því skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Þá ber einnig að túlka ákvæðið með hliðsjón af 1. mgr. 36. gr. laganna en þar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Óumdeilt er að kærandi fékk greiðslur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins án þess að tilkynna um þær greiðslur til Vinnumálastofnunar. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi ekki talið sér skylt að tilkynna um greiðslurnar þar sem um opinberar upplýsingar sé að ræða. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að upplýsingum sem stofnunin aflar sjálf í eftirliti sínu verði ekki jafnað við tilkynningu frá atvinnuleitanda, enda afli stofnunin slíkra upplýsinga eftir á.

Ljóst er að framangreindar greiðslur höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna. Að því virtu bar kæranda að tilkynna fyrir fram um þær greiðslur þannig að hægt væri að taka tillit til þeirra við útreikning og greiðslu atvinnuleysisbóta. Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti stofnuninni ekki um framangreindar greiðslur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar staðfest.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 vegna tímabilsins sem hann fékk framangreindar greiðslur, að fjárhæð 330.669 kr. að meðtöldu 15% álagi. Í 2. mgr. 39. gr. laganna kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem kærandi upplýsti ekki Vinnumálastofnun um lífeyrissjóðsgreiðslur sínar gat stofnunin ekki tekið tillit til þeirra við útreikning atvinnuleysisbóta. Kærandi fékk því greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um lífeyrissjóðsgreiðslurnar og hefur kærandi því ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að fella skuli niður álagið. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. ágúst 2017, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum