Hoppa yfir valmynd

Mál nr. IRR14030253

     

Ár 2014, þann 5. júní, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR14030253

 

Kæra Svifflugfélags Íslands

á ákvörðun

Vegagerðarinnar

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Mál þetta er endurupptaka á úrskurði ráðuneytisins frá 21. ágúst 2013 í máli IRR13070189. Má rekja upphaf málsins til þess að með stjórnsýslukæru dagsettri 16. júlí 2013 kærði Svifflugfélag Íslands, kt. 531170-0169 (hér eftir nefnt SFÍ) samkvæmt heimild í 57. gr. vegalaga nr. 80/2007, ákvörðun Vegagerðarinnar frá 19. júní 2013 um að synja umsókn félagsins um undanþágu til flutnings á þremur skúrum frá Reykjavík að Sandskeiði. Krafðist SFÍ þess að ákvörðun Vegagerðarinnar yrði breytt og veitt yrði leyfi til flutnings skúranna. Var niðurstaða ráðuneytisins sú að staðfesta ákvörðun Vegagerðarinnar.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins festi SFÍ kaup á þremur skúrum við Rimaskóla og hugðist flytja þá að aðalstarfsstöð félagsins við Sandskeið. Sótti SFÍ um stöðuleyfi fyrir skúrunum til Kópavogsbæjar en var synjað með bréfi bæjarins dags. 2. júlí 2013. Þá sótti SFÍ um leyfi Vegagerðarinnar til flutnings skúranna með erindi dags. 12. júní 2013 en var synjað um leyfi með bréfi stofnunarinnar dags. 19. júní 2013. Var forsenda synjunarinnar sú að það væri skilyrði fyrir veitingu flutningsleyfis að SFÍ gæti framvísað staðfestingu á því að skipulags- og byggingaryfirvöld heimiluðu staðsetningu skúranna á áfangastað. Mótmælti SFÍ synjun Vegagerðinnar með bréfi dags. 25. júní 2013 en synjunin var staðfest með bréfi Samgöngustofu dags. 9. júlí 2013. Sú stofnun hafði þá tekið við málaflokknum af Vegagerðinni.

Ákvörðun Vegagerðarinnar var kærð til ráðuneytisins með bréfi SFÍ dags. þann 16. júlí 2013.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 17. júlí 2013 var Samgöngustofu gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi dags. 13. ágúst 2013.

Með tölvubréfum ráðuneytisins dags. 14. og 16. ágúst 2013 var SFÍ gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Samgöngustofu. Bárust þau andmæli ráðuneytinu með tölvubréfum dags. 15. og 18. ágúst 2013.

Með úrskurði ráðuneytisins dags. 21. ágúst 2013 var ákvörðun Vegagerðarinnar staðfest. Í kjölfarið kvartaði SFÍ til umboðsmanns Alþingis sem ritaði ráðuneytinu bréf þann 9. desember 2013 í tilefni kvörtunarinnar. Með bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns dags. 18. mars 2014 tilkynnti ráðuneytið að það hygðist taka málið upp að nýju þar sem Vegagerðin hefði ekki leitað eftir samþykki lögreglustjóra áður en ákvörðun var tekin í samræmi við fyrirmæli 75. gr. umferðarlaga.

Með bréfi SFÍ dags. 24. mars 2014 fór félagið þess á leit við ráðuneytið að málið yrði endurupptekið.

Með bréfi ráðuneytisins til Samgöngustofu dags. 12. maí 2014 var stofnuninni tilkynnt um endurupptöku málsins og óskað eftir frekari gögnum og afstöðu stofnunarinnar. Barst umsögn Samgöngustofu ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar dags. 19. maí 2014.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 20. maí 2014 var SFÍ gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum Samgöngustofu. Bárust þau andmæli ráðuneytinu með tölvubréfi dags. 21. maí 2014.

 

III.    Málsástæður og rök SFÍ

Í upphaflegri kæru kemur fram að SFÍ telji að krafa Vegagerðarinnar um að leyfi skipulags- og byggingaryfirvalda þurfi að liggja fyrir áður en flutningsheimild er veitt eigi sér ekki stoð í lögum. Gangi krafa Vegagerðarinnar í berhögg við undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og 2. gr. stjórnskipunarlaga. Löggjafinn hafi sett í lög heimild til handhafa framkvæmdavaldsins til að setja nánari reglur um skilgreiningar hámarks breiddar ökutækja og um leið heimild til aksturs sérstaklega breiðra ökutækja sbr. 75. gr. umferðarlaga. Í ákvæðinu sé ráðherra gefin heimild til að setja reglur um breidd ökutækja og farms. Enga lagaheimild sé að finna í ákvæðinu um önnur íþyngjandi skilyrði fyrir flutningi. Hafi ráðherra sett reglugerð nr. 155/2007 um sérstakan flutning með stoð í 75. gr. umferðarlaga. Vísar SFÍ til 13. gr. reglugerðarinnar. Gefi reglugerðin heimild til að binda undanþágu við ástand vega og mannvirkja. Einnig komi fram í reglugerðinni heimild til að setja nánari skilyrði fyrir leyfi. Ákvæðið gefi Vegagerðinni hins vegar ekki heimild til að setja hvaða skilyrði sem er. Þá gefi lögin ráðherra ekki heimild til að framselja vald til annarra um nánari kröfur og skilyrði fyrir leyfi. Gefi lögin enga heimild til að setja íþyngjandi skilyrði fyrir flutningi sérstaklega breiðra ökutækja önnur en þau að lögreglan komi að flutningi. Þá sé ekki að finna í 75. gr. umferðaralaga heimild til að setja undanþáguákvæði. Öll reglugerðarákvæði sem styðjist við 75. gr. laganna falli undir almenn ákvæði en ekki undanþáguákvæði. Þetta þýði að nánari útfærslur um kröfur um breidd ökutækja séu almenn laga- og reglugerðarákvæði og geti því tæpast fallið undir undanþágur. Umræddum reglugerðarákvæðum sé hins vegar stillt upp sem undanþáguákvæðum en ekki verði séð að þau standist almennar reglur 75. gr. umferðarlaga. Þá verði ekki annað séð af 75. gr. umferðarlaga en að lögreglustjóra beri að gefa út leyfi fyrir flutningi. Ekki verði séð að ákvæðið heimili ráðherra eða framkvæmdavaldinu að ákveða aðra meðferð málsins. Ákvæði um að Vegagerð í stað lögreglustjóra veiti leyfi fyrir flutningi óvenju breiðra ökutækja virðist þannig stangast á við umferðarlög. Þá telur SFÍ að ákvörðun Vegagerðarinnar sé andstæð lögmætisreglu sem styðjist við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í því felist að ákvarðanir stjórnvalda skuli hafa stoð í lögum og stjórnvöld geti almennt ekki tekið íþyngjandi ákvarðanir nema þau hafi til þess skýra lagaheimild. Verði ekki séð að ákvæði í framan greindum lögum gefi heimild til að setja kröfur um annað en það sem fram komi í lagatextanum. Ákvæði reglugerðarinnar eigi sér ekki lagastoð. Sé framkvæmdavaldið komið langt út fyrir ákvarðanir og skýrar heimildir löggjafans. Ráðherra sé ekki með reglugerð heimilt að setja íþyngjandi kröfur um annað en það sem fram kemur í lagatexta. Sama eigi við um settar kröfur í verklagsreglum lögreglustjóra eða Vegagerðarinnar. Séu skilyrði Vegagerðarinnar um sérstaka heimild yfirvalda í Kópavogsbæ verulega íþyngjandi þar sem bæjarfélagið neiti að veita heimild og rökstuðning fyrir sinni ákvörðun. Telur SFÍ að ekki verði séð að Vegagerðin eða lögreglustjóri hafi lögmæta heimild samkvæmt 75. gr. umferðarlaga til að krefjast framvísunar leyfis utanaðkomandi aðila fyrir flutningi skúranna. Telur SFÍ að synjun Vegagerðarinnar á flutningsleyfi skúranna kunni að brjóta gegn eignarréttarákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar. Með ákvörðun Vegagerðarinnar geti SFÍ ekki tryggt öryggi eigna sinna og eigi á hættu að missa eignarréttinn vegna ákvörðunar stofnunarinnar.

Í andmælum sínum frá 15. og 18. ágúst 2013 bendir SFÍ á að ákvörðun Vegagerðarinnar um að setja umrætt skilyrði fyrir flutningi skúranna sé stjórnvaldsákvörðun sem er endanleg. Umrætt skilyrði geti SFÍ ekki uppfyllt á meðan túlkun Kópavogsbæjar á byggingarreglugerð heimili ekki veitingu stöðuleyfis fyrir skúrana. Getur SFÍ þess að tveir aðrir skúrar hafi verið fluttir annað án vandkvæða. Þá bendir SFÍ á að Vegagerðin hafi ekki sýnt fram á að stofnunin fylgi eftir meintri reglu um niðursetningarleyfi frá sveitarfélagi. Engar opinberar reglur finnist sem Vegagerðin segist fylgja og brjóti slík vinubrögð gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ítrekar SFÍ að ákvæði reglugerðar nr. 155/2007 standist ekki lögmætisreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þá gefi 75. gr. umferðarlaga enga heimild fyrir undanþágum og því geti reglugerðin ekki heimilað undanþágur. Með flutningi á mjög stórum farmi geri ákvæðið aðeins kröfu um að lögregla komi að málinu varðandi ákvörðun um fylgd. Slíkur flutningur þurfi ekki undanþágu heldur heimild og ákvörðun um fylgd. Þá verði ekki séð að heimilt sé að blanda saman öðrum leyfum en tengist flutningi húsanna á sameiginlegu vegakerfi landsins. Viðkomandi landeigandi beri fyrst og fremst ábyrgð á að fylgja skipulags- og mannvirkjalögum og til þess bær byggingaryfirvöld hafi allan kost á að fylgjast með og láta stöðva eða fjarlægja framkvæmdir ef málefnalegar ástæður krefjist. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi úrskurðað að umrædd hús þarfnist ekki byggingarleyfis þvert á fullyrðingar Kópavogsbæjar. Þá hafi bærinn tekið þá ákvörðun að stöðuleyfi eigi ekki við um umrædd hús. Húsin falli því hvorki undir byggingarleyfi né stöðuleyfi að mati Kópavogsbæjar. Því verði ekki séð að úrskurðurinn og fyrirliggjandi ákvörðun Kópavogsbæjar heimili bænum að skipta sér af flutningi og geymslu húsanna. Geti Vegagerðin því ekki byggt ákvörðun sína fyrir flutningsleyfi á aðkomu Kópavogsbæjar. Þá bendir SFÍ á að hlutverk Vegagerðarinnar sé eingöngu að tryggja eðlilegan og öruggan flutning farms. Stofnunin hafi ekki með höndum byggingareftirlit, umhverfiseftirlit, siðgæðiseftirlit eða annað eftirlit.

SFÍ telur að gögn málsins beri með sér að verklagsreglur þær sem Samgöngustofa vísi til eigi ekki við lausar kennslustofur eða skúra til geymslu eins og umrædd hús félagsins. Telur SFÍ að í framlögðum gögnum sé eingöngu fjallað um flutning frístundahúsa í smíðum og laus kennslustofa falli ekki undir frístundahús. Telur SFÍ að samkvæmt skilgreiningu á frístundahúsi í lögum um frístundabyggð nr. 75/2008 geti lausar kennslustofur eða skúrar með engu móti fallið undir frístundahús. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi úrskurðað að SFÍ þurfi ekki byggingarleyfi fyrir niðursetningu húsanna en í tilgreindum skjölum sé fjallað um að byggingarleyfi þurfi áður en flutningsleyfi er gefið. Því sé skýrt að hús SFÍ falli ekki undir tilskipanir umræddra skjala. Þá telur SFÍ ómálefnalegt af Vegagerðinni að taka ákvörðun um að fela skipulagsyfirvöldum ákvörðun un nauðsyn flutnings skúranna á Sandskeið enda ekki á verksviði skipulagsyfirvalda eða Vegagerðarinnar að meta nauðsyn flutninga skúra á starfssvæði SFÍ. Bendir SFÍ á að aðrir flutningsaðilar virðist ekki þurfa að gangast undir þessa sömu ákvörðun og sé það brot á jafnræðisreglu. Telur SFÍ að ákvörðun Vegagerðarinnar falli ekki undir tilgreindar reglur og eigi ekki við í tilfelli félagsins ásamt því að reglurnar skorti lagastoð. Lög, verklagsreglur eða önnur rök styðji ekki þá ákvörðun Vegagerðarinnar að krefjast leyfis skipulagsyfirvalda.

Í endurupptökubeiðni SFÍ frá 24. mars 2014 kemur fram að eftir úrskurð ráðuneytisins hafi SFÍ aflað heimildar Seltjarnarnessbæjar fyrir flutningi kennslustofanna. Þrátt fyrir það hafi ekki fengist flutningsleyfi. Séu ástæður erfiðleikanna gagnvart Sandskeiði þær að fjögur sveitarfélög geri lögsögukröfur að svæðinu. Kópavogsbær hafi hafnað umsókn félagsins um stöðuleyfi á þeirri forsendu að byggingarreglugerð geri ekki ráð fyrir að umræddar skólastofur fái stöðuleyfi. Telur SFÍ að sú túlkun Kópavogsbæjar standist ekki mannvirkjalög. Hafi tvær af fimm kennslustofum fengið stöðuleyfi, önnur á Hólmsheiði en hin á Hvolsvelli. Telur SFÍ að stjórnvöld geti ekki byggt synjun um flutningsleyfi á ólögmætri synjun Kópavogsbæjar. Þá bendir SFÍ á að þau rök standist ekki að flutningur kennslustofanna setji álag á umferðarmannvirki. Með aðkomu lögreglu sé umferðaröryggi tryggt. Eins bendir SFÍ á að samkvæmt 9. tl. 60. gr. mannvirkjalaga sé ekki skylt að afla stöðuleyfis fyrr en tveimur mánuðum  eftir að flutningur á sér stað.

Í andmælum SFÍ frá 19. maí 2014 bendir félagið á að það telji að ákvörðun Samgöngustofu um synjun á flutningsheimild sé andstæð lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í henni felist að stjórnvöld geti almennt ekki tekið íþyngjandi ákvarðanir nema þau hafi til þess skýra lagaheimild. Tilskipanir embættismanna eða verklagsreglur milli lögreglu og Samgöngustofu gangi ekki framar lögum. Samgöngustofa vísi til 75. gr. umferðarlaga en þar sé ekki að finna heimild til að gera ófrávíkjanlega kröfu um formlegt leyfi frá sveitarfélagi. Þá sé ekki í tilvitnaðri reglugerð að finna heimild til höfnunar leyfis á þeim forsendum sem ákvörðun Samgöngustofu byggist á. Séu verkferlar Samgöngustofu ekki í samræmi við skýran lagatexta umferðarlaga en þar komi fram að lögregla skuli veita flutningsleyfi. Þá sé ákvörðun Samgöngustofu brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Verði ekki annað séð en að nægjanlegt sé að Samgöngustofa upplýsi byggingaryfirvöld um áætlaðan flutning og það sé byggingaryfirvalda en ekki Samgöngustofu að fylgjast með því hvort umræddur farmur sé í samræmi við lög og reglur. Einnig bendir SFÍ á að hvergi í mannvirkjalögum sé að finna kröfu um stöðuleyfi lausafjár sem ætlað er að standa í minna en tvo mánuði. Því standi ekkert í vegi fyrir flutningi kennslustofanna.

 

IV.    Ákvörðun Vegagerðarinnar og umsagnir Samgöngustofu

Í ákvörðun Vegagerðarinnar frá 19. júní 2013 er á það bent að veiting undanþágu frá gildandi reglum um stærð og þyngd ökutækja sé ívilnandi ákvörðun og feli í sér að vikið sé frá reglum sem gildi um hámarks stærð ökutækja þegar nauðsyn beri til í sérstökum tilvikum þegar flutningur geti ekki farið fram með öðrum hætti. Sé heimildina að finna í 13. gr. reglugerðar nr. 155/2007. Samkvæmt ákvæðinu sé Vegagerðinni heimilt að veita undanþágu og geti sett nánari skilyrði fyrir henni auk þess að binda undanþágu við ástand vega og mannvirkja hverju sinni sem og gerð ökutækis. Telur Vegagerðin heimilt að setja málefnaleg skilyrði fyrir því að undanþága sé veitt. Skilyrði verði að vera í eðlilegum tengslum við undanþáguheimildina og ekki ganga lengra en eðlilegt er auk þess sem gætt sé jafnræðis. Telur Vegagerðin eðlilegt að áður en undanþága er veitt til flutnings á umræddum skúrum liggi fyrir heimild viðkomandi skipulagsyfirvalda fyrir því að flytja megi skúrana á tilgreindan áfangastað. Án þess verði ekki fallist á að nauðsyn beri til að viðkomandi flutningur geti farið fram en það sé skilyrði þess að veita megi undanþágu frá reglum um stærð og þyngd ökutækja. Ekki verði fallist á að það teljist íþyngjandi að gera það að skilyrði fyrir undanþágunni að heimilt sé að flytja skúrana á tilgreindan áfangastað. Þá er það mat Vegagerðarinnar að eðlilegt og málefnalegt verði að teljast að setja skilyrði þessa efnis enda gætu ýmis vandkvæði skapast ef í ljós kæmi að flutningur hafi átt sér stað án viðeigandi heimildar. Telur Vegagerðin því rétt að setja það skilyrði fyrir veitingu undanþágunnar að SFÍ geti framvísað staðfestingu þess efnis að viðkomandi skipulags- og byggingaryfirvöld heimili fyrir sitt leyti flutning umræddra skúra á tilgreindan áfangastað. Þá bendir Vegagerðin SFÍ á að ekki hafi borist nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að afgreiða leyfisumsókn og félaginu bent á hvernig því beri að snúa sér í framhaldinu.

Þann 1. júlí sl. tók Samgöngustofa við þeim málaflokkum er tengdust ákvörðun Vegagerðarinnar og var því leitað umsagnar stofnunarinnar til kæruefnisins. Í umsögn Samgöngustofu frá 13. ágúst 2013 segir að ákvörðun Vegagerðarinnar feli ekki í sér endalok málsins í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga. Hafi umsókn SFÍ ekki verið afgreidd þar sem nauðsynlegar upplýsingar hafi ekki borist. Tilkynning til umsækjanda um að fullnægjandi gögn hafi ekki borist til að hægt sé að afgreiða umsókn geti ekki talist stjórnvaldsákvörðun sem unnt er að kæra. Þá vísar Samgöngustofa til málsástæðna þeirra sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun og vísar til 13. gr. reglugerðar nr. 155/2007 sem sett er með heimild í 75. gr. umferðarlaga. Eins og fram komi í ákvæðinu sé um að ræða undanþágu og geti Samgöngustofa sett nánari skilyrði fyrir undanþágunni. Telur stofnunin eðlilegt að áður en undanþága er veitt til flutnings á umræddum skúrum liggi fyrir heimild viðkomandi skipulagsyfirvalda fyrir því að flytja megi skúrana á tilgreindan áfangastað. Sé þetta bæði eðlilegt og málefnalegt og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er. Það sé mat Samgöngustofu að það gæti skapað veruleg vandamál ef flutningur skúranna væri heimilaður án þess að lögmæt heimild lægi fyrir um staðsetningu þeirra. Þá komi fram í ákvæðinu að afla beri samþykkis lögreglustjóra enda taki lögreglan þátt í flutningi mannvirkja. Þá tekur Samgöngustofa fram að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála breyti engu um afstöðu stofnunarinnar þar sem niðurstaða hennar fjalli eingöngu um byggingarleyfi. Er á það bent að í niðurstöðum nefndarinnar sé ekki tekin afstaða til þess hvort staðsetning húsanna sé háð stöðuleyfi. Vegagerðin og Samgöngustofa hafi ekki farið fram á að byggingarleyfi liggi fyrir heldur eingöngu staðfesting þess efnis að viðkomandi skipulags- og byggingaryfirvöld heimili fyrir sitt leyti flutning umræddra skúra á tilgreindan áfangastað.

Í umsögn Samgöngustofu frá 19. maí 2014 kemur fram að stofnunin geti ekki upplýst hvort leitað hafi verið samþykkis lögreglunnar áður en ákvörðun var tekin. Hins vegar þyki ljóst að svo hafi almennt ekki verið gert af þeim sökum að Vegagerðin og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi gert með sér verklagsreglur þann 17. mars 2008 um veitingu undanþága frá reglum um lengd, breidd, hæð, heildarþyngd og ásþunga ökutækis. Verklagsreglurnar hafi verið settar með stoð í 13. gr. reglugerðar nr. 155/2005 um stærð og þyngd ökutækja þar sem beina kröfu um setningu verklagsreglna sé að finna. Sé reglugerðin sett með himild í 68. gr., 75. gr. og 76. gr. umferðarlaga. Í verklagsreglunum sé það gert að skilyrði að leyfi eða yfirlýsing byggingafulltrúa í umdæmi áfangastaðar liggi fyrir ef flytja á hús. Sé þetta í samræmi við fyrirmæli í umburðarbréfi ríkislögreglustjóra frá því í apríl 2003. Hafi verklagsreglurnar verið búnar til svo ekki þyrfti að leita til lögreglu í hvert sinn áður en undanþága samkvæmt 13. gr. væri veitt.

Samgöngustofa telur að 3. mgr. 75. gr. umferðarlaga sé uppfyllt með verklagsreglunum en í stað þess að lögreglustjóri meti hvert tilfelli fyrir sig, sem bæði sé tímafrekt og óskilvirkt, sé skýrt samkvæmt verklagsreglunum hvaða upplýsinga og gagna sé þörf á hverju sinni svo undanþáguflutningur geti átt sér stað. Þá kveði 13. gr. reglugerðar nr. 155/2007 á um það að samþykkis lögreglu sé aflað eins og við eigi í samræmi við verklagsreglur þar um. Ekki verði annað séð en að með þessu sé óumdeilt að sé verklagsreglunum fylgt sé komið fram fullnægjandi samþykki lögreglu. Sé óþarft að leita sérstaklega til hennar áður en leyfi er veitt.

 

V.    Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er sú ákvörðun Vegagerðarinnar frá 19. júní 2013 að synja umsókn SFÍ um undanþágu til flutnings á þremur skúrum frá Reykjavík að Sandskeiði. Í ákvörðun Vegagerðarinnar kemur fram að stofnunin telji rétt að setja það skilyrði fyrir veitingu undanþágunnar að SFÍ geti framvísað staðfestingu þess efnis að viðkomandi skipulags- og byggingaryfirvöld heimili fyrir sitt leyti flutning skúranna á tilgreindan áfangastað. Að öðrum kosti geti flutningur skúranna ekki farið fram.

Í 75. gr. umferðarlaga er fjallað um breidd, lengd og hæð ökutækja. Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. setur ráðherra reglur um hámark breiddar, lengdar og hæðar ökutækja, með og án farms, þ.á m. um akstur sérstaklega breiðra, langra eða hárra ökutækja. Um það gildir nú reglugerð nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja. Í 3. mgr. 75. gr. kemur fram að ráðherra geti sett reglur um greiðslu fyrir lögregluaðstoð við flutning, sem eftir reglum sem settar eru samkvæmt 1. mgr., má aðeins fara fram að fengnu leyfi lögreglustjóra. Metur lögreglustjóri hverju sinni hvort þörf er á aðstoð. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að umferðarlögum nr. 50/1987 kemur fram að gert sé ráð fyrir því að í reglum sem settar eru samkvæmt 1. mgr. verði heimild til lögreglustjóra til að veita undanþágu vegna sérstakra flutninga.

Í 76. gr. umferðarlaga er fjallað um ásþunga og þyngd ökutækja. Kemur þar fram í 1. mgr. að ráðherra setji reglur um hámarks ásþunga og heildarþyngd ökutækja með og án farms. Þá segir í 3. mgr. 76. gr. að Samgöngustofa geti, að fengnu samþykki Vegagerðarinnar, veitt undanþágu frá reglum sem settar eru samkvæmt lagaákvæðinu þegar brýn nauðsyn þykir vegna sérstakra flutninga.

Í tilgreindum ákvæðum umferðarlaga er gerður greinarmunur á því hvort um er að ræða undanþágu vegna breiddar, lengdar eða hæðar ökutækis annars vegar, og hins vegar vegna ásþunga og þyngdar. Í þeim tilvikum sem óskað er eftir undanþágu frá reglum um hámark breiddar, lengdar eða hæðar ökutækis sé það lögreglu að veita slíka undanþágu, sbr. það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpi því sem varð að umferðarlögum. Sé hins vegar um að ræða undanþágu vegna ásþunga eða þyngdar á grundvelli 76. gr. umferðarlaga veiti Samgöngustofa leyfi til flutninganna.

Um stærð og þyngd ökutækja er nú fjallað í reglugerð nr. 155/2007 sem sett er með heimild í 68., 75. og 76. gr. umferðarlaga. Í 13. gr. reglugerðarinnar er fjallað um sérstaka flutninga. Þar segir að sækja megi um undanþágu frá reglum um lengd, breidd, hæð, heildarþyngd og ásþunga ökutækis til Vegagerðarinnar (nú Samgöngustofu) sem aflar samþykkis lögreglustjóra eftir því sem við á. Þetta eigi við þegar nauðsyn þykir bera til vegna óskiptanlegra eða sérstakra flutninga sem ekki geta með góðu móti farið fram með öðrum hætti. Geti Samgöngustofa sett nánari skilyrði fyrir leyfi og bundið undanþágu við ástand vega og mannvirkja hverju sinni og gerð ökutækis.

Ráðuneytið telur ljóst að ákvæði 75. gr. umferðarlaga verði ekki skýrt á annan hátt en þann að leyfi lögreglu til flutninga sem falla undir ákvæðið sé áskilið svo þeir geti farið fram. Verði 13. gr. reglugerðarinnar því ekki skýrð á annan hátt en þann að í þeim tilvikum sem undanþága fellur undir 75. gr. umferðarlaga beri Samöngustofu að leita eftir afstöðu lögreglu til þess hvort hún heimili flutninginn. Geti ekki komið til þess að synjað sé um undanþágu til flutninga sem falla undir ákvæði 75. gr. umferðarlaga nema fyrir liggi synjun lögreglu. Þar sem fyrir liggur að ekki var leitað eftir leyfi lögreglu áður en ákvörðun var tekin um að synja um flutning skúranna er það mat ráðuneytisins að þegar af þeirri ástæðu verði ekki hjá því komist að fella hinu kærðu ákvörðun úr gildi og senda málið Samgöngustofu á ný til meðferðar.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að þar sem stöðuleyfi hafi ekki verið fyrir skúrunum hafi ekki verið fallist á flutning þeirra. Vísar Samgöngustofa í þessu sambandi til verklagsreglna frá 17. mars 2008 þar sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin gera með sér samkomulag um verklag þegar veitt er undanþága frá ákvæðum reglugerðar nr. 155/2007. Í 2. tl. verklagsreglnanna komi fram að ef flytja eigi hús þurfi að framvísa leyfi eða yfirlýsingu byggingafulltrúa í umdæmi áfangastaðar. Því hafi Samgöngustofu verið heimilt að gera kröfu um að stöðuleyfi væri fyrir hendi áður en flutningur skúranna væri heimilaður.

Ráðuneytið bendir á að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 155/2007 er markmiðið með setningu hennar að setja reglur um hámark leyfilegrar stærðar og þyngdar ökutækis með tilliti til umferðaröryggis og álags á umferðamannvirki. Þá bendir ráðuneytið á að hvergi í tilgreindum ákvæðum umferðarlaga eða reglugerðar nr. 155/2007 er það gert að skilyrði að leyfi skipulagsyfirvalda sé áskilið áður en flutningur fer fram. Er það mat ráðuneytisins að því komi aðeins til álita að synja um flutning á grundvelli þess að leyfi eða yfirlýsingu byggingafulltrúa skorti að þeir flutningar sem um ræðir séu sérstökum vandkvæðum háðir með tilliti til umferðaröryggissjónarmiða og álags á umferðarmannvirki. 

 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar frá 19. júní 2013 um að synja umsókn Svifflugfélags Íslands um undanþágu til flutnings á þremur skúrum frá Reykjavík að Sandskeiði.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum