Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 68/2010

Ár 2011, 24. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 68/2010 (IRR10121554)

Bílaklæðningar ehf.

gegn

Umferðarstofu

 

I.      Kröfur, aðild, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 11. október 2010 kærði Sveinn Ragnarsson f.h. Bílaklæðninga ehf. (hér eftir nefnt BK), kt. 480175-0189, ákvörðun Umferðarstofu frá 5. október 2010 um að hafna því að veita undanþágu frá ákvæði 3. mgr. 11. 12 í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Var kæran móttekin hjá ráðuneytinu þann 12. október 2010. Barst kæran því ráðuneytinu innan þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er ágreiningur um aðild.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með bréfi til Umferðarstofu dags. 14. september 2010 óskuðu BK eftir undanþágu frá 3. mgr. gr. 11.12 reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 svo hægt væri að nota 10 farþega Toyota Hiace bifreiðar til skólaaksturs.

Með bréfi Umferðarstofu dags. 5. október 2010 var beiðni BK hafnað.

Ákvörðun Umferðarstofu var kærð til ráðuneytisins með bréfi BK dags. þann 11. október 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 20. október 2010 var Umferðarstofu gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi dags. 22. nóvember 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 30. nóvember 2010 var BK gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Umferðarstofu. Bárust þau andmæli með bréfi dags. 13. desember 2010.

Með bréfum til aðila dags. 23. desember 2010 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök BK

BK byggja á því að sl. 25 ár hafi fyrirtækið breytt Toyota Hiace sendibifreiðum í hópferðabíla sem taka 10 farþega eða 13 skólabörn. Þessi tegund bifreiða hafi reynst einstaklega vel til þessarar notkunar m.t.t. umferðaröryggis. Sé um að ræða fjórhjóladrifs bifreiðar sem séu stöðugar á vegi, taki lítinn vind á sig og séu hagkvæmar í öllum rekstri. Séu bifreiðarnar einstaklega vel til þess fallnar að keyra heim að hinum ýmsu sveitabæjum í öllum veðrum, hálku, sviptivindum og hinum ýmsu uppákomum sem veturinn geti boðið uppá.

Með tilkomu nýrra laga árið 2007 um að hæð í gangi hópferðabifreiða verði að ná 150 cm að innanmáli hafi ekki verið hægt að breyta umdræddum bifreiðum fyrir þessa notkun. Gangurinn sé 144 cm að hæð. Sé nú svo komið að þessar bifreiðar, sem skráðar séu fyrir þessa reglugerðarbreytingu, séu farnar að eldast verulega og komið að nauðsynlegri endurnýjun og þá komi stóra stoppið. Ekki sé hægt að fara í sams konar bifreið þar sem nýjar reglur séu komnar til sögunnar. Við það að viðhalda eldri bifreiðum og vona að þær endist sem lengst sé verið að draga verulega úr umferðaröryggi sem BK vilji hafa í fyrirrúmi.

Hægt sé að finna stærri bifreiðar sem séu dýrari í innkaupum en til að halda kostnaðinum í lágmarki kaupi menn bifreiðar án fjórhjóladrifs. Þar sé verið að fórna umferðarörygginu við þær aðstæður sem þessar bifreiðar séu notaðar. Þar að auki taki stærri bifreið margfalt meiri vind á sig og sé ekki nærri því eins stöðugur og fjórhjóladrifin bifreið.

Á grundvelli þess sem rakið hefur verið og áratuga góðri reynslu af notkun þessara bifreiða við skólaakstur óskar BK því eftir undanþágu frá reglum um lágmarks hæð á gangi hópbifreiða svo hægt sé að nota Toyota Hiace bifreiðar til skólaaksturs. Sé þessi ósk gerð með umferðaröryggi að leiðarljósi fyrir skólabörn landsins.

IV.    Málsástæður og rök Umferðarstofu

Umferðarstofa byggir á því að ákvæði reglugerðar um gerð og búnað ökutækja sé skýr hvað varðar útganga hópbifreiða, sbr. töflu 11.4 í 3. mgr. ákvæðis 11.12. Sé þar enga undanþáguheimild að finna. Ákvæðið eigi uppruna sinn í I. viðauka tilskipunar 2001/85/EB um sérákvæði fyrir ökutæki sem eru ætluð til farþegaflutninga og taka fleiri en átta manns í sæti auk ökumanns og um breytingu á tilskipunum 70/156/EBE og 97/27/EB. Af þeim sökum sé vart hægt að veita BK undanþágu frá ákvæðinu.

V.     Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort Umferðarstofu sé heimilt að veita BK undanþágu frá ákvæði 3. mgr. ákvæðis 11.12 í reglugerð um búnað ökutækja nr. 822/2004. Líkt og fram kemur í umsögn Umferðarstofu á hið tilvitnaða ákvæði uppruna sinn í I. viðauka tilskipunar 2001/85/EB um sérákvæði fyrir ökutæki sem eru ætluð til farþegaflutninga og taka fleiri en átta manns í sæti auk ökumanns og um breytingu á tilskipunum 70/156/EBE og 97/27/EB.

Fyrir liggur og óumdeilt er að umræddar Toyota Hiace bifreiðar uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru um útganga samkvæmt 3. mgr. ákvæðis 11.12 reglugerðar nr. 822/2004. Ákvæði reglugerðarinnar eru skýr hvað varðar útganga hópbifreiða sbr. tafla 11.4 í hinu tilgreinda ákvæði. Er hvergi í reglugerðinni né í lögum heimild til að víkja frá þeim skilyrðum sem þar eru sett. Ber því að fallast á það með Umferðarstofu að laga- eða reglugerðarheimildir standi ekki til þess að unnt sé að veita BK undanþágu frá ákvæðinu. Því er hin kærða ákvörðun staðfest líkt og í úrskurðarorði greinir.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Umferðarstofu frá 5. október 2010 um að hafna beiðni Bílaklæðninga ehf.  um undanþágu frá ákvæði 3. mgr. ákvæðis 11.12 reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 er staðfest.

Bryndís Helgadóttir

Brynjólfur Hjartarson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum