Hoppa yfir valmynd

Nr. 194/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 194/2018

Miðvikudaginn 4. júlí 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. maí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. mars 2018 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2017.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur fengið greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins frá árinu 2013. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. mars 2018, voru greiðslur heimilisuppbótar stöðvaðar frá 1. nóvember 2017 með þeim rökum að B væri skráð til heimilis á sama stað og kærandi í Þjóðskrá. Þann 12. apríl 2018 bárust Tryggingastofnun tvær myndir af heimili kæranda. Með bréfi, dags. 3. maí 2018, var kæranda tilkynnt um að ákvörðun Tryggingastofnunar um stöðvun heimilisuppbótar stæði óbreytt. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærandi hafi hagræði af sambúð við C og B sem séu skráð með sama lögheimili.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. maí 2018. Með bréfi, dags. 1. júní 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. júní 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. júní 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af fylgigögnum með kæru að óskað sé eftir endurskoðun á ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2017.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags 8. mars 2018, um stöðvun heimilisuppbótar til kæranda frá 1. nóvember 2017.

Kærandi, sem sé örorkulífeyrisþegi, hafi sótt um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins með umsókn nú síðast þann X 2013 og hafi fengið í framhaldinu heimilisuppbót. Með bréfi, dags. 8. mars 2018, hafi heimilisuppbót kæranda verið stöðvuð afturvirkt frá 1. nóvember 2017 þar sem að frá þeim tíma hafi kærandi ekki lengur verið talin uppfylla það skilyrði laga og reglugerðar um félagslega aðstoð að vera ein um heimilishald. Nánar tiltekið þá hafi heimilisuppbót kæranda verið stöðvuð þar sem við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar hafi komið í ljós að aðrir einstaklingar séu einnig skráðir til heimilis á sama stað og hún, sbr. útprentun úr Þjóðskrá. Í kjölfarið hafi kærandi lagt fram tvær svarthvítar ljósmyndir þann 12. apríl 2018 sem ætlað hafi verið að sýna fram á að hún væri ein um heimilishald. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags 3. maí 2018, hafi kæranda verið tilkynnt um að stöðvun heimilisuppbótar kæranda stæði óhögguð. Sú niðurstaða hafi einnig verið byggð á því sem fram hafi komið í símtali talsmanns eftirlits Tryggingastofnunar við kæranda í framhaldi þess að kærandi hafi sent myndir til stofnunarinnar af aðstöðu sinni til sjálfstæðs heimilishalds þann 12. apríl 2018.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla. Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem hún sé ekki ein um heimilishald, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á heimilisuppbót.

Í málinu liggi fyrir að kærandi deili heimili með þremur öðrum einstaklingum sem séu C og B. Þegar fjórir einstaklingar deili heimili þá hljótist af því töluvert hagræði í formi ódýrari rekstrarkostnaðar heimilisins, enda deilist þá rekstur heimilisins niður á fjóra aðila.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum einstaklingum hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðunum sínum varðandi heimilisuppbót kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá 1. nóvember 2017.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1052/2009, með síðari breytingum, var sett með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.“

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Í 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er fjallað um að Tryggingastofnun skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega gagnvart Tryggingastofnun ríkisins er fjallað um í 39. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að veita upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt o.fl. í máli viðkomandi.

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera uppfyllt. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi fengið greidda heimilisuppbót í kjölfar umsóknar, dags. X 2013, á þeim grundvelli að hún væri ein um heimilisrekstur að D, sem er skráð lögheimili hennar. Við eftirlit Tryggingastofnunar með réttmæti greiðslna kom í ljós að B væri skráð með sama lögheimili og kærandi, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 8. mars 2018. Í kjölfarið lagði kærandi fram ljósmyndir af húsakynnum sínum til Tryggingastofnunar og hafði auk þess símasamband við stofnunina. Með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 3. maí 2018, var fyrri ákvörðun stofnunarinnar látin standa óbreytt. Þá var vísað til þess að C væru einnig búsettir á sama stað og hún. Auk þess vaski hún upp á neðri hæðinni hjá C.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá er kærandi með skráð lögheimili að D ásamt þremur öðrum einstaklingum. Af umsókn kæranda um heimilisuppbót verður ráðið að kærandi hafi búið þar að minnsta kosti frá árinu 2013 og samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá hefur B verið búsett þar frá X 2016. Þá liggur fyrir að í ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. mars 2018 og 3. maí 2018 var kæranda veittur frestur til að leggja fram gögn sem staðfesti að kærandi byggi ekki í sömu íbúð og framangreindir einstaklingar eða að hún hefði ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu nægjanleg til þess að sýna fram á að kærandi sé ekki búsett ein að D. Úrskurðarnefndin telur að einstaklingar eldri en 18 ára sem búi saman teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Að mati úrskurðarnefndar geta framlagðar myndir kæranda ekki talist fullnægjandi staðfesting á því að hún njóti ekki fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá 1. nóvember 2017 er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, frá 1. nóvember 2017, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum