Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 40/2015

Miðvikudaginn 23. mars 2016

A og B

gegn

skipuðum umsjónarmanni C

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Þann 23. desember 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C, sem tilkynnt var með bréfi 9. desember 2015, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. nóvember 2014 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda 9. janúar 2015. Nýr umsjónarmaður var skipaður 13. apríl 2015 og þriðji umsjónarmaðurinn 16. nóvember 2015. Alls var kröfum að fjárhæð 50.999.021 krónu lýst en þar af voru 28.236.707 krónur veðkröfur áhvílandi á fasteign kærenda. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 13. júlí 2015. Gert var ráð fyrir að kærendur myndu skila bifreið til Landsbankans en halda fasteign sinni. Umsjónarmaður lagði til að 90% samningskrafna yrðu gefin eftir og að veðkröfur á íbúðarhúsnæði yrðu afmáðar að því marki sem þær væru umfram matsverð fasteignarinnar. Landsbankinn og Arion banki mótmæltu frumvarpinu. Landsbankinn gerði athugasemdir við að kærendur hygðust ráðstafa 500.000 krónum af því fé sem þau höfðu lagt fyrir í greiðsluskjóli til að kaupa nýja bifreið og fór bankinn fram á að fénu yrði ráðstafað til samningskröfuhafa. Arion banki hafnaði frumvarpinu en kvaðst þó tilbúinn til að samþykkja 70% eftirgjöf samningskrafna. Þá gerði bankinn einnig kröfu um að fyrrnefndum 500.000 krónum yrði ráðstafað til kröfuhafa.

Umsjónarmaður sendi kröfuhöfum breytt frumvarp 13. ágúst 2015 þar sem hann taldi komið til móts við athugasemdir Landsbankans og Arion banka. Með tölvupósti frá Arion banka 10. september 2015 hafnaði bankinn sjónarmiðum umsjónarmanns og kvað samninga ekki mundu takast á grundvelli tillögu umsjónarmanns. Við svo búið þótti umsjónarmanni ljóst að samningar myndu ekki takast eftir ákvæðum IV. kafla lge. Kærendur lýstu því yfir 25. nóvember 2015 að þau vildu leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt 18. gr. lge.

Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi 9. desember 2015 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mælt sé með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á samkvæmt 18. gr. lge. beri meðal annars að líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og hvort skuldari hafi að öðru leyti staðið heiðarlega við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Þá beri umsjónarmanni einnig að líta til þess hvort raunhæft sé að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafi umleitanir til sín taka.

Með tölvupósti 9. desember 2015 hafi umsjónarmaður óskað eftir þremur síðustu launaseðlum kærenda. Kærandi A hafi haft samband við umsjónarmann símleiðis sama dag. Hann kvaðst hafa lagt fram launaseðla hjá fyrri umsjónarmanni og taldi því ekki þörf á að leggja fram nýja. Umsjónarmaður hafi ítrekað að nýjar tekjuupplýsingar vantaði. Kærandi A greindi þá frá því að nýjustu launaseðlar endurspegluðu ekki raunverulegar tekjur kærenda þar sem kærandi B hefði haft meiri atvinnu undanfarið en það væri tímabundið. Auk þess væru launin nú hærri vegna desemberuppbótar. Umsjónarmaður hafi þá kynnt kæranda A launaupplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra sem kærandi hafi staðfest að væru réttar en samkvæmt þeim hafi tekjur hans verið 30.000 krónum hærri mánaðarlega en gert hafi verið ráð fyrir í frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings. Miðað við þessar upplýsingar hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 2.331.831 krónu á tímabili frestunar greiðslna. Kærendur kveðist hafa lagt fyrir 958.849 krónur en að auki greitt nauðsynlegan kostnað að fjárhæð 576.273 krónur. Samkvæmt þessu skorti 796.709 krónur upp á að kærendur hafi lagt fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu sé það mat umsjónarmanns að kærendur hafi brotið í bága við skyldur sínar samkvæmt a-lið 12. gr. lge. þar sem þau hafi ekki lagt til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem hafi verið umfram það sem þau þurftu til að sjá sér farborða á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Með hliðsjón af framangreindu hafi umsjónarmaður ekki séð sér annað fært en að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum 50/2009, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að hin kærða ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi.

Samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunar, sem hafi verið útbúið fyrir kærendur, hafi þau átt að leggja til hliðar 145.000 krónur á mánuði. Það hafi þau gert í 6 mánuði. Síðan hafi verið gerð breyting á frumvarpinu og mánaðarlegur sparnaður lækkaður í 120.000 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu ættu kærendur að hafa lagt til hliðar 1.590.000 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt í nóvember 2014. Að mati kærenda hafi þau staðið við þetta og getað lagt fyrir 958.849 krónur en þurft að greiða óvæntan kostnað að fjárhæð 643.592 krónur.

Kærendur kveðast hafa staðið skil á öllum gögnum og farið að þeim fyrirmælum sem þeim hafi verið gefin. Því telji þau óeðlilegt að mælt sé gegn því að greiðsluaðlögunarsamningur komist á.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með því að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mælt sé gegn því að nauðasamningur komist á vegna þess að kærendur hafi ekki sinnt skyldu sinni um sparnað samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með fullnægjandi hætti.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Annar umsjónarmaður kærenda gerði frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings 17. ágúst 2015. Samkvæmt því höfðu kærendur lagt fyrir 680.000 krónur. Miðað við það hefðu þau átt að geta lagt fyrir 960.000 krónur á tímabili frestunar greiðslna. Þau kveðist ekki hafa getað lagt meira fyrir vegna ýmissa útgjalda svo sem tannlæknakostnaðar o.fl., alls að fjárhæð um 440.000 krónur.

Samkvæmt útreikningum þriðja umsjónarmannsins hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir alls 2.331.831 krónu frá því að þau fengu heimild til greiðsluaðlögunar 5. nóvember 2014 til 30. nóvember 2015. Þau hafi lagt fyrir 958.849 krónur og kveðist hafa þurft að standa straum af auknum kostnaði að fjárhæð 576.273 krónur. Miðað við þessa útreikninga umsjónarmanns frá 9. desember 2015 vantaði 796.709 krónur upp á sparnað kærenda. Umsjónarmaðurinn mælti gegn því að nauðasamningur samkvæmt 2. mgr. 18. gr. lge. kæmist á.

Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar af launum sínum á tímabili frestunar greiðslna, eða í svokölluðu greiðsluskjóli, skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Sé miðað við fyrirliggjandi yfirlit úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra voru tekjur kærenda, bætur og framfærslukostnaður á tólf mánaða tímabili greiðsluskjóls eftirfarandi í krónum:

Laun og bætur 5.997.363
Framfærslukostnaður* 4.092.012
Greiðslugeta 1.905.351

*Samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings.

Samkvæmt þessu hefði sparnaður kærenda á tímabilinu 5. nóvember 2014 til 9. desember 2015 átt að nema 1.905.351 krónu. Kærendur hafa lagt fram gögn vegna neðangreindra óvæntra en nauðsynlegra útgjalda sinna í krónum í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.:

Viðgerð á bíl 74.558
Tannlæknir 250.000
Forhitari í fasteign 89.016
Gleraugu 101.750
Gleraugu 80.000
Samtals: 595.324

Dragast ofangreind útgjöld frá kröfu um sparnað. Samkvæmt því hefði sparnaður kærenda á tímabilinu átt að vera þessi í krónum:

Greiðslugeta 1.905.351
Óvæntur kostnaður 595.324
Sparnaður 1.310.027

Í málinu liggur fyrir að kærendur hafa lagt fyrir 958.849 krónur og vantar því 351.178 krónur upp á sparnað þeirra til að ná ofangreindum markmiðum. Þrátt fyrir það þykir sá munur að mati úrskurðarnefndarinnar, eins og á stendur í málinu, ekki það veigamikill að hann verði hafður til marks um það að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja fyrir fé þannig að staðið geti í vegi fyrir því að þau fái notið úrræða 2. mgr. 18. gr. lge. um að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá er einkum litið til þess að þær upplýsingar, sem kærendur fengu um þá fjárhæð sem þau áttu að leggja fyrir mánaðarlega frá þremur umsjónarmönnum, voru að einhverju leyti misvísandi sem og þess að kærendur fóru að tilmælum kröfuhafa, meðal annars um skil á bifreið.

Samkvæmt því sem að framan er rakið þykir ekki nægilegt tilefni til að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar og tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum 50/2009, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge., á þeirri forsendu sem umsjónarmaður gerir. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C, um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á í máli A og B er felld úr gildi.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum