Hoppa yfir valmynd

Úrskurður í máli nr. IRR16100123

Ár 2016, 2. nóvember er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR16100123

 Kæra [A]

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

I.         Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

 Þann14. október 2016, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Agnars Þórs Guðmundssonar hdl., f.h. [A], kt. […], (hér eftir nefndur [A]) vegna þeirra ákvörðunar embættis borgarlögmanns í bréfi dags. 22. júlí 2016, að synja honum um greiðslu bóta úr slysatryggingu starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Þess er krafist að framangreind synjun verði felld úr gildi.

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga og barst innan kærufrest, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.

 

II.      Sjónarmið Þ

Í kæru kemur fram að [A] hafi lent í vinnuslysi sem hann varð fyrir við starfa sinn fyrir Reykjavíkurborg þann 13. janúar 2013.  Slysið hafi verið tilkynnt til borgarinnar og liggur fyrir staðfesting starfsmanns að sú tilkynning hafi borist og slyslið skráð.

Í grein 10 – 3.6. í reglum nr. 1/90 um skilmála slysatryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar skv. kjarasamningum, kemur eftirfarandi fram:

Örorka ákveðst í fyrsta lagi einu ári eftir slysið. Telji slasaði eða Reykjavíkurborg að örorkan geti breyst getur hvor aðili um sig krafist þess að endanlegu örorkumati verði frestað, þó ekki lengur en þrjú ár frá slysadegi.

Þá segir í kæru að þar sem fyrirsjáanlegt hafi verið að ekki tækist að klára málið fyrir 13. janúar 2016, hafi þess verið farið á leit við embætti Borgarlögmanns að Reykjavíkurborg bæri ekki fyrir sig hina svokölluðu þriggja ára reglu, sbr. framangreint, eins og venja sé þegar fyrirséð er að ekki takist að láta meta afleiðingar slyss áður inna þriggja ára frestsins.  Embætti borgarlögmanns hafi svarað erindinu í tölvupósti, þar sem sagði:

Sæll, í ljósi þess að matsvinna er hafin munum við fallast á frest í málinu en leggjum áherslu á að sú vinna klárist sem fyrst.

Í kæru kemur fram að matsgerð hafi legið fyrir þann 20. apríl 2016 og hafi í kjölfarið verið yfirfarin og send embætti borgarlögmanns þann 6. júlí s.á. Með bréfi, dags. 12. júlí 2016, synjaði embætti borgarlögmanns beiðni [A] um uppgjör úr slysatryggingu starfsmanna Reykjavíkurborgar, með þeim rökum að matsgerðin hafi verið móttekin af hálfu [A] þann 20. apríl 2016, en ekki verið send embætti borgarlögmanns fyrr en 6. júlí s.á.  Í kjölfarið á þessari synjun var af hálfu [A] haft samband við embætti borgarlögmanns og málið skýrt út og bent á búið hefði verið að veita frest frá þriggja ára reglunni.  Með bréfi frá embætti borgarlögmanns til lögmanns [A], dags 22. júlí 2016, var upplýst að fyrri niðurstaða embættisins á höfnun greiðslu stæði óhögguð, og er það hin kærða ákvörðun.

 

III.    Niðurstaða ráðuneytisins

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga  Í ákvæðinu segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Einungis ákvarðanir sem sveitarfélag tekur í skjóli stjórnsýslulegs valds eru kæranlegar til ráðuneytisins.

Ágreiningsefni það sem [A] hefur borið undir ráðuneytið er einkaréttarlegur ágreiningur sem varðar synjun á bótagreiðslum á grundvelli reglna um skilmála slysatryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar, vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi.  Um er að ræða einkaréttarlegan ágreinings sem fellur hvorki undir gildissvið stjórnsýslulaga né ákvæði sveitarstjórnarlaga. Einungis ákvarðanir sem sveitarfélag tekur í skjóli stjórnsýslulegs valds eru kæranlegar til ráðuneytisins. Ágreiningsefni þessa máls fellur ekki þar undir.

Með vísun til framangreinds er óhjákvæmilegt annað en að vísa kæru þessari frá ráðuneytinu.

 

Úrskurðarorð

Kæru  [A] vegna þeirra ákvörðunar embættis borgarlögmanns að synja um greiðslu á bótum úr slysatryggingu starfsmanna Reykjavíkurborgar til handa [A] er vísað frá.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum