Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 480/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 31. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 480/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17080032

Beiðni [...]

um endurupptöku á úrskurði
kærunefndar útlendingamála, dags. 4. maí 2017

I. Málsatvik

Þann 4. maí 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. mars 2017 um að synja umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 8. maí 2017. Þann 11. ágúst 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn, ásamt gögnum, m.a. læknabréf og og læknisvottorð frá Göngudeild mæðraverndar og fósturgreiningar.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga enda hafi atvik breyst verulega síðustu vikur eða mánuði frá því að úrskurður i máli hans var birtur. Kærandi hafi eignast þriðja barn sitt þann 12. apríl sl. og eftir fæðingu barnsins hafi eiginkona hans átt við [...] að stríða. Þá sé möguleiki á [...] en ekki hafi tekist að greina það nægjanlega þar sem ekki hafi náðst nægilega gott samband við hana. Samkvæmt læknisvottorði komi jafnframt fram það mat að eignkona kæranda þurfi á sérhæfðri og óslitinni meðferð hér á landi að halda og að ómannúðlegt sé að flytja fjölskylduna úr landi að svo stöddu.

Þá leggur kærandi áherslu á hagsmuni barna sinna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skuli það sem barni sé fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Ljóst sé að eiginkona kæranda sé ekki í stakk búin til að sinna börnum sínum í því andlega ástandi sem hún sé í, það hafi m.a. orðið [...] á milli hennar og ungbarns hennar sökum [...] og [...]. Fái eiginkona kæranda ekki samfellda og sérhæfða þjónustu hér á landi sé augljóst að ástandið muni standa í stað eða versna. Hagsmunum barnanna sé því betur borgið með því að fjölskyldunni verði heimiluð áframhaldandi dvöl á Íslandi.

Samkvæmt framangreindu telji kærandi tilefni til þess að mál kæranda og fjölskyldu hans sé tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggt á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Er því farið fram á að mál kæranda verði tekið upp að nýju og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. 24. gr. sömu laga kemur fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að úrskurður í máli hans hafi verið byggður á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin og er í því sambandi vísað til heilsu eiginkonu kæranda. Kærandi hefur lagt fram ný gögn í málinu. Í læknabréfi dags. 8. ágúst 2017, [...], kemur fram að eiginkona kæranda hafi leitað til Heilsugæslunnar Hlíðum vegna [...] í kjölfar fæðingar þann 12. apríl sl. Telur læknirinn brýna þörf á skjótri [...] sem og stuðningi Útlendingastofnunar á tilvísun til göngudeildar geðsviðs Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH). Þá mæli undirritaður læknir með því að flutningi kæranda og fjölskyldu hans verði frestað vegna brýnnar þarfar eiginkonu kæranda á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og hagsmuna ungbarns hennar. Þá kemur fram að eiginkona kæranda hafi mætt í viðtal við sálfræðing á göngudeild sóttvarna þann 24. júlí 2017. Sálfræðingur hafi metið ástand hennar [...] og hlutast hafi verið til um að hafin hafi verið [...] ásamt því að henni var vísað á göngudeild geðsviðs LSH. Vegna sumarfría hefur eiginkona kærandi ekki enn fengið tíma hjá göngudeildinni. Í ljósi þessara nýju upplýsinga sem fram hafa komið síðan að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp 4. maí sl. er það mat nefndarinnar að þær nýju upplýsingar um heilsu eiginkonu kæranda, séu þess eðlis, þegar litið er heildstætt á málsatvik og þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar upphaflegur úrskurður féll í máli kæranda, að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til viðbótar við skýrslur sem vitnað var til í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 4. maí 2017 hefur kærunefnd lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjóna af eftirfarandi skýrslum:

[...]

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að í [...] séu í gildi sérstök lög um heilbrigðiskerfið sem eigi að tryggja rétt allra íbúa landsins til heilbrigðisþjónustu óháð kynþætti, kyni, aldri, þjóðerni, félagslegum bakgrunni, stjórnmálaskoðunum, fjárhagsstöðu, menningu, tungumáli og eðli veikinda. Hægt sé hægt að sækja geðheilbrigðisþjónustu í sérstökum opinberum stofnunum. Þá hafi yfirvöld nýlega innleitt framkvæmdaáætlun frá Alþjóðaheilbrigðisstofnunni (WHO) á sviði geðheilbrigðis sem unnin sé í nánu samstarfi við WHO og Evrópuráðið.

Kærunefnd telur rétt að árétta það sem kom fram í fyrri úrskurði nefndarinnar varðandi fjárhagsaðstoð sem [...] stjórnvöld veita þeim borgurum sem þurfi á slíkri aðstoð að halda. Barnafjölskyldur geta sótt um fjárhagsaðstoð sem taki m.a. mið af barnafjölda. Hins vegar eru ströng skilyrði fyrir slíkri aðstoð og verði m.a. annað foreldrið að vera með atvinnu. Einnig er hægt að sækja um sértækar bætur sem sé fjárhagsaðstoð sem veitt sé börnum sem hafi sérstaka þarfir vegna líkamlegrar eða andlegrar skerðingar.

Í úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli kæranda frá 4. maí 2017 byggði kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sæti mismunun vegna uppruna síns, fengi af þeim sökum m.a. ekki fullnægjandi læknisaðstoð og að hann væri í hættu vegna ofbeldis og hótana nágranna síns. Í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd og í þeim skýrslum sem gefnar hafa verið út frá því að úrskurður kærunefndar frá 4. maí sl. var kveðinn upp kemur ekkert fram sem breytir fyrra mati kærunefndar á þeim þáttum sem máli skipta vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur því að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. núgildandi laga um útlendinga.

Þá er ekkert fram komið í málinu og þeim gögnum sem liggja fyrir um heimaríki kæranda sem bendir til þess að aðstæður kæranda þar falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimalandinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að hann teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Varðandi málsástæður sem hafa komið fram og varða aðstæður eiginkonu kæranda og barna þeirra er vísað í úrskurð í máli þeirra.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Frávísun, brottvísun, endurkomubann og frestur til að yfirgefa landið

Með vísan til rökstuðnings í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 4. maí 2017 í máli kæranda er það niðurstaða nefndarinnar að fella beri úr gildi brottvísun kæranda og tveggja ára endurkomubann til landsins. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott innan 30 daga frá birtingu þessa úrskurðar. Athygli er jafnframt vakin á ákvæði 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga þar sem segir m.a. að Útlendingastofnun sé heimilt að fresta um hæfilegan tíma framkvæmd ákvörðunar sem felur í sér að útlendingur skuli yfirgefa landið ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fallast á beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Niðurstaða kærunefndar er að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi og frávísun er staðfest. Felld er úr gildi ákvörðun í máli kæranda um brottvísun og endurkomubann. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott innan 30 daga frá birtingu þessa úrskurðar.

The appellant’s request for reexamination is granted.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection, residence permit on humanitarian grounds and denial of entry is affirmed. The Directorate‘s decision on expulsion and re-entry ban is vacated. The appellant shall leave Iceland within 30 days of the notification of this decision.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum