Hoppa yfir valmynd

Málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmáli kærð

Föstudaginn 22. desember 2014 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með tölvupósti, dags. 3. febrúar 2014, kærði A, (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins málsmeðferð Embættis landlæknis í kvörtunarmáli B (, í málinu liggur fyrir umboð B til föður, hér eftir nefndir kvartandi), skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Formleg kæra og rökstuðningur barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 20. febrúar 2014. Kæran barst innan kærufrests.

I. Kröfur.

Kærandi gerir þá kröfu að málsmeðferð Embættis landlæknis verði talin markleysa og álitsgerð, dags. 4. nóvember 2013, verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að málshraðareglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar með þeim afleiðingum að niðurstaða álitsgerðar falli niður. Til þrautavara krefst kærandi þess að tilmæli landlæknis samkvæmt bréfi, dags. 4. nóvember 2013, verði felld úr gildi sem ólögmæt.

II. Málsmeðferð velferðarráðuneytisins.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 3. mars 2014, var óskað eftir umsögn embættisins og öllum gögnum málsins. Embætti landlæknis óskaði með tölvupósti, dags. 14. mars sl., eftir frekari fresti til 28. mars 2014 til að skila umsögn í málinu og var orðið við þeirri ósk embættisins. Umsögn landlæknis ásamt öllum fyrirliggjandi gögnum bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. apríl 2014. Kæranda var með bréfi, dags. 15. apríl 2014, send umsögn landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum innan þriggja vikna, en engar athugasemdir hafa borist frá kæranda. Haft var samband við kæranda símleiðis þann 11. desember 2014, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum, en taldi hann þess ekki þörf.

III. Málavextir.

Í kæru eru málavextir raktir og kemur þar meðal annars fram að kærandi hafi ásamt fleirum fengið öll tilskilin leyfi fyrir vísindarannsókn er fólst í lyfjakönnun og borið heitið CANTATA-M (28431754-DIA-3005). Vísindarannsóknin hafi verið á vegum fyrirtækisins Johnson & Johnsson Pharmaceutical Research & Development, L.L.C./Jansen-Cilag, en umboðsmaður fyrirtækjanna sé Vistor. Um „fasa3“ rannsókn hafi verið að ræða sem ber saman canalifozin, metformin, sitagliptin og lyfleysu. Rannsóknin sé alþjóðleg og um stjórnun sykursýkimeðferðar í rannsókninni gildi sérstök viðmið og reglur. Kvartandi hafi ákveðið að taka þátt í rannsókninni og undirritað upplýst samþykki í upphafi svo og þegar nýjar upplýsingar kröfðust endurnýjunar á samþykki. Kvartandi hafi síðar ákveðið að hætta þátttöku, en án þess að tilkynna um það fyrr en nokkru eftir að hann hætti þátttöku sinni. Kvartandi hafi eins og fram komi í gögnum málsins fylgt að takmörkuðu leyti fyrirmælum til sjúklinga í rannsókninni.

Samkvæmt bréfi, dags. 11. nóvember 2011, hafi kærandi kvartað til Embættis landlæknis, undan framkvæmd og eftirliti lyfjakönnunar sem hann tók þátt í frá júlí 2010 til maí 2011. Kæranda hafi með bréfi embættisins, dags. 23. nóvember 2011, verið gerð grein fyrir kvörtuninni og var farið fram á greinargerð um lyfjakönnunina svo og að kærandi svaraði nokkrum spurningum. Kærandi hafi sent embættinu greinargerð og svör við spurningum með bréfi, dags. 7. desember 2011. Kvartanda hafi verið send greinargerð kæranda með bréfi embættisins, dags. 15. desember 2011, og gefinn kostur á að koma að athugasemdum, en þær hafi ekki borist fyrr en um miðjan maí 2012. Í byrjun apríl 2012 hafi kvartandi óskað eftir fundi með embættinu sem haldinn var þann 13. apríl 2012. Í álitsgerð embættisins komi fram að niðurstaða framangreinds fundar hafi verið að óskað hafi verið eftir því að landlæknir héldi rannsókn áfram sem lyki með áliti.

Kvörtunin hafi verið send til umsagnar með bréfi embættisins, dags. 18. maí 2012, og sé umsögn óháðs sérfræðings dagsett 11. júní 2012. Embættið hafi sent álitsgerð óháðs sérfræðings til kvartanda, en svar hans sé dagsett 19. mars 2013, þar sem engar athugasemdir voru gerðar. Landlæknir hafi haft tölvusamband við hinn óháða sérfræðing 4. september 2012, en í þeim samskiptum hafi komið fram að hann hafi ekki haft neinu við umsögn sína að bæta þrátt fyrir athugasemdir kæranda frá 19. júní 2012.

Í áliti landlæknis, dags. 4. nóvember 2013, kemur meðal annars fram að í kvörtunarmálinu vegna framkvæmdar á og eftirlits með lyfjakönnun hafi rannsókn landlæknis fyrst og fremst beinst að því að kanna hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd lyfjakönnunarinnar og hvort vanræksla hafi átt sér stað í tengslum við meðferð sykursýki kvartanda á með hann tók þátt í lyfjakönnuninni. Niðurstaða landlæknis var að kæranda hafi orðið á vanræksla við stjórnun sykursýkimeðferðar hjá kvartanda á meðan hann tók þátt í vísindarannsókn á hans vegum.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru lúta athugasemdir kæranda varðandi málsmeðferð Embættis landlæknis að því að embættið hafi tekið kvörtunina til efnislegrar meðferðar, málshraða hjá embættinu og ólögmæti tilmæla sem kæranda voru send í fylgibréfi með áliti, dags. 4. nóvember 2013.

Hvað varði efnismeðferð embættisins þá sé í 2. mgr. 12. gr. og 2. tölul. 2. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, hvergi vísað til vísindarannsókna sem hluta af heilbrigðisþjónustu. Í 3. mgr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, sé vísindarannsókn skilgreind. Þá séu í 29. gr. laganna fyrirmæli um að ráðherra skuli setja reglugerð um vísindarannsóknir og hafi það verið gert með reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 286/2008. Í 9. gr. reglugerðarinnar sé ítarlegt ákvæði um eftirlit með vísindarannsóknum sem fái samþykki samkvæmt reglugerðinni.

Um hafi verið að ræða klíníska lyfjarannsókn á mönnum og gilti því einnig um rannsóknina reglugerð um klínískar rannsóknir á mönnum, nr. 443/2004. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 286/2008, komi fram að vísindasiðanefnd skuli meta slíkar rannsóknir, en um eftirlit með klínískum lyfjarannsóknum fari samkvæmt VI. kafla reglugerðar um klínískar lyfjarannsóknir á mönnum. Lyfjastofnun hafi skv. 34. gr. reglugerðarinnar eftirlit með að ákvæðum reglugerðarinnar sé fylgt við framkvæmd klínískra rannsókna. Ekki komi fram í reglugerðunum að Embætti landlæknis hafi hlutverki að gegna þegar komi að vísindarannsóknum eða klínískum lyfjarannsóknum á mönnum. Þá vísar kærandi til frumvarps til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem var samþykkt af Alþingi vorið 2014 og öðlast gildi 1. janúar 2015. Þar sé í 29. gr. fjallað um eftirlit með vísindarannsóknum. Sé ákvæðið í samræmi við ákvæði framangreindra reglugerða og fái Embætti landlæknis ekkert eftirlitshlutverk samkvæmt ákvæðinu.

Kærandi telur að kvartanir kvartanda lúti að framkvæmd vísindarannsóknarinnar og raunar að rannsóknaráætluninni sjálfri og er það mat kæranda með vísan til framanritaðs að embættið hefði átt að vísa kvörtuninni frá þar sem ekki hafi samkvæmt lögum verið heimild til að taka við kvörtuninni og hefði embættið átt að beina kvartanda til vísindasiðanefndar og Lyfjastofnunar. Embætti landlæknis hafi verið óheimilt að fjalla efnislega um kvörtunina og því hafi málsmeðferðin verið markleysa þar sem kvörtunarefnið heyri ekki undir eftirlit Embættis landlæknis með heilbrigðisþjónustunni.

Ef ekki verði fallist á rök kæranda um að vísa hefði átt kvörtun frá, kærir hann málsmeðferð embættisins á grundvelli meginreglna um málshraða, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga um að stjórnvaldi beri að taka ákvörðun í máli eins fljótt og unnt er. Kærandi telur að embættið hafi veitt kvartanda miklu meira svigrúm en nokkur rök voru fyrir.

Í kæru er síðan tímalína málsins rakin. Kvörtun sé dagsett 11. nóvember 2011 og ljúki með áliti dagsettu 4. nóvember 2013. Kærandi telji að ekki sé unnt að réttlæta málshraða embættisins sem ljúki með því að gerð sé athugasemd við vinnubrögð kæranda. Hann sem heilbrigðisstarfsmaður eigi ekki að þurfa að þola það að bíða í 24 mánuði eftir niðurstöðu í kvörtunarmáli sem að honum hafi beinst, einkum þar sem í niðurstöðu sé hnýtt í vinnubrögð hans þvert á niðurstöðu óháðs umsagnaraðila. Ekkert komi fram í álitsgerðinni hvers vegna málið dróst og eigi að mati kæranda að leiða til þess að niðurstaða álitsgerðarinnar varðandi vanrækslu af hálfu kæranda verði felld úr gildi.

Kærandi gerir og athugasemd við lögmæti tilmæla embættisins í bréfi, dags. 4. nóvember 2013. Kærandi telur tilmælin ólögmæt, þar sem ekki sé í lögum um landlækni og lýðheilsu að finna heimild til að beina tilmælum af þessu tagi til heilbrigðisstarfsmanns. Kærandi telur að í tilmælunum felist að hann eigi að viðurkenna mistök gagnvart sjúklingi og þar með mögulega bótaskyldu á grundvelli laga um sjúklingatryggingu eða almennra skaðabótareglna. Ætla megi að embættið geri sér ekki grein fyrir afleiðingum tilmælanna og vísar kærandi til 1. mgr. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Í bréfi landlæknis til kæranda, dags. 4. nóvember 2013, séu ekki tilmæli um úrbætur í starfi eins og kveðið sé á um í framangreindu ákvæði. Einungis sé beint tilmælum til kæranda um að viðurkenna mistök gagnvart kvartanda. Í lögum um landlækni og lýðheilsu sé hvorki gert ráð fyrir að landlæknir hafi skoðun á saknæmi samkvæmt reglum skaðabótaréttarins né að hann beini tilmælum til heilbrigðisstarfsmanna um að viðurkenna bótaskyldu. Kærandi telur tilmæli landlæknis ólögmæt og krefst þess að þau verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að embættið telji að framangreind athugasemd falli utan kærumálsins og sé því ekki kæranleg til ráðuneytisins. Í 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu komi fram að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit og þar skuli tilgreint efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu og að aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits. Þá komi fram í lokamálsgrein 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðherra skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn Embættis landlæknis, dags. 4. apríl 2013, um kæruna eru meðal annars athugasemdir kæranda við málsmeðferð Embættis landlæknis raktar. Að mati kæranda hafi embættinu ekki verið heimilt að taka kæruna til efnismeðferðar.

Að mati landlæknis hafi efni kvörtunarinnar verið vegna heilbrigðisþjónustu og fallið undir 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Þótt meðferðin hafi samkvæmt kvörtuninni verið hluti af vísindarannsókn sem fólst í lyfjarannsókn, geti heilbrigðisstarfsmaður að mati landlæknis ekki firrt sig ábyrgð á þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann veitir sjúklingi. Í þessu tilviki var það kvartandi, með nýgreinda sykursýki, sem tekinn var af lyfjameðferð á ábyrgð læknis sem átti að fylgjast með heilsufari hans. Kvörtunin hafi varðað það hvort vanræksla hefði átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu í tengslum við meðferð sykursýki á meðan kvartandi tók þátt í lyfjakönnuninni. Vísar landlæknir að öðru leyti í álit sitt, dags. 4. nóvember 2013, bls. 9, en þar komi meðal annars fram að tilskildar læknisskoðanir kvartanda hafi ekki farið fram eins og mælt hafi verið fyrir um í rannsóknar „protocol“ og að þær hefðu ekki fullnægt þörfum kvartanda vegna sykursýki hans. Þann tíma sem kvartandi tók þátt í lyfjakönnuninni hafi blóðsykur verið óæskilega hár, hærri heldur en rannsóknar „protocol“ sagði til um að leyfilegt væri. Þetta hafi eftirlitslæknirinn með rannsókninni látið viðgangast enda þótt hann segðist alla tíð hafa vitað af blóðsykursgildum kvartanda. Samfara háum blóðsykursgildum hafi komið fram margs konar fylgikvillar sem allir gátu tengst lélegri blóðsykursstjórnun hjá sykursýkisjúklingi. Landlæknir telur þetta hafa verið vanrækslu við kvartanda þar sem í hans tilfelli virðist hafa verið lögð meiri áhersla á það að lyfjatilrauninni skyldi haldið áfram en að halda góðri blóðsykursstjórnun hjá kvartanda.

Embættið bendir enn fremur á í umsögn sinni, dags. 4. apríl sl., að í bréfi embættisins til kæranda, dags. 23. nóvember 2011, hafi verið tekið fram að „um væri að ræða kvörtun skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu“. Hjálagt hafi verið kvörtunareyðublað kvartanda þar sem skýrt komi fram að um kvörtun skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu væri að ræða. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við að um kvörtun vegna heilbrigðisþjónustu skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu væri að ræða fyrr en í kæru til ráðuneytisins.

Þá kemur fram í umsögn embættisins að kærandi hafi gert athugasemdir við málshraða embættisins varðandi meðferð kvörtunarmálsins. Meðferð kvörtunarmálsins hafi tekið tæp tvö ár og hafi kærandi svarað fljótt „svo að til fyrirmyndar er“. Málshraðinn skýrist af því að til meðferðar hjá embættinu séu fjölmörg kvörtunarmál sem séu tímafrek og flókin, en læknar sem starfi hjá embættinu sinni hverju máli af mikilli vandvirkni. Eins og fram komi í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga eigi stjórnvald að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er og í þessu máli hafi umfjöllun verið lokið eins fljótt og unnt var miðað við aðstæður. Embættið telur að málshraðareglur stjórnsýslulaga hafi ekki verið brotnar með þeim afleiðingum að niðurstaða álitsgerðar skuli falla niður.

Þá hafi kærandi gert athugasemd við bréf landlæknis til kæranda, dags. 4. nóvember 2013, sem var sent kæranda með áliti landlæknis, þar sem kærandi hafi dregið í efa lögmæti tilmæla sem þar koma fram.

Embættið telur að framangreind athugasemd falli utan kærumáls þessa og því ekki kæranleg til ráðuneytisins. Í 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu komi fram að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit og þar skuli tilgreint efni kvörtunar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu og að aðalniðurstöðu skuli draga saman í lok álits. Þá komi fram í lokamálsgrein 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis til ráðherra skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Í framangreindri umsögn embættisins kemur og fram að Læknafélag Íslands hafi gert sambærilegar athugasemdir við orðalag í bréfum landlæknis og hafi þeim athugasemdum verið svarað af embættinu með bréfi, dags. 20. febrúar 2014.

Í framangreindu svarbréfi landlæknis til Læknafélags Íslands komi meðal annars fram að samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, skuli landlæknir hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu. Það sé jafnframt hlutverk landlæknis að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu, en fjallað sé um kvartanir í 12. gr. laganna. Niðurstaða slíkra mála geti farið á þann veg að til staðar hafi verið vanræksla, mistök og/eða ótilhlýðileg framkoma við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá bendir landlæknir á að í ákvæði 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu segi: „Nú verður landlæknir var við að heilbrigðisstarfsmaður vanrækir starfsskyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við ákvæði í heilbrigðislöggjöf landsins og skal hann þá beina tilmælum til hans um úrbætur og áminna hann eftir atvikum. Verði heilbrigðisstarfsmaður ekki við tilmælum landlæknis, sem veitt eru án áminningar skal landlæknir áminna hann.“ Það sé mat landlæknis að hafi heilbrigðisstarfsmaður brotið í bága við framangreint ákvæði hafi hann ótvíræða lagaheimild til að beina tilmælum til heilbrigðsstarfsmanns telji landlæknir þörf á úrbótum vegna vanrækslu eða mistaka. Þá kemur og fram í bréfinu að í lögum um landlækni og lýðheilsu sé hvergi fjallað um bótaábyrgð og bótaskyldu, en vísað til laga um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000. Landlæknir geti, að mati kæranda, hvorki né hafi hann heimild til að beina tilmælum til heilbrigðisstarfsmanna um að þeir viðurkenni bótaskyldu. Landlæknir sé því ekki sammála þeirri skoðun er fram komi í bréfi Læknafélags Íslands að landlæknir hafi sagt lækni að viðurkenna á sig „mistök og vanrækslu og þar með bótaskyldu samkvæmt reglum um húsbóndaábyrgð, sjúklingatryggingu eða starfsábyrgðartryggingu“.

Í framangreindu svarbréfi embættisins kemur fram að: „Í ljósi ábendinga frá læknum og nú LÍ um orðalag vegna þessa þá mun landlæknir ekki framvegis fara fram á formlega afsökunarbeiðni í kjölfar niðurstöðu kvörtunarmála. Heilbrigðisstarfsmönnum verður því í sjálfsvald sett á hvern hátt þeir bregðast við tilmælum landlæknis í kjölfar slíkra mála.“

Landlæknir lauk kvörtunarmáli kvartanda með álitsgerð, dags. 4. nóvember 2013. Í álitinu komi fram að kæranda hafi orðið á vanræksla við heilbrigðisþjónustu þann tíma er kvartandi tók þátt í lyfjarannsókn á vegum kæranda. Þá séu tilmæli landlæknis til kæranda um að hann boði kvartanda til fundar til að ræða álit landlæknis og niðurstöðu hans í kvörtunarmálinu og að kærandi biðji kvartanda afsökunar á þeirri vanrækslu sem orðið hafi við eftirlit og meðferð sykursýki hans þann tíma sem lyfjatilraunin fór fram. Þá óskaði landlæknir eftir því að verða upplýstur um ofangreindan fund.

VI. Niðurstaða velferðarráðuneytisins.

Kæran lýtur að málsmeðferð Embættis landlæknis í kvörtunarmáli kvartanda skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, sem landlæknir lauk með áliti, dags. 4. nóvember 2013. Í kæru er gerð krafa um að málsmeðferð Embættis landlæknis verði talin markleysa og álitsgerð, dags. 4. nóvember 2013, verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að málshraðareglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar með þeim afleiðingum að niðurstaða álitsgerðar falli niður. Til þrautavara krefst kærandi þess að tilmæli landlæknis samkvæmt bréfi, dags. 4. nóvember 2013, verði felld úr gildi sem ólögmæt.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Embættis landlæknis lúta í fyrsta lagi að því að Embætti landlæknis hafi tekið kvörtun kvartanda til efnismeðferðar. Í kæru kemur fram að kærandi telur kvörtun kvartanda lúta að þátttöku kvartanda í lyfjarannsókn, en í 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu komi fram að heimilt sé að beina kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónusta sé skilgreind í 2. tölul. 2. gr. laganna, en þar sé hvergi vísað til vísindarannsókna sem hluta af heilbrigðisþjónustu. Í 3. mgr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, sé vísindarannsókn skilgreind. Þá sé að finna í 29. gr. reglugerðar um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 286/2008, sem sett er með stoð í lögum um réttindi sjúklinga, ítarlegt ákvæði um eftirlit með vísindarannsóknum. Um hafi verið að ræða klíníska lyfjarannsókn á mönnum og hafi því einnig gilt reglugerð um klínískar rannsóknir á mönnum, nr. 443/2004. Í hvorugri reglugerðinni sé kveðið á um að Embætti landlæknis hafi hlutverki að gegna þegar um vísindarannsóknir eða klínískar lyfjarannsóknir á mönnum sé að ræða. Öll málsmeðferð landlæknis sé því markleysa því hún fjalli um kvörtunarefni sem að lögum heyri ekki undir eftirlit embættisins með heilbrigðisþjónustunni.

Eins og fram kemur í umsögn Embættis landlæknis var talið að kvörtunin félli undir 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og að meðferð sú er kvörtunina varðar hafi verið hluti af vísindarannsókn sem fólst í lyfjakönnun. Kvartandi var tekinn af lyfjameðferð á ábyrgð læknis sem átti að fylgjast með heilsufari hans.

Í áliti landlæknis kemur og fram að kvartað hafi verið undan framkvæmd og eftirliti lyfjakönnunnar sem kvartandi tók þátt í. Rannsókn landlæknis hafi fyrst og fremst beinst að því að kanna hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd lyfjakönnunnar og hvort vanræksla hafi átt sér stað í tengslum við meðferð á sykursýki kvartanda meðan á þátttöku hans í lyfjakönnuninni stóð. Af gögnum málsins megi ráða að tilskildar læknisskoðanir kvartanda hafi ekki farið fram eins og mælt var fyrir um í rannsóknar „protocol“ og að þær hafi ekki fullnægt þörfum kvartanda vegna sykursýki hans.

Kvartandi var í meðferð hjá kæranda vegna sykursýki og í lyfjameðferð sem hann var tekinn af þegar hann hóf þátttöku í lyfjakönnun á vegum kæranda. Kærandi bar því ábyrgð á sykursýkimeðferð kvartanda sem átti því að vera undir eftirliti kæranda og njóta heilbrigðisþjónustu samhliða lyfjakönnuninni.

Niðurstaða landlæknis var að kæranda hafi orðið á vanræksla við stjórnun sykursýkimeðferðar hjá kvartanda á meðan hann tók þátt í vísindarannsókn á hans vegum.

Ráðuneytið tekur undir með embættinu að heilbrigðisstarfsmaður geti ekki firrt sig ábyrgð á þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann veitir sjúklingi meðan á þátttöku í lyfjakönnun stendur, en í tilviki kvartanda var hann nýgreindur með sykursýki og í meðferð hjá kæranda. Kvörtunin varði því hvort vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu í tengslum við meðferð á sykursýki kvartanda meðan á þátttöku hans í lyfjakönnuninni stóð.

Eins og fram kemur í 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er það eitt af meginhlutverkum landlæknis að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum og að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 12. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, eru læknar löggilt heilbrigðisstétt. Heilbrigðisþjónusta er skilgreind í 2. tölul. 3. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007.

Með vísan til þess er að framan er rakið telur ráðuneytið að kvörtun kæranda falli undir ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, og hafi því verið um kvörtun að ræða vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu og embættinu því borið að taka kvörtunina til efnislegrar meðferðar.

Þá er málsmeðferð embættisins kærð á grundvelli meginreglna um málshraða, en skv. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er.

Meðferð kvörtunarmálsins tók tæp tvö ár hjá embættinu og er tímalína málsins rakin í kæru. Efnismeðferð kvörtunarmálsins tók að mati ráðuneytisins langan tíma, en í ljósi þess að mikilvægt var að andsvör kvartanda lægju fyrir til að málið væri sem best rannsakað af hálfu embættisins getur ráðuneytið ekki fallist á að málshraðareglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar þannig að niðurstaða álitsgerðar landlæknis skuli felld niður. Ráðuneytið telur að með því að leita eftir sem bestum upplýsingum varðandi kvörtunina verði að telja að embættið hafi viðhaft vönduð vinnubrögð.

Markmið flestra lögmæltra ákvæða um undirbúning og rannsókn mála er að tryggja að mál sé rannsakað á nægilega vandaðan hátt áður en ákvörðun er tekin. Úrlausn sumra mála er þess eðlis að hún tekur nokkurn tíma og á þetta einkum við um mál þar sem afla þarf umsagna annarra aðila, svo og gagna. Í 9. gr. stjórnsýslulaga er því mælt svo fyrir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem kostur er. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að frá því að kvörtun barst embættinu hafi málið allan tímann verið í vinnslu.

Ráðuneytið getur með vísan til framanritaðs ekki fallist á að um brot á málshraðareglu stjórnsýslulaga sé að ræða í máli þessu.

Hvað varðar athugasemd kæranda við málsmeðferð Embættis landlæknis er lýtur að lögmæti tilmæla sem honum voru send í bréfi embættisins, dags. 4. nóvember 2013, kemur fram í umsögn landlæknis að landlæknir telji að hún falli utan kærumálsins og sé ekki kæranleg til ráðuneytisins.

Í ákvæði 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu segir meðal annars: „Nú verður landlæknir var við að heilbrigðisstarfsmaður vanrækir starfsskyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við ákvæði í heilbrigðislöggjöf landsins og skal hann þá beina tilmælum til hans um úrbætur og áminna hann eftir atvikum. Verði heilbrigðisstarfsmaður ekki við tilmælum landlæknis, sem veitt eru án áminningar skal landlæknir áminna hann.“ Komist landlæknir að þeirri niðurstöðu að heilbrigðisstarfsmaður hafi brotið í bága við framangreint ákvæði hafi hann samkvæmt framangreindu ákvæði ótvíræða lagaheimild til að beina tilmælum til heilbrigðsstarfsmanns telji landlæknir þörf á úrbótum vegna vanrækslu eða mistaka. Landlæknir skal áminna heilbrigðisstarfsmann ef hann verður ekki við tilmælum landlæknis. Þá kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að ákvörðun landlæknis um að veita áminningu sæti kæru til ráðherra.

Það er mat ráðuneytisins að framangreind tilmæli landlæknis skv. 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu falli ekki undir málsmeðferð sem er kæranleg skv. 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Tilmæli landlæknis skv. 1. mgr. 14. gr. laganna sæta ekki kæru, en skv. 3. mgr. 14. gr. sætir áminning kæru til ráðherra. Er þessum hluta kærunnar því vísað frá.

Með vísan til framanritaðs, fyrirliggjandi upplýsinga og gagna málsins getur ráðuneytið ekki fallist á að málsmeðferð Embættis landlæknis fari í bága við ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, eða stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og er kæru kæranda því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru B, varðandi málsmeðferð Embættis landlæknis í kvörtunarmáli B, sem lauk með áliti dags. 4. nóvember 2013, er hér með hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum