Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 542/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 542/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090029

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 18. september 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. júní 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. ágúst 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. nóvember 2017, komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að umsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 21. nóvember 2017. Kærunefnd felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurði dags. 12. desember 2017 og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda fyrir að nýju. Með ákvörðun, dags. 29. ágúst 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 18. september 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 4. október 2018. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 29. október 2018. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 22. nóvember 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar að [...] flokknum og sökum þess að hann hafi verið að hitta stúlku utan hjónabands og óttist hefndaraðgerðir fjölskyldu hennar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda eru raktir málavextir hans eins og hann lýsti þeim í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. ágúst 2018. Kærandi hafi greint frá því að hann sé [...] og fæddur og uppalinn í [...], í hverfinu [...]. Þá hafi kærandi verið virkur meðlimur í [...] stjórnmálaflokknum en kærandi hafi verið tengiliður flokksins frá árinu 2014. Hafi meðlimir flokksins, að kæranda meðtöldum, verið virkir í mótmælum og stjórnmálastarfi og kærandi sé þekktur í samfélaginu sem slíkur. Allir sem mótmæli stjórnvöldum í [...] séu í lífshættu. Kærandi sé ósammála því að [...] sé öruggt svæði því það sé einungis öruggt ef maður styðji ríkjandi stjórnarflokka. Kærandi sé fullviss um að hann verði drepinn eða látinn hverfa vegna þátttöku sinnar í mótmælum gegn stjórnvöldum, líkt og fjölmargir aðrir í hans stöðu. Þá hafi kærandi átt í ástarsambandi við stúlku í [...]. Fjölskylda hennar hafi ekki samþykkt samband þeirra og meinað kæranda að giftast henni. Kærandi hafi kveðið að það gæti verið vegna þess að fjölskylda hennar hafi verið hátt sett innan [...] flokksins og þau hafi vitað að hann væri virkur í starfi [...] flokksins. Bróðir hennar hafi séð þau kyssast og í kjölfarið ráðist á kæranda með hníf og reynt að drepa hann. Hann óttist um líf sitt vegna pólitískra ofsókna, vegna hræðslu við fjölskyldu sína sem yrði honum reið vegna sambandsins við stelpuna og vegna þeirrar hættu sem stafi af fjölskyldu stúlkunnar og tengsla hennar við [...] flokkinn. Þá hafi fjölskylda kæranda verið mótfallin störfum hans fyrir [...] flokkinn. Kærandi hafi ekki getað leitað til lögreglunnar því lögreglan og allar stofnanir tilheyri stjórnmálaflokkunum [...] og [...], sem stjórni öllu í [...]. Kærandi sé fullviss um að hann verði drepinn við endursendingu til heimaríkis. Þá hafi kærandi kveðið að hann geti ekki búið annars staðar í heimaríki og verið öruggur. Þá eigi kærandi erfitt með að afla gagna frá heimaríki þar sem hann hafi lítið tengslanet þar.

Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála í [...] og vísað í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur því til stuðnings. Meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu [...]. Þá veigri fólk sér við því að leita til lögreglu eða dómstóla. [...].

Þá er í greinargerð kæranda fjallað um aðstæður [...] og vísað til alþjóðlegra skýrslna. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann iðki ekki [...] og hafi verið útskúfaður af fjölskyldu sinni og beittur ofbeldi af hendi föður síns vegna þessa. Hann hafi tjáð talsmanni sínum að hann geti alls ekki tjáð þessar skoðanir sínar opinberlega í [...] og þurfi því að lifa með sannfæringu sinni í leyni. Fram kemur í greinargerð kæranda að um [...]. Stjórnarskrá [...] kveði á um að [...] sé hin opinbera trú og skuli vera hornsteinn í allri lagasetningu ríkisins og að vernda skuli hið [...] auðkenni [...] þjóðarinnar. [...]. Þá bendi heimildir til þess að [...] sem hafi orðið fyrir ofsóknum kjósi heldur að fara í felur eða leggja á flótta fremur en að leita til lögregluyfirvalda eftir aðstoð. Ástæða þess sé talin vera að samkvæmt refsilöggjöf [...]. Dæmi séu um að einstaklingar sem aðhyllist ekki [...] hafi verið numdir á brott, verið hótað, sætt þvingunum og verið áreittir í þeim tilgangi að fá þá til þess að fylgja reglum og venjum [...].

Í greinargerð kæranda er fjallað um heiðursmorð í [...] en fram kemur að [...] ofbeldi sé algengt meðal [...] og er vísað í alþjóðlega skýrslu því til stuðnings. Tíðni [...] á hverju ári í [...] en tölurnar sé líklega vanáætlaðar þar sem aðeins sé um að ræða tilvik sem hafi verið tilkynnt til lögreglu og sjúkrastofnana. Á síðustu árum hafi stjórnvöld [...] reynt að skýra lagaákvæði og herða refsingar gegn [...] en samkvæmt heimildum hafi lögunum ekki verið fylgt eftir með fullnægjandi hætti og oft komist gerendur upp með glæpi sína. Stjórnmálaflokkar grípi oft inn í framgang réttvísinnar og komi í veg fyrir ákærur á hendur gerendum. [...]. Þá sé [...] ofbeldi ekki tekið alvarlega af lögreglu og hún rannsaki ekki [...] mál þar sem þau séu álitin fjölskyldumál auk þess sem [...].

Aðalkrafa kæranda byggir á því að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi bæði rekja til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem og stjórnmálaskoðana, skv. d- og e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé þolandi [...] ofbeldis og komi það annars vegar til af því að slíkir einstaklingar hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og sem verði ekki til baka tekið. Hins vegar komi það til af því að í mörgum tilvikum gangi sannfæring þeirra eða tilfinningar gegn ríkjandi viðhorfum í samfélaginu og ekki ætti að gera kröfu um að sannfæringu eða tilfinningum þeirra verði breytt. Kærandi hafi nú þegar orðið fyrir [...] ofbeldi af hálfu fjölskyldu stúlku sem hann hafi átt í ástarsambandi við. Þá sé kærandi meðlimur í [...] og hafi hann verið virkur í mótmælum í heimaríki. Kærandi óttist yfirvöld og geti hann því ekki leitað til þeirra eftir vernd. Af þessu virtu beri að leggja til grundvallar að þeir sem kærandi óttist falli bæði undir ákvæði a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og kærandi eigi ekki raunhæfan möguleika á vernd í heimaríki. Kærandi teljist vera flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi rétt á vernd skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Með því að senda kæranda til [...] væri brotið gegn grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement sem lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Þá eru í greinargerð kæranda gerðar athugasemdir við nokkur atriði í ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Í þjónustuviðtali þann 14. júní 2017 hafi kærandi verið spurður út í ástæður flótta og nefndi kærandi þá ekki stjórnmálaafskipti sín. Aðspurður í efnisviðtali hvers vegna kærandi hafi ekki greint frá þeirri ástæðu flóttans hafi kærandi sagt að hann hafi verið beðinn um að segja frá í stuttu máli. Í ákvörðun Útlendingastofnun hafi kærandi verið talinn ótrúverðugur vegna hins mikla ósamræmis á framburði hans í þessum tveimur viðtölum. Þjónustuviðtöl Útlendingastofnunar séu tekin af ólöglærðum einstaklingum í móttökuteymi stofnunarinnar stuttu eftir komu umsækjenda til landsins og séu löglærðir talsmenn ekki viðstaddir slík viðtöl, enda séu þau kynnt fyrir umsækjendum sem viðtöl til þess að kortleggja þjónustuþörf þeirra og félagslegar aðstæður. Hæpið sé að leggja svo mikla áherslu á svar hans í því viðtali. Þá sé ekki um ósamræmi að ræða þegar hluti sögunnar sé sagður, en ekki hún öll, þegar kærandi sé sérstaklega upplýstur um að hann fái tækifæri til þess að segja sögu sína í frekari smáatriðum í efnisviðtali, þar sem talsmaður verði viðstaddur. Þá er gerð athugasemd við þá miklu áherslu Útlendingastofnunar á að kærandi sýni fram á gögn, máli sínu til stuðnings. Samkvæmt handbók um réttarstöðu flóttamanna beri, í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem umsækjandi sé í, og hversu erfitt geti reynst að leggja fram sannanir, að gera minni kröfur til sönnunarfærslu en ella. Kærandi hafi ekki fengið að njóta vafans í málinu og ósanngjarnar kröfur hafi verið lagðar á hann til að sanna mál sitt með gögnum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi útskýrt á sannfærandi hátt að hann eigi lítið sem ekkert bakland í heimaríki sínu, þar sem fjölskylda hans hafi snúið við honum bakinu. Þá sé hann uggandi yfir því að hafa samband við heimaríki sitt vegna slæmrar reynslu af yfirvöldum þar í landi. Af hálfu kæranda er því haldið fram að með því að leggja alfarið á kæranda að sanna frásögn sína, sé stofnunin að brjóta gegn rannsóknarskyldu sinni, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvörðuninni sé tekið fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem tengi fjölskyldu stúlkunnar við háttsetta einstaklinga í [...] flokknum. Vakin er athygli á því að kærandi hafi ekki verið krafinn um slíkar upplýsingar en stofnuninni hafi verið í lófa lagið að spyrja kæranda nánar út í fjölskylduna og málefni hennar. Einnig er gerð athugasemd við mat Útlendingastofnunar á möguleika kæranda á að leita sér aðstoðar stjórnvalda í heimaríki. Kærandi sé viðriðinn stjórnmál og hafi tekið þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum, sé [...] og fari ekki eftir reglum [...]. Ljóst sé að spilling og óvild í hans garð muni draga verulega úr möguleikum hans til að leita aðstoðar hjá stjórnvöldum. Þá er gerð athugasemd við þá staðhæfingu Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að eiga það á hættu að vera þolandi [...]. Útlendingastofnun staðhæfi þetta í sömu málsgrein og tekið sé fram að framburður kæranda varðandi stjórnmálaþátttöku hans sé talinn ótrúverðugur. Leiða verði líkur að því að stofnunin telji þessar málsástæður svo samtvinnaðar að fyrst ekki skuli taka stjórnmálaþátttöku kæranda með inn í matið skuli málsástæðan um yfirvofandi [...] ekki gera það heldur. Kærandi hefur einungis lýst þeirri skoðun sinni að parinu hafi mögulega verið neitað að giftast vegna stjórnmálaþátttöku hans. Þekkt sé að samband karls og konu utan hjónabands sé ekki aðeins litið hornauga heldur víða algjörlega forboðið. Verði því að telja að ótti kæranda sé ástæðuríkur enda hafi sést til þeirra og kærandi verið beittur ofbeldi af fjölskyldumeðlim stúlkunnar. Að lokum er notkun Útlendingastofnunar á skýrslum breska innanríkisráðuneytisins gagnrýnd. Umræddar skýrslur skiptist í tvo hluta og nefnist fyrri hlutinn policy guidance og síðari country information. Í fyrri hlutanum sé að finna leiðbeiningar/viðmiðunarreglur breskra útlendingayfirvalda, ætlaðar starfsmönnum í þeirra þjónustu, sem byggðar séu á landaupplýsingum í seinni hlutanum. Útlendingastofnun virðist nota leiðbeiningarnar í fyrri hlutanum líkt og um væri að ræða landaupplýsingar. Þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun kæranda um vernd byggi að svo verulegu leyti á rangri notkun heimilda telur kærandi að hún sé haldin annmörkum og í andstöðu við rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Varakrafa kæranda byggir á því að hann eigi rétt á viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Talið sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Meðlimur valdamikillar fjölskyldu hafi ráðist að kæranda og reynt að drepa hann með hníf. Kærandi eigi ekki raunhæfan möguleika á vernd enda hafi yfirvöld hvorki getu né vilja til að veita honum þá vernd sem hann þarfnist. Þá sé ljóst að langvarandi stríðsástand hafi ríkt í [...]. Ástandinu í landinu sé lýst sem óstöðugu og óvissu og að það geti versnað snögglega. Vísað er til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu en almennt ástand eitt og sér kunni við mjög alvarlegar aðstæður að vera næg ástæða til að flutningur einstaklings til viðkomandi lands geti falið í sér brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Þrautavarakrafa kæranda byggir á því að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þegar aðstæður kæranda eru metnar heildstætt sé ljóst að félagslegar aðstæður hans í heimaríki séu afar erfiðar. Kærandi sé ungur, róttækur í stjórnmálastarfi og finni sig ekki innan hins þrönga ramma [...]. Hann sé í slæmu sambandi við fjölskyldu sína sem hafi snúið við honum baki og hafi verið beittur ofbeldi af föður sínum vegna lífsskoðana sinna. Einnig standi hann frammi fyrir félagslegri útskúfun vegna ágreinings síns og heiðursdeilu við fjölskyldu sem hafi víðtæk áhrif í [...]. Hann hafi því ekkert bakland í [...] auk þess sem hann standi frammi fyrir einangrun og muni fyrirsjáanlega búa við erfiðar félagslegar aðstæður.

Í greinargerð kæranda er fjallað um innri flutning og m.a. vísað til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og lögskýringargagna með lögum um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekkert lagt fram til að sanna á sér deili. Var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að þegar tekið hafi verið tillit til niðurstöðu tungumála- og staðháttarprófs, trúverðugleikamats, frásagnar kæranda, ágætrar þekkingar hans á stöðu mála og staðarháttum í [...], ásamt því að hann tali og skilji [...], sé það mat Útlendingastofnunar að rétt væri að leggja til grundvallar í málinu að kærandi sé sannarlega frá [...]. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því byggt á því í málinu að kærandi sé frá [...]. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

Samkvæmt framangreindum gögnum er [...] lýðræðisríki með rúmlega [...] íbúa. [...]. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins [...], þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið [...] þegar komið var á fót lýðveldi. Árið [...] gerðist [...] aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið [...]. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið [...], samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið [...] og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið [...]. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið [...] og alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið [...]. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um réttindi einstaklinga með fötlun árið [...].

Í framangreindum gögnum kemur þá fram að flestir [...].

Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli [...].

Af framangreindum gögnum má ráða að [...] sé hin opinbera trú í [...]. Í áðurnefndri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að fulltrúar trúarlegra minnihlutahópa í [...].

Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að [...] ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu [...].

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda er byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar að [...] stjórnmálaflokknum en hann hafi verið virkur meðlimur í flokknum og m.a. tekið þátt í mótmælum. Kærandi hafi auk þess átt í ástarsambandi við stúlku utan hjónabands og telji kærandi að hann eigi á hættu ofbeldi og ofsóknir af hálfu fjölskyldu hennar. Þá greindi kærandi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 8. ágúst 2018, að samband hans við fjölskyldu hans sé ekki gott, þau séu mjög trúuð en ekki hann og faðir hans hafi beitt hann ofbeldi sökum þess.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, afritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 8. ágúst 2018 greindi kærandi frá því að hann hafi átt í ástarsambandi við stúlku í heimaríki. Hann hafi beðið um hönd hennar en verið hafnað af hálfu fjölskyldu stúlkunnar. Ástarsamband þeirra hafi engu að síður haldið áfram eða þar til bróðir hennar hafi ráðist á kæranda með hníf. Í kjölfarið hafi kærandi flúið heimaríki. Kærandi óttist fjölskyldu stúlkunnar þar sem meðlimir hennar séu hátt settir innan [...] flokksins og hafi ekki samþykkt samband kæranda og stúlkunnar. Þann 26. október 2018 lagði kærandi fram viðbótargögn, þ. á m. mynd er hann kveður vera af honum og stúlkunni. Með tölvupósti dags. 26. október 2018 var kærandi, af hálfu kærunefndar, inntur eftir því hvort hann hygðist leggja fram frekari gögn í málinu sem gætu sýnt fram á samband hans við stúlkuna. Þann 29. október 2018 lagði kærandi fram skjáskot af einkaskilaboðum úr samskiptaforritinu Facebook, frá febrúar og mars 2016, við einstakling að nafni [...] auk ljósmyndar af stúlkunni. Ekki er unnt að lesa það sem stendur í skilaboðunum en samkvæmt útskýringum frá kæranda er það sökum þess að stúlkan hafi lokað á hann á öllum samskiptamiðlum í kjölfar atviksins með bróður hennar.

Þann 22. nóvember 2018 mætti kærandi til viðtals hjá kærunefnd. Kærandi greindi frá því að hann hefði beðið frænda sinn um að hafa milligöngu um að biðja fjölskyldu stúlkunnar um hönd hennar. Þetta hafi verið snemma árs 2016. Fjölskyldan hafi neitað og ekki löngu síðar, í apríl eða maí 2016, hafi sambandi kæranda við stúlkuna lokið. Þá sagði kærandi að bróðir stúlkunnar hafi ráðist á sig skömmu áður en að fór frá [...], sennilega í mars 2017. Áður hafði hann greint frá því að sambandi hans við stúlkuna hafi lokið þegar bróðir hennar hafi ráðist á sig með hníf. Kærandi greindi jafnframt frá því að bróðir stúlkunnar hafi eingöngu ráðist á hann einu sinni. Aðspurður út í ósamræmi á framburði kæranda, hvað varðar tímaramma sambandsins og árásarinnar, dró kærandi framburð sinn um að sambandinu hafi lokið árið 2016 til baka. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann hafi verið í samskiptum við stúlkuna síðari hluta ársins 2016 eða árið 2017, en þau gögn sem kærandi hefur lagt fram um samskipti og samband hans við stúlkuna eru afar takmörkuð og eingöngu frá því snemma árs 2016. Kærunefnd telur að verulegt misræmi sé á milli fyrri frásagnar kæranda og þess sem fram kom í viðtali hjá kærunefnd. Misræmið varðar tímaröð atburða og tengsl þeirra innbyrðis en ekki aðeins tímasetningar. Þá var framburður kæranda um þennan þátt óljós og á reiki þegar kærandi var í viðtali hjá kærunefnd og útskýringar kæranda á misræmi frásagnarinnar ekki haldgóðar. Í ljósi þess telur kærunefnd frásögn kæranda um þennan þátt máls hans vera ótrúverðuga og verður því ekki byggt á henni við úrlausn málsins. Kærandi hefur lagt fram afar takmörkuð og óljós gögn um samband sitt við umrædda stúlku og varpa þau ekki frekara ljósi á umrætt samband. Kærunefnd telur því að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir eða eigi á hættu ofbeldi af hálfu fjölskyldu stúlkunnar vegna ætlaðs sambands hans við hana. Kærunefnd telur þó mögulegt að ráðist hafi verið á kæranda skömmu fyrir flótta hans frá heimaríki en ekki verður lagt til grundvallar í málinu að sú árás hafi verið tengd heiðri fjölskyldunnar eða af öðrum ástæðum sem kunni að tengjast 1. mgr. 37. gr., sbr. 3.mgr. 38. gr. laganna. Þá má ráða af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að kærandi ætti að geta leitað eftir aðstoð lögreglu í [...] telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Kærandi byggir jafnframt á því í málinu að hann sé í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaþátttöku sinnar. Kærandi hefur lagt fram afrit af skjali frá [...] flokknum til staðfestingar á stjórnmálaþátttöku hans. Í viðtali hjá kærunefnd þann 22. nóvember 2018 var kærandi spurður út í [...] flokkinn og störf hans fyrir flokkinn. Að mati kærunefndar hefur kærandi ágætis þekkingu á flokknum og stjórnmálum í [...] og hefur kærunefnd ekki forsendur til að efast um það að kærandi sé stuðningsmaður [...] flokksins. Með vísan til framangreinds verður því lagt til grundvallar í málinu að kærandi hafi verið meðlimur í [...] flokknum og tekið þátt í mótmælum í heimaríki. Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að hann hafi verið almennur meðlimur og ekki gengt neinni opinberri stöðu í flokknum. Þessi framburður er ekki í samræmi við fyrri frásögn kæranda þar sem hann kvaðst vera tengiliður flokksins. Þá kom fram að kærandi telji alla stuðningsmenn [...] flokksins vera í hættu í heimaríki. Af skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá [...] má ráða að almennt séð eigi fólk í [...]ekki á hættu ofsóknir á grundvelli stjórnmálaþátttöku. Stjórnarandstæðingar hafi í einhverjum tilvikum verið handteknir, beittir ofbeldi eða jafnvel drepnir en ekkert bendi til þess að slík háttsemi beinist gegn almennum stuðningsmönnum flokksins. Þá kemur fram í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2018 að fundafrelsi sé tryggt í stjórnarskrá [...] og sé almennt virt af stjórnvöldum. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að [...] flokkurinn sé [...] og flokkurinn eigi m.a. fulltrúa á [...] þinginu og í ríkisstjórn [...]. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að almennir meðlimir [...] flokksins eigi almennt á hættu ofsóknir vegna stuðnings við flokkinn. Að mati kærunefndar benda gögn málsins og framburður kæranda ekki til þess að hann eigi á hættu ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana sinna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði honum gert að snúa til heimaríkis.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi iðki ekki [...] og hafi verið útskúfaður úr fjölskyldu sinni og beittur ofbeldi af hendi föður síns vegna þess. Í viðtali kæranda hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að hann sé [...] en ekki trúrækinn. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að þrátt fyrir að flestir íbúar [...] og samfélagið nokkuð íhaldssamt þá séu ekki allir [...]. Í ljósi þess sé ekki sjálfgefið að einstaklingar sem eru ekki trúræknir skeri sig úr samfélaginu í [...]. Að mati kærunefndar benda gögn málsins sem reifuð eru að framan og framburður kæranda ekki til þess að hann eigi á hættu ofsóknir á grundvelli trúarskoðana sinna, í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að svæði [...] sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir [...] séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimabær kæranda, [...] þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í [...], á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki kæranda, að honum standi til boða vernd og aðstoð lögreglu í [...] telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur lýst erfiðum félagslegum aðstæðum í viðtölum hjá Útlendingastofnun og greinargerð sinni til kærunefndar. Kærandi hefur m.a. greint frá því að samband hans við fjölskyldu hans sé ekki gott og að faðir hans hafi beitt hann ofbeldi og hótað að reka hann að heiman þar sem hann sé ekki mjög trúaður. Með vísan til gagna málsins er það mat kærunefndar að þær félagslegu aðstæður sem kærandi standi frammi fyrir í heimaríki séu ekki þess eðlis að hann hafi ríka þörf fyrir vernd.

Kærandi er ungur, einstæður karlmaður við góða heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir þar um. Þá hefur kærunefnd endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 12. júní 2017 og sótti um alþjóðlega vernd 13. júní 2017. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum