Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 523/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 523/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060056

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. júní 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér ásamt eiginkonu sinni og börnum.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. febrúar 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 9. mars 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 24. maí 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 21. júní 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 4. júlí 2017. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. september 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að sonur hans sé […] og á erfiðum efnahagslegum aðstæðum í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að aðalástæða flótta kæranda frá heimaríki sé […] sonar hans. Sonur kæranda sé […] og verði fjölskyldan fyrir miklu aðkasti og mismunun vegna […] hans. Skólafélagar sonar kæranda hafi komist að […] hans með því að stela símanum hans og lesa persónuleg skilaboð til hans frá […]. Í kjölfarið hafi sonur kæranda verið beittur ofbeldi í skólanum og lagður í einelti í um tvö ár, bæði af nemendum og kennurum. Að lokum hafi sonur kæranda ekki treyst sér til að halda áfram í námi vegna aðkastsins sem hann hafi þurft að þola. Þá hafi fjölskylda kæranda jafnframt orðið fyrir aðkasti og hótunum eftir að upp hafi komist um […] sonar kæranda. Fjölskyldan sé útskúfuð úr samfélaginu, fái enga aðstoð og kæranda standi engin vinna til boða. Þá sé ómögulegt fyrir börn kæranda að mennta sig. Kærandi og eiginkona hans óttist því um velferð barna sinna verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis.

Meginástæða flótta kæranda og fjölskyldu hans sé sú að þau óttist ofbeldið, mismununina og atvinnumissinn sem þau hafi þurft að þola í heimaríki af hálfu almennings og skólayfirvalda vegna […] elsta sonar kæranda. Í greinargerð kæranda er byggt á því að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna […] sonar kæranda. Vegna […] hans sé kærandi flóttamaður skv. skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. og 38. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum alþjóðlega vernd hérlendis. Einnig vísar kærandi til 3. mgr. 45. gr. laga um útlendinga en skv. því ákvæði eigi foreldrar barns yngra en 18 ára sem njóti alþjóðlegrar verndar skv. IV. kafla laganna, einnig rétt á alþjóðlegri vernd, sem og systkini þess undir 18 ára aldri.

Af hálfu kæranda er því haldið fram í greinargerð að sonur hans tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi. Í viðtölum hafi þau greint með skýrum hætti frá þeim aðstæðum sem þau hafi búið við í […] og sé gott samræmi milli frásagna kæranda, eiginkonu hans og sonar þeirra. Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður […] í […]. Í því sambandi vísar kærandi til fjölda skýrslna og gagna, þ. á m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um […]. Í gögnunum komi m.a. fram að fordómar og ofbeldi gagnvart […] séu ríkjandi í […] , löggæslu- og réttarkerfið standi höllum fæti og mikil spilling ríki í stjórnkerfinu.

Kærandi telur Útlendingastofnun hafa brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 42. gr. útlendingalaga með því að ákveða að endursenda kæranda og fjölskyldu hans til […]. Að auki brjóti slík ákvörðun í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Kærandi gerir þá kröfu til vara að honum og börnum hans verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Verndarþörf þjóðfélagshópa fari eftir aðstæðum í hverju máli. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Taka skuli tillit til þess ef um barn sé að ræða og það sem barni er fyrir bestu skuli haft að leiðarljósi við ákvörðun auk þess sem slíkt sé í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga. Til greina komi að gera minni kröfur til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi bendir einnig á að Útlendingastofnun hafi ákveðið að fylgja ekki verklagi sínu við afgreiðslu umsókna frá öruggum ríkjum í máli kæranda, þ.e. kærandi hafi hvorki fengið brottvísun né endurkomubann í ákvörðun Útlendingastofnunar og kveðið sé á um að kæra fresti réttaráhrifum. Verði að telja að þessi meðferð málsins bendi til þess að Útlendingastofnun telji að lagagrundvöllur sé til þess að fara með mál kæranda með öðrum hætti en mál sem almennt sæti forgangsmeðferð. Í ljósi aðstæðna kæranda telur hann að skilyrði 1. mgr. 74. gr. séu uppfyllt.

Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju. Kærandi gerir athugasemd við rannsókn og málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli hans. Kærandi telur aðstæður sonar hans ekki hafa verið rannsakaðar nægilega. Hafi Útlendingastofnun ekki rannsakað sérstaklega hversu hátt hlutfall […] barna hrekist úr námi og hvaða áhrif […] eins fjölskyldumeðlims hafi á samfélagslega stöðu annarra fjölskyldumeðlima. Staða yngri systkinanna hafi ekki verið sérstaklega rannsökuð þrátt fyrir að þau teljist í viðkvæmri stöðu og ekki hafi verið tekin viðtöl við þau. Ljóst sé að rannsókn og rökstuðningur fyrir niðurstöðum ákvarðana Útlendingastofnunar í málum kæranda og fjölskyldu hans sé verulega áfátt.

Varðandi flutning kæranda innanlands segir m.a. í greinargerð að andúð á […] sé landlægt vandamál í […] og heimildir bendi ekki til þess að grundvallarmunur sé á aðstæðum eftir landshlutum. Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar á möguleikum hans og fjölskyldu hans til að leita verndar annars staðar í […], enda séu fordómar gagnvart […] viðvarandi í öllu landinu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […]ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í […] séu ríkjandi íhaldssöm viðhorf gagnvart […] og það eigi á hættu að verða fyrir fordómum. Hins vegar hafi miklar úrbætur verið gerðar á málefnum […] á síðustu árum. […] stjórnvöld hafi samþykkt nokkur af framsæknustu lögum svæðisins til verndar […] og opinberir embættismenn hafi sýnt vilja og getu til að vinna með […] aðgerðarsinnum að umbótum. Í […] séu í gildi lög sem veiti […] sérstaka vernd og flokki glæpi gegn […] sem hatursglæpi. Þrátt fyrir víðtæka vernd í lögum kemur þó fram að almenningur og sumir opinberir embættismenn viðhafi enn fordómafull ummæli í garð […]. Þó sé ljóst að opinberum fordómafullum ummælum embættismanna hafi fækkað ört á allra síðustu árum og þau séu sjaldgæf. […] og aðrir […] einstaklingar séu hvattir til að flytja úr íhaldssömum dreifbýlissvæðum í stórborgina þar sem samfélagið sé frjálslyndara. Þá má ráða af gögnum að […] einstaklingar eigi auðveldara uppdráttar í höfuðborginni, Tírana, heldur en á landsbyggðinni.

Ötullega hafi verið unnið að viðhorfsbreytingu almennings í garð […] og m.a. hafi samtök […] haldið fyrirlestra fyrir kennara og nemendur og hafi viðbrögðin verið mestmegnis jákvæð. Í apríl 2015 hafi mennta- og vísindaráðuneytið í […] skrifað undir samstarfssamning varðandi fræðslu menntaskólanemenda við […] félagasamtökin […] sem berjist fyrir réttindum […].

Árið 2014 hafi fyrsta athvarfið fyrir heimilislaust […] opnað og hafi það verið í notkun síðan. Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að […] ráðherranefndin hafi í maí 2015 samþykkt aðgerðaráætlun fyrir […] einstaklinga fyrir árin 2016-2020 og í ágúst sama ár hafi forsætisráðherra […] skipað starfshóp utan um framkvæmd aðgerðaráætlunarinnar. Starfshópurinn hafi það hlutverk að leitast við að bæta framkvæmd löggjafar og stofnana sem verndi […] einstaklinga, útrýma hverskyns mismunun og bæta aðgengi […] að atvinnu, menntun, heilbrigðis- og húsnæðisþjónustu.

Þrátt fyrir umbætur í málaflokknum herma heimildir jafnframt að erfitt sé fyrir unga […] einstaklinga að […] sína fyrir fjölskyldu og skólafélögum. […] börn sem hafi […] sína hafi þurft að þola einelti í skóla sem feli í sér bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi af hendi skólafélaga sem og kennara. Um sé að ræða kerfislægt vandamál í skólakerfinu í […] og dæmi séu um að börn hafi verið rekin úr skóla vegna […] sinnar. Ungir […] einstaklingar eigi í mikilli hættu á að verða útskúfaðir af fjölskyldu sinni og vinahóp þegar […]. Hafi frjálsu félagasamtökin […] hvatt einstaklinga til að opinbera ekki […] sína vegna þeirra vandkvæða sem geti skapast í kjölfarið í samskiptum við fjölskyldu, vini, atvinnurekendur, leigusala og jafnvel samfélagið í heild. Félagasamtökin […] telji að meirihluti […] einstaklinga í […], um 80%, þori ekki að […] vegna ótta við hið neikvæða viðhorf sem ríki í […] samfélagi gagnvart […].

Af ofangreindum gögnum má ráða að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Þar kemur þó m.a. fram að […] stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að […] hafi miðað áfram í málefnum er snerta réttarkerfið, frelsi og öryggi borgara. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu og miðað hafi áfram í þeim málum. Endurnýjun hafi átt sér stað í lögregluliði landsins auk þess sem sjálfstæði dómstóla og eftirlit með starfsemi þeirra hafi verið aukið. Hafi […] yfirvöld almennt vilja og getu til að veita […] borgurum vernd. Þá sé sérstaklega vilji fyrir hendi til að veita borgurum vernd þegar þeir hræðist áreiti af hálfu þriðja aðila sem sé ótengdur ríkinu eða spilltra opinberra starfsmanna. Skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda til þess að kærandi geti leitað sér hjálpar vegna misferlis lögreglu verði hann fyrir slíku.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi kveður ástæðu flótta síns vera þá að hann og fjölskylda hans verði fyrir fordómum, mismunun og ofbeldi vegna […] sonar hans. Kærandi kveður lögreglu ekki hafa vilja til að veita þeim vernd.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Aðalkrafa kæranda er reist á því að hann og fjölskylda hans verði fyrir fordómum, mismunun og ofsóknum í […] vegna […] sonar hans. Hafi sonur kæranda orðið fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu skólafélaga og náins fjölskyldumeðlims í […]. Kærandi hafi leitað til lögreglu þegar skólafélagar sonar hans hafi beitt hann líkamlegu ofbeldi en lögreglan hafi ekki aðhafst í málinu. Kærandi ber fyrir sig að lögreglan í […] taki ekki kvartanir tengdar […] alvarlega þar sem hún líti svo á að slíkan vanda beri að leysa innan fjölskyldunnar. Af hálfu kæranda er staðhæft að […] stjórnvöld hafi ekki vilja til þess að veita elsta syni hans nauðsynlega vernd gagnvart þeirri hættu sem hann telji hann vera í.

Kærandi, eiginkona kæranda og elsti sonur hans mættu í viðtal hjá kærunefnd þann 7. september síðastliðinn. Frásögnum þeirra bar saman um áreiti sem sonur kæranda hefur orðið fyrir af hálfu skólafélaga, fjölskyldu og kunningja. Framburði kæranda, eiginkonu hans og elsta sonar bar einnig saman um að sonur kæranda hefði í það minnsta einu sinni þurft að leita læknis vegna líkamlegs ofbeldis sem hann kvaðst hafa orðið fyrir vegna […] sinnar. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir önnur gögn í málinu en framburður kæranda, eiginmanns hennar og elsta sonar er það mat kærunefndar að framburður kæranda verði í heild lagður til grundvallar í máli hans. Þó að ekki sé dregið í efa að sonur kæranda hafi orðið fyrir hótunum, ofbeldi og árásum af hálfu einstaklinga vegna […] sinnar, þá verður ekki talið, í ljósi þeirra upplýsinga sem kærunefnd hefur undir höndum, að fyrrgreindir atburðir hafi eða gætu náð því alvarleikastigi að teljast ofsóknir, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Hefur kærunefnd hér einkum í huga að ofbeldi sem kærandi hefur lýst að sonur hans verði fyrir nær ekki því alvarleikastigi að teljast brot á grundvallarmannréttindum. Þá hefur kærunefnd litið til gagna sem benda til þess að miklar úrbætur hafi verið gerðar í málefnum […] í […] á undanförnum árum sem birtist bæði í aukinni lagavernd og fræðslu um […]. Í því ljósi er það mat kærunefndar að þótt litið sé heildstætt á mismunun og áreiti sem sonur kæranda hefur lýst geti samsafn þeirra athafna ekki haft slík áhrif á hann að þær teljist ofsóknir.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða áreiti af hendi […] yfirvalda. Þá benda gögn ekki til þess að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir yfirvalda eða aðila á þeirra vegum. Að mati kærunefndar styðja heimildir ekki við þá staðhæfingu kæranda að […] stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda og fjölskyldu hans viðhlítandi vernd gegn hótunum og ofbeldi sem þau hafa lýst, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir. Það er því mat kærunefndar að kærandi hafi raunhæfan möguleika á að leita ásjár stjórnvalda í heimaríki sínu. Að öllu framangreindu virtu telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og er sem dæmi nefnt aðstæður kvenna sem sætt hafi kynferðislegu ofbeldi eða sem aðhyllast ekki kynhlutverk sem eru hefðbundin í heimaríki þeirra og af þessum sökum eigi þær hættu á útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Kærandi hefur greint frá því að hann verði fyrir áreiti vegna […] sonar hans. Kærandi kveður lögreglu ekki vilja veita honum og fjölskyldu hans vernd vegna framangreinds áreitis. Í þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað kemur fram að í heimaríki kæranda sé í gildi víðtæk löggjöf sem banni mismunun á grundvelli […] og að kærandi geti leitað aðstoðar lögreglu vegna vandamála sinna og kvartað með árangursríkum hætti til yfirvalda verði hann fyrir misferli af hálfu lögreglunnar. Í ljósi þess telur kærunefnd að ekki hafi verið sýnt fram á að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í viðtali hjá stjórnvöldum hefur kærandi lýst því að hann haldi að hann sé með háan blóðþrýsting og hann þjáist af miklu stressi, auk þess sem hann hafi fengið taugaáfall þegar í ljós hafi komið að sonur hans væri […]. Einnig haldi kærandi að hann sé með sykursýki. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á að heilsufarsvandi hans sé nægilega alvarlegur þannig að skilyrði séu fyrir hendi til útgáfu dvalarleyfis af þeim sökum á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með vísan í úrskurð eiginkonu kæranda er það mat kærunefndar að sonur kæranda hafi sýnt fram á ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að loknu heildarmati er það því niðurstaða kærunefndar að veita beri syni kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar verður því ekki komist að annarri niðurstöðu en að veita beri kæranda einnig dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að staðfesta beri synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd en að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd er staðfest. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

The decision of the Directorate of Immigration with regard to the appellant‘s application for international protection is affirmed. The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Article 74, paragraph 1, of the Act on Foreigners no. 80/2016.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum