Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 37/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 37/2017

Mánudaginn 10. apríl 2017

A

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 26. janúar 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. janúar 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 1. febrúar 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. febrúar 2017. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi sama dag og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Bréfið var einnig sent kæranda með tölvupósti 15. febrúar 2017. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1962 og er í hjúskap. Hún býr ásamt eiginmanni sínum og X uppkomnum börnum í einbýlishúsi sem hún á að helmingi til að B, sem er 149,5 fermetrar að stærð, ásamt 53,8 fermetra bílskúr. Kærandi starfar sem […]. Tekjur kæranda eru launatekjur.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til tekjulækkunar, veikinda maka og hækkunar á framfærslukostnaði og greiðslubyrði lána.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 28. desember 2016 eru 85.699.343 krónur.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 17. ágúst 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. nóvember 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Einnig fylgdi með greiðsluáætlun þar sem fram kom hver væri framfærslukostnaður og greiðslugeta kæranda. Þrír umsjónarmenn hafa komið að máli kæranda.

Umboðsmaður skuldara felldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með ákvörðun 23. júní 2014. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) og felldi nefndin ákvörðun umboðsmanns úr gildi með úrskurði 20. október 2016 á þeim grundvelli að nægilegra upplýsinga og gagna hefði ekki verið aflað áður en ákvörðun var tekin um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Málið barst því umboðsmanni skuldara til meðferðar að nýju.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 14. desember 2016 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem kærandi hefði ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar fjármuni á tímabilinu desember 2012 til nóvember 2016 er greiðslufrestun, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir. Á þessu tímabili hefði kærandi að mati umsjónarmanns átt að geta lagt til hliðar 3.836.812 krónur en hún hafi aðeins lagt fyrir 405.295 krónur. Því vanti 3.431.517 krónur upp á sparnað hennar.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 28. desember 2016 þar sem henni var kynnt framangreind tillaga umsjónarmanns. Þá var henni jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svar kæranda barst 10. janúar 2017.

Með bréfi til kæranda 13. janúar 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir hennar niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að umboðsmaður skuldara afturkalli þá ákvörðun sína að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar og gangi í að gera greiðsluaðlögunarsamning á milli kæranda og kröfuhafa hennar. Jafnframt fer umboðsmaður kæranda fram á að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.

Kærandi kveðst gera alvarlegar og verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara. Ákvörðunin byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar nægilegt fé á þeim tíma sem hún hafi notið frestunar greiðslna og verið í svokölluðu greiðsluskjóli, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., en það sé matskennt ákvæði. Umboðsmaður skuldara leggi mat á það hversu mikið það kosti kæranda og börn hennar að vera til í hverjum mánuði með því að gefa út svokölluð framfærsluviðmið. Á vefsíðu umboðsmanns skuldara segi meðal annars um framfærsluviðmið embættisins: „Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara eru ætluð sem viðmið fyrir framfærslu þegar leitað er lausna á skuldavanda með samningi við lánardrottna og þegar einstaklingur hefur ákveðið að óska eftir gjaldþrotameðferð. Þau eru því ætluð til styttri tíma heldur en viðmið ýmissa annarra t.d. dæmigerð viðmið velferðarráðuneytisins. Viðmiðin, utan að hluta til viðmið fyrir samgöngukostnað, eru reiknuð með gögnum frá Hagstofu Íslands. Hagstofan hefur frá árinu 2000 staðið fyrir útgjaldarannsókn. Rannsóknin fer þannig fram að árinu er skipt niður í 26 tveggja vikna tímabil og fyrir hvert tímabil er valið úrtak 47 heimila af handahófi, samtals 1.222 heimili á ári. Þau heimili sem samþykkja þátttöku í könnuninni halda nákvæmt heimilisbókhald í tvær vikur og svara svo spurningalistum varðandi tækjaeign á heimilinu og stærri útgjöld á þriggja mánaða tímabili. Viðmiðin taka því mið af raunútgjöldum íslenskra heimila. Gagnagrunnurinn sem viðmiðin byggja á núna inniheldur svör 4.713 heimila.“

Á vefsíðu Hagstofunnar segi um ofangreinda rannsókn: „Rannsókn á útgjöldum heimilanna er úrtaksrannsókn sem mælir raunveruleg útgjöld heimila í landinu. Í rannsókninni er ekki metið hvort neysla heimilanna sé góð eða slæm eða hvort hún teljist nauðsynleg til framfærslu. Rannsóknin svarar því ekki hvernig útgjöld heimila eru fjármögnuð.“

Það sé því alveg ljóst að rannsókn Hagstofunnar, sem umboðsmaður skuldara byggi mat sitt á, sé ekki rannsókn á því hvað heimili/fjölskyldur þurfi til að lifa á eða hvað teljist nauðsynlegt til framfærslu. Það veki undrun að umboðsmaður skuli byggja réttarstöðu fólks, synja því um lögbundna aðstoð og fleira, á könnun sem taki ekki á því hvað fólk þurfi til að lifa.

Umboðsmaður skuldara segi jafnan í bréfum sínum og ákvörðunum að: „Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og stýrist af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að kærendum sé jafnan veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.“

Af þessu megi sjá að hin hlutlægu viðmið umboðsmanns séu fremur huglæg en hlutlæg, þ.e.a.s. þau séu ekki byggð á raunverulegum rannsóknum. Úrtakið sem miðað sé við sé 47 fjölskyldur 26 sinnum á ári eða samtals 1.222 fjölskyldur á ári. Á hinn bóginn svari aðeins um 24% þessara fjölskyldna (4.713 heimili frá því 2000, 4.713/1.222 * 12 = 24,1%) eða 294,5 fjölskyldur á ári að meðaltali.

Við gætum einnig séð og ályktað að rannsóknir frá árinu 2000 séu úreltar, enda aðstæður allt aðrar þá en í dag. Ýmsir kostnaðarliðir hafi til að mynda bæst við frá þeim tíma. Það mætti ef til vill stilla þessu þannig upp að helmingur þessara fjölskyldna, þ.e. um 147 fjölskyldur, segi frá því hvernig þær lifi fyrstu tvær vikur hvers mánaðar. Hinar 147 fjölskyldurnar segi frá því hvernig þær lifi síðari tvær vikur hvers mánaðar. Á þessu sé væntanlega umtalsverður munur.

Og þá sé spurning hvort svona rannsókn sem rannsaki ekki kostnað fólks við að lifa og ekki yfir sama tímabil og umboðsmaður notist við, geti verið tölfræðilega marktæk. Könnunin nái aðeins til hóps sem sé vel innan við 1% fjölskyldna landsins á ársgrundvelli. Einnig megi nefna að það sé og geti verið nokkuð mikill munur á því hvað kosti að lifa eftir því hvar fólk búi á landinu. Ekki sé farið í slíka skilgreiningu hjá umboðsmanni skuldara.

Þá sé rétt að nefna að í könnun Hagstofunnar sé ekkert farið eftir efnahag, þ.e. hvort þeir sem þátt taki í könnuninni hafi það fjárhagslega gott og þurfi ekki að velta fyrir sér hverri krónu eða hvort þeir tilheyri þeim hópi fólks sem þurfi eða þyrfti að leita til umboðsmanns skuldara. Það sé augljóst að neysla þessara hópa sé varla eins eða sambærileg.

Að mati kæranda hafi umboðsmaður skuldara ekki lagt í þá vinnu sem fyrir hann hafi verið lagt í 1. gr. laga um umboðsmann skuldara, þ.e. að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega.

Félags- og tryggingamálanefnd Alþingis hafi lagt á það ríka áherslu við setningu laga um umboðsmann skuldara að embættinu yrði falið að útbúa lágmarks framfærsluviðmið og uppfæra reglulega. Nefndin hafi talið nauðsynlegt að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar kæmi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert væri ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt væri mikilvægt að samræmis væri gætt að þessu leyti. Nefndin hafi óskað eftir upplýsingum um setningu lágmarks framfærsluviðmiða á Íslandi og hafi fengið þær upplýsingar að vinna við þau væri þegar hafin og að þeirri vinnu yrði lokið um haustið 2010. Í febrúar 2011 hafi velferðarráðherra lagt fram skýrslu sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Skýrslan hafi verið lögð fram til almennrar kynningar og umræðu og birt á vef ráðuneytisins ásamt reiknivél þar sem einstaklingar hafi getað mátað sig að neysluviðmiðunum í samræmi við eigin aðstæður. Það sé því ljóst að ætlunin hafi verið að finna út hver væri raunveruleg greiðslugeta fólks. Á vef velferðarráðuneytisins sé enn í dag að finna reiknivél fyrir neysluviðmið sem byggð sé á þessari vinnu.

Það sé verulegur munur á framfærslukostnaði þeim sem umboðsmaður skuldara segist reikna út og neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Umboðsmaður segi að það kosti 133.496 krónur á mánuði fyrir barnlausan einstakling að lifa, án tillits til húsnæðiskostnaðar. Neysluviðmið velferðarráðuneytisins geri á hinn bóginn ráð fyrir að það kosti sama einstakling 222.764 krónur á mánuði að lifa. Á þessum viðmiðum, sem annars vegar byggi á rannsóknum og hins vegar á neyslukönnun, muni um 66%. Það er að segja rannsóknin á því hvað kosti að lifa á Íslandi sýni að það sé um 66% dýrara að lifa heldur en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sýni. Þessu til viðbótar bendir kærandi á að allt fjármálakerfið kjósi að nota og styðjast við raunverulegu rannsóknina þegar lánsumsóknir og slíkt séu afgreiddar.

Í hinni kærðu ákvörðun segi: „Í ljósi laga um umboðsmann skuldara, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.“ Umboðsmaður skuldara kjósi meðvitað að nota þau viðmið sem fengin séu frá Hagstofunni til annars en þau séu ætluð og því til viðbótar að hunsa þá raunverulegu rannsókn á framfærslukostnaði sem löggjafinn hafi lagt svo ríka áherslu á að yrði notuð. Umboðsmaður hafi haft verulegt fjármagn og tíma til þess að finna út rétt framfærsluviðmið.

Það komi fram á heimasíðu umboðsmanns skuldara að framfærsluviðmiðin séu ætluð til skemmri tíma heldur en viðmið ýmissa annarra, til dæmis dæmigerð viðmið velferðarráðuneytisins. Engu að síður noti umboðsmaður viðmiðin að fullu á fimm ára tímabili hjá kæranda og það án nokkurra skýringa eða rökstuðnings.

Með lögum nr. 37/1993 hafi verið lögfestar helstu meginreglur um hlutlæga málsmeðferð opinberra aðila. Lögunum hafi fyrst og fremst verið ætlað að tryggja réttaröryggi borgaranna. Í grunninn sé lögunum ætlað að tryggja að opinberir aðilar, svo sem umboðsmaður skuldara, vandi alla málsmeðferð og tryggi þar með rétta og sanngjarna afgreiðslu mála. Ein af forsendum þess að mál hljóti rétta og sanngjarna afgreiðslu sé að mál sé nægilega undirbúið og rannsakað. Þá sé lögfest sú skylda að stjórnvöld rökstyðji stjórnvaldsákvarðanir.

Í máli kæranda hafi umboðsmaður skuldara kosið að líta fram hjá því hver kostnaður kæranda sé af því að lifa og notist við önnur viðmið, sbr. það sem rakið hafi verið að framan. Þá sé ákvörðun umboðsmanns ekki rökstudd þar sem rökstuðningur hans byggist á því að farið sé eftir framfærsluviðmiðum umboðsmanns og engu öðru. Í réttarríki eins og Íslandi samræmist það hvorki lögum né venju, skynsemi eða sanngirni að synja fólki um lögbundinn rétt af því bara. Slíka synjun beri að rökstyðja með málefnalegum og hlutlægum hætti. Umboðsmaður skuldara hafi haft mál kæranda til meðferðar frá árinu 2011. Á þeim tíma hafi embættið aldrei reynt að semja við kröfuhafa fyrir hönd kæranda þó að það sé meginhlutverk þess samkvæmt 1. gr. laga um umboðsmann skuldara og þrátt fyrir að það hafi verið inntak beiðnar kæranda til embættisins.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 7. nóvember 2012 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Loks hafi starfsmaður umboðsmanns skuldara hringt til kæranda 4. janúar 2013 í kjölfar þess að umsókn hennar var samþykkt og meðal annars minnt á skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunarumleitanir. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hefði átt aflögu í lok hvers mánaðar til að greiða af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir frá 7. nóvember 2012 eða í rúmlega 48 mánuði, sé miðað við tímabilið desember 2012 til og með nóvember 2016. Upplýsingar um laun byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, öðrum opinberum gögnum og skattframtölum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé mismunur meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar nefndur greiðslugeta.

Tekjur 2016 2015 2014 2013 2012 Tekjur alls
Launatekjur 2.168.099 2.487.886 2.305.515 2.851.554 182.183 9.995.237
Arfur 0 0 0 980.175 0 980.175
Samtals 2.168.099 2.487.886 2.305.515 3.831.729 182.183 10.975.412
Sparnaður 2016 2015 2014 2013 2012 Sparnaður alls
Heildartekjur á ári 2.168.099 2.487.886 2.305.515 3.831.729 182.183 10.975.412
Meðaltekjur á mán. 197.100 207.324 192.126 319.311 182.183
Framfærsluk. á mán. 135.181 135.181 135.181 135.181 135.181
Greiðslugeta á mán. 61.919 72.143 56.945 56.945 47.002
Áætlaður sparnaður 681.108 865.714 683.343 2.209.557 47.002 4.486.724

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið 135.181 króna á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag og sé því helmingur framfærslukostnaðar desembermánaðar 2016 fyrir hjón lagður til grundvallar. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi haft alls 10.975.412 krónur í ráðstöfunartekjur á framangreindu tímabili að meðtöldum arfi sem hún hafi fengið greiddan á árinu 2013 og hafi þannig átt að geta lagt fyrir 4.486.724 krónur.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki breytingum samkvæmt vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnað játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. séu lögð fram gögn þar um.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu, sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu.

Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi átt að geta lagt fyrir 4.486.724 krónur á fyrrnefndu tímabili. Kærandi segist hafa lagt fyrir 405.295 krónur.

Kærandi kveðst hafa staðið straum af auknum kostnaði á tímabilinu vegna læknis- og tannlæknaþjónustu og vinnu við […] í eigin fasteign. Það hafi verið mat umsjónarmanns að útgjöld kæranda vegna læknisþjónustu féllu innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara og því hafi þegar verið gert ráð fyrir útgjöldunum í framfærslukostnaði. Að teknu tilliti til tannlæknakostnaðar og kostnaðar vegna vinnu við […], alls 370.150 krónur, auk sparnaðar kæranda að fjárhæð 405.295 krónur, vanti 3.711.279 krónur upp á sparnað kæranda.

Skýringar kæranda veiti aðeins upplýsingar um hluta þess fjár sem leggja hefði átt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Því verði að telja að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lagaákvæðinu með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem fallið hafi til umfram framfærslukostnað í greiðsluskjóli.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Kærandi geri athugasemdir við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Samkvæmt ákvæðum lge. sé ekki heimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reikni út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 komi fram að eitt af hlutverkum umboðsmanns sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í d-lið 2. mgr. 1. gr. sömu laga segi að eitt hlutverk embættisins sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Í 12. gr. lge. sé gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem sé umfram framfærslukostnað. Þær aðstæður sem 12. gr. lge. varði séu þær að skuldari hafi sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa en slíkir samningar feli að jafnaði í sér niðurfellingu samningskrafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggi þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum sé unnt af kröfum sínum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir séu undirbúnar sé kröfuhöfum óheimilt að taka á móti greiðslum frá skuldara eða innheimta kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Skuldari verði því að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara, lge. og þess sem hér hafi verið rakið liggi fyrir að ekki sé öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Í þessu sambandi er meðal annars vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 265/2016.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. desember 2016 að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja nægilegt fé til hliðar í greiðsluskjóli. Því væri það tillaga hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 13. janúar 2017.

Þegar umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var samþykkt fékk kærandi sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum skuldara í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að skuldara bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem hann þyrfti til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Einnig fylgdi með skjal sem bar heitið „Umsókn vegna greiðsluaðlögunar. Almennar upplýsingar.“ Þar var meðal annars yfirlit yfir tekjur, framfærslukostnað og þá fjárhæð sem kærandi hefði átt að hafa aflögu miðað við þáverandi forsendur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til framangreinds, að henni hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Að mati umboðsmanns skuldara skortir 3.711.279 krónur upp á sparnað kæranda en hún hafi átt að leggja fé til hliðar frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá 7. nóvember 2012. Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að framfærslukostnaður hennar hafi verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gera ráð fyrir.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. desember 2012 til 31. desember 2012: Einn mánuður
Nettótekjur 182.183
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: Tólf mánuðir
Nettótekjur 2.851.554
Mánaðartekjur alls að meðaltali 237.630
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: Tólf mánuðir
Nettótekjur 2.305.515
Mánaðartekjur alls að meðaltali 192.126
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. desember 2015: Tólf mánuðir
Nettótekjur 2.487.886
Mánaðartekjur alls að meðaltali 207.324
Tímabilið 1. janúar 2016 til 30. nóvember 2016: Ellefu mánuðir*
Nettótekjur 2.168.099
Mánaðartekjur alls að meðaltali 197.100
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.995.237
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 208.234

*Í málinu er ekki upplýst um ráðstöfunartekjur fyrir desember 2016 en niðurfelling greiðsluaðlögunar-umleitana var 13. janúar 2017. Því er hér byggt á tekjum janúar til nóvember 2016.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og tekjur kæranda var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. desember 2012 til 30. nóvember 2016: 48 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.995.237
Arfur fenginn 2013 980.175
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.975.412
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 228.654
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 135.181
Greiðslugeta kæranda á mánuði 93.473
Alls sparnaður í 48 mánuði í greiðsluskjóli x 93.473 4.486.704

Kærandi mótmælir því að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sé notað við mat á framfærslukostnaði hennar. Kærandi telur annars vegar að viðmiðin séu ekki byggð á raunverulegum rannsóknum og hins vegar séu þau skammtímaviðmið og ekki sé hægt að ætlast til að kærandi hafi getað lifað samkvæmt þeim til lengri tíma. Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt við staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa en slíkir samningar fela að jafnaði í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi, er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið, liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur og leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að henni hafi borið skylda til að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt framlögðu bankayfirliti hefur kærandi lagt fyrir 405.295 krónur. Þá hefur hún lagt fram eftirtalda reikninga til að sýna fram á óvænt útgjöld á framangreindu tímabili:

Dags. Hvað greitt Fjárhæð
1.1.2012-21.11.2016 Læknar 86.179
22.9.2016 […] 251.290
9.3.2016 Tannlæknir 15.500
10.2.2016 Tannlæknir 13.500
1.2.2016 Tannlæknir 31.500
27.1.2016 Tannlæknir 19.470
19.1.2016 Tannlæknir 24.680
13.1.2016 Tannlæknir 14.210
Samtals: 456.329

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var samþykkt 7. nóvember 2012. Því er ekki tekið tillit til þeirra útgjalda sem til féllu fyrir þann tíma. Utan tímabils samkvæmt því falla útgjöld vegna læknisþjónustu að fjárhæð 20.550 krónur. Að öðru leyti falla ofangreind útgjöld kæranda vegna læknisþjónustu innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara og koma því ekki til frádráttar sem óvænt eða ófyrirséð útgjöld í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Á hinn bóginn teljast útgjöld vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð 118.860 krónur ófyrirséð þar sem framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerir ekki sérstaklega ráð fyrir slíkum útgjöldum. Sama gildir um vinnu við […] að fjárhæð 251.290 krónur. Samkvæmt þessu dragast 370.150 krónur (118.860 + 251.290) frá þeirri fjárhæð sem kærandi hefði átt að leggja fyrir á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber eins og áður segir að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Sú fjárhæð sem kæranda bar að leggja fyrir í greiðsluskjólinu var því 4.116.554 krónur (4.486.704 – 370.150). Kærandi hefur lagt fyrir 405.295 krónur. Því vantar 3.711.259 krónur (4.116.554 - 405.295) upp á sparnað kæranda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Umboðsmaður kæranda krefst þess að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar. Kröfu hans verður að skilja svo að þess sé krafist að kostnaður verði greiddur vegna þeirrar vinnu sem hann hafi innt af hendi í þágu kæranda í tengslum við kæru hennar til úrskurðarnefndarinnar.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir úrskurðarnefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila úrskurðarnefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálf að bera þann kostnað sem hún kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni. Kröfu umboðsmanns kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest. Kröfu umboðsmanns kæranda um greiðslu málskostnaðar er hafnað.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum