Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 27/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 27/2016

Miðvikudaginn 31. ágúst 2016

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 20. janúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 14. desember 2015 þar sem kæranda er synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt b- og d liðum 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með ákvörðun 14. desember 2015 synjaði umboðsmaður skuldara umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Fjárhagur kæranda var talinn óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem hann hefði gefið misvísandi upplýsingar um leigutekjur af fasteignum sínum og engar upplýsingar lægju fyrir um hvernig leigutekjunum hefði verið háttað frá árinu 2007. Þá hefði hann ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um fjárhag félags í sinni eigu. Með þessu var kærandi jafnframt talinn hafa veitt rangar eða villandi upplýsingar um mikilsverðar aðstæður í málinu í skilningi d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Í hinum kærða úrskurði er vísað til þess að af þessum ástæðum hafi embættið talið skylt að hafna umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Áður hafi umsóknum kæranda um heimild til að leita greiðslu-aðlögunar verið synjað fjórum sinnum.

Þann 20. janúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra vegna málsins. Kærð er synjun umboðsmanns skuldara frá 14. desember 2015 á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Kærandi óskar eftir því að tekið sé tillit til þess að hann hafi sent kæru 18. nóvember 2015 og hann því talið að ekki væri þörf á að senda nýja kæru.

Kærandi telur að á honum séu brotin mannréttindi samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu um sanngjarna málsmeðferð og réttindi fatlaðra. Þá gerir kærandi athugasemdir við vinnubrögð umboðsmanns skuldara í málinu.

Samkvæmt gögnum málsins tók kærandi á móti hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. desember 2015 en ákvörðunin var send með ábyrgðarpósti til kæranda 18. desember 2015. Í bréfi umboðsmanns skuldara, sem fylgdi ákvörðun embættisins, kom fram að kærufrestur væri tvær vikur frá móttöku ákvörðunar.

Með bréfi 8. júlí 2016 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Engin svör bárust frá kæranda.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um synjun á umsókn um greiðsluaðlögun berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.), nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Kæran barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 20. janúar 2016. Kærandi tók á móti tilkynningu um ákvörðun umboðsmanns skuldara á synjun umsóknar um greiðsluaðlögun 21. desember 2015. Samkvæmt þessu byrjaði kærufrestur að líða þann dag en honum lauk 4. janúar 2016. Kæran barst því úrskurðarnefndinni 15 dögum of seint.

Engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

ÚRSKURÐARORÐ

Kæru A á ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja honum um heimild til greiðsluaðlögunar, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum