Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 7. júní 2002.

Föstudaginn 7. júní 2002 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 4/2001

Bolungarvíkurkaupstaður

gegn

Margréti Gunnarsdóttur

og

Ásgeiri Sólbergssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Karl Axelsson hrl., en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 14. desember 2001 sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 7. janúar 2002 fór Bolungarvíkurkaupstaður (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á fasteigninni Dísarlandi 2, Bolungarvík, sem er í eigu Margrétar Gunnarsdóttur, kt. 100855-5269 og Ásgeirs Sólbergssonar, kt. 151154-4219, Dísarlandi 2, Bolungarvík (eignarnámsþolar). Hin eignarnumda eign er íbúðarhús ásamt lóðarréttindum.

Tilefni eignarnámsins er að ákveðið hefur verið að byggja snjóflóðavarnargarð ofan byggðarinnar í Bolungarvík. Vegna þeirrar framkvæmdar er þörf á að húsið að Dísarlandi 2 verði fjarlægt þar sem hinn fyrirhugaði varnargarður mun rísa þar sem húsið nú stendur. Lagaheimild fyrir eignarnáminu er að finna í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 7. janúar 2002. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fleiri gögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

Föstudaginn 18. apríl 2002 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 3. maí 2002.

Föstudaginn 3. maí 2002 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð og önnur gögn og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar og annarra gagna af hálfu eignarnámsþola til 17. maí 2002.

Föstudaginn 17. maí 2002 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþolar lögðu fram greinargerð og önnur gögn og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings.

Miðvikudaginn 22. maí 2002 var málið tekið fyrir. Sættir voru reyndar án árangurs og var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er þess krafist að bætur fyrir hina eignarnumdu eign skuli miðaðar við staðgreiðslumarkaðsverð hennar. Vísar eignarnemi í þessu sambandi til 14. gr. laga nr. 49/1997.

Eignarnemi segir að gerð hafi verið tillaga til ofanflóðasjóðs sbr. 11. gr. laga nr. 49/1997 um uppkaup á eignum vegna byggingar snjóflóðavarnargarðs ofan byggðar í Bolungarvík. Í framhaldi af því hafi þeir Tryggvi Guðmundsson hdl. og Gunnar Torfason, ráðgjafaverkfræðingur, verið skipaðir til að meta vermæti fasteignarinnar að Dísarlandi 2, í samræmið við 14. gr. framangreindra laga, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. reglug. nr. 637/1997. Matsgerðin lá fyrir í apríl 2001 og var eignarnámsþolum gefinn kostur á að koma með athugasemdir við hana. Athugasemdir bárust frá eignarnámsþolum er vildu að miðað yrði við endurstofnsverð en ekki staðgreiðslumarkaðsverð. Eignarnemi kveðst ekki hafa fallist á þessi sjónarmið og telur sér einungis skylt að greiða staðgreiðslumarkaðsverð fyrir eignina sem sé kr. 12.700.000.- skv. framangreindri matsgerð. Í framhaldi af matsgerðinni freistaði eignarnemi þess að ná sáttum við eignarnámsþola um kaup á eigninni á grundvelli matsins, en án árangurs. Þegar þetta varð ljóst tók eignarnemi ákvörðun um að taka eignina eignarnámi með heimild í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 49/1997.

Eignarnemi kveður ágreining um verðmatið standa um grundvöll verðviðmiðunarinnar. Eignarnemi vilji miða við staðgreiðslumarkaðsverð eignarinnar. Eignarnámsþolar vilji aftur á móti ekki sætta sig við þessa viðmiðun, heldur telji að miða eigi við enduröflunarverð eignarinnar. Eignarnemi bendir á að í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum segi að í þeim tilvikum sem ofanflóðasjóður taki þátt í kostnaði við uppkaup eða eignarnám fasteigna skuli greiðsla úr sjóðnum miðast við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra eigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Eignarnemi telur að með þessu sérákvæði um fjárhæð bótanna sem fram komi í framangreindum lögum og einnig í reglugerð nr. 637/1997 séu þær skyldur lagðar á Matsnefnd eignarnámsbóta að meta verðmæti hinnar eignarnumdu eignar miðað við þessa viðmiðun en ekki aðra.

Eignarnemi kveður engar almennar lagareglur hafa verið settar um fjárhæð eignarnámsbóta. Telur hann að staðgreiðslumarkaðsverð eignarinnar feli í sér fullar bætur fyrir eignarnámsþola, þannig að eignarnámsþolar séu eigi verr settir á eftir og því sé ákvæði 14. gr. laga nr. 49/1997 í fullu samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eignarnemi heldur því fram að eignarnámsþolar eigi ekki kröfu á að fá bætur fyrir t.d. minjagildi eða persónulegt verðmæti.

Eignarnemi kveður löngum hafa verið miðað við staðgreiðslumarkaðsverð við eignarnám því í þeim bótum felist fullar bætur til eignarnámsþola. Eignarnámsþolar geti þannig bætt sér eignamissinn með kaupum á annarri sambærilegri eign. Endurstofnsverð eigi þannig ekki að koma til nema í algjörum undantekningartilfellum og þá í þeim tilvikum þar sem enginn markaður er fyrir hendi á sambærilegum eignum og eignarnámsþolum nauðugur sá kostur einn að byggja sér nýja eign. Eigi eignarnámsþolar hins vegar þess kost að kaupa sambærilega eign á sama svæði eða kjósi þeir að flytjast búferlum komi endurstofnsverð ekki til álita þar sem eignarnámsþolar myndu þá hagnast óeðlilega á eignarnáminu sem sé ekki tilgangur laga um framkvæmd eignarnáms. Eignarnemi telur að sönnunarbyrðin fyrir því að raunverulegt verð hinnar eignarnumdu eignar sé meira en sem nemur gangverði eða markaðsverði hennar hvíli á eignarnámsþolum sjálfum. Það sama eigi við um notagildisverðmæti eignar. Þar beri eignarnámsþolar einnig sönnunarbyrðina fyrir því að það mat skv. þeim mælikvarða sé hærra en markaðsverðmæti eignarinnar.

Eignarnemi kveður þó nokkurt framboð vera á íbúðarhúsnæði í Bolungarvík, en sáralítil eftirspurn. Fólk hafi í stórum stíl sett eignir sínar á sölu og flutt milli landshluta. Aðrir hafi ekki séð ástæðu til þess að setja eignir sínar á sölu þar sem þeir hafi ekki ráðgert að eftirspurn sé fyrir hendi.

Eignarnemi kveðst hafa fengið Magnús Axelsson, lögg. fasteignasala til að vinna fyrir sig skýrslu um fasteignamarkað í Bolungarvík. Í þeirri skýrslu komist hann að raun um að í sveitarfélaginu væru til sölu a.m.k. 14 eignir sambærilegar hinni eignarnumdu eign. Eignarnemi fullyrðir að um mun fleiri eignir á sölu sé að ræða sé litið til nágrannasveitarfélaganna einnig. Eignarnemi telur það því ekki verða erfiðleikum bundið fyrir eignarnámsþola að tryggja sér aðra sambærilega eign í sveitarfélaginu til kaups.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar gera þær kröfur að þeim verði ákvarðað fullt verð vegna eignarnáms fasteignar þeirra að Dísarlandi 2, Bolungarvík, í samræmi við fyrirmæli 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá gera eignarnámsþolar kröfu um kr. 187.625.- auk virðisaukaskatts í málskostnað úr hendi eignarnema.

Eignarnámsþolar segjast ekki hafa fallist á að ganga til samninga við eignarnema um sölu á Dísarlandi 2 á kr. 12.700.000.- Eignarnámsþolar segja ágreininginn milli þeirra og eignarnema standa um það á hvaða grundvelli skuli ákvarða þeim bætur, en eignarnemi hafi haldið því fram að ekki komi til álita önnur viðmiðun en staðgreiðslumarkaðsverð. Eignarnámsþolar kveða engann ágreining vera um lagaheimild eignarnema til eignarnámsins.

Eignarnámsþolar benda á að í 14. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum fjalli um þátttöku ofanflóðasjóðs í kostnaði af uppkaupum fasteigna, en skv. lagagreininni skuli greiðsla úr sjóðnum miðast að hámarki við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Eignarnámsþolar segja að í lögunum sé ekki að finna nein lagafyrirmæli um það að bætur til eignarnámsþola skuli miðast við þessa sömu viðmiðun. Eignarnámsþolar telja því Matsnefnd eignarnámsbóta ekki með neinum hætti bundna af því að ákvarða þeim bætur á grundvelli staðgreiðslumarkaðsverðs og þaðan af síður staðgreiðslumarkaðsverðs sambærilegra eigna í Bolungarvík, eins og eignarnemi virðist byggja á. Telja eignarnámsþolar að sú niðurstaða yrði í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Eignarnámsþolar kveðast hafa fengið úthlutað lóð frá eignarnema við Dísarland 2, Bolungarvík, í byrjun árs 1978 og hafið byggingu á lóðinni vorið 1978 og flutt inn í húsið um mitt ár 1979, en fullnaðarfrágangi hússins hafi þá ekki verið lokið. Unnið hafi verið að endanlegum frágangi á húsinu næstu árin, eftir því sem aðstæður leyfðu. Eignarnámsþolar segja húseignina samtals vera 257,5 ferm. að flatarmáli skv. fasteignamati. Brunabótamat eignarinnar sé kr. 23.459.000.-, endurstofnsverð kr. 21.627.000.- og svokallað afskrifað endurstofnsverð kr. 18.576.000.- Benda eignarnámsþolar á að þessar tölur séu einungis matstölur vegna hússins sjálfs, en í þeim sé ekki tekið tillit til garðs, hellulagnar o.þ.h.

Eignarnámsþolar benda á að þeir séu báðir fæddir og upp aldir í Bolungarvík og hafi búið þar mestan hluta ævi sinnar og samfleytt frá 1976. Ásgeir starfi sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Bolungarvíkur og Margrét sé starfsmaður bæjarskrifstofa Bolungarvíkur. Með byggingu Dísarlands 2 hafi þau verið að skapa sér og sínum heimili, en ekki hafi verði um að ræða byggingu eignar til sölu á markaði. Við þá fjárfestingu sem fólst í byggingunni ætluðu eignarnámsþolar að þeir hefðu not af henni svo lengi sem þeir kysu, enda var það forsenda þeirra og markmið með því að leggja í þann kostnað sem um ræðir.

Eignarnámsþolar telja að við mat á bótum fyrir Dísarland 2 beri að hafa í huga viðmiðun sem sé þeim hagstæðust, en ekki hvað komi best út fyrir eignarnemann. Um þetta vísa eignarnámsþolar m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands frá árinu 1939 bls. 400. Eignarnámsþolar segja staðgreiðslumarkaðsverð eignarinnar engan veginn fela í sér fullar bætur til þeirra. Sá mælikvarði sé engann veginn fullnægjandi til að gera þá skaðlausa af því að þurfa að láta eign sína af hendi. Matsnefndin hljóti að þurfa að taka mið af kostnaðarverði með eðlilegum afskriftum vegna notkunar á eigninni frá því til kostnaðar var stofnað. Eignarnámsþolum er ekki ljóst hvernig þeir geti hagnast af eignarnáminu þó þeir fái til baka þá fjármuni sem þeir hafi lagt í þá eign sem þeim er nú gert að láta af hendi.

Eignarnámsþolar halda því fram að bætur vegna eignarnámsins eigi að gera þá sem líkast setta því sem hefði verið ef eignarnámið hefði ekki farið fram. Til þess að þeir fái fullt verð eða fullar bætur fyrir að missa eignina verði að líta til þeirra fjármuna sem þeir hafi lagt til eignarinnar en ekki til þess hvað eignnarnámsþolar kunna að gera í framhaldi af eignarnáminu. Eignarnámsþolar telja þann mælikvarða sem eignarnemi vilji miða við þann óhagstæðasta fyrir þá og ekki tryggja þeim fullt verð. Telja eignarnámsþolar það ekki fást staðist að þeir séu verr settir vegna eignarnámsins en þeir hefðu verið ef eignin hefði t.d. farist í eldsvoða eða eyðilagst í snjóflóði.

Því er ennfremur haldið fram af hálfu eignarnámsþola að þó fallist væri á sjónarmið eignarnema um að leggja bæri til grundvallar staðgreiðslumarkaðsverð þá ætti sú fjárhæð að vera hærri en fram kemur í matsniðurstöðu þeirri er eignarnemi vilji byggja á.

Eignarnámsþolar taka sérstaklega fram að þeir hyggist byggja sér nýtt íbúðarhúsnæði í Bolungarvík fái þeir viðunandi verð fyrir eign sína.

VI. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem að framan greinir. Hið eignarnumda hús er íbúðarhús á tveimur hæðum og er allur frágangur innan dyra vandaður að því er virðist. Að utan er húsnæðið fullfrágengið. Garður við húsið er að mestu leyti frá genginn grasgarður, en lítið er um trjárgróður.

Svo sem fyrr greinir er á því byggt af hálfu eignarnema að við mat hins eignanumda beri Matsnefnd eignarnámsbóta að byggja á fyrirmælum 14. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þar sem fram kemur að ef ofanflóðasjóður taki þátt í hluta af kostnaði við kaup eða eignarnám á eignum eða flutning á húseignum skv. 5. tl. 13. gr., skuli greiðsla úr sjóðnum miðast að hámarki við staðgreiðsluverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Þá segir ennfremur í 2. mgr. 14 gr. að heimilt sé að miða greiðslu úr sjóðnum við framreiknað kaupverð húseignar sem keypt hefur verið á síðustu árum, ásamt mati á kostnaði núverandi eigenda af endurbótum hennar, ef fyrir liggur að staðsetning húseignar á hættusvæði eða í námunda við það hafi haft áhrif til lækkunar markaðsverðs. sambærileg ákvæði eru og í 6. gr. reglugerðar nr. 637/1997.

Í reglugerð nr. 440/1996, sem sett var með stoð í 14. gr. eldri laga um um varnir og skriðuföll nr. 28/1985, var í 6. gr. að finna sambærileg fyrirmæli en auk þess var kveðið svo á um í 3. mgr. 6. gr. að ætti húseigandi ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggi hann nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína væri heimilt að miða greiðslu við brunabótamat húseignar og kostnað vegna nýrra gatnagerðargjalda. Væri brunabótamat hærra en endurstofnverð skyldi miða við endurstofnverð. Í 5. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar var síðan kveðið á um það að kæmi til eignarnáms sveitarfélags skyldu greiðslur ofanflóðasjóð miðast við fjárhæð eignarnámsbóta. Ákvæði í þessa veru voru síðan tekin upp í lögin sjálf með 5. gr. laga nr. 151/1995 um breytingar á 7. gr. laga nr. 28/1985. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu kom m.a. fram að tilgangur mismunandi greiðslutilhögunar væri fyrst og fremst sá að styrkja byggð í sveitarfélögum þar sem snjóflóð féllu eða snjóflóðahætta væri yfirvofandi. Greiðslur til þeirra sem byggju áfram í heimabyggð sinni gætu því orðið hærri en greiðslur til þeirra sem ætluðu sér að flytjast á brott. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarpsins er m.a. tekið fram að með hugtakinu endurstofnverð væri átt við áætlaðan heildarbyggingarkostnað húsa, án opinberra gjalda og án lóðarfrágangs.

Heimild ofanflóðasjóðs til greiðslna á grundvelli endurstofnsverðs var svo, eins og fram hefur komið, afnumin með gildistöku núgildandi laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 49/1997, sbr. 14. gr. þeirra. Hvorki er í greinargerð með frumvarpi að lögunum né öðrum lögskýringargögnum að finna neinn efnislegan rökstuðning fyrir afnámi umræddrar heimildar til að miða við brunabótamat eða endurstofnverð.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 ber að greiða eignarnámsþola fullt verð fyrir hið eignarnumda og ber Matsnefnd eignarámsbóta að fara að lögum nr. 11/1973 við framkvæmd matsins. Af hálfu matsnefndarinnar er ekki fallist á það með eignarnema að 14. gr. laga nr. 49/1997 bindi hendur nefndarinnar á nokkurn hátt við ákvörðun bóta í máli þessu, enda er eignarneminn lögum samkvæmt viðkomandi sveitarfélag, í þessu tilviki Bolungarvíkurkaupstaður, sbr. 4. mgr. 11. gr. laganna. Tilvitnuð lagagrein fjallar um greiðslur ofanflóðasjóðs til viðkomandi sveitarfélags en ekki eignarnámsþola. Umrædd lagaregla verður eðli málsins skv. og með hliðsjón af 72. gr. stjórnarskrár ekki túlkuð eða skýrð víðtækar en skv. hljóðan sinni og athugun á lögskýringargögnum gefur ennfremur ekkert tilefni til slíkrar beitingar. Takmarkar ákvæðið því í engu mat á stjórnarskrárvörðum rétti eignarnámsþola til að fá fullar bætur vegna eignarnámsins.

Að 14. gr. laga nr. 49/1997 slepptri sýnist ágreiningur málsaðila fyrst og fremst felast í þeirri afstöðu eignarnema annarsvegar að miða beri við gangverð/markaðsverð eigna við mat á bótum, enda ávallt verið litið svo á að í því felist fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Af hálfu eignarnámsþola er á hinn bóginn á því byggt að við mat á fullu verði beri að líta til brunabótamats og eftir atvikum endurstofnsverðs. Er ekki um það ágreiningur að mat á þeim grundvelli leiðir til hærri niðurstöðu.

Um það hefur ekki verið ágreiningur í réttarframkvæmd að við mat eignarnámsbóta verði yfirleitt miðað við markaðsverð/söluverð eigna en leiði arðsemisútreikningar á grundvelli notagildis til hærri niðurstöðu beri að leggja bætur þannig ákvarðaðar til grundvallar. Eignarnámsþoli eigi hinsvegar eingöngu í undantekningartilvikum rétt til bóta á grundvelli enduröflunarverðs og mat bóta á þeim grundvelli næsta fátítt í eignarnámsframkvæmd. Til hins ber þá að líta að meðal þeirra undantekningartilvika sem sérstaklega eru talin geta réttlætt mat á grundvelli enduröflunar- eða endurstofnsverðs er sú aðstaða sem fyrir hendi er þegar eignarnámsþoli er með eignarnámi sviptur íbúðarhúsnæði sínu.

Með vísan til framangreinds og þeirrar staðreyndar að vegna ástands fasteignamarkaðarins vestra nemur mat á grundvelli söluvirðis miklu mun lægri fjárhæð en mat á grundvelli enduröflunarvirðis telur matsnefnd rétt og skylt að vega það og meta nánar hvort leggja beri til grundvallar enduröflunarverð þeirra fasteigna sem teknar eru eignarnámi á Bolungarvík á grundvelli laga nr. 49/1997, þ.m.t. fasteignina að Dísarlandi 2. Við það mat telur matsnefnd að sérstaklega beri að líta til þess hvort eignarnemi hafi sýnt fram á einhver þau atvik sem standi því í vegi að enduröflunarverð verði lagt til grundvallar metnum bótum. Þá ber m.a. að líta til þess hvort eignarnámsþola væri mögulegt að afla sér sambærilegrar eignar á grundvelli bótafjárhæðar sem mið tæki af söluvirði hinnar eignarnumdu fasteignar. Telur matsnefnd þá að ekki sé, m.a. vegna fjarlægða, samgangna o.fl., unnt að líta til framboðs fasteigna utan Bolungavíkur. Eignanemi hefur af þessu tilefni aflað skýrslu Magnúsar Axelssonar fatseignasala um fasteignamarkað á Bolungarvík þar sem m.a. kemur fram að fyrir hendi séu 14 einbýlishús sem eigendur séu ákveðnir í að selja. Það er þó mat matsnefndar eignarnámsbóta að eignarnemi hafi ekki náð að sýna fram á það að neitt umræddra húsa geti með fullnægjandi hætti komið í stað íbúðarhúss eignarnámsþola, enda var það valið og innréttað af eignarnámsþolum til að mæta þeirra þörfum með það fyrir augum að þar yrði þeirra framtíðarheimili. Til þess ber ennfremur að líta að matsnefndin telur það ekki geta ráðið úrslitum við mat á því hvort unnt sé að beita enduröflunarverði, hvort fyrir liggi sönnun um það að eignarnámsþolar ætli sér í raun að nýta bæturnar til að byggja sér nýtt íbúðarhús á staðnum. Er slík fyrirfarandi sönnunarfærsla útilokuð.

Að framangreindu virtu telur matsnefndin því rétt að miða bætur til eignarnámsþola í máli þessu út frá enduröflunarvirði eignarinnar, að teknu tilliti til eðlilegra afskrifa.

Matsverð eignarinnar er því endurstofnverð samkvæmt fasteignamati sem er kr. 21.627.000.-

Afskriftir miðast við 1% á ári frá byrjunarframkvæmdum.

Byrjunarár framkvæmda var 1978, heildarafskriftir því 25%.

Matsverð verður því:

Endurstofnverð

Afskriftir 25% af 21.627.000

Fasteignamat lóðar

21.627.000.-

÷ 5.407.000.-

513.000.-

Matsverð samtals

16.733.000.-

Þá skal eignarnemi ennfremur greiða eignarnámsþola kr. 187.625.- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 400.000.- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.


ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Bolungarvíkurkaupstaður, Aðalstræti 12, Bolungarvík, greiði eignarnámsþolum, Margréti Gunnarsdóttur, kt. 100855-5269 og Ásgeiri Sólbergssyni, kt. 151154-4219, Dísarlandi 2, Bolungarvík, kr. 16.733.000.- í eignarnámsbætur og kr. 187.625.- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 400.000.- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

____________________________________
Helgi Jóhannesson hrl.

________________________________ ___________________________

Karl Axelsson hrl. Vífill Oddsson verkfr.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum