Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 65/2014 og 92/2016 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekin mál nr. 65/2014 og 92/2016

Miðvikudaginn 23. janúar 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með beiðni, dags. 13. nóvember 2018, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga í kærumáli nr. 65/2014 og úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 92/2016. Í báðum tilvikum voru staðfestar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um umönnunargreiðslur með fóstursyni hennar, B.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umönnunarmati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. desember 2013, var umönnun fóstursonar kæranda felld undir 3. flokk, 0% greiðslur, frá X 2013 til X 2016 en kæranda var synjað um greiðslur á þeim grundvelli að barnið væri í fóstri hjá henni og vistunin væri greidd af félagsmálayfirvöldum. Ákvörðun Tryggingastofnunar var kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 20. janúar 2014, kærumál nr. 65/2014, og var sú ákvörðun staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga með úrskurði 28. maí 2014.

Með umönnunarmati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. desember 2015, var umönnun fóstursonar kæranda felld undir 3. flokk, 0% greiðslur, frá X 2015 til X 2018. Grundvöllur synjunar stofnunarinnar var sá að barnið væri í fóstri hjá kæranda og vistunin væri greidd af félagsmálayfirvöldum. Kæra vegna framangreindrar ákvörðunar barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. mars 2016, kærumál nr. 92/2016, og var sú ákvörðun Tryggingastofnunar staðfest af úrskurðarnefnd velferðarmála með úrskurði 19. október 2016.

Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðar í kærumáli nr. 92/2016 sem lauk máli sínu með áliti, dags. 31. október 2018, mál nr. 9205/2017. Í niðurstöðu álits umboðsmanns Alþingis kemur fram að mælst sé til þess að úrskurðarnefnd velferðarmála taki mál kæranda til nýrrar meðferðar komi fram ósk þess efnis frá henni. 

Með beiðni, dags. 13. nóvember 2018, fór kærandi, með vísan til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9205/2017, annars vegar fram á endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga í kærumáli nr. 65/2014 og hins vegar endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 92/2016. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur tekið við því hlutverki úrskurðarnefndar almannatrygginga að úrskurða um tiltekin ágreiningsefni samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 13. gr. laganna og lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefnd velferðarmála féllst á beiðni kæranda um endurupptöku framangreindra úrskurða og var henni greint frá þeirri ákvörðun með bréfi, dags. 6. desember 2018.

Framangreind kærumál varða ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins vegna sama aðila og sem byggðar eru á sömu málsatvikum og sömu ákvæðum laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Í ljósi þess hefur úrskurðarnefnd velferðarmála ákveðið að úrskurða um ágreiningsefnið í þessum málum í einum og sama úrskurðinum.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 65/2014 og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 92/2016.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að úrskurðarnefnd almannatrygginga og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi staðfest ákvarðanir Tryggingastofnunar um að synja kæranda um umönnunargreiðslur með [fóstursyni] kæranda.

Með bréfi til umboðsmanns Alþingis hafi kærandi farið fram á að hann tæki niðurstöðu nefndarinnar til skoðunar og setti fram álit sitt um lögmæti niðurstöðu synjunar á síðara málinu, þ.e. nr. 92/2016.

Með vísan til álits umboðsmanns Alþingis nr. 9205/2017, um að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi ekki hafi farið að lögum þegar kæranda var synjað um umönnunargreiðslur með [fóstursyni] hennar, sé óskað eftir að nefndin taki bæði málin til úrskurðar að nýju og taki tillit til tilmæla umboðsmanns við meðferð málsins en um eitt og sama mál sé að ræða þar sem hún hafði lagt fram kæru tvívegis.

Í kæru vegna kærumáls nr. 65/2014 segir að B, [fóstursonur] kæranda, hafi að mestu leyti alist upp á heimili kæranda. Í fyrstu eða allt til X ára aldurs hafi kærandi […] séð fyrir drengnum og annast hann án þess að þiggja meðlög foreldra, framfærslugreiðslur sveitarfélagsins eða fósturlaun, sem kveðið sé á um í lögum að vistforeldum séu greidd til framfærslu barns, enda hafi þeim ekki verið kunnugt um rétt sinn.

[…] Gerður hafi verið samningur við C um framfærslu og Velferðarnefnd D hafi úrskurðað á fundi sínum að greitt yrði með drengnum lágmarksmeðlag samkvæmt reglugerð; þrefalt meðlag frá C, auk meðlags frá […].

Í X hafi drengurinn greinst með [...]. Það hafi verið þeim mikið áfall en kærandi […] hafi tekið þessa auknu ábyrgð mjög alvarlega og hafi sá tími verið erfiður.

Félagsráðgjafar hafi veitt kæranda fræðslu um rétt hennar á umönnunargreiðslum og hafi í kjölfarið verið sótt um þær bætur til Tryggingastofnunar. Stofnunin hafi synjað umsókninni vegna þess að kærandi væri með aðrar greiðslur utan almannatrygginga til framfærslu barnsins og þ.a.l. ætti hún ekki rétt á þessum greiðslum. Rökstuðningurinn fyrir synjuninni hafi verið byggður á reglugerð nr. 504/1997, en auk þess hafi Tryggingastofnun sett sér reglur til að vinna eftir og samkvæmt þeim vinnureglum sé túlkun stofnunarinnar á efni reglugerðarinnar að synja beri umsókn ef viðkomandi fái greitt hærri upphæð en sem nemi ígildi tvöfalds meðlags til framfærslu barns.

Greiðslur kæranda frá C séu ígildi tveggja meðlaga frá sveitarfélaginu, auk meðlags frá […]. Þrefalt meðlag með barni í fóstri sé að mati Tryggingastofnunar of há greiðsla til að réttlætanlegt sé að fósturforeldrar fái þær lögbundnu greiðslur sem aðrir foreldrar fái greiddar með börnum sínum.

Rökstuðningurinn sé óskiljanlegur og með ólíkindum að foreldrum annars vegar og fósturforeldrum hins vegar skuli mismunað, en til þess beri að líta að foreldrar X ára barna séu alla jafna með fulla starfsorku og í fullri vinnu.

Að mati kærandi leiki ekki vafi á að fyrst og fremst sé brotið á drengnum því að hann sitji ekki við sama borð og önnur börn sem haldin séu sama sjúkdómi, aðeins vegna þess að hann sé alinn upp hjá [fósturforeldrum] sem hafi ekki þær tekjur sem þau áður höfðu haft þegar drengurinn var yngri.

Kærandi hafi farið yfir lög um almannatryggingar, barnavernd, fóstur og reglugerðir og úrskurði sem kynnu að varða málið og hafi komið auga á að í reglugerð nr. 858/2013 um greiðslur vegna barna í fóstri sé ákvæði sem styðji beiðni um að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi forsendur til synjunar ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 13. gr. reglugerðarinnar sé skýrt ákvæði um að fósturforeldrar og fósturbarn eigi rétt á öllum almennum greiðslum samkvæmt lögum, svo sem lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, leik-og grunnskóla, málefni fatlaðs fólks, almannatrygginga og sjúkratrygginga.

Í kæru vegna kærumáls nr. 92/2016 segir að aðalröksemd kæranda sé að 5. gr. reglugerðar nr. [504/1997] standist hvorki jafnræðisreglu Stjórnarskrár Íslands né Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að ef barn sé vistað utan heimilis í fóstri á vegum ríkis eða sveitarfélags og framfærsla sé greidd af viðkomandi stjórnvaldi, þá séu ekki greiddar umönnunargreiðslur með viðkomandi barni.

Kærandi bendi á að [fóstursonur] hennar sé ekki vistaður utan heimilis heldur sé hann á því heimili sem hann hafi búið á allt frá X. Hann sé á framfæri kæranda og hafi alltaf verið.

Kærandi kveðst ekki fá greitt frá sveitarfélagi fyrir framfærslu drengsins heldur greiði C henni laun fyrir að annast hann. Það komi á engan hátt framfærslu hans við. Þær greiðslur sem kærandi fái séu fyrst og fremst tilkomnar vegna brota sveitarfélagsins á stjórnsýslulögum og lögum um barnavernd og viðurkennt hafi verið af Barnaverndarstofu sem alvarlegt brot á lögum þar sem Velferðarnefnd C hafi verið alvarlega áminnt vegna þeirra brota.

Einnig sé rétt að benda á að sé ferill máls á Alþingi um lög um almannatryggingar yfirfarinn og lesinn megi vera ljóst að tilgangur löggjafans sé ekki að börnum sé mismunað í lögunum. Kærandi telji ljóst að [fóstursyni] hennar sé mismunað þar sem umönnunargreiðslur séu greiddar foreldrum barna hljóti þær að vera í þágu barna.

Þá er í kæru greint frá því að fóstursonur kæranda hafi greinst með [...] í X. Kæranda hafi verið tjáð að hún ætti rétt á umönnunarbótum vegna [...] samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun hafi hins vegar synjað umsókn hennar tvívegis, fyrst árið 2014 og svo nú. Rök stofnunarinnar fyrir synjun á umönnunarbótum séu þau  að hún fái greitt tvöfalt meðlag með drengnum frá sveitarfélagi, auk meðlags frá […]. Því sé litið svo á að drengurinn sé á framfærslu sveitarfélagsins, en lögin kveði svo á að greiðslur falli niður ef börn séu vistuð utan heimilis.

Synjun Tryggingastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga en nefndin hafi staðfest synjun Tryggingastofnunar. Kærandi kveðst hafa látið reyna á túlkun laganna í annað sinn í X 2015 og erindi hennar hafi aftur verið synjað á sömu forsendum en að auki með þeim rökum að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi staðfest synjunina og því geti stofnunin ekki sveigt reglur á skjön við úrskurð nefndarinnar eða túlkað lögin á annan hátt.

Í annað sinn hafi kærandi freistast til að kæra synjun Tryggingastofnunar því að í hennar huga sé það deginum ljósara hvað löggjafinn ætli sér með þessu ákvæði í lögunum. Miklar breytingar hafi orðið á vistun fatlaðra og þroskaskertra barna á stofnunum á síðustu árum. Lögin hafi ekki verið endurskoðuð með tilliti til breytinga sem gerðar hafi verið á lögum sem kveði á um umönnunarbætur. Í reglugerð nr. 858/2013 um greiðslur vegna barna í fóstri sé skýrt kveðið á um að allar greiðslur sem fósturforeldrar eigi rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar gildi um stjúpbörn og fósturbörn.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar á afar hæpnum forsendum. Ekki hafi verið litið svo á að reglugerðir velferðarráðuneytisins, sem gefnar hafi verið út eftir gildistöku umræddra laga, hefðu gildi.

Úrskurður nefndarinnar hafi verið með eindæmum. Í rökstuðningi hafi verið vísað til þess að tvöfalt meðlag sé alla jafna nægilegt til þess að framfleyta barni, eitt frá föður og eitt frá móður. Það sé með ólíkindum að löglærðir nefndarmenn noti slíka fásinnu og túlki sér í hag. Það viti hvert mannsbarn á Íslandi að enginn framfleyti barni á liðlega fimmtíu þúsund krónum á mánuði.

Ekki síst sé niðurstaðan undarleg í ljósi þess að velferðarráðuneytið gefi sjálft út lágmarksviðmið til framfærslu fjölskyldu og upplýsi þar að kostnaður við að framfleyta barni sé langt yfir þeim mörkum.

Kærandi kveðst hafa leitað til umboðsmanns Alþingis en því miður hafi hún verið of sein með erindi sitt. Því hafi hún sótt um umönnunarbætur að nýju frá Tryggingastofnun til þess að láta reyna á viðkomandi lög og reglugerðir og niðurstaðan hafi aftur orðið sú sama.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar vegna kæru í máli nr. 65/2014 kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar um umönnunargreiðslur til kæranda með fóstursyni hennar.

Í greinargerðinni kemur fram að Tryggingastofnun hafi gert tvö umönnunarmöt vegna drengsins. Annars vegar mat, dags. X, 5. flokkur 0% greiðslur frá X til X og hins vegar hið kærða mat, dags. 12. desember 2013, 3. flokkur 0% greiðslur frá X 2013 til X 2016. Ástæða ákvörðunar stofnunarinnar hafi verið sú að ekki sé heimilt að greiða umönnunargreiðslur með börnum í vistun utan heimilis.

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljist í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 með síðari breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segi að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur, en að önnur dagleg sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði greiðslur.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 sé lagaákvæðið nánar útfært. Þar segir í 4. mgr. að umönnunargreiðslur til framfærenda falli niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Almennt sé litið svo á að venjulegur framfærslukostnaður barns sé fjárhæð sem svari til tvöfalds barnalífeyris, þ.e. einfalds frá hvoru foreldri. Tryggingastofnun telji að sem meginreglu skuli líta á fósturráðstöfun, þar sem greiðslur til fósturforeldra með barni séu umfram venjulegan framfærslukostnað, sem vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi ofangreinds reglugerðarákvæðis. Umönnunargreiðslum sé ætlað að mæta sannanlegum tilfinnanlegum útgjöldum og kostnaði við sérstaka umönnun eða gæslu barna, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007. Þessum útgjöldum megi, eðli málsins samkvæmt, ekki vera mætt af öðrum aðilum samtímis því að umönnunargreiðslur eigi sér stað.

Í málinu liggi fyrir upplýsingar um að kærandi fái greitt sem samsvari þreföldum barnalífeyri með drengnum. Greiðsla C nemi tvöföldum barnalífeyri og síðan komi greiðsla í formi meðlags frá […]. Auk þess greiði C fyrir tómstundir og sálfræðiþjónustu drengsins. Með vísan til framanritaðs líti Tryggingastofnun svo á að vistun drengsins sé greidd af félagsmálayfirvöldum og að kostnaði við umönnun sé mætt. Af þeim sökum telji Tryggingastofnun ekki vera heimild til að greiða fósturmóður hans umönnunargreiðslur. Benda megi á að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi komist að sömu niðurstöðu í máli nr. 306/2010.

Hvað varði tilvísun kæranda til 13. gr. reglugerðar nr. 858/2013 þá telji Tryggingastofnun að lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 504/1997, sem sé byggð á þeim lögum, séu sérlög og reglugerð sem gangi framar almennu reglugerðarákvæði eins og þessu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar vegna kæru í máli nr. 92/2016 kemur fram að gert hafi verið mat samkvæmt 3. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið X 2015 til X 2018. Fósturmóður hafi verið synjað um umönnunargreiðslur þar sem ekki sé heimilt að greiða umönnunargreiðslur með börnum í vistun utan heimilis. Þá var gerð grein fyrir frekari rökstuðningi stofnunarinnar fyrir synjun um umönnunargreiðslur sem er sambærilegur og í greinargerð stofnunarinnar vegna kæru í máli nr. 65/2014.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar annars vegar ákvörðun Tryggingastofnunar frá 12. desember 2013 þar sem umönnun fóstursonar kæranda var felld undir 3. flokk, 0% greiðslur, frá X 2013 til X 2016. Hins vegar varðar mál þetta ákvörðun Tryggingastofnunar frá 9. desember 2015, þar sem umönnun fóstursonar hennar var felld undir 3. flokk, 0% greiðslur, frá X 2015 til X 2018.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. 4. gr. að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma. Í 2. mgr. ákvæðisins segir:

„Almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerðir ekki umönnunargreiðslur. Önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerðir umönnunargreiðslur.“

Í 4. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum. Skerðingar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. framangreindra laga eru útfærðar í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar og samkvæmt því ákvæði falla umönnunargreiðslur alveg niður við vistun á vistheimili og vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Ljóst er að ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um umönnunargreiðslur með fóstursyni sínum. Fyrir liggur að fóstursonur kæranda hefur verið í varanlegu fóstri hjá henni frá árinu X og kærandi hefur þegið greiðslur frá C og […] drengsins vegna þess. Af hinum kærðu ákvörðunum og greinargerðum Tryggingastofnunar verður ráðið að grundvöllur synjunar stofnunarinnar um umönnunargreiðslur sé sá að fóstursonur kæranda sé í vistun utan heimilis í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og að vistunin sé greidd af félagsmálayfirvöldum, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna.

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9205/2017 frá 31. október 2018 er fjallað ítarlega um túlkun á orðalaginu „vistun utan heimilis“ í 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð. Fjallað er um forsögu ákvæðis 4. gr. laga um félagslega aðstoð, barnaverndarlög nr. 80/2002 og lög nr. 21/1990 um lögheimili. Fram kemur meðal annars að í 1. gr. 8. gr. laga um lögheimili segi að barn 17 ára eða yngra eigi sama lögheimili og foreldrar þess ef þeir búi saman, ella hjá því foreldrinu sem hafi forsjá þess. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. gildi ákvæðið einnig um lögheimili fósturbarna. Þá segir meðal annars svo um barnaverndarlögin í áliti umboðsmanns:

„Ég bendi jafnframt á að fjallað er um „vistun utan heimilis“ í 27. og 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í lögunum er síðan almennt gerður greinarmunur á því þegar barni er ráðstafað í fóstur annars vegar, sbr. XII. kafla laganna, og þegar barn er vistað utan heimilis hins vegar, sbr. XIII. og XIV. kafla laganna. Með síðara úrræðinu er samkvæmt barnaverndarlögum einkum átt við það þegar barn er vistað á vistheimili, stofnunum eða hjá stuðningsfjölskyldu og er um það gerður vistunarsamningur en í fyrra tilvikinu er gerður fóstursamningur. Orðalag 2. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007 og samhengi ákvæðisins við önnur lagaákvæði virðist því benda til þess að barn í varanlegu fóstri með lögheimili hjá fósturforeldrum teljist ekki þegar af þeirri ástæðu „vistað utan heimilis“ í skilningi ákvæðisins.“

Það er niðurstaða umboðsmanns Alþingis í fyrrgreindu áliti að með orðunum „vistun utan heimilis“ í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð sé fyrst og fremst átt við það þegar barn dvelji annars staðar en í heimahúsi þess framfæranda sem sæki um umönnunargreiðslur til lengri eða skemmri tíma, svo sem á stofnun. Ráðstöfun barns í varanlegt fóstur þar sem barnið búi hjá fósturforeldri sem beri að framfæra það, teljist því ekki eitt og sér vistun utan heimilis í skilningi ákvæðisins. Þá telur umboðsmaður Alþingis að orðalag 5. málsl. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 um að umönnunargreiðslur til framfæranda falli niður meðal annars við „vistun greidda af félagsmálayfirvöldum“ sé sama marki brennt, þ.e. að vistun taki ekki til hefðbundins varanlegs fósturs þegar barn eigi lögheimili og dveljist hjá framfæranda sem sæki um umönnunargreiðslur.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefnd velferðarmála að fóstursonur kæranda sé hvorki í vistun utan heimilis í skilningi 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð né vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum í skilningi 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997. Að mati úrskurðarnefndar var Tryggingastofnun því óheimilt að synja kæranda um umönnunargreiðslur með vísan til framangreinds laga- og reglugerðarákvæðis. Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um umönnunargreiðslur vegna fóstursonar hennar eru því felldar úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um synja A um umönnunargreiðslur vegna B, eru felldar úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum