Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 404/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 404/2017

Fimmtudaginn 14. desember 2017

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 30. október 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2017, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun 2. janúar 2017 og var umsókn hans samþykkt. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2017, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem gögn um óuppgefnar tekjur frá B hf. hefðu ekki borist. Tekið var fram að ef staðfesting bærist á tímabili greiðslna yrði mál kæranda tekið fyrir að nýju.

Kærandi kærði framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru móttekinni 30. október 2017. Meðfylgjandi kærunni voru upplýsingar um tekjur frá B hf. Með bréfi, dags. 31. október 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 16. nóvember 2017, þar sem fram kemur meðal annars að mál kæranda hafi verið tekið til endurumfjöllunar 13. nóvember sama ár. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. nóvember 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2017, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á þeirri forsendu að hann hafi ekki skilað gögnum um tekjur frá B hf.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að umbeðin gögn hefðu borist 30. október 2017 og því hafi mál kæranda verið tekið til endurumfjöllunar 13. nóvember sama ár. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er litið svo á að með þessu hafi Vinnumálastofnun fellt úr gildi hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur verið felld úr gildi er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að það sé enginn ágreiningur fyrir hendi í máli þessu. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að hin nýja ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. nóvember 2017 er kæranleg til nefndarinnar og er kærufrestur þrír mánuðir frá þeim degi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum