Hoppa yfir valmynd

Sagafilm ehf. vegna synjunar nefndar um tímabundna endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar "Kórar Íslands"

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur 12. desember 2017 kveðið upp svohljóðandi:

ÚRSKURÐ

Með stjórnsýslukæru 16. október 2017 kærði Hilmar Sigurðsson, fyrir hönd Sagafilm ehf. (hér eftir kærandi) ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar (hér eftir nefndin) dags. 12. október 2017 um að hafna umsókn um endurgreiðslu.

Kæranda er heimilt að kæra ákvörðun nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, til ráðuneytis ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðerra, skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæran barst innan kærufrests sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 43/1999. 

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Hinn 15. ágúst 2017 sótti kærandi um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar vegna verkefnisins Kórar Íslands. Umsókn kæranda var hafnað með stjórnvaldsákvörðun 12. október 2017. Kærandi kærði þá ákvörðun til ráðuneytisins 16. október 2017. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn nefndarinnar sem barst 20. nóvember 2017. Hinn 23. nóvember 2017 barst ráðuneytinu athugasemdir kæranda við umsögn nefndarinnar. Ekki bárust frekari gögn í málinu og því er málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsástæður og lagarök

Í máli þessu er um að ræða umsókn um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar vegna verkefnis sem nefnist Kórar Íslands sem felur í sér framleiðslu á átta þáttum í beinni útsendingu, hver um 60 til 75 mínútur að lengd. Í þáttunum komu fram 20 kórar af öllum gerðum hvaðan að af landinu og fluttu íslensk og erlend sönglög. Kórarnir sungu til að keppa um hylli dómnefndar og áhorfenda í sal og áhorfenda heima í stofu. Dómnefnd var skipuð sérfræðingum á viðkomandi sviði. Á Íslandi eru starfandi yfir 200 kórar og með þáttunum var sú hugmynd að veita innsýn í það fjölbreytta menningarstarf sem kórarnir inna af hendi. Þáttaröðinni var skipt í þrjá hluta. Í hluta eitt, þættir eitt til fimm, komu fjórir kórar fram í hverjum þætti og tveir af þeim komust áfram í undanúrslit. Í hluta tvö, þættir sex og sjö, komu fram fimm kórar og úr hvorum þætti héldu tveir kórar áfram í lokaþáttinn. Í þriðja hluta, úrslitaþátturinn, sungu fjórir kórar til úrslita. Dómnefnd og áhorfendur völdu hvaða kórar kæmust áfram í hverjum þætti. 

Hver kór var kynntur í sérstöku forunnu innslagi, uppruni hans, samsetning, lagaval og fleira. Inn á milli atriða ræddi stjórnandi/kynnir þáttarins við dómnefnd og aðra aðila sem útskýrði ýmis tónlistarleg hugtök. Heimabær eða heimasveit kóranna fékk svo umfjöllun og kynningu eins og efni stóðu til.

Kærandi sótti um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á grundvelli laga nr. 43/1999, laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, ásamt síðari breytingum. Nefndin hafnaði umsókn kæranda vegna framleiðslu sjónvarpsþáttanna Kórar Íslands á grundvelli þess að sjónvarpsþættirnir uppfylltu ekki lágmarksviðmið sem sett eru í 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. 

Skilyrði endurgreiðslu samkvæmt fyrrgreindri reglugerð er að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu og listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa. Við mat á því hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt skal byggja á verkefnamati sem skiptist í menningar- og framleiðsluhluta. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að í menningarhlutanum séu gefin stig fyrir ákveðna hluti, verkefnismatið skiptist í átta liði og gefur hver liður 2 stig sé hann uppfylltur að fullu en 1 stig sé hann uppfylltur að hluta.

Í 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að framleiðslan skuli að lágmarki ná samtals 4 stigum úr menningarhlutanum. Ráðuneytið hefur gefið út lýsingu á stigagjöf á verkefnamatinu vegna kvikmyndagerðar sem nefndin starfar eftir, svokallað leiðbeiningarblað. Því er ætlað að aðstoða umsækjendur og nefndina sjálfa til að sjá hvort verkefni uppfylli skilyrði laganna og reglugerðarinnar. Blaðið er aðeins til leiðbeiningar. Lögin og reglugerðin ráða ávallt úrslitum ef texti stangast á eða er óljós. 

Heildarmat nefndarinnar á verkefni kæranda Kórar Íslands fyrir menningarhluta framleiðslunnar var samtals 3 stig. Á þeim grundvelli var umsókn kæranda hafnað. Við skýringu á stigagjöf verkefnismatsins vísar nefndin sérstaklega til lýsingar á stigagjöf verkefnamatsins, leiðbeiningarblaðsins. 

Kærandi lítur á að með niðurstöðu sinni sé nefndin að lýsa því yfir að kórsöngur íslenskra kóra sé ekki íslensk menning. Telur kærandi að í úrskurði nefndarinnar séu alvarlegir ágallar á skilningi á bæði lögum nr. 43/1999 og að nefndin túlki reglugerð nr. 450/2017 mjög þröngt og virðist rökstuðningur nefndarinnar vera byggður á röngum forsendum sem nefndin gefur sér. Eftir athugasemdir nefndarinnar þá telur kærandi að verkefnið nái alls 12 stigum úr menningarhlutanum. 

Niðurstaða

Hér að neðan mun ráðuneytið fara yfir hvern lið verkefnismatsins í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017 með hliðsjón af verkefninu Kórar Íslands, þ.e. hvort verkefnið uppfylli menningarhluta endurgreiðslukerfisins. 

a. Söguþráður, viðfangsefni eða meginþema kvikmyndar eða sjónvarpsefnis byggir á atburðum sem eru hluti af íslenskri eða evrópskri menningu, sögu, þjóðararfi eða trúarbrögðum.

Í umsókn kæranda kemur fram að í þáttunum muni 20 kórar hvaðan af landinu flytja íslensk og erlend sönglög og keppa um hylli áhorfenda og dómnefndar sem skipuð er valinkunnu tónlistarfólki. Áhorfendur kynnast umhverfi kóranna, kórunum sjálfum, uppruni kóraranna er rakin, samsetning kórsins, lagavali og farið á heimaslóðir ásamt því að tekin eru viðtöl og farið yfir störf þeirra. Inn á milli atriða ræðir stjórnandi við dómnefnd sem útskýrir ýmis tónlistarleg hugtök.

Ráðuneytið verður að fallast á túlkun nefndarinnar hvað þennan lið varðar enda verður lýsing á þáttunum ekki skilin sem svo að um sé að ræða viðfangsefni sem byggi á atburðum í skilningi a. liðar 3. mgr. 3. gr. enda er ekki að sjá að um neina sérstaka atburði sé að ræða sem eru hluti af íslenskri eða evrópskri menningu, sögu, þjóðararfi eða trúarbrögðum. 

b. Framleiðslan byggir á sögupersónu eða einstaklingi úr íslenskum eða evrópskum menningararfi, sögu, samfélagi eða trúarbrögðum.

Kærandi byggir umsókn sína á því að kórar á Íslandi sé órjúfanlegur hluti af íslenskum menningararfi. Söngur hafi fylgt íslenskri menningu frá örófi alda. Í þáttunum verði fjallað um frumkvöðla í íslensku tónlistarlífi, með áherslu á kórastarf. Kórar Íslands séu undir stjórn kórstjóra sem segja sögur af sínum kórum í þáttaröðinni. Kórstjórar og kórmeðlimir séu einstaklingar sem hafa áhrif á menningu í landinu. Ráðuneytið túlkar ákvæði, á sama hátt og nefndin, með þeim hætti að verið sé að vísa til tiltekins einstaklings eða sögupersónu sem sótt er úr íslenskum eða evrópskum menningararfi, sögu, samfélagi eða trúarbrögðum. Það er ekki um að ræða hér. 

c. Söguþráður tengist íslenskum eða evrópskum stað eða staðháttum, umhverfi, eða menningarlegu sögusviði.

Óumdeilt er að söguþráður verkefnisins tengist íslensku menningarlegu sögusviði á Íslandi eða Evrópu. Kórastarf á Íslandi felur í sér það menningarlega sögusvið sem c. liður tekur til. Kærandi og nefndin eru á einu máli um að kærandi eigi að fá 2 stig úr þessum hluta verkefnismatsins og ráðuneytið tekur undir það. 

d. Söguþráður, handrit eða viðfangsefni byggir á bókmenntaverki eða er sótt til annarrar listgreinar (t.d. myndlistar, tónlistar) sem hefur menningarlegt vægi.

Við túlkun nefndarinnar á fyrrgreindum d. lið þá tekur hún fram að það verði að líta til orðalags þess liðar í heild. Við mat á stigagjöf verður að líta til þess að sú framleiðsla sem felst í þáttunum sem um ræðir byggist augljóslega ekki á bókmenntaverki og þó kórar þeir sem taka lagið í þáttunum muni syngja sönglög af ýmsu tagi þá getur það að flytja slík höfundaverk einn eitt og sér ekki falið í sér söguþráð, handrit eða viðfangsefni sem sótt er til annarrar listgreinar. Nefndin bendir á að stigagjöfin fyrir skilyrðið taki mið af því hvort handrit eða efnistök byggi á höfundarverki úr annarri listgrein. 

Kærandi bendir hins vegar á að verkefnið byggi á aldagamalli tónlistar- og sönghefð. Nefndin gæti alveg eins sagt að kórsöngur sé ekki tónlist til að réttlæta að þessi hluti fái ekki stig hjá nefndinni. Kærandi bendir á að það sé sérstakt fræðsluhorn um tónlist í þáttunum og að viðfangsefnið sæki til tónlistar sem hafi menningarlegt vægi. Það þurfi ekki að vera sambærilegt við bókmenntaverk. Af eðlilegum lestri á d. liðnum þá sé ljóst að listgreinin þurfi að hafa menningarlegt vægi, án þess að sérstakur samanburður við bókmenntaverk eigi að eiga sér stað. 

Við túlkun á þessum lið verður að líta svo á að til þess að fá stig þá verði viðfangsefni að byggja á höfundarverki úr meðal annars tónlist. Hvort almennur flutningur tónlistar af hálfu kóra á lögum í sjónvarpssal uppfylli skilyrði d. liðar er hins vegar annað mál. Ráðuneytið fellst á rökstuðning nefndarinnar að tónlistarflutningur af kórum með fræðslu uppfylli ekki skilyrði d. liðar enda er viðfangsefnið of almennt og ekki að sjá að efnistökin byggi á höfundaverki úr annarri listgrein heldur er aðeins um að ræða söngflutning á sönglögum sem kórarnir eða einhver velur sem eru valin með almennum hætti. 

e. Söguþráður, handrit eða meginþema beinist að viðfangsefnum líðandi stundar sem hafa vísun til menningar, samfélagsgerðar eða valdakerfis og stjórnmála í íslensku eða evrópsku samfélagi.

Í e. lið er vísað til að meginþema beinist að viðfangsefnum líðandi stundar. Viðfangsefni þáttanna hafi þýðingu fyrir íslenska/evrópska samfélagsumræðu á sviði menningar, samfélagsgerðar eða valdakerfis og stjórnmála. Ráðuneytið fellst á rökstuðning nefndarinnar því þó kórastarf geti falið í sér menningarstarf af ýmsu tagi þá er engin sérstök tilvísun til viðfangsefnis líðandi stundar. 

f. Framleiðslan endurspeglar mikilvæg íslensk eða evrópsk gildi, t.d. samfélagslega og menningarlega fjölbreytni, samfélagslega samstöðu, mannréttindi, jafnrétti, umburðarlyndi, minnihlutavernd og virðingu fyrir menningu annarra, fjölskyldugildi, umhverfisvernd, virðingu fyrir náttúru og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Framleiðslan beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd.

Nefndin vísar til þess að í reglugerðinni komi fram að framleiðslan endurspegli mikilvæg íslensk eða evrópsk gildi af ýmsu tagi til að fá stig fyrir þennan lið. 

Kærandi vísar í umsókn sinni til þess að starfandi séu kórar um allt land og að starfið gegni mikilvægu menningarlegu hlutverki í minni og stærri sveitarfélögum, bæði faglega og félagslega. 

Nefndin hafnar þessu á þeim grundvelli að ekki verði séð af tilvísun umsækjanda með hvaða hætti þau mikilvægu gildi sem vísað er til komi fram í framleiðslu þáttanna. 

Kærandi bendir á þá staðreynd að það að um 200 kórar starfi á landinu ætti að vera eitt og sér nægjanleg staðreynd til að gefa verkefninu tvö stig í þessum lið. 

Ráðuneytið telur að það sé ekki nægjanlegt að um 200 kórar starfi í landinu til að verkefnið fái stig fyrir það. Ráðuneytið sér ekki hvernig verkefnið endurspegli mikilvæg íslensk eða evrópsk gildi eins og liðnum er ætlað að taka til. Ráðuneytið staðfestir því mat nefndarinnar í þessum lið. 

g. Verkefnið beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd.

Hér gefur nefndin verkefninu 1 stig vegna þess að mögulega komi það til með að varpa ljósi á þá siði og eða venjur en þó ekki nema að litlum hluta umfram það sem þá þegar hefur verið metið til tveggja stiga vegna c. liðar. Nefndin lítur sem svo á að mat vegna þessara liða fari að einhverju leyti saman og til að gæta sanngirni er fallist á að verkefnið fái samtals eitt stig úr þessum lið. Ráðuneytið tekur undir með nefndinni að verkefnið beinist að íslenskum siðum, venjum og menningu og staðfestir mat nefndarinnar hvað þennan lið varðar. 

h. Söguþráður, handrit eða viðfangsefni byggir á atburðum í samtíma eða sögu sem hafa þýðingu fyrir íslenskt eða evrópskt samfélag.

Í þessum lið er krafa um að viðfangsefnið byggi á atburðum í samtíma eða sögu sem hefur þýðingu fyrir íslenskt eða evrópskt samfélag. Verkefnið byggir ekki á atburði í samtíma eða sögu og tekur ráðuneytið því undir mat nefndarinnar varðandi þennan lið. 

Með vísan til framangreinds tekur ráðuneytið undir það mat nefndarinnar að umræddir sjónvarpsþættir uppfylla ekki þau lágmarksviðmið sem sett eru í 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017, sem eru að ná samtals 4 stigum úr mati á menningarhluta framleiðslunnar. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun nefndarinnar staðfest og umsókn kæranda hafnað. 

ÚRSKURÐARORÐ

Með vísan til alls framgreinds er ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar frá 12. október 2017 staðfest. 

 

Fyrir hönd feðamála, iðanaðar- og nýsköpunarráðherra

 

Ingvi Már Pálsson

 

Baldur Sigmundsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum