Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 9. október 2000

Mánudaginn 9. október 2000 var tekið fyrir matsmálið nr. 2/2000

Vegagerðin

gegn

Margréti Tryggvadóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni dags. 24. janúar 2000, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 3. febrúar 2000 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (eignarnemi), þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna lagningar Hafravatnsvegar um landspildu úr landi Miðdals I, Mosfellsbæ. Eigandi spildunnar er Margrét Tryggvadóttir, kt. 010345-3759, Hvolsvegi 9, Hvolsvelli (eignarnámsþoli).

Hin eignarnumda spilda er nánar tiltekið 750 m. löng og telst 39.456 m² að stærð.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 3. febrúar 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum auk þess sem matsnefndin sjálf lagði fram boðunarbréf o.fl. Þar sem eignarnámsþoli mótmælti því að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda þó matinu væri ekki lokið, var aðilum veittur frestur til 11. febrúar 2000 til framlagningar greinargerða vegna þess þáttar málsins.

Föstuaginn 11. febrúar var málið tekið fyrir. Aðilar lögðu fram greinargerðar vegna kröfu um umráðatöku. Málinu var að því búnu frestað ótiltekið.

Þriðjudaginn 15. febrúar kvað matsnefndin upp úrskurð og eru úrskurðarorðin svohljóðandi:

"Eignarnema, Vegagerðinni, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands eignarnámsþola úr landi Miðdals I, Mosfellsbæ, og hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið.

Þá skal eignarnemi setja tryggingu að fjárhæð kr. 10.000.000- fyrir væntanlegum bótum."

Mánudaginn 17. apríl var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 5. maí 2000.

Föstudaginn 5. maí var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 22. maí 2000.

Lögmaður eignarnámsþola boðaði forföll þann 22. maí 2000 og var honum því veittur viðbótarfrestur til 7. júní til framlagningar greinargerðar.

Föstudaginn 30. júní 2000 var málið tekið fyrir. Tilefni fyrirtökunnar þá var að freista þess að ná sáttum milli aðila. Sættir voru reyndar án árangurs og var eignarnámsþola gefinn viðbótarfrestur til 6. júlí 2000 til að skila greinargerð.

Fimmtudaginn 6. júlí 2000 var málið tekið fyrir. Lögð var fram greinargerð af hálfu eignarnámsþola og málinu að því búnu frestað ótiltekið til munnlegs flutnings.

Mánudaginn 18. september 2000 var málið tekið fyrir. Fram fór munnlegur flutningur fyrir matsnefndinni og var málið að því búnu tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hefur m.a. verið lögð fram skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Í henni kemur m.a. fram að tilefni eignarnámsins sé lagning 1. áfanga Hafravatsnsvegar á nýjum stað milli Langavatns og Hafravatns. 1. áfangi framkvæmdarinnar nær einungis til þess að tryggja greiðar samgöngur frá malbiksenda Hafravatnsvegar við Hofmannaflöt að malbiksenda Nesjavallavegar við Dalland. Eignarnemi bendir á að í skýrslunni komi jafnframt fram að helstu jákvæðu umhverfisáhrif framkvæmdanna séu bættar samgöngur á svæðinu og að nýja vegarstæðið sé að jafnaði fjarri sumarhúsum á svæðinu. Lagning vegarins muni auðvelda framtíðar skipulagsvinnu og gera frekari nýtingu svæðisins mögulega í framtíðinni. Neikvæð umhverfisáhrif hafa helst verið nefnd skipting landsins sem óhjákvæmilega fylgir framkvæmd af þessu tagi.

Eignarnemi kveðst hafa fundað með eignarnámsþola í því skyni að freista þess að ná samkomulagi um bætur. Eignarnemi kveður lögmann eignarnámsþola hafa gert kröfu til þess að allt land eignarnámsþola yrði tekið eignarnámi, en að öðru leyti hafi ekki verið settar fram kröfur af hálfu eignarnámsþola. Eignarnemi kveðst hafa í framhaldi af þeim fundi sett fram skriflegt tilboð um bætur upp á kr. 200.000- fyrir hvern hektara lands og að auki hafi verið boðnar bætur fyrir mun stærra land en þörf var á vegna veglagningarinnar í því skyni að ná sáttum í málinu. Eignarnemi kveður tilboðinu ekki hafa verði svarað og túlkar það á þann veg að því hafi verði hafnað. Eignarnemi keðst ávallt hafa verið fús til sátta í málinu, en kveðst hafa litið svo á að með því að virða að vettugi skriflegt boð um bætur hafi eignarnámsþoli í raun hafnað tilboðinu. Af þessum sökum hefur eignarnemi nú dregið tilboð sitt til baka, enda telur hann það vera hærra en honum beri í raun skylda til að greiða og með öllu óskuldbindandi fyrir hann nú, þar sem það hafi verði sett fram í þeim tilgangi að ná sáttum í málinu, án viðurkenningar á því að það væri hið rétta verðmæti landsins.

Af hálfu eignarnema er á því byggt að umrætt land virðist ekki hafa verið nýtt á neinn hátt, hvorki til ræktunar, beitar né sumarhúsabyggðar. Nýtingarmöguleikar þess hljóti að vera takmarkaðir af ýmsum ástæðum t.d. vegna hitaveituleiðslunnar frá Nesjavöllum sem liggi um landið.

Eignarnemi bendir á að í nágrenni við hið eignarnumda land séu sumarbústaðir og megi því gera ráð fyrir að slík nýting landsins væri möguleg. Á því landi sem tekið hefur verið eignarnámi sé ekki um slíka nýtingu að ræða og ekki verði séð að slík nýting hafi verið áformuð. Eignarnemi bendir þó á að engin trjárækt hafi átt sér stað á landinu, sem gert geti sumarhúsabyggð vænlegri, og að aðgengi að spildunni sé með þeim hætti að sumarhúsabyggð þar væri einungis möguleg með því að leggja út í kostnaðarsama vegagerð. Þá kveður eignarnemi landið vera mýrlent á stórum hluta og því ekki vel fallið til ræktunar.

Eignarnemi kveður hina eignarnumdu spildu liggja í sveig til norð-vesturs frá Nesjavallaæð við mörk spildu í eigu þb. Einars V. Tryggvasonar, sem næst liggur. Spildan liggi því næst í sveig til suð-vesturs yfir Nesjavallaæð og þaðan inn á land Lynghóls. Vegna þessa verður u.þ.b. 6,5 ha. spilda milli hinnar eignarnumdu spildu og norðan Nesjavallaæðar, en tæplega 1 ha. spilda sunnan Nesjavallaæðar. Þessar spildur kveðst eignarnemi hafa verið tilbúinn til að bæta eignarnámsþola þegar sáttatilraunir fóru fram. Eignarnemi telur þó augljóst að vegurinn auki til muna nýtingarmöguleika landsins.

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992-2012 sé umræddu landi ekki ætlað að vera byggingarland á skipulagstímanum og miðað við áform um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu sé ekkert sem bendi til þess að skipulögð verði byggð af einhverju tagi á þesum stað, fjarri núverandi byggð. Eignarnemi bendir ennfremur á að yrði landið skipulagt sem byggingarland, sem hann telur afar fjarlægan möguleika, þyrfti eignarnámsþoli að leggja endurgjaldslaust til sveitarfélagsins sem svarar til 1/3 af flatarmáli byggingarlóða til almenningsnota. Eignarnemi geti hins vegar ekki krafist endurgjaldslausrar afhendingar lands undir veg og taka verði þetta til athugunar við mat á bótum.

Eignarnemi hefur lagt fram ýmis gögn um verðmæti lands á þeim slóðum sem um ræðir í máli þessu. Bæði er þar um að ræða matsgerðir og afsöl, en skv. þeim virðist landverð á þessum slóðum, eftir gæðum þess, vera 70.000- kr./ha. til 280.000- kr./ha. Þá bendir eignarnemi á að skv. Orðsendingu eignarnema um landbætur o.fl. nr. 14/1999 sé ræktunarhæft, óræktað land metið á 14.500- kr./ha., en þann fyrirvara verði að gera að landverð á þessum slóðum sé þó hærra miðað við fyrirliggjandi gögn.

Eignarnemi telur að miða eigi bætur við sannað tjón eignarnámsþola af eignarnáminu. Til frádráttar bótunum eigi síðan að koma hagsbætur þær sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim sem séu tilefni eignarnámsins. Þ.á.m. beri að taka mið af hagræði því sem veglagningin hefur í för með sér fyrir eignarnema, sem geri nýtingu landsins betur mögulega en áður var.

Eignarnemi vísar sérstaklega til vegalaga nr. 45/1994, einkum ákvæða í X. kafla þeirra. Ennfremur er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með síðari breytingum og til hliðsjónar ákvæðis í 24. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþoli krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta og verði eigi fallist á þá kröfu áskilur hann sér allan rétt til að leggja úrskurð matsnefndarinnar undir úrlausn dómstóla.

Verði eigi fallist á frávísunarkröfu gerir eignarnámsþoli þá kröfu að eignarnema verði gert að taka allt land eignarnámsþola á svæðinu eignarnámi og verði gert að greiða kr. 454.250.000- fyrir það, en samtals er um að ræða 79 ha. land. Verði eigi fallist á að allt landið verði tekið eignarnámi er gerð krafa til þess að eignarnema verði gert að taka 11,9 ha. eignarnámi og honum verði gert að greiða kr. 66.642.500- fyrir þá spildu. Þá gerir eignarnámsþoli kröfu um að eignarnema verði gert að greiða honum kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni.

Eignarnámsþoli kveður mikið skorta á að raunhæfar tilraunir til sátta hafi verði reyndar í málinu. Þá telur hann enga nauðsyn fyrir lögn vegarins sem mál þetta snýst um, þar sem ekki sé um almannahagsmuni að ræða heldur einstrengingslega ákvörðun Vegagerðarinnar. Eignarnámsþoli kveður umræddan veg ekki vera stofnæð og muni aldrei verða og komi til með að tengjast afnotavegi Orkuveitu Reykjavíkur, sem liggur með svokallaðri Nesjavallaæð, en sá vegur sé eingöngu ætlaður til nota fyrir Orkuveitu Reykjavíkur til þess að þjóna umræddri æð. Sá vegur sé ekki þjóðvegur og hafi ekki verið samþykktur sem almannabraut og alfarleið af núverandi landeigendum. Þá vekur eignarnámsþoli sérstaka athygli á því að eignarnám sé neyðarréttur og að ríkar ástæður þurfi að liggja að baki áður en þeim rétti sé beitt og raunhæfar viðræður átt sér stað til að freista þess að ná sáttum. Það hafi ekki verið gert í máli þessu.

Krafa eignarnámsþola tekur mið af nýlegum samningi Reykjavíkurborgar við eigendur lands í landi Reynisvatns, en Sigríður Vilhjálmsdóttir seldi þar 2 ha. spildu án gríoðurs og án bygginga fyrir 5.750.000- kr./ha. Eignarnámsþoli kveður land þetta vera sambærilegt við land það sem hér er til umfjöllunar. Eignarnemi telur veglagninguna stórlega rýra og eyðileggja landið og því sé eðlilegt að eignarnámið taki til landsins alls eða 70 ha.

Verði eigi fallist á þetta er þess krafist að auk hins 39.456 m² beltis sem fer undir hinn nýja veg, verði eignarnema gert að bæta 9.762 m² horn sem afmarkast af hinum nýja vegi og landmörkum eignarnámsþola við granna sína og hitaveituæðinni og 66.682 m² spildu sem afmarkaðst af hinu nýja vegstæði og Nesjavallaæð. Samtals er því gerð krafa um að 115.900 m² spilda verði tekin eignarnámi.

Eignarnámsþoli vísar til 72. gr. stjórnarskrárinnar og bendir á að eignarétturinn sé friðhelgur og ströng skilyrði séu sett fyrir því að eignarnám geti náð fram að ganga. Eignarnámsþoli telur ekkert tillit hafa verið tekið til hans eða hans sjónarmiða við ákvörðunina og því hafi 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo og 9. gr. sömu laga verið brotin af eignarnema.

VI. Álit matsnefndar:

Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus. Matsnefndin hefur, svo sem að framan er rakið, farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Um er að ræða óræktað, en nokkuð vel gróið land í næsta nágrenni Reykjavíkursvæðisins. Landið hefur ekki verið skipulagt sem byggingarland og ekki liggur fyrir hvort eða hvenær landið verður skipulagt til þeirra hluta. Af þessum sökum er ekki tækt að miða verðmæti landsins við lönd sem Reykjavíkurborg hefur fest kaup á á þeim svæðum (t.d. við Reynisvatn) sem þegar liggur fyrir að nýtt verða undir byggð. Allt að einu verður að líta til þess að landverð hefur verið á hraðri uppleið síðustu misserin, einkum lönd er liggja nærri þéttbýli, og nýst geta til sumardvalar og frístundaiðkunar hvers konar.

Hið eignarnumda land er nálægt höfuðborginni og því án efa eftirsóknavert af þeim sökum. Við matið verður einnig að líta til þess að vegurinn sker landið óneitanlega og takmarkar því nýtingarmöguleika þess nokkuð. Ekki er fallist á það með eignarnema að tilkoma vegarins auki verðmæti landsins með þeim hætti að draga beri þá verðmætaaukningu frá bótum. Fyrir liggur að við veglagninguna myndast annars vegar 9.762 m² skiki eða horn sunnan Nesjavallaæðar, norðan við hinn nýja veg og hins vegar 65.318 m² skiki eða landræma norðan Nesjavallaæðarinnar, sunnan hins nýja vegar. Fallist er á það með eignarnámsþola að þessar spildur verði ekki nýtanlegar í framtíðinni vegna framkvæmda eignarnámsþola og er því eignarnámsþola gert að greiða bætur fyrir þær að fullu. Samtals ber því eignarnema að greiða bætur fyrir 114.536 m² land í eigu eignarnámsþola.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera kr. 6.325.000-. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 450.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs matsmálsins fyrir nefndinni og kr. 280.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, greiði eignarnámsþola, Margréti Tryggvadóttur, kt. 010345-3759, Hvolsvegi 9, Hvolsvelli, kr. 6.325.000- í eignarnámsbætur og kr. 450.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs matsmálsins.

Þá greiði eignarnemi kr. 280.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu.

Helgi Jóhannesson hrl.

 

Vífill Oddsson, verkfr. Kristinn Gylfi Jónsson vskfr. og bóndi.

 

 

 

Mánudaginn 9. október 2000 var tekið fyrir matsmálið nr. 1/2000

Vegagerðin

gegn

Herði Jónssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni dags. 24. janúar 2000, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 3. febrúar 2000 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (eignarnemi), þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna lagningar Hafravatnsvegar um landspildu úr landi Höfða, Mosfellsbæ. Eigandi spildunnar er Hörður Jónsson, kt. 280627-3139, Bakkaflöt 12, Garðabæ (eignarnámsþoli).

Hin eignarnumda spilda er nánar tiltekið 890 m. löng og 60 m. breið og telst 53.425 m² að stærð.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 3. febrúar 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum auk þess sem matsnefndin sjálf lagði fram boðunarbréf o.fl. Þar sem eignarnámsþoli mótmælti því að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda þó matinu væri ekki lokið, var aðilum veittur frestur til 11. febrúar 2000 til framlagningar greinargerða vegna þess þáttar málsins.

Föstuaginn 11. febrúar var málið tekið fyrir. Aðilar lögðu fram greinargerðar vegna kröfu um umráðatöku. Málinu var að því búnu frestað ótiltekið.

Þriðjudaginn 15. febrúar kvað matsnefndin upp úrskurð og eru úrskurðarorðin svohljóðandi:

"Eignarnema, Vegagerðinni, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands eignarnámsþola úr landi Höfða, Mosfellsbæ, og hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið."

Mánudaginn 17. apríl var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 5. maí 2000.

Föstudaginn 5. maí var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 22. maí 2000.

Lögmaður eignarnámsþola boðaði forföll þann 22. maí 2000 og var honum því veittur viðbótarfrestur til 7. júní til framlagningar greinargerðar.

Miðvikudaginn 7. júní 2000 var málið tekið fyrir. Lögð var fram greinargerð af hálfu eignarnámsþola og málinu að því búnu frestað ótiltekið til munnlegs flutnings.

Mánudaginn 18. september 2000 var málið tekið fyrir. Fram fór munnlegur flutningur fyrir matsnefndinni og var málið að því búnu tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema hefur m.a. verið lögð fram skýrsla um mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Í henni kemur m.a. fram að tilefni eignarnámsins sé lagning 1. áfanga Hafravatsnsvegar á nýjum stað milli Langavatns og Hafravatns. 1. áfangi framkvæmdarinnar nær einungis til þess að tryggja greiðar samgöngur frá malbiksenda Hafravatnsvegar við Hofmannaflöt að malbiksenda Nesjavallavegar við Dalland. Eignarnemi bendir á að í skýrslunni komi jafnframt fram að helstu jákvæðu umhverfisáhrif framkvæmdanna séu bættar samgöngur á svæðinu og að nýja vegarstæðið sé að jafnaði fjarri sumarhúsum á svæðinu. Lagning vegarins muni auðvelda framtíðar skipulagsvinnu og gera frekari nýtingu svæðisins mögulega í framtíðinni. Neikvæð umhverfisáhrif hafa helst verið nefnd skipting landsins sem óhjákvæmilega fylgir framkvæmd af þessu tagi.

Eignarnemi kveðst hafa fundað með eignarnámsþola í því skyni að freista þess að ná samkomulagi um bætur og hafi í framhaldi af þeim fundi sett fram skriflegt tilboð um bætur upp á kr. 200.000- fyrir hvern hektara lands. Eignarnemi kveður eignarnámsþola ekki hafa talið hugmyndir eignarnema um bætur ásættanlegar, en hann (eignarnámsþoli) hafi ekki komið fram með neinar tillögur eða kröfur. Eignarnemi keðst ávallt hafa verið fús til sátta í málinu, en kveðst hafa litið svo á að með því að virða að vettugi skriflegt boð um bætur hafi eignarnámsþoli í raun hafnað tilboðinu. Af þessum sökum hefur eignarnemi nú dregið tilboð sitt til baka, enda telur hann það vera hærra en honum beri í raun skylda til að greiða og með öllu óskuldbindandi fyrir hann nú, þar sem það hafi verði sett fram í þeim tilgangi að ná sáttum í málinu, án viðurkenningar á því að það væri hið rétta verðmæti landsins.

Af hálfu eignarnema er á því byggt að umrætt land virðist ekki hafa verið nýtt á neinn hátt, hvorki til ræktunar, beitar né sumarhúsabyggðar. Nýtingarmöguleikar þess hljóti að vera takmarkaðir af ýmsum ástæðum t.d. vegna hitaveituleiðslunnar frá Nesjavöllum sem liggi um landið.

Eignarnemi bendir á að í nágrenni við hið eignarnumda land séu sumarbústaðir og megi því gera ráð fyrir að slík nýting landsins væri möguleg. Á því landi sem tekið hefur verið eignarnámi sé ekki um slíka nýtingu að ræða og ekki verði séð að slík nýting hafi verið áformuð. Eignarnemi bendir þó á að engin trjárækt hafi átt sér stað á landinu, sem gert geti sumarhúsabyggð vænlegri, og að aðgengi að spildunni sé með þeim hætti að sumarhúsabyggð þar væri einungis möguleg með því að leggja út í kostnaðarsama vegagerð.

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992-2012 sé umræddu landi ekki ætlað að vera byggingarland á skipulagstímanum og miðað við áform um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu sé ekkert sem bendi til þess að skipulögð verði byggð af einhverju tagi á þesum stað, fjarri núverandi byggð. Eignarnemi bendir ennfremur á að yrði landið skipulagt sem byggingarland, sem hann telur afar fjarlægan möguleika, þyrfti eignarnámsþoli að leggja endurgjaldslaust til sveitarfélagsins sem svarar til 1/3 af flatarmáli byggingarlóða til almenningsnota. Eignarnemi geti hins vegar ekki krafist endurgjaldslausrar afhendingar lands undir veg og taka verði þetta til athugunar við mat á bótum.

Eignarnemi hefur lagt fram ýmis gögn um verðmæti lands á þeim slóðum sem um ræðir í máli þessu. Bæði er þar um að ræða matsgerðir og afsöl, en skv. þeim virðist landverð á þessum slóðum, eftir gæðum þess, vera 70.000- kr./ha. til 280.000- kr./ha. Þá bendir eignarnemi á að skv. Orðsendingu eignarnema um landbætur o.fl. nr. 14/1999 sé ræktunarhæft, óræktað land metið á 14.500- kr./ha., en þann fyrirvara verði að gera að landverð á þessum slóðum sé þó hærra miðað við fyrirliggjandi gögn.

Eignarnemi telur að miða eigi bætur við sannað tjón eignarnámsþola af eignarnáminu. Til frádráttar bótunum eigi síðan að koma hagsbætur þær sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim sem séu tilefni eignarnámsins. Þ.á.m. beri að taka mið af hagræði því sem veglagningin hefur í för með sér fyrir eignarnema, sem geri nýtingu landsins betur mögulega en áður var.

Eignarnemi vísar sérstaklega til vegalaga nr. 45/1994, einkum ákvæða í X. kafla þeirra. Ennfremur er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með síðari breytingum og til hliðsjónar ákvæðis í 24. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

 

 

 

 

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að bætur fyrir hina eignarnumdu landspildu verði eigi ákvarðaðar lægri en kr. 30.000.000-. Að auki er gerð krafa um greiðslu kostnaðar vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni.

Eignarnámsþoli telur tilboð eignarnema um bætur upp á 200.000- kr./ha. vera fjarri lagi auk þess sem hafnað er sjónarmiðum eignarnema um að vegaframvæmdin muni hafa nokkur jákvæð áhrif á land eignarnámsþola. Eignarnámsþoli telur þvert á móti að vegurinn muni hafa í för með sér miklu meiri röskun og átroðning í framtíðinni en hann hefði óskað sér, t.d. vegna hávaða.

Eignarnámsþoli vísar til 72. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segi að fullt verð skuli koma fyrir það sem tekið er eignarnámi. Eignarétturinn sé friðhelgur og hann verði eigi af mönnum tekinn nema uppfyllt séu þau skilyrði sem stjórnarskráin setji valdhöfum.

Eignarnámsþoli kveður það engu skipta við verðmatið nú þó hann hafi ekki nýtt landið til dagsins í dag nema að litlu leyti. Það sem skipti máli séu nýtingarmöguleikar þess í framtíðinni. Eignarnemi bendir á að Reykjavíkurborg hafi skipulagt íbúðarbyggð á Grafarholti, sem síðan eigi að teygja sig í átt að Reynisvatni, sem sé örstutt frá Langavatni og hinni eignarnumdu landspildu. Eignarnemi kveður Reykjavíkurborg nýlega hafa keypt landspildur í Reynisvatnslandi, þar sem m.a. 2 ha voru keyptir fyrir 11,5 milljónir króna eða 5.750.000- kr./ha. Með vísan til þessa ætti eignarnámsþoli því að greiða u.þ.b. kr. 30.000.000- fyrir þá liðlega 5,3 ha. sem teknir hafa verið eignarnámi.

Eignarnemi kveður nauðsynlegt að líta til þess að hinn nýji vegur kljúfi land hans, sem þýði að land hans austan við veginn komi að litlu sem engu gagni.

VI. Álit matsnefndar:

Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus. Matsnefndin hefur, svo sem að framan er rakið, farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Um er að ræða óræktað, en nokkuð vel gróið land í næsta nágrenni Reykjavíkursvæðisins. Landið hefur ekki verið skipulagt sem byggingarland og ekki liggur fyrir hvort eða hvenær landið verður skipulagt til þeirra hluta. Af þessum sökum er ekki tækt að miða verðmæti landsins við lönd sem Reykjavíkurborg hefur fest kaup á á þeim svæðum (t.d. við Reynisvatn) sem þegar liggur fyrir að nýtt verða undir byggð. Allt að einu verður að líta til þess að landverð hefur verið á hraðri uppleið síðustu misserin, einkum lönd er liggja nærri þéttbýli og nýst geta til sumardvalar og frístundaiðkunar hvers konar. Fallist er á það með eignarnámsþola að það hafi ekki áhrif á verðmæti landsins þótt hann hafi ekki nýtt landið nema að litlu leyti í gegnum tíðina.

Hið eignarnumda land er nálægt höfuðborginni og því án efa eftirsóknavert af þeim sökum. Við matið verður einnig að líta til þess að vegurinn sker landið óneitanlega og takmarkar því nýtingarmöguleika þess nokkuð. Ekki er fallist á það með eignarnema að tilkoma vegarins auki verðmæti landsins með þeim hætti að draga beri þá verðmætaaukningu frá bótum.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera kr. 2.950.000-. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 450.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs matsmálsins fyrir nefndinni og kr. 280.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, greiði eignarnámsþola, Herði Jónssyni, kt. 280627-3139, kr. 2.950.000- í eignarnámsbætur og kr. 450.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs matsmálsins.

Þá greiði eignarnemi kr. 280.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu.

 

___________________________

Helgi Jóhannesson hrl.

_________________________ ____________________________

Vífill Oddsson, verkfr. Kristinn Gylfi Jónsson vskfr. og bóndi.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum