Hoppa yfir valmynd
Stj%C3%B3rns%C3%BDsluk%C3%A6rur%20-%20%C3%BArskur%C3%B0ir

Stjórnsýslukæra - ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun viðbótariðgjalda til séreignarsparnaðar inn á fasteignarveðlán

[…]
[…]
[…]


Reykjavík 12. apríl 2019
Tilv.: FJR19011330/16.2.1




Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A], kt. […], frá 20. desember 2018, þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra frá 12. desember 2018, um ráðstöfun viðbótariðgjalda til séreignarsparnaðar inn á fasteignarveðlán.

Málavextir og málsástæður
Í málinu kemur fram að kærandi hafi keypt fasteign að [X] þann 8. mars 2017. Þann 17. maí 2017 sótti kærandi um útgreiðslu viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar vegna öflunar húsnæðis til eigin nota, skv. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014 um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Hinn 26. júní 2017 féllst ríkisskattstjóri á útgreiðslu uppsafnað viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar fyrir tímabilið 1. júlí 2014 til mars 2017.

Þann 25. september 2018 sótti kærandi um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán vegna fasteignarinnar að [X], skv. a. lið 1. gr. laga nr. 40/2014. Samhliða umsókn sinni handskráði kærandi upplýsingar um nýtt húsnæðislán inn á umsóknarformið. Í kjölfar þess sendi ríkisskattstjóri kærandi skilaboð þess efnis að ný ráðstöfun hefði verið handskráð og að umsóknin yrði yfirfarin og eftir atvikum yrði kallað eftir frekari gögnum eða skýringum áður en send væri staðfesting á því hvort að nýja lánið uppfylli skilyrði laga nr. 40/2014. Þann 26. september 2018 sendi ríkisskattstjóri kæranda staðfestingu á móttöku umsóknar.

Þann 16. nóvember 2018 sendi kærandi ríkisskattstjóra skilaboð þar sem óskað var eftir heimild til að ráðstafa ónýttum viðbótariðgjöldum, frá mars 2017 til september 2018, inn á fyrrnefnt fasteignarveðlán.

Þann 3. desember 2018 féllst ríkisskattstjóri á umsókn kæranda frá 25. september 2018 um að honum væri heimilt að ráðstafa viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar inn á hið nýja lán. Með skilaboðunum staðfesti ríkisskattstjóri að hið nýja lán, sem kærandi hafði handskráð inn á umsókn sína um ráðstöfun séreignarsparnaðar, uppfyllti skilyrði laga nr. 40/2014. Í skilaboðunum var hins vegar ekki tekin afstaða til beiðni kæranda frá 16. nóvember 2018 um heimild til að ráðstafa ónýttum viðbótariðgjöldum frá mars 2017 til september 2018 inn á lánið. Hinn 11. desember 2018 ítrekaði kærandi þá beiðni símleiðis við ríkisskattstjóra og sendi að auki rafræn skilaboð sama efnis þar sem fram kom að skapast hefðu hjá honum réttmætar væntingar um heimild til að ráðstafa ónýttu viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar allt aftur til ársins 2017 inn á hið nýja lán. Hinn 12. desember sl. barst kæranda svar frá ríkisskattstjóra þess efnis að samkvæmt lögum nr. 40/2014 gilti umsókn um ráðstöfun inn á lán frá og með þeim mánuði sem umsókn berst.


Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort kærandi eigi rétt á að ráðstafa ónýttum viðbótariðgjöldum til séreignarsparnaðar, frá mars 2017 til september 2018, í samræmi við ákvæði til bráðabirgða XVII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, inn á fasteignaveðlán sem kærandi skráði á fasteignina að [X] í september 2018.

Af gögnum málsins verður ráðið að hinn 26. júní 2017 hafi ríkisskattstjóri fallist á umsókn kæranda um útgreiðslu uppsafnað viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar fyrir tímabilið 1. júlí 2014 til mars 2017, vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Hins vegar virðist kærandi ekki hafa, samhliða umsókn um útgreiðslu viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar, sótt um ráðstöfun viðbótariðgjalda inn á fasteignaveðlán, þar sem fasteignaveðlán í hans nafni hafi ekki hvílt á íbúðarhúsnæðinu. Kærandi sótti hinn 25. september 2018 um slíka ráðstöfun, sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, samhliða því að skrá fasteignaveðlán á hans nafni á umsókn sína til ríkisskattstjóra. Hinn 3. desember 2018 féllst ríkisskattstjóri á umsókn kæranda um ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar inn á hið nýja lán. Hins vegar hafnaði ríkisskattstjóri hinn 12. desember 2018 beiðni kæranda um að ráðstafa ónýttum viðbótariðgjöldum til séreignarsparnaðar, fyrir tímabilið mars 2017 til september 2018, inn á hið nýja lán.

Til úrlaunar í máli þessu er hvort heimila eigi kæranda að ráðstafa ónýttum viðbótariðgjöldum frá mars 2017 til september 2018, eða frá þeim tíma sem hann aflaði sér íbúðarhúsnæðisins og þar til umsókn um ráðstöfun viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar barst ríkisskattstjóra.

Með lögum nr. 40/2014, sem fela í sér tímabundin skattfrjáls úrræði, er rétthöfum séreignarsparnaðar annars vegar heimiluð nýting á viðbótariðgjöldum til séreignarsparnaðar til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. 1. mgr. a-liðar 1. gr. laganna, og hins vegar er rétthöfum heimiluð úttekt á viðbótariðgjöldum til séreignarsparnaðar, sem safnast hafa upp yfir tiltekið tímabil, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hafi rétthafi ekki verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem lögin mæla fyrir um, sbr. 1. mgr. b-liðar 1. gr. laganna. Úrræði b-liðar laganna felur í sér einskiptisaðgerð og á því ekki við í máli kæranda þar sem hann hefur þegar nýtt sér það úrræði laganna. Í máli þessu kemur því til skoðunar hvort að kærandi eigi rétt á grundvelli a-liðar laganna.

Í lögunum er skýrt kveðið á um ferlið við mat á umsóknum um ráðstöfun viðbótariðgjalda til séreignarsparnaðar inn á fasteignaveðlán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Þar segir í 2. málsl. 3. mgr. a-liðar 1. gr. laga nr. 40/2014 að umsókn rétthafa um ráðstöfun viðbótariðgjalds gildi um iðgjöld sem greidd eru eftir að umsókn berst, þó þannig að umsókn gat gilt frá 1. júlí 2014 ef hún barst fyrir 1. september sama ár.

Framangreint ákvæði laganna er ófrávíkjanlegt og heimilar ekki nýtingu á uppsöfnuðum viðbótariðgjöldum þegar rétthafi hefur ekki náð að nýta rétt sinn að fullu. Því er það mat ráðuneytisins að 3. mgr. a-liðar 1. gr. laga nr. 40/2014 sé skýr og veiti ekki svigrúm til einstaklingsbundins mats eða ívilnandi meðferðar, m.t.t. aðstæðna hverju sinni.

Með vísan til framangreinds er það því mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun ríkisskattstjóra.




Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra frá 12. desember 2018 er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum