Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 287/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 5287/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17040044

Beiðn [...]

um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 18. október 2016 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 14. júlí 2016 um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Litháens. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 31. október 2016.

Þann 26. apríl 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda um endurupptöku byggir á því að í málinu séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi verið byggð á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið birtur fyrir kæranda. Sé því farið fram á að málið verði endurupptekið hjá kærunefndinni og að nefndin feli Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi.

Fram kemur í greinargerð kæranda að úrskurður kærunefndar útlendingamála hafi verið birtur honum þann 31. október 2016. Hinn 12. desember sama ár hafi svo eiginkona kæranda komið til Íslands og sótt um alþjóðlega vernd. Mál hennar hafi nú verið tekið til efnismeðferðar og í ljósi þess telji kærandi að atvik máls hans hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið birtur honum.

Kærandi vísar í greinargerð sinni til 14. liðar inngangsorða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) sem kveði á um að friðhelgi fjölskyldunnar skuli ávallt hafa forgang hjá aðildarríkjunum við beitingu reglugerðarinnar. Þá kveði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu á um meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Í fréttatilkynningu innanríkisráðuneytisins frá 17. nóvember síðastliðnum komi fram að ákvæði 8. gr. sáttmálans verndi fjölskylduna sem heild og eigi að tryggja rétt hennar til að vera saman. Koma eiginkonu kæranda til Íslands gefi því tilefni til þess að mál hans verði endurskoðað í ljósi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

III. Athugasemdir Útlendingastofnunar

Þann 26. apríl síðastliðinn barst kærunefnd bréf frá Útlendingastofnun vegna endurupptökubeiðni kæranda. Í bréfinu kemur fram að úrskurður kærunefndar útlendingamála hafi verið birtur kæranda þann 31. október 2016. Eiginkona kæranda hafi svo komið hingað til lands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hinn 12. desember 2016. Við fyrstu yfirferð á máli hennar hafi ekki legið fyrir að eiginmaður hennar hafi verið hér á landi og hafi því mál hennar verið sett í hefðbundna efnismeðferð. Þegar það hafi orðið ljóst að þau hafi verið gift hafi mál hennar verið skoðað að nýju og samskipti hafist við litháísk yfirvöld, þ.e. það ríki sem beri ábyrgð á máli kæranda.

Það hafi síðan orðið niðurstaða Útlendingastofnunar að mál eiginkonu kæranda heyri undir 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Greinin kveði á um að eigi umsækjandi aðstandanda í aðildarríki, sem enn bíði þess að fyrsta ákvörðun verði tekin um umsókn hans um alþjóðlega vernd, skuli það aðildarríki bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar um alþjóðlega vernd, að því tilskildu að viðkomandi einstaklingur óski þess skriflega. Í kjölfarið hafi Útlendingastofnun boðað hjónin ásamt talsmanni þeirra til fundar hinn 24. apríl síðastliðinn þar sem þeim hafi verið veittir tveir valkostir. Annars vegar að óska eftir því skriflega, eins og segi í 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, að mál eiginkonu kæranda verði tekið til efnislegrar meðferðar í Litháen ásamt máli kæranda. Hins vegar, ef eiginkona kæranda vilji ekki fara til Litháens, að eiginkona kæranda muni fá efnislega niðurstöðu í mál sitt hér á landi en kærandi verði fluttur til Litháens. Með þessum valkostum hafi Útlendingastofnun boðið kæranda og eiginkonu hans að sameinast í málsmeðferð í Litháen á grundvelli 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar með friðhelgi fjölskyldunnar að leiðarljósi. Kæranda og eiginkonu hans hafi í kjölfarið verið boðið að skrifa undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Þau hafi hins vegar kosið að gera það ekki og hafi eiginkona kæranda óskað eftir því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og að framan hefur verið rakið var úrskurður kærunefndar útlendingamála birtur fyrir kæranda þann 31. október 2016. Þann 12. desember sama ár kom eiginkona kæranda til Íslands og lagði þann sama dag fram umsókn um alþjóðlega vernd en umsókn hennar er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Það er mat kærunefndar, í ljósi þess sem rakið hefur verið um aðstæður kæranda, að fallast beri á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá birtingu úrskurðar kærunefndar og á þann hátt að tilefni sé til þess að skoða mál hans aftur.

Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Fyrir liggur í máli þessu að litháísk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála í úrskurði nefndarinnar frá 31. október 2016 í máli kæranda var sú að 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ættu ekki við í málinu og að því bæri að synja umsókn hans um efnismeðferð, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laganna.

Eins og að framan greinir hafa aðstæður kæranda breyst frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í máli hans. Eiginkona hans er nú hér á landi og er umsókn hennar um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Í bréfi Útlendingastofnunar til kærunefndar, dags. 26. apríl 2017, lýsir stofnunin réttarstöðu eiginkonu kæranda hér á landi og áhrifum hennar á umsókn kæranda. Þar kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að í ljósi viðtökusamþykkis Litháens vegna umsóknar kæranda heyri mál eiginkonu hans undir 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sem kveður á um að eigi umsækjandi aðstandanda í aðildarríki, sem enn bíður þess að fyrsta ákvörðun verði tekin um umsókn hans um alþjóðlega vernd, skuli það aðildarríki bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar um alþjóðlega vernd, að því tilskildu að viðkomandi einstaklingur óski þess skriflega. Eiginkona kæranda hafi aftur á móti ekki óskað eftir því skriflega að Litháen tæki yfir ábyrgð á umsókn hennar. Umsókn hennar hafi því verið tekin til efnismeðferðar hér á landi. Af skýringum Útlendingastofnunar verður ekki annað ráðið en að þar sem kærandi og eiginkona hans hafi kosið að óska ekki eftir því að Litháen tæki yfir umsókn eiginkonu kæranda sé rétt að aðskilja hjónin og senda kæranda til Litháens.

Fyrir liggur að forsenda þess að hægt sé að fara þess á leit við litháísk stjórnvöld að þau taki yfir umsókn eiginkonu kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er að hún leggi fram skriflega ósk þess efnis. Það hefur hún ekki gert og verða litháísk stjórnvöld því ekki krafin um viðtöku hennar á þeim grundvelli. Ekkert annað í málinu bendir til þess að heimilt sé að synja umsókn eiginkonu kæranda um alþjóðlega vernd á þeim grundvelli að krefja megi litháísk stjórnvöld um að taka við henni, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki leyst úr máli kæranda á öðrum forsendum en þeim að eiginkona hans hafi umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Í athugasemdum við 36. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 80/2016 kemur fram að ákvæðið geti átt við í tilfellum útlendinga sem eiga ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Þá kveður 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar á um að eigi umsækjandi aðstandanda í aðildarríki, sem enn bíður þess að fyrsta ákvörðun verði tekin um umsókn hans um alþjóðlega vernd, skuli það aðildarríki bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar um alþjóðlega vernd, að því tilskildu að viðkomandi einstaklingur óski þess skriflega.

Kærunefnd lítur svo á að beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hér á landi feli í sér skriflega beiðni um að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar hér á landi. Fyrir liggur að umsókn eiginkonu kæranda um alþjóðlega vernd er til efnismeðferðar hér á landi. Þrátt fyrir að fyrir liggi viðtökusamþykki frá Litháen vegna umsóknar kæranda er það niðurstaða kærunefndar að í ljósi þeirra tengsla sem efnismeðferð umsóknar eiginkonu kæranda skapar kæranda verði talið nærtækast að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í ljósi alls framangreinds er það því niðurstaða kærunefndar að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að endurskoða beri fyrri úrskurð nefndarinnar í máli kæranda. Kveðinn er upp nýr úrskurður á þá leið að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant’s application for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum