Hoppa yfir valmynd

Ógilding áminningar til rekstrarleyfishafa

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007 var í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2007, sem móttekið var af ráðuneytinu 15. ágúst 2007, kærði A (hér eftir kærandi) ákvörðun Lyfjastofnunar (hér eftir kærði) dags. 27. júlí 2007 um veitingu áminningar.

Kæran var send kærða til umsagnar með bréfi dags. 16. ágúst 2007. Athugasemdir hans, dags. 13. september 2007, voru sendar kæranda til umsagnar með bréfi dags. 22. september 2007. Athugasemdir kæranda, dags. 30. september 2007, þar sem ítrekuð voru fyrri kæruatriði bárust ráðuneytinu 1. október 2007. Með bréfi, dags. 29. október 2007, og tölvupósti, dags. 19. nóvember 2007, var kæranda tilkynnt að uppkvaðning úrskurðar myndi dragast.

1. Málavextir.

Forsaga máls þessa er skyndiúttekt kærða í lyfjabúð kæranda þann 26. mars 2007. Viðstaddir skyndiúttektina var kærandi og þáverandi lyfsöluleyfishafi. Kærði ritar kæranda bréf þann 29. mars 2007, í kjölfar úttektarinnar þar sem fram kemur að í úttektinni hafi komið í ljós að utanumhald og skráning eftirritunarskyldra lyfja í lyfjabúðinni sé verulega ábótavant. Mikið skorti á að skráðar birgðir í skráningarbók væru í samræmi við þær birgðir sem til voru. Þá hafi komið fram í úttekt að upplýsingar væru ekki færðar inn á birgðablöð jafnóðum við afgreiðslu lyfjanna heldur eftir hendinni eftir á. Hafi því m.a. verið borið við að ekki væri nægur mannskapur til að skrá upplýsingarnar inn á birgðablöðin samtímis afgreiðslu lyfjanna. Þá er gerð grein fyrir efni 56. gr. reglugerðar nr. 426/1997 um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir varðandi skyldu til færslu skráa í lyfjabúðum. Þar komi m.a. fram að halda skuli eftirritunarskrá, dagbók yfir eftirritunarskylda lyfseðla og að um hver mánaðamót skuli fara fram uppgjör eftirritunarskyldra lyfja og lyfjafræðingur kvitta fyrir uppgjörinu. Beri birgðum og birgðaskrá ekki saman skuli leitað skýringa og Lyfjastofnun tilkynnt um misræmi. Einnig kemur fram að við úttektina hafi kærði óskað eftir skýringum á misræmi skráðra birgða en engar haldbærar skýringar hafi fengist. Að lokum mælist stofnunin til þess að gripið verði til tiltekinna atriða og óskað eftir staðfestingu á því að við hafi verið brugðist svo ekki komi til stöðvunar á starfsemi kæranda. Þá er vakin athygli á þeim úrræðum sem kærði hefur samkvæmt 47. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með síðari breytingum, til að knýja á um úrbætur, framkvæmd ráðstöfunar eða vegna brota á lögunum.

Þessi tilmæli voru ítrekuð með bréfi kærða þann 8. júní 2007 og vakin athygli á því að upplýsingar hefðu ekki borist vegna misræmis í birgðum og skráningu birgða. Sú ábending var ítekuð með bréfi kærða 16. maí 2007. Þann 27. júlí 2007, veitti kærði kæranda áminningu á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 47. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með síðari breytingum. Í bréfinu er vísað til skyndiúttektarinnar í lyfjabúð kæranda 26. mars 2007 sem fram hafi farið í kjölfar ábendinga sem kærða höfðu borist um óeðlilega mikla afgreiðslu eftirritunarskyldra lyfja úr lyfjabúðinni til nokkurra einstaklinga. Þá kemur fram að lyfsöluleyfishafi hafi ekki gefið fullnægjandi skýringar á misræmi í birgðum eftirritunarskyldra lyfja, upplýsingar hafi ekki borist né ásættanlegar skýringar. Að lokum er í bréfinu vakin athygli á því að áminning geti verið undanfari leyfissviptingar sé brot ítrekað skv. 2. mgr. 47. gr. lyfjalaga.

Með bréfi, dags. 8. ágúst 2007, sendi kærandi kærða bréf sem að mati kæranda innihalda svör við þeim atriðum sem kærði hafi óskað eftir í bréfi til kæranda 29. mars 2007, í kjölfar skyndiúttektar í starfstöð kæranda, bréfi dags. 8. júní 2007, og í bréfi, dags. 27. júlí 2007, þar sem áminning var veitt.

2. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru sinni til ráðuneytisins er farið fram á það að áminningin frá 27. júlí 2007 verði felld niður. Vísar kærandi til bréfs síns dags. 8. ágúst 2007 sem ritað var kærða eftir að hin kærða áminning var veitt. Þar komi fram að öllum ábendingum og fyrirspurnum kærða hafi verið sinnt og svarað án nokkurra tafa eða undanbragða strax frá því skyndiúttektin hafi verið gerð en um það segir í kærunni:

Eins og fram kemur í svari undirritaðs f.h. rekstrarleyfishafa dags. 8. ágúst 2007 (sjá fylgirit) til Lyfjastofnunar, þá hefur öllum ábendingum og fyrirspurnum stofnunarinnar verið sinnt og svarað án nokkurra tafa eða undanbragða strax frá því skyndiúttekin var gerð. [...] Í svari undirritaðs f.h. rekstrarleyfishafa til Lyfjastofnunar 8.8.2007, kemur fram að um misskilning hefur verið að ræða á eðli svars við einni kröfu Lyfjastofnunar og taldi rekstrarleyfishafi að með bréfi fráfarandi leyfishafa, dagsettu 17. maí 2007, hefðu komið fram skýringar leyfishafa sem nægðu. Úr þessu hefur nú verið bætt og má sjá að svörin hafa legið fyrir allt frá því að úttektin fór fram, en niðurstöður ekki sendar, vegna misskilnings. Rekstrarleyfishafa er fullkomlega ljós alvara málsins og ítrekað sent út leiðbeiningar og athugasemdir til allra lyfsöluleyfishafa sinna vegna umsýslu eftirritunarskyldra lyfja í framhaldi þessa atburðar.”

Þá segir í kærunni að fram hafi komið í símtali við starfsmann kærða 8. ágúst 2007 „...að áminningin hefði verið veitt vegna skorts á skýringum misræmis við talningu eftirritunarskyldra lyfja í apótekinu við skyndiúttektina.“

Jafnframt segir í kærunni:

„Í svari undirritaðs f.h. rekstrarleyfishafa til Lyfjastofnunar 8.8.2007, kemur fram að um misskilning hefur verið að ræða á eðli svars við einni kröfu Lyfjastofnunar og taldi rekstrarleyfishafi að með bréfi fráfarandi leyfishafa, dagsettu 17. maí 2007, hefðu komið fram skýringar leyfishafa sem nægðu. Úr þessu hefur nú verið bætt og má sjá að svörin hafa legið fyrir allt frá því að úttektin fór fram, en niðurstöður ekki sendar, vegna misskilnings. Rekstrarleyfishafa er fullkomlega ljós alvara málsins og hefur ítrekað sent út leiðbeiningar og athugasemdir til allra lyfsöluleyfishafa sinna vegna umsýslu eftirritunarskyldra lyfja í framhaldi þessa atburðar.“

3. Málsástæður og lagarök kærða.

Í umsögn kærða til ráðuneytisins, dags. 13. september 2007, kemur fram að tildrög málsins séu skyndiúttekt í lyfjabúð kæranda þann 26. mars 2007. Í úttekt hafi komið í ljós að meðhöndlun og afgreiðsla eftirritunarskyldra lyfja hafi verið verulega ábótavant. Í stjórnsýslukæru sé gerð sú krafa að ráðuneytið hlutist til um að áminningin verði felld niður. Byggir kærandi einkum á því að öllum ábendingum og fyrirspurnum Lyfjastofnunar hafi verið svarað án nokkurra tafa eða undanbragða strax frá því skyndiúttektin var gerð. Þá sé byggt á því að um misskilning hafi verið að ræða á eðli svars við einni kröfu kærða en úr því hafi verið bætt og megi sjá að svör hafi legið fyrir allt frá því úttektin fór fram, en niðurstöður ekki sendar, vegna misskilnings.

Í umsögn kærða segir:

„Áminning byggði einkum á því að meðhöndlun og afgreiðsla eftirritunarskyldra lyfja í lyfjabúðinni var ámælisverð en einnig á því að ekki hafði verið brugðist nægjanlega við í kjölfar úttektar, þar sem skýringar voru ýmist óásættanlegar eða skýringar voru ekki veittar í tíma. Rekstrarleyfishafi hefur hlutast til um úrbætur í starfsemi sinni og nú greint Lyfjastofnun frá þeim sbr. bréf hans frá 8. ágúst s.l., í kjölfar áminningar. Ber rekstrarleyfishafi ábyrgð á rekstri og starfsemi þeirra lyfjabúða, sem hann rekur eins og greinir í 2. mgr. 21. gr. lyfjalaga og getur þurft að sæta viðurlögum eftir ákvæðum laganna.

Lyfjastofnun telur ekki efni til að fella niður áminningu rekstraleyfishafa vegna þeirrar vanrækslu í starfsemi lyfjabúðarinnar sem átti sér stað.“

4. Niðurstaða ráðuneytisins.

Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að því hvort fella beri úr gildi áminningu kærða gagnvart kæranda sem veitt var 27. júlí 2007.

Í 20. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með síðar breytingum er fjallað um skilyrði við veitingu lyfsöluleyfis og í 21. gr. laganna er m.a. fjallað um ábyrgð lyfsöluleyfishafa en 1. málsl. 1. mgr. 21. gr. hljóðar svo: „Hvert lyfsöluleyfi takmarkast við rekstur einnar lyfjabúðar og ber lyfsöluleyfishafi sjálfur faglega ábyrgð á rekstri lyfjabúðarinnar.“

21. gr. lyfjalaga var breytt með 2. gr. laga nr. 63/2002 um breytingar á lyfjalögum vegna þeirra breytinga sem þá höfðu orðið á rekstrarformi lyfjabúða. Í 2. málsl. 2. mgr. 21. gr. er nú kveðið á um að sé rekstraraðili annar en lyfsöluleyfishafi þurfi sérstakt leyfi til rekstursins og að bæði lyfsöluleyfishafi og rekstrarleyfishafi séu ábyrgir fyrir því að farið sé að lögunum. Um ábyrgð rekstrarleyfishafa segir: „Leyfishafi rekstrarleyfis er ásamt lyfsöluleyfishafa ábyrgður fyrir því að farið sé að lögum þessum.“

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 63/2002 segir um þessa breytingu:

„Þá hefur rekstrarform lyfjabúða breyst. Í stað einstakra lyfjabúða áður er nú meginreglan sú að margar lyfjabúðir eru reknar saman af einum aðila. Er talið nauðsynlegt að mæla skýrt fyrir um að þessir aðilar beri ábyrgð samkvæmt lyfjalögum og að þeir afli sér leyfis til starfseminnar, sbr. 2. gr. frumvarpsins.“

Í athugasemdum með 2. gr. frumvarpsins segir:

Í ákvæðinu er lagt til að aðilar sem sjá um rekstur lyfjabúða en eru ekki lyfsöluleyfishafar afli sér leyfis ráðherra til að mega starfa á þessu sviði og að þeim beri að fara að ákvæðum lyfjalaga. Eins og fram kemur í greinargerð hér að framan er rekstrarform lyfjabúða nú almennt breytt. Eru flestar lyfjabúðir annaðhvort reknar í félagi eða reknar margar saman af einum aðila. Í þeim tilvikum er kominn nýr aðili til skjalanna sem ekki er minnst á í lyfjalögum og því óljóst hver ábyrgð hans er.

Lyfsöluleyfishafi ber faglega ábyrgð á rekstri lyfjabúðarinnar skv. 21. gr. lyfjalaga. Hins vegar geta verið ýmis atriði sem varða reksturinn þar sem lyfsöluleyfishafi verður að lúta fyrirmælum rekstraraðila eða þeir ákveða í sameiningu, til dæmis hve fjölmennt starfslið lyfjabúðarinnar eigi að vera. Ljóst er að í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að báðir aðilar beri skyldur samkvæmt lyfjalögum en ekki einungis lyfsöluleyfishafi.

Er því lagt til að í 21. gr. lyfjalaga verði kveðið á um að aðilar sem vilja reka lyfjabúðir og eru ekki lyfsöluleyfishafar sæki um leyfi til ráðherra og að þeir séu ásamt lyfsöluleyfishafa ábyrgir fyrir því að farið sé að ákvæðum laganna.“

Í nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis um frumvarpið kemur fram að tryggja verði að rekstraraðili beri fulla ábyrgð á rekstri sínum. Í breytingunni felist því að þegar svo hátti til að rekstraraðili sé annar en lyfsöluleyfishafi, þurfi tvö leyfi, annars vegar rekstrarleyfi rekstraraðila og hins vegar lyfsöluleyfi þess sem beri faglega ábyrgð. Þá tekur nefndin fram að þótt rekstraraðili reki margar lyfjabúðir þurfi aðeins eitt rekstrarleyfi.

Ljóst er af framangreindu að þegar lögum var breytt í þá veru að til urðu sérstakir rekstarleyfishafar að lyfjabúðum var á það lögð rík áhersla að tryggja í slíkum tilvikum að rekstarleyfishafi beri skyldur og á honum hvíli ábyrgð ekki síður en á lyfsöluleyfishafa. Mörkin milli ábyrgðar þessara tveggja aðila kunna að vera óljós og skarast í einhverjum tilvikum og því þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig. Álykta verður sem svo að rekstarleyfishafi þurfi m. a. að tryggja að í þeim lyfjabúðum sem undir hans rekstrarleyfi falla sé til staðar vinnulag og verkferlar sem tryggi að farið sé að lögum og reglum er gilda um starfsemi lyfjabúða, afgreiðslu og meðferð lyfja. Að öðrum kosti verður ekki séð að rekstrarleyfishafinn geti axlað þá lagalegu ábyrgð sem á honum hvílir um að tryggja að farið sé að ákvæðum lyfjalaga og rakin er hér að framan.

Í 47. gr. lyfjalaga er kveðið á um eftirlitshlutverk Lyfjastofnunar og þau þvingunarúrræði sem stofnunin hefur til að knýja á um úrbætur og framkvæmd ráðstöfunar eða vegna brota á lögunum. Eitt af þeim úrræðum er beiting áminningar. Áminning er sérstök stjórnvaldsákvörðun og um hana fer því samkvæmt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Áminning er einnig íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem felur í sér viðvörun um að ítrekun kunni að leiða til frekari aðgerða af hálfu stjórnvalda, t.d. leyfissviptingar. Vegna þessa eðlis áminningar hvílir rík skylda á því stjórnvaldi sem henni beitir að vanda málsmeðferð í hvívetna. Gera verður þær kröfur til þess stjórnvalds er áminningu beitir að aðila sé tilkynnt með tryggilegum og skýrum hætti að fyrirhuguð ákvörðun sé áminning. Þá er einnig brýnt að afmarka það hvaða hegðun eða atvik séu til athugunar hjá stjórnvaldinu og að þessi tiltekna hegðun eða atvik séu til athugunar með tilliti til þess hvort rétt sé að beita áminningu. Aðila á að gefa kost á að tjá sig um fyrirhugaða áminningu og aðstæður að baki henni. Að öðrum kosti getur aðili ekki gætt lögmætra hagsmuna sinna.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggja fyrir bréfaskipti kæranda og kærða sem að mati ráðuneytisins er nauðsynlegt að rekja með ítarlegum hætti. Málið á sér nokkurn aðdraganda og hefst með skyndiúttekt kærða í starfsstöð kæranda þann 26. mars 2007 vegna ábendinga um að þar hafi ekki verið réttilega staðið að afgreiðslu og skráningu eftirritunarskyldra lyfja. Í kjölfarið ritar kærði kæranda bréf 29. mars 2007 þar sem segir m.a.:

„Lyfjastofnun mælist til þess að til eftirfarandi aðgerða verði gripið þegar í stað:

Að birgðabókhaldi eftirritunarskyldra lyfja verði þegar í stað komið í lag og allt misræmi við leiðréttingu á birgðum skráð.

Að leitað verði skýringa á misræminu, skýrsla gerð um niðurstöðuna og hún send Lyfjastofnun.

Að skráningu á birgðum og afhendingu á eftirritunarskyldum lyfjum verði þegar í stað komið í lag þ.e. skráð verði inn á birgðablöðin afgreiðsla umræddra lyfja samtímis afgreiðslu, ekki eftir á.

Að eigi sjaldnar en mánaðarlega verði gerð talning og uppgjör á eftirritunarskyldum lyfjum og kvittað fyrir af lyfjafræðingi.

Að nægur mannskapur sé ávallt að störfum í lyfjabúðinni svo lyfjabúðin geti uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru varðandi starfsemi lyfjabúða s.s. við afgreiðslu eftirritunarskyldra lyfja.“

Síðan segir:

„Lyfjastofnun óskar eftir staðfestingu á því að orðið hafi verið við ofangreindum kröfum eigi síðar en 4. apríl n.k. svo ekki komi til stöðvunar á starfsemi skv. 4. tl. 1. mgr. 47. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Vakin er athygli á því að samkvæmt 47. gr. lyfjalaga getur Lyfjastofnun beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstafana eða vegna brota á lögum þessum:

  1. veitt áminningu,
  2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
  3. ákveðið dagsektir,
  4. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, m.a. lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra.

Frestur til athugasemda og andmæla skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er veittur til 3. apríl 2006.“

Kærði ítrekar beiðni sína um umbeðin gögn með bréfi 16. maí 2007 og 8. júní 2007. Í bréfinu frá 16. maí segir m.a.:

„Lyfjastofnun barst bréf frá fulltrúa A dags. 4. apríl 2007 þar sem verið er að svara bréfi stofnunarinnar frá 29. mars 2007. Þar kemur fram að búið sé að stilla af stöðu eftirritunarskyldra lyfja í lyfjabúðunum B og C, einnig muni skýringa vera leitað vegna þessa misræmis sem Lyfjastofnun gerði athugasemdir við í ofangreindu bréfi og stofnuninni send skýrsla í viku 15 að því loknu.

Lyfjastofnun bendir á að ofangreindur skilafrestur er löngu útrunninn og ítrekar svar við athugasemdum sem gerðar voru í bréfi 29. mars 2007.“

Í bréfinu frá 8. júní 2007 eru ítrekuð fyrirmæli stofnunarinnar sem fram komu í bréfi hennar 29. mars 2007 og rakin eru hér ofar. Síðan segir:

Ekki hefur verið brugðist við öllum ofangreindum athugasemdum, og skýrsla er útskýrir misræmi í birgðaskráningu eftirritunarskyldra lyfja hefur ekki borist Lyfjastofnun, þó svo að slíkt hafi verið boðað í bréfi rekstrarleyfishafa frá 4. apríl sl. Eins og að framan greinir hefur því verið borið við að mönnun lyfjabúðar væri ónóg, sem m.a. hefði orðið þess valdandi að skráning eftirritunarskyldra lyfja væri ábótavant. Engar upplýsingar hafa borist Lyfjastofnun um að úr mönnun lyfjabúðarinnar hafi verið bætt til að sinna þessum þætti.“

Síðar segir:

„Lyfjastofnun telur margt í starfsemi lyfjabúðarinnar og lítur að afgreiðslu eftirritunarskyldra lyfja vera mjög ámælisvert enda um að ræða ávana- og fíknilyf, sem vegna eiginleika sinna geta haft sérstaka hættu á misnotkun í för með sér. Má ljóst vera að úrbóta er þörf í lyfjabúðinni.

Athugasemdir skulu vera skriflegar og sendar Lyfjastofnun innan mánaðar frá móttöku eftirlitsgerðarinnar.

Frestur til andmæla skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er veittur til 25. júní 2007.“

Loks eru úrræði stofnunarinnar samkvæmt lyfjalögum talin upp líkt og í bréfinu frá 29. mars 2007 og gerð er grein fyrir hér framar.

Áminningin er veitt kæranda 27. júlí 2007.

Þar segir m.a.:

„Lyfsöluleyfishafi hefur, að mati stofnunarinnar, ekki gefið fullnægjandi skýringar á misræmi í birgðum eftirritunarskyldra lyfja. Þá hafa upplýsingar sem stofnunin óskaði eftir og voru ítrekaðar í bréfi dags. 16. maí og 8. júní sl. ekki borist né heldur ásættanleg skýring á því í úttekt hvers vegna ekki var haft samband við Lyfjastofnun eða landlækni vegna ávísunar á mjög óeðlilega mikið magn eftirritunarskyldra lyfja til nokkurra einstaklinga af sama lækninum og afgreiddir frá lyfjabúðinni. Lyfjastofnun telur margt í starfsemi lyfjabúðarinnar og lítur að afgreiðslu eftirritunarskyldra lyfja vera mjög ámælisvert enda um að ræða ávana- og fíknilyf, sem vegna eiginleika sinna geta haft sérstaka hættu á misnotkun í för með sér.

Lyfjastofnun hefur því ákveðið með hliðsjón af ofangreindu að veita rekstrarleyfishafa A, áminningu skv. 1. tl. 1. mgr. 47. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Vakin er athygli á því að áminning getur verið undanfari leyfissviptingar sé brot ítrekað skv. 2. mgr. 47. gr. lyfjalaga.“

Af bréfinu verður ráðið að áminningin er einkum rökstudd með því að umbeðnar upplýsingar hafi ekki borist og ekki hafi verið gefnar fullnægjandi skýringar á misræmi í birgðum eftirritunarskyldra lyfja.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið um eðli og réttaráhrif áminningar er það niðurstaða ráðuneytisins að ekkert þeirra bréfa sem kærði ritaði kæranda við meðferð málsins uppfylli framangreind skilyrði um tilkynningu til aðila um að áminning sé fyrirhuguð og að tiltekin atriði séu lögð fyrirhugaðri áminningu til grundvallar. Ráðuneytið ítrekar að áminning er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og við hana eru bundin sérstök réttaráhrif því ítrekun kann að leiða til frekari aðgerða af hálfu viðkomandi stjórnvalds. Upptalning á þeim úrræðum sem stofnunin getur gripið til lögum samkvæmt án þess að það sé tilgreint nánar hvaða úrræði standi til að beita er ekki fullnægjandi. Brýnt er að aðila sé kynnt með óyggjandi hætti að til standi að beita áminningu og af hverju, þ.e. hvaða atriði það eru sem liggja áminningunni til grundvallar. Ráðuneytið vill af þessu tilefni taka fram að athugasemdir kæranda vegna skýringa á misræmi í færslu skráa í lyfjabúðinni verður ekki jafnað saman við andmæli vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um beitingu áminningar enda er hún sérstök stjórnvaldsákvörðun.

Það er því niðurstaða ráðuneytisins að áminning kærða frá 27. júlí 2007 sé haldin slíkum annmörkum að hana beri að ógilda.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu um ógildingu áminningar kærða frá 27. júlí 2007 telur ráðuneytið ekki þörf á að taka efnislega afstöðu til þess mats kærða að leggja faglega ábyrgð lyfsöluleyfishafa og rekstrarlega ábyrgð rekstrarleyfishafa að jöfnu að öðru leyti en að framan greinir um mörk faglegrar og rekstrarlegrar ábyrgðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun kærða um að veita kæranda áminningu með bréfi dags. 27. júlí 2007 er felld úr gildi. Lagt er fyrir kærða að haga meðferð hliðstæðra mála hjá stofnuninni í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þau sjónarmið sem fram koma í úrskurði þessum.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum