Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Nr. 237/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 237/2019

Þriðjudaginn 3. september 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. júní 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. maí 2019, um að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 15. maí 2019. Þar sem hún hafði verið skráð í nám á vorönn 2019 var óskað eftir skólavottorði frá kæranda. Vottorð frá B barst Vinnumálastofnun 16. maí 2019 en samkvæmt því vottorði var kærandi skráð í 36 einingar á haustönn 2019. Með bréfi, dags. 24. maí 2019, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri hafnað á grundvelli 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. júní 2019. Með bréfi, dags. 7. júní 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 25. júní 2019, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. júní 2019, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa fengið synjun frá Vinnumálastofnun á umsókn sinni um atvinnuleysisbætur. Sú skýring sem gefin hafi verið fyrir synjuninni hafi verið sú að kærandi væri að fara í nám í haust. Kæranda finnist hins vegar að endurmeta eigi þessa ákvörðun vegna atvinnusögu sinnar og þeirrar stöðu sem kærandi sé að lenda í núna eftir að hafa misst fyrri vinnu. Kærandi hafi verið lengi á vinnumarkaði og yfirleitt í fullri vinnu en hafi farið í fæðingarorlof í X fram í X. Sama dag og hún hafi komið til baka hafi henni verið sagt upp vegna skipulagsbreytinga á vinnustað og ekki boðinn annar kostur en að vinna upp þriggja mánaða uppsagnarfrest. Eftir þetta, 2. desember 2018, hafi kærandi skráð sig á atvinnuleysisbætur í einn og hálfan mánuð þar sem henni hafði ekki tekist að finna vinnu. Kærandi sé [...] og sé að greiða ásamt manninum sínum af íbúð sem þau hafi nýlega keypt og staðið í endurgerðum á. Einnig hafi húsfélagið tekið ákvörðun um að fara í endurbætur á blokkinni sem hafi kostað nokkrar milljónir. Kærandi hafi sótt um störf fyrir sumarið 2019 en ekki tekist að finna réttu vinnuna en hafi núna fengið vinnu sem [...] X. Það tímabil sem kærandi þurfi að brúa sé frá 17. maí til 20. ágúst 2019. Yfir þetta tímabil sé hún á milli anna í skólanum, atvinnulaus og í [...] hjá C. Því finnist kæranda að geymdur bótaréttur ætti að brúa þetta millibilsástand. Kærandi væri á atvinnumarkaði ef henni hefði ekki verið sagt upp óvænt eftir að hún kom úr fæðingarorlofi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Í c-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysitryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Þá segi í 6. mgr. 14. gr. laganna:

„Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.“

Ákvæði þetta hafi komið fyrst inn í lög um atvinnuleysistryggingar með lagabreytingu í desember 2009. Með lagabreytingunni hafi réttur námsmanna til greiðslu atvinnuleysistrygginga verið að verulegu leyti þrengdur. Á móti hafi sá tími verið lengdur, sem námsmenn geti geymt bótarétt sinn samkvæmt lögunum, sbr. 7. gr. laga nr. 134/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Í athugasemdum frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi meðal annars að „Það þykir ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla enda er kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.“ Komi skýrt fram að námsmenn teljist ekki tryggðir í námsleyfum skóla. Sem dæmi um slík námsleyfi séu jólaleyfi, páskaleyfi og sumarleyfi.

Ljóst sé að kærandi hafi verið skráð í 37 eininga nám hjá B á vorönn 2019. Þá liggi fyrir að kærandi hafi verið skráð í áframhaldandi 36 eininga nám á haustönn 2019 við sama skóla. Samkvæmt ákvæði 6. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst námsmaður ekki tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið skráður í skóla á einni námsönn og sé jafnframt skráður í nám á næstu námsönn á eftir. Telji stofnunin engan vafa leika á því að kærandi teljist námsmaður í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt skýru orðalagi 5. mgr. 14. gr. laganna telst kærandi því ekki tryggð á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem námsleyfi hennar varir. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á milli námsanna.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. 

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 6. mgr. 14. gr. kemur fram að sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla á milli námsanna eða fara á milli skólastiga.

Í gögnum málsins liggur fyrir skólavottorð frá B. Þar kemur fram að kærandi sé skráð í fullt nám, 37 einingar á vorönn 2019 og 36 einingar á haustönn 2019.

Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt skýru lagaákvæði 6. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 sé kærandi ekki í virkri atvinnuleit. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. um að vera tryggð samkvæmt lögunum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. maí 2019, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum