Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 328/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 328/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. september 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. september 2017 á beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Úrskurðað var í málinu 31. janúar 2018. Niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála var að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2018, óskaði kæranda eftir endurupptöku málsins.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2016 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. ágúst 2017, sótti kærandi um niðurfellingu ofgreiðslukröfu. Með bréfi, dags. 4. september 2017, synjaði Tryggingastofnun ríkisins beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar ástæður væru ekki talin vera fyrir hendi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. september 2017. Með bréfi, dags. 11. september 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 25. september 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. september 2017. Athugasemdir bárust ekki.

Með úrskurði, dags. 31. janúar 2018, staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2018, barst úrskurðarnefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í beiðni segir að í úrskurðinum hafi verið að finna rangfærslur eða lygar eins og hann kalli það. Kærandi sé sagður hafa verið frá vinnu X 2016 til X 2016. Rétt sé að hann hafi verið frá vinnu X 2015 til X 2016. Þá eigi hann að hafa verið með X kr. í laun á mánuði. Hann hafi ekki hugmynd um hvaðan sú tala sé fengin. Hann væri ekki 50% öryrki ef hann væri með X kr. á mánuði.

III. Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 31. janúar 2018. Með úrskurðinum var synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta staðfest.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að rangfærslur hafi verið í úrskurðinum varðandi upphafsdagsetningu tímabils sem hann hafi verið frá vinnu annars vegar og meðaltekjur hins vegar. Engin gögn fylgdu með endurupptökubeiðninni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til framangreindra athugasemda. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að niðurstaða málsins hafi ráðist af ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Telur úrskurðarnefnd rétt að benda kæranda á að þær tekjur sem nefndin tók mið af við útreikning meðaltekna byggðust á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 328/2017 synjað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls hjá úrskurðarnefnd velferðarmála er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum