Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 4/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 2. júlí 2019
í máli nr. 4/2019:
Fornleifastofnun Íslands ses.
gegn
Framkvæmdasýslu ríkisins,
forsætisráðuneytinu og 
Hellum og lögnum ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 6. mars 2019 kærði Fornleifastofnun Íslands ses. útboð Framkvæmdasýslu ríkisins f.h. forsætisráðuneytisins (hér eftir vísað sameiginlega til sem „varnaraðila“) nr. 20869 auðkennt „Lóð við stjórnarráðshúsið Lækjargötu 1. Fornleifagröftur“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði Hellu og lagna ehf. í hinu kærða útboði. 
Varnaraðilum og Hellum og lögnum ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 27. mars 2019 kröfðust varnaraðilar þess að kröfu kæranda yrði hafnað og kæranda yrði gert að greiða málskostnað. Hellur og lagnir ehf. skiluðu greinargerð 22. mars 2019 sem skilja verður sem svo að þess sé krafist að kröfu kæranda sé hafnað. Frekari sjónarmið og gögn bárust frá varnaraðilum 17. apríl 2019. Kærandi skilaði andsvörum 29. apríl 2019. 

I

Í nóvember 2018 auglýsti Framkvæmdasýsla ríkisins f.h. forsætisráðuneytisins útboð nr. 20869 um fornleifagröft á lóð við stjórnarráðshúsið að Lækjargötu 1. Í auglýsingu vegna útboðsins kom fram að opnunarfundur skyldi haldinn 18. desember 2018, fyrirspurnarfrestur væri til 11. desember og svarfrestur til 14. desember sama ár. Í grein 0.1.2 í útboðsgögnum kom hins vegar fram að fyrirspurnir skyldu berst fyrir 4. desember 2018 og svarfresti lyki 8. sama mánaðar, en opnunardagur var enn tilgreindur 18. desember 2018. Með tölvupósti 10. desember 2018 til starfsmanns kæranda kom fram að fyrirspurnarfrestur og svarfrestur væri sá sami og tilgreindur hefði verið í auglýsingu. 
Í grein 0.1.3 í útboðsgögnum kom fram að þeir bjóðendur sem kæmu til greina sem viðsemjendur um verkið eftir opnun tilboða skyldu láta í té innan viku, yrði þess óskað, nánar tilgreindar upplýsingar. Yrði dráttur á afhendingu umbeðinna upplýsinga áskildi verkkaupi sér rétt til að líta svo á að bjóðandi hefði fallið frá tilboðinu. Meðal annars skyldu bjóðendur láta af hendi ársreikninga síðustu tveggja ára, áritaða af endurskoðanda. Eftir byrjun júlí hvers árs þyrfti að skila inn ársreikningi undangengis árs. Þá kom fram að bjóðendur skyldu afhenda almennar upplýsingar, svo sem um starfslið, reynslu yfirmanna og nafn þess starfsmanns sem bæri ábyrgð á og annaðist upplýsingagjöf vegna tilboðsins. Þá skyldi afhenda skrá yfir undirverktaka, helstu tæki og búnað sem fyrirhugað væri að nota við verkið og skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu bjóðanda í sambærilegum verkum. Einnig kom fram að verkkaupi myndi ekki ganga til samninga við bjóðanda sem væri í vanskilum með opinber gjöld eða lífeyrissjóðsiðgjöld starfsmanna eða væri í nauðasamningum eða gjaldþrotaskiptum. Þá áskildi verkkaupi sér rétt til að hafna tilboði bjóðenda ef ársreikningur sýndi neikvætt eigið fé eða ef könnun á viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda bjóðenda myndi leiða í ljós nýlegt greiðslu- eða gjaldþrot eða sambærilegt atvik er varðaði bjóðendur, stjórnendur eða eigendur þeirra. Áskilið var að bjóðendur hefðu yfir að ráða allan verktímann a.m.k. 6-10 manna starfsliði, en þar af skyldi þriðjungur starfsliðsins vera fornleifafræðingar. Þá skyldi bjóðandi hafa unnið a.m.k. eitt sambærilegt verk á síðustu þremur árum. Kom fram að við mat verkkaupa á reynslu bjóðenda væri heimilt að taka tillit til reynslu eigenda, stjórnenda, lykilsstarfsmanna, undirverktaka og sérstakra ráðgjafa bjóðenda af verklegum framkvæmdum og leggja slíka reynslu að jöfnu við reynslu bjóðandans sjálfs, þótt reynsla viðkomandi aðila hefði áunnist í öðru fyrirtæki en hjá bjóðanda.  Í grein 0.2.2 kom fram að Minjastofnun Íslands væri ráðgjafi við verkið. Í grein 0.4.6. kom fram að verkkaupi myndi annað hvort taka lægsta tilboði sem uppfyllti kröfur útboðsgagna eða hafna öllum tilboðum. Í grein 0.8.6 kom fram að verktaki skyldi við upphaf verks sýna fram á að hann hefði fengið leyfi Fornleifaverndar ríkisins til að framkvæma rannsóknina. Í grein 1.0 í verklýsingu útboðsins kom fram að um framkvæmd rannsóknarinnar skyldi farið að íslenskum lögum og reglum, en samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 veiti Minjastofnun Íslands leyfi til rannsóknarinnar á grundvelli reglna nr. 339/2013 um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér. Þá hefði stofnunin einnig eftirlit með rannsókninni og væri hlutaðeigandi til ráðgjafar um skráningu, rannsóknir og varðveislu fornleifa.
Af gögnum málsins verður ráðið að skilmálum útboðsins hafi verið breytt í kjölfar fyrirspurna bjóðenda. Var enn gerð sú krafa í grein 0.1.3 að bjóðendur skyldu hafa yfir að ráða allan verktímann a.m.k. 6-10 manna starfsliði, en meirihluti þess skyldi vera fornleifafræðingar og þar af skyldi ætíð að lágmarki helmingur vera útskrifaðir fornleifafræðingar en aðrir mættu vera fornleifafræðinemar. Þá var gerð krafa um að bjóðendur hefðu unnið a.m.k. eitt sambærilegt verk á síðastliðnum 10 árum í stað þriggja samkvæmt upphaflegum útboðsskilmálum. Í grein 0.8.6 kom fram að verktaki skyldi við upphaf verks sýna fram á að hann hefði fengið leyfi Minjastofnunar Íslands til að framkvæma rannsóknina. Þá bera gögn málsins með sér að varnaraðilar hafi svarað jákvætt fyrirspurn um hvort skilmálar útboðsgagna um fjárhagslega og tæknilega getu í grein 0.1.3 í útboðsgögnum þyrftu að vera til staðar þegar tilboð væri lagt fram. 
Opnun tilboða fór fram 18. desember 2018. Annars vegar barst tilboð frá kæranda að fjárhæð 123.422.780 krónur og hins vegar frá Hellum og lögnum ehf. að fjárhæð 115.203.200 krónur. Með tölvubréfi 19. desember 2018 kölluðu varnaraðilar eftir þeim gögnum um hæfi bjóðenda sem tilgreind voru í grein 0.1.3 í útboðsgögnum. Fram kom að veittur væri lengri frestur en sá vikufrestur sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir til að skila gögnum þar sem jól væru að ganga í garð. Var bjóðendum samkvæmt þessu veittur frestur til 4. janúar 2019 til að skila umbeðnum gögnum. Með bréfi 14. febrúar 2019 var tilkynnt að varnaraðilar hygðust velja tilboð Hellna og lagna ehf. í útboðinu. 
Meðal gagna málsins eru bréf Minjastofnunar Íslands til Framkvæmdasýslu ríkisins 5. mars 2019 og til forsætisráðuneytisins 11. og 16. apríl 2019. Í bréfi 5. mars 2019 er dregið í efa að tilboð Hellna og lagna ehf. í hinu kærða útboði uppfylli skilyrði 4. gr. reglna nr. 339/2013 um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér um að fornleifarannsókn skuli fara fram undir beinni stjórn og eftirliti fornleifafræðings þess sem skráður sé sem stjórnandi. Er því lýst að samkvæmt tilboðinu verði fornleifafræðingur sá sem muni stjórna fornleifarannsókninni undirverktaki Hellna og lagna ehf. og lúti þar með stjórn aðila sem ekki hafi faglega þekkingu á verkefninu. Telji Minjastofnun Hellur og lagnir ehf. ekki uppfylla skilyrði til þess að stunda fornleifarannsóknir samkvæmt lögum nr. 80/2013 um menningarminjar og reglum nr. 339/2013. Því mæli stofnunin gegn því að gengið verði til samninga við fyrirtækið. Í bréfi til forsætisráðuneytisins 11. apríl 2019 kemur fram það mat Minjastofnunar að einungis sjálfstætt starfandi fornleifafræðingar, fyrirtæki fornleifafræðinga og söfn með starfandi fornleifafræðingum geti boðið í fornleifarannsóknir á Íslandi og annast þær. Í bréfi stofnunarinnar 16. apríl 209 kemur fram að tryggja þurfi að aðilar sem hafi þekkingu og getu til fornleifarannsókna stýri fornleifarannsóknum og sú staðreynd að aðrir en fornleifafræðingar bjóði í framkvæmdir sem felist fyrst og fremst í fornleifarannsóknum hafi komið stofnuninni á óvart. Þrátt fyrir það verði stofnunin að horfa til 76. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup um að fyrirtækjum sé heimilt að byggja á getu annarra. Þá kemur fram að Minjastofnun leggi áherslu á að fornleifafræðingur beri þrátt fyrir það fulla ábyrgð á fornleifarannsókninni í samræmi við reglur nr. 339/2013 enda búi hann að þeirri þekkingu sem þurfi til að túlka þær minjar sem komi í ljós. 

II

Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að fyrirspurnarfrestur og svarfrestur í hinu kærða útboði hafi verið framlengdir án þess að formlegt boð þess efnis hafi verið sent bjóðendum. Þá hafi bjóðendum verið veittur 12 dögum lengri frestur til að skila inn gögnum um hæfi en útboðsgögn hafi áskilið. Jafnframt hafi gildistími tilboða verið framlengdur um fjórar vikur. Með þessu hafi Hellum og lögnum ehf. sífellt verið gefinn lengri frestur til að leita leiða til að standast mat á getu og hæfni til að annast hið útboðna verk. Þá hafi Hellur og lagnir ehf. ekki staðist kröfur um hæfi við opnun tilboða, en í svörum við fyrirspurnum hafi verið staðfest að kröfur um hæfi ætti að uppfylla við opnunardag tilboða. Þá hafi Hellur og lagnir ehf. ekki skilað ársreikningi 2016 auk þess sem ekki hafi komið fram hvort Framkvæmdasýsla ríkisins hafi kannað viðskiptasögu forsvarsmanns fyrirtækisins með fullnægjandi hætti. 
Þá hafi verið gerð breyting á kröfum til starfsliðs bjóðenda samkvæmt útboðsgögnum á fyrirspurnartíma í þágu Hellu og lagna ehf. Með breytingum þessum hafi verið dregið úr hæfiskröfum og rannsókninni þar með verið stefnt í voða, enda séu fornleifarannsóknir vandasamar og því nauðsynlegt að menntaðir fornleifafræðingar komi að þeim, í stað nema. Ekki hafi komið fram að Framkvæmdasýsla ríkisins hafi stuðst við mat Minjastofnunar Íslands um áhrif þessara breytinga, sem gangi gegn markmiðum laga um menningarminjar. Þá hafi verið dregið úr kröfum til þess að bjóðendur hafi unnið sambærileg verk og verið miðað við síðastliðin tíu ár í stað þriggja. Þá sé varasamt að velja bjóðendur eingöngu út frá lægsta tilboði þegar um sé að ræða jafn viðkvæmt viðfangsefni. Því sé óhjákvæmilegt að meta tilboð út frá hlutfalli verðs og gæða. Þá hafi Framkvæmdasýsla ríkisins ekki áreiðanleg gögn um starfslið eða stjórnendur Hellna og lagna ehf. um að fyrirtækið hafi á að skipa nauðsynlegu starfsliði. Þá hafi bjóðandi enga reynslu af fornleifarannsóknum. Hellur og lagnir ehf. geti ekki stuðst við hæfni undirverktaka þegar undirverktakar taki að sér 99% af verkinu.  

III

Varnaraðilar byggja á því að réttilega hafi verið staðið að vali á tilboði í hinu kærða útboði. Mistök hafi verið gerð í svörum við fyrirspurnum þar sem ranglega haf komið fram að kröfur í grein 0.1.3 í útboðsskilmálum skyldu vera uppfylltar þegar tilboð væru lögð fram. Þess hafi eingöngu verið krafist í útboðsskilmálum að gögn um hæfi yrðu afhent innan viku frá því að þeirra hefði verið óskað.  Ekki hafi verið gerð breyting á útboðsskilmálum að þessu leyti við endurskoðun þeirra og sýni það að ætlun verkkaupa hafi aldrei verið að endurskoða þessar kröfur. Þá verði ekki séð að svar varnaraðila í fyrirspurnartíma hafi haft áhrif á niðurstöðu útboðsins þar sem bjóðendur hafi fengið jöfn tækifæri til að skila inn viðbótargögnum og sýna fram á að skilyrði útboðsgagna væru uppfyllt. Þá hafi skoðun á gögnum Hellna og lagna ehf. sýnt að fyrirtækið uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í útboðsgögnum. Hafi viðskiptasaga fyrirtækisins verið könnuð með skoðun á ársreikningum 2016 og 2017 sem sýni jákvætt eigið fé. Ekki skipti máli þótt ársreikningur sé ekki enn tiltækur hjá Ríkisskattstjóra ef í raun og veru hefur verið lokið við gerð hans og hann er lagður fram. 
Þá byggja varnaraðilar á því að frestir þeir sem hafi verið gefnir í útboðsferlinu hafi veitt Hellnum og lögnum ehf. lengri tíma til þess að leita leiða til að fá staðist mat á getu og hæfni til að annast verkefnið, enda hafi útboðsgögn ekki gert kröfu um að öll gögn lægju fyrir og allar kröfur væru uppfylltar á þeim degi sem tilboð væru opnuð. Jafnræðis hafi verið gætt og hafi bjóðendur haft sama frest til að sýna fram á að þeir uppfylltu kröfur.
Þá byggja varnaraðilar á því að samráð hafi verið við Minjastofnun Íslands við uppfærslu á texta útboðsskilmála og hafi stofnunin engar athugasemdir gert við uppfærsluna. Þá hafi varnaraðilar tekið tillit til reynslu undirverktaka lægstbjóðanda líkt og heimilt hafi verið samkvæmt útboðsskilmálum og 76. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en undirverktakar hafi uppfyllt skilyrði um hæfni og reynslu. Þá hafi Minjastofnun Íslands sent bréf 5. mars 2019, tæpum þremur vikum eftir að tilkynnt hafi verið um val á tilboði í útboðinu, þar sem lagst sé gegn því að gengið verði til samninga við Hellur og lagnir ehf. þar sem fyrirtækið uppfylli ekki að mati stofnunarinnar þau skilyrði sem gerð séu til þess að stunda fornleifarannsóknir samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012 og reglum nr. 339/2013 um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér. Í bréfi Minjastofnunar frá 16. apríl 2019 virðist stofnunin þó draga verulega úr fyrri afstöðu sinni. Þar lýsi stofnunin því að sú staðreynd að aðrir en fornleifafræðingar bjóði í framkvæmdir sem felist fyrst og fremst í fornleifarannsóknum hafi komið minjayfirvöldum í opna skjöldu, en að stofnunin verði þrátt fyrir það að horfa til 76. gr. laga um opinber innkaup. Í ljósi þessa verði að líta svo á að Minjastofnun dragi þá afstöðu sína til baka að rannsóknarleyfi yrði ekki veitt fyrir fornleifarannsóknir þar sem fornleifafræðingur komi fram sem undirverktaki. 
Í greinargerð Hellna og lagna ehf. kemur fram að fyrirtækið hafi aldrei óskað eftir frestum í útboðsferlinu, hvorki fyrir né eftir opnun tilboða. Allir frestir hafi verið veittir að frumkvæði varnaraðila og verið báðum bjóðendum til hagsbóta. Þá standist bjóðandinn allar kröfur útboðsgagna um hæfi, en byggt sé á hæfi undirverktakans VG-fornleifarannsókna ehf. líkt og heimilt sé. Það fyrirtæki sé rekið af fornleifafræðingi sem hafi yfir að ráða miklum fjölda starfsfólks sem séu fornleifafræðingar að mennt auk nema í fornleifafræði. Starfi þar nánar tiltekið sjö útskrifaðir fornleifafræðingar og þrír nemar. Með aðkomu þessa fyrirtækis sem undirverktaka uppfylli Hellur og lagnir ehf. allar kröfur sem gerðar séu til bjóðenda í útboðinu og hafi gert það fyrir opnun tilboða.  Hafi skýrt komið fram í grein 0.1.3 í útboðsskilmálum að bjóðendum bæri að láta í té upplýsingar um hæfi eftir opnun tilboða og það hafi fyrirtækið gert fyrir tilgreindan frest. Þá hafi Hellur og lagnir ehf. skilað ársreikningum 2016 og 2017 til varnaraðila á réttum tíma. Upphaflega hafi vantað undirritun á skjölin en úr því hafi verið leyst um leið og ábending þess efnis hafi borist. Þá sé ekkert í sögu Hellna og lagna ehf. sem bendi til vafasamra viðskiptahátta. Því er jafnframt mótmælt að útboðsskilmálum hafi verið breytt í þágu Hellna og lagna ehf., en fyrirtækið hafi ekki komið að þessum breytingum sem hafi verið gerðar fyrir opnun tilboða. Áréttað er að bjóðandinn hafi uppfyllt allar kröfur útboðsskilmála, bæði eins og þær voru upprunalega og eftir breytingar. 

IV

Í grein 0.1.3 í útboðsgögnum var gerð grein fyrir þeim kröfum sem gerðar voru til hæfis bjóðenda og þeim gögnum sem þeir skyldu skila til staðfestingar á hæfi sínu. Fyrir liggur að gerðar voru tilteknar breytingar á útboðsskilmálum eftir fyrirspurnartíma og voru endurskoðaðir útboðsskilmálar kynntir. 
Fram kom í grein 0.1.3 að bjóðendur sem kæmu til álita sem viðsemjendur í útboðinu skyldu, væri þess óskað, láta í té innan viku tilgreindar upplýsingar um  hæfi. Ekki verður fallist á að ákvæðinu hafi verið breytt á fyrirspurnartíma á þann veg að bjóðendur skyldu skila tilgreindum gögnum til að staðfesta hæfi sitt þegar við skil tilboða. Er þá einkum horft til þess að í endurskoðuðum útboðsgögnum var ekki gerð breyting á ákvæðinu að þessu leyti. Þá verður ekki séð að framlenging á fresti til að skila þessum gögnum vegna jólafrís, sem náði til allra bjóðenda, hafi með einhverjum hætti raskað jafnræði bjóðenda eða með öðrum hætti brotið gegn lögum um opinber innkaup. Jafnframt hefur ekkert komið fram í málinu sem styður það að dregið hafi verið úr kröfum útboðsins með ólögmætum hætti í þágu Hellna og lagna ehf. 
Kemur þá til skoðunar hvort Hellur og lagnir hf. hafi uppfyllt kröfur útboðsgagna til hæfis. Fyrir kærunefnd útboðsmála hafa verið lögð þau gögn sem varnaraðilar studdust við þegar lagt var mat á hæfi bjóðenda. Meðal annars liggja fyrir ársreikningar Hellna og lagna ehf. fyrir árin 2016 og 2017. Báðir ársreikningarnir eru áritaðir af endurskoðanda fyrirtækisins, stjórnarmanni og framkvæmdastjóra. Þá ber ársreikningur ársins 2017 með sér að í lok þess árs hafi eigið fé fyrirtækisins verið jákvætt, eins og útboðsgögn áskildu. Þá hefur ekkert haldbært komið fram í málinu sem gefur til kynna að viðskiptasaga stjórnenda og helstu eigenda Hellna og lagna ehf. sé með þeim hætti að varnaraðilum hafi verið skylt að hafna tilboði fyrirtækisins. Verður því að miða við að Hellur og lagnir ehf. hafi uppfyllt kröfur útboðsgagna um eigið fé og viðskiptasögu.  
Í grein 0.1.3 var, eins og rakið hefur verið, einnig gerð krafa um að bjóðendur hefðu yfir að ráða 6-10 manna starfsliði þar sem meirihluti væri fornleifafræðingar og þar af að lágmarki helmingur útskrifaðir fornleifafræðingar. Auk þess var gerð krafa um að bjóðendur hefðu a.m.k. unnið eitt sambærilegt verk á síðustu 10 árum. Til stuðnings því að bjóðendur uppfylltu þessar kröfur skyldu þeir leggja fram almennar upplýsingar um starfslið og reynslu yfirmanna, skrá yfir undirverktaka, tæki og búnað og yfir helstu verk og lýsingu á reynslu af sambærilegum verkum. Kom fram að við mat á reynslu bjóðenda væri meðal annars heimilt að taka tillit til reynslu undirverktaka. Í þeim gögnum sem liggja fyrir um hæfi Hellna og lagna ehf. að þessu leyti er að finna almennar upplýsingar um starfslið þess og reynslu og yfirlit yfir vélar og tæki sem notuð skulu við verkið. Þá er upplýst að fyrirtækið VG-fornleifarannsóknir ehf. hyggist starfa sem undirverktaki við fornleifauppgröft í verkinu. Þá koma fram upplýsingar um reynslu þess fyrirtækis af sambærilegum verkum, þar sem meðal annars er tilgreindur fornleifauppgröftur við Landssímareitinn árin 2016-2018, og að hjá fyrirtækinu starfi 10 manns, þar af sjö fornleifafræðingar og þrír nemar. 
Lög um opinber innkaup setja skorður við því hvaða gagna kaupendur geta krafist til sönnunar á tæknilegri getu bjóðenda, en að jafnaði skal ekki krefjast annarra gagna en tilgreind eru í 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016 um kröfur á sviði opinberra innkaupa um upplýsingar sem koma eiga fram í auglýsingum og öðrum tilkynningum, gögn til að sannreyna efnahagslega og fjárhagslega stöðu og tæknilega getu og kröfur um tæki og búnað fyrir rafræna móttöku. Verður því að miða við að þau gögn sem krafist var um hæfi bjóðenda í útboðsgögnum og bjóðendur lögðu fram hafi verið fullnægjandi til að staðfesta hvort þeir uppfylltu kröfur útboðsgagna um hæfi. Með hliðsjón af þeim gögnum sem Hellur og lagnir ehf. lögðu fram, sem og 76. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup þar sem fram kemur að fyrirtæki geti byggt á fjárhagslegri, tæknilegri og faglegri getu annarra aðila óháð lagalegum tengslum við þá, verður ekki annað séð en að Hellur og lagnir ehf. hafi uppfyllt framangreindar kröfur útboðsgagna. Þá hefur kærandi ekki fært haldbær rök fyrir því að með öðrum hætti hafi verið staðið að vali tilboðs í hinu kærðu útboði í andstöðu við útboðsskilmála eða lög um opinber innkaup. 
Í grein 0.8.6 í útboðsskilmálum kemur fram að verktaki skuli við upphaf verks sýna fram á að hann hafi fengið leyfi Minjastofnunar Íslands til að framkvæma rannsóknina. Af gögnum málsins verður ráðið að Minjastofnun hafi efasemdir um að Hellur og lagnir ehf. uppfylli kröfur laga nr. 80/2012 um menningarminjar og reglna nr. 339/2013 um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask, til að fá umrætt leyfi. Á meðan endanleg niðurstaða stofnunarinnar um veitingu leyfis til fyrirtækisins liggur ekki fyrir, auk þess sem útboðsskilmálar gera sýnilega ráð fyrir að leyfið þurfi fyrst að liggja við upphaf verks, getur þessi afstaða stofnunarinnar að svo komnu máli ekki leitt til þess að fella eigi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði Hellna og lagna ehf. í hinu kærða útboði úr gildi. 
Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfum kæranda hafnað. Ekki eru efni til að gera kæranda að greiða málskostnað svo sem varnaraðilar krefjast og fellur málskostnaður niður.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Fornleifastofnunar Íslands ses., vegna útboðs Framkvæmdasýslu ríkisins f.h. forsætisráðuneytisins nr. 20869 auðkennt „Lóð við stjórnarráðshúsið Lækjargötu 1. Fornleifagröftur“, er hafnað. 
Málskostnaður fellur niður. 

Reykjavík, 2. júlí 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Eiríkur Jónsson






Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum