Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 126/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 126/2017

Föstudaginn 30. júní 2017

A

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 23. mars 2017 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1. mars 2017 vegna umgengni kæranda við dótturson sinn, C. Er þess krafist að kærandi teljist nákomin drengnum, hún fái við hann reglulega umgengni og sendar af honum myndir, eins og hún tilgreinir nánar í kröfugerð sinni fyrir úrskurðarnefndinni og lýst er í kafla II hér á eftir.

I. Málsatvik og málsmeðferð

C er X ára og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir hans er D. Drengurinn hefur ekki verið feðraður en ætlaður faðir er E. Kærandi er móðuramma drengsins.

Drengurinn hefur verið hjá sömu fósturforeldrum frá X 2014 er hann var X mánaða gamall. Fyrst var hann í tímabundnu fóstri en í varanlegu fóstri frá X 2014. Fram að því að drengurinn fór í fóstur dvaldi hann á Landspítalanum og Vistheimili barna. Drengurinn hefur aldrei búið hjá foreldrum sínum. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2014.

Drengurinn á einn eldri bróður sem fæddur er X og er í varanlegu fóstri hjá föðurafa þeirra og maka hans. Drengurinn nýtur umgengni við bróður sinn.

Kærandi hefur einu sinni hitt drenginn. Var það á Vistheimili barna í eina klukkustund sama dag og hann fór til fósturforeldra, X 2014.

Kærandi hefur áður óskað eftir umgengni við drenginn. Með úrskurði Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. mars 2014 var ákveðið að kærandi hefði ekki sérstaka umgengni við drenginn en fengi myndir af honum einu sinni á ári. Var þeim úrskurði skotið til kærunefndar barnaverndarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem staðfesti hann með úrskurði 9. júlí 2014. Var það niðurstaða nefndarinnar að kærandi teldist ekki nákomin drengnum í skilningi 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga (bvl.) en hann hefði hvorki haft tækifæri til að kynnast né tengjast kæranda. Á árinu 2015 gerði kærandi aftur kröfu um umgengni við drenginn. Var málið tekið fyrir fund Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. september 2015. Í bókun frá fundinum segir að nefndin líti svo á að kærandi teljist ekki nákomin drengnum í þeim skilningi að hún eigi rétt til umgengni við hann.

Kærandi óskaði enn eftir umgengni við drenginn með beiðni 11. október 2016. Úrskurðað var um málið á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1. mars 2017 á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að C, hafi ekki umgengni við A, enda teljist hún ekki nákomin drengnum í skilningi barnaverndarlaga“

II. Sjónarmið kæranda og kröfur

Krafa kæranda er að hún teljist nákomin drengnum. Verði sú krafa samþykkt gerir kærandi aðallega kröfu um að hún hafi umgengni við hann aðra hvora helgi og þá yfir nótt. Til vara krefst kærandi þess að hún fái umgengni við drenginn einu sinni í mánuði yfir nótt. Til þrautavara krefst kærandi þess að hún fái umgengni við drenginn fyrsta laugardag hvers mánaðar. Til þrautaþrautavara er þess krafist að kærandi fái umgengi við drenginn fjórum sinnum á ári og þá yfir nótt. Til þrautaþrautaþrautavara er gerð krafa um að kærandi fái umgengni við drenginn fjórum sinnum á ári, en ekki yfir nótt.

Hvort sem kærandi telst nákomin drengnum eða ekki krefst hún þess að fá reglulega myndir af drengnum. Hennar ítrasta krafa um myndir er að hún fái að lágmarki þrjár myndir ársfjórðungslega, það er tólf myndir á ári. Myndir þessar skulu vera í fókus og af barninu sjálfu. Miðað skal við að tekin sé ein mynd í mánuði. Myndin skal tekin 1.–10. hvers mánaðar.

Frá því að drengurinn fæddist hafi kærandi óskað eftir að fá að sjá hann og umgangast. Barnavernd hafi komið í veg fyrir alla umgengni fyrir utan eitt skipti þar sem kærandi fékk að sjá drenginn í klukkustund. Sú framganga barnaverndar að koma í veg fyrir frekari umgengni hafi valdið því að kærandi og drengurinn hafi ekki átt kost á því að tengjast frekar. Í upphafi hafi því verið borið við að fósturforeldar þyrftu frið til að drengurinn myndi tengjast þeim. Nú sé því borið við að kærandi sé ekki tengd drengnum í skilningi barnaverndarlaga.

Þann 11. október 2016 hafi Barnaverndarnefnd Reykjavíkur borist erindi frá kæranda þar sem farið var fram á umgengni við drenginn. Erindinu hafi ekki verið svarað. Þann 28. nóvember 2016 hafi erindið verið ítrekað. Þar sem ekkert svar hafi verið komið 28. desember 2016 hafi verið send kvörtun til Barnaverndarstofu um starfshætti Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Í febrúarmánuði 2017 hafi loks komið viðbrögð frá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þar sem greint hafi verið frá því að málið yrði lagt fyrir nefndarfund. Í greinargerð starfsmanna 14. febrúar 2017, sem lögð hafi verið fyrir nefndarfundinn, komi fram að samkvæmt tilmælum frá Barnaverndarstofu vegna máls af sama meiði beri barnaverndarnefnd að úrskurða um að aðilar teljist ekki nákomnir barni.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. bvl. og 1. mgr. 74. gr. bvl. eigi barn sem sé vistað utan heimilis rétt á að umgangast foreldra sína eða aðra sem eru því nákomnir, enda samrýmist það hagsmunum þess. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. eigi þeir sem telja sig nákomna barninu sama rétt á umgengni við barn í fóstri og foreldrar, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Telja verði það drengnum til hagsbóta að kynnast og tengjast ættingjum sínum. Það gerist best með því að hann fái að njóta umgengni við kæranda.

Kærandi vísar til greinargerðar með 2. mgr. 74. gr. bvl. þar sem segi: „Vera kann að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra er lítil sem engin.“ Einnig bendi kærandi á heimasíðu umboðsmanns barna þar sem eftirfarandi komi fram varðandi umræðu um 46. gr. barnalaga nr. 76/2003: „Þegar litið er til þess hverjir teljist til náinna vandamanna samkvæmt ákvæðinu væri einkum horft til afa og ömmu barns...“ Af þessu telur kærandi ljóst að hún teljist til nákominna í skilning bvl. Kærandi álítur enn fremur að þar sem að löggjafarvaldið hafi ekki séð ástæðu til að skilgreina sérstaklega nákomna er barnaverndarlögin hafi verið samin, verði að ætla að löggjafinn myndi einnig horfa til afa og ömmu barns sem nákominna í skilningi bvl. Löggjafinn hafi tekið fram í umfjöllun sinni um 74. gr. bvl. að með nákomnum væri ekki endilega átt við skyldmenni. Aðrir gætu fallið undir skilgreininguna á nákomnum, svo sem nánir vinir fjölskyldu. Með þessu verði að ætla að löggjafinn hafi ætlað að hugtakið „nákomnir“ yrði túlkað frekar rúmt, en ekki þröngt eins og gert sé í þessu tilviki. Það megi í öllu falli vera ljóst að löggjafinn hafi talið að móðurforeldrar væru nákomnir barni sem sett sé í fóstur. Sérstaklega þegar hvorki móðir né faðir geti sinnt sinni skyldu. Þó að móðir drengsins hafi í eitt einstakt skipti fengið að hitta barn sitt þýði það ekki að barnið njóti reglulegrar umgengni við hana eða nái að kynnast uppruna sínum í gegnum hana. Óskandi sé að móðir geti snúið lífi sínu til hins betra og fengið frekari umgengni í framtíðinni, en hvort slíkt takist sé óvíst á þessari stundu. Því sé ljóst að það myndi hafa sérstaka þýðingu fyrir drenginn ef hann fengi að umgangast kæranda.

Kærandi vísar til þess að þáttaskil hafi orðið í barnavernd víðsvegar um heiminn með tilkomu samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi barnsins. Barnasáttmálinn hafi verið löggiltur hér á landi með lögum nr. 19/2013. Barnasáttmálanum sé ætlað að tryggja börnum nauðsynlega vernd og umönnun. Í þessu sambandi bendir kærandi á 19. gr. sáttmálans. Einnig telur kærandi rétt að horfa til 5. gr. sáttmálans þar sem komi fram að þegar aðildarríki beiti réttindum þeim sem viðurkennd séu í samningnum skuli ríkið virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra, eða eftir því sem við eigi þeirra sem tilheyri stórfjölskyldu eða samfélagi samkvæmt staðbundnum venjum, eða lögráðamanna eða annarra sem að lögum séu ábyrgir fyrir barni, til að veita því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess. Þá bendir kærandi á 8. gr. sáttmálans þar sem segi að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkenni það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum eins og viðurkennt sé með lögum, án ólögmætra afskipta.

Barnasáttmálinn leggi með þessu þær skyldur á aðildarríki að þau skuldbindi sig til að virða rétt barns til að viðhalda tengslum við fjölskyldu sína, þar á meðal við stórfjölskyldu sína. Það sé ekki hægt að virða rétt barns í fóstri til að viðhalda tengslum við stórfjölskyldu sína með því að neita öllum meðlimum fjölskyldunnar um alla umgengni við barnið eins og gert sé í þessu tilviki. Ef virða eigi barnasáttmálann beri að heimila umgengni barnsins við stórfjölskylduna. Kærandi teljist til stórfjölskyldu drengsins samkvæmt skilningi þess orðs í barnasáttmálanum. Aðrir ættingjar drengsins hafi fengið neitun er komi að umgengni. Því sé ljóst að fái drengurinn ekki notið umgengni við kæranda muni íslensk stjórnvöld brjóta ákvæði sáttmálans.

Í barnasáttmálanum séu fjölskyldur í hávegum hafðar en enga skilgreiningu sé þó að finna á hugtakinu fjölskylda. Áhersla sé lögð á að börn alist upp innan fjölskyldu eða viðhaldi fjölskyldutengslum ef aðstæður krefjist þess að börn séu skilin frá foreldrum sínum. Ráðstafanir er varði börn skuli ávallt taka mið af því sem barninu sé fyrir bestu. Aðildarríkjum barnasáttmálans sé ætlað að veita fjölskyldum þá vernd og stuðning sem þær þurfi til að sinna þeirri ábyrgð sem á þeim hvíli vegna uppeldis og aðbúnaðar barna.

Almennt telji fræðimenn að það sé börnum til góðs að þekkja stórfjölskyldu sína og þá ekki síst ömmu sína og afa. Bendir kærandi á rit Allison Gilbert og Gunvor Anderson þessu til stuðnings. Af umfjöllun þeirra sé ekki hægt að ráða annað en að það sé talið börnum sem eru í fóstri fyrir bestu að þekkja fjölskyldu sína, jafnvel þó svo að engin tengsl hafi verið á milli barnsins og fjölskyldunnar er barnið hafi farið í fóstur.

Kærandi hafi umgengni við bróður drengsins er mál þetta varði. Það hafi hingað til ekki þótt rétt í íslensku samfélagi að gera upp á milli systkina. Um sé að ræða tvo bræður, sem báðum sé ætlað að vera í fóstri á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til 18 ára aldurs. Annar þeirra fái umgengni við móðurforeldra sína og aðra ættingja móður en hinn fái enga umgengni við ættmenni sín. Þetta geti ekki talist til góðs fyrir drenginn. Er hann eldist megi fastlega búast við því að hann muni spyrja sjálfan sig að því hvers vegna bróðir hans fái að hitta afa og ömmu en hann ekki.

Tengslakenningar telji almennt að náin tengsl við aðra manneskju séu grundvallaratriði í þroska einstaklinga. Tengsl myndist þegar tvær eða fleiri manneskjur eigi með sér náið samband. Tengsl séu ekki einungis fyrir ung börn heldur nauðsynleg frá vöggu til grafar. Þannig upplifi einstaklingurinn styrk og njóti hamingju. Börn þurfi umönnun einstaklinga sem séu eldri og vitrari, þannig öðlist börn öryggistilfinningu. Drengurinn sem um ræði sé nú X ára. Á þessu tímabili byrji almennt þroskaferli hjá börnum þar sem þau byrji að sækjast eftir sjálfstæði frá (fóstur)foreldrum sínum. Þá séu börn að læra sjálfsstjórn og efasemdir í garð annarra. Framangreint komi fram í tengslakenningum Bowlby, Beckett og Taylor svo að fáeinir fræðimenn á þessu sviði séu nefndir.

Það væri drengnum til hagsbóta að fá að vita að hann eigi aðra fjölskyldu sem þyki vænt um hann. Það sé ekki gott fyrir drenginn að álíta að fjölskyldan sem hann tengist blóðböndum hafi ákveðið að yfirgefa hann. Það gæti haft slæmar afleiðingar andlega séð fyrir drenginn síðar á lífsleiðinni.

Kærandi telur að henni sé mismunað. Föðurforeldrar drengsins hafi umgengni við hann þrátt fyrir að þau hafi ekki tengst honum meir en kærandi er sú umgengni hófst. Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Jafnframt sé óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn mála. Séu mál sambærileg skuli leyst úr þeim með sambærilegum hætti. Að sögn Barnaverndarnefndar Reykjavíkur sé drengurinn ófeðraður. Því veki það athygli að hann skuli njóta umgengni við ættingja föður á grundvelli skyldleika en hann hafi umgengni við föðurafa og bróður á grundvelli skyldleika. Samt sé ekkert sem sanni skyldleika. Af þessum ástæðum telur kærandi að ekki hafi verið nein rök til að heimila umgengni við föðurafa frekar en kæranda. Hefði í raun frekar átt að heimila umgengni við kæranda þar sem hafið sé yfir vafa að hún sé tengd barninu. Þetta telur kærandi andstætt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Kærandi bendir á að fram hafi komið hjá barnaverndarnefnd að verið væri að vinna að því að koma á umgengni drengsins við móður sína. Umgengni hafi farið fram einu sinni og þónokkuð sé síðan. Hvorki sé vitað til þess að umgengni hafi farið fram aftur né sé vitað til þess að umgengni sé fyrirhuguð á næstunni.

Kærandi fari fram á að fá myndir af drengnum. Taka verði mannlega þáttinn með í reikninginn en hvort sem kærandi teljist nákomin drengnum eður ei sé hún amma hans. Barnavernd beri að gæta meðalhófs í störfum sínum, bæði samkvæmt barnaverndarlögum og stjórnsýslulögum. Það væri mjög íþyngjandi ákvörðun fyrir kæranda að fá ekki framar myndir af drengnum. Það sé á hinn bóginn ekki íþyngjandi fyrir fósturforeldra að taka myndir af drengnum og senda þær til barnaverndar sem komi myndunum áleiðis til kæranda, en ætla verði að fósturforeldrar taki hvort sem er reglulega myndir af drengnum.

III. Afstaða Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til úrskurðarnefndarinnar 10. apríl 2017 er vísað til þess að í 74. gr. bvl. sé fjallað um umgengni í fóstri. Segi þar í 1. mgr. að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hve lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá segi enn fremur í lagaákvæðinu að þeir sem telji sig nákomna barninu eigi með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið.

Í athugasemdum við 74. gr. bvl. komi fram að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Réttur þeirra sé þannig ekki jafn ríkur og réttur kynforeldra. Við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni sé fóstri ætlað að vara skamman tíma og gert sé ráð fyrir að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Í máli þessu sé um að ræða X ára gamlan dreng sem aldrei hafi verið í umsjá foreldra eða annarra fjölskyldumeðlima. Sé það ólíkt eldri bróður hans sem hafi bæði verið í umsjá foreldra sinna og búið á heimili móðurömmu um tíma áður en hann hafi verið tekinn úr umsjá foreldra sinna tæplega X gamall. Drengurinn er mál þetta varði sé vistaður í varanlegu fóstri sem ætlað sé að vara til 18 ára aldurs hans. Fram hafi komið á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 28. febrúar síðastliðinn að drengurinn njóti umgengni við eldri bróður sinn sem sé í varanlegu fóstri á öðru fósturheimili. Hafi umgengni við móður einnig verið komið á. Með þeim hætti sé tryggt að drengurinn þekki uppruna sinn, þrátt fyrir að hann tilheyri nú annarri fjölskyldu.

Barnaverndarnefndin kveður kæranda ranglega halda því fram að drengurinn njóti umgengni við föðurafa sinn. Hið rétta sé að drengurinn njóti umgengni við bróður sinn og móður. Bróðir drengsins sé vissulega vistaður á heimili föðurafa drengjanna og maka hans en fyrirkomulag þeirrar umgengni sé ekki með þeim hætti að drengurinn eigi umgengni við föðurafa.

Eins og rakið hafi verið sé það niðurstaða barnaverndarnefndarinnar að kærandi teljist ekki nákomin drengnum í skilningi bvl. Af þeirri ástæðu verði þess ekki krafist af nefndinni að hún taki afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á myndum af drengnum.

Í ljósi þessa, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, gerir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða C

Í ljósi ungs aldurs drengsins var honum hvorki skipaður talsmaður né sjónarmiða hans aflað.

V. Afstaða fósturforeldra

Í bréfi fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar 4. apríl 2017 kemur fram að þeir leggist að öllu leyti gegn kröfum kæranda um umgengni við drenginn vegna hagsmuna hans og þarfa. Hjá kærunefnd barnaverndarmála hafi verið úrskurðað um umgengni kæranda við drenginn í júlí 2014. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið að kærandi teldist ekki nákomin drengnum í skilningi 2. mgr 74. gr. bvl. Einnig hafi nefndin talið að það þjónaði ekki hagsmunum drengsins að stuðla að eða þvinga fram umgengni. Að mati fósturforeldra eigi hið sama enn við.

Fósturforeldrarnir telja að með ráðstöfun drengsins í varanlegt fóstur, utan líffræðilegrar fjölskyldu og strax við upphaf ævi hans, hafi markmiðið verið að búa honum nýja fjölskyldu til frambúðar. Horfa verði til þess sem þjóni hagsmunum hans best. Drengurinn sé núna X ára og dafni vel. Aðalþarfir hans séu þær að vera elskaður, finna til öryggis og stöðugleika og að honum séu búnar sem bestar aðstæður til að vaxa og þroskast áfram. Fósturforeldrar telja að það gerist með áframhaldandi tengslamyndun við fósturforeldra og fósturfjölskylduna en fósturforeldrar séu einu foreldrarnir sem hann þekki.

Fósturforeldrum sé vel kunnugt um réttindi barns til að þekkja uppruna sinn. Þau muni styðja við og tryggja þann rétt drengsins svo fremi sem það stuðli að stöðugleika í uppvexti hans og öryggi og hafi sem minnsta röskun á líf hans í för með sér. Hafa beri í huga að umgengni þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna og þjóna þeirra hagsmunum. Miðað við núverandi stöðu telja fósturforeldranir ekki forsendur til þess að samþykkja umgengni við einstaklinga sem óljóst sé að þjóni hagsmunum og þörfum drengsins og gæti jafnvel verið ósamrýmanleg þeim markmiðum sem sjálf fósturráðstöfunin stefni að.

Taki úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tillit til úrskurðar barnaverndarnefndar frá 1. mars 2017 um synjun á beiðni kæranda um umgengni við drenginn er vinsamlegast farið fram á að umgengni verði takmörkuð, mjög hóflegur tímarammi verði settur á hvert skipti og að umgengni fari fram undir eftirliti barnaverndar hverju sinni.

VI. Niðurstaða

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Við ráðstöfun barns í fóstur skal samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt þessu orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Við úrlausn málsins ber að meta hvort kærandi telst nákomin drengnum í skilningi 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Eins og fram kemur í athugasemdum með lagaákvæðinu í frumvarpi til barnavendarlaga metur barnaverndarnefnd hvort aðili telst nákominn barni í skilningi lagaákvæðisins. Við lögskýringu á lagaákvæðinu verður þá að líta til þess að ætlun löggjafans hafi verið sú að túlka bæri það hverjir teldust nákomnir barninu út frá stöðu barnsins og hagsmunum þess. Drengurinn er nú X ára og hefur aldrei verið í umsjá foreldra sinna eða annarra líffræðilegra ættingja. Hann dvaldi fyrstu vikurnar á Landspítalanum og Vistheimili barna en fór X gamall til fósturforeldra þar sem hann hefur verið síðan. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2014. Af þessum ástæðum hefur drengurinn hvorki kynnst né tengst kæranda, enda er fósturfjölskyldan eina fjölskyldan sem hann hefur þekkt.

Varðandi kröfur kæranda um umgengni við drenginn er óhjákvæmilegt að líta til þess hverjir hagsmunir drengsins eru og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum hans að njóta umgengni við kæranda.

Í gögnum málsins kemur fram að drengurinn hefur verið hjá fósturforeldrunum frá því að hann var X gamall. Gert er ráð fyrir að hann muni verða hjá þeim þar til hann verður 18 ára gamall. Fósturforeldrarnir hafa því tekið að sér það vandasama verkefni að ala drenginn upp, búa honum sem bestar uppeldisaðstæður og sjá til þess að þörfum hans verði sinnt á þann hátt sem þjónar hagsmunum hans. Mikilvægt er fyrir drenginn að öryggi hans verði tryggt og grundvallarþörfum hans sinnt. Hann þarf að finna fyrir grunnöryggi en einn mikilvægasti þáttur þess er heilbrigð tengslamyndun. Slík tengslamyndun þarf að fara fram í friði og ró þar sem minnstir streituvaldar eða álagsþættir eru til staðar.

Þegar úrskurðað var í máli C 9. júlí 2014 voru aðstæður ólíkar því sem nú er. Drengurinn var á þeim tíma nýkominn í fóstur um X gamall og þurfti frið og ró til að geta myndað varanleg, heilbrigð og góð geðtengsl við fósturforeldra. Það var mikið í húfi og ekki mátti taka neina óþarfa áhættu til að trufla ekki fóstrið. Það var ekki tilefni til að barnið myndaði geðtengsl við aðra en fósturforeldra á þessum tíma. Því kom ekki til álita að kærandi tengdist drengnum. Það var mikilvægt að taka sérstakt tillit til fósturforeldranna til að valda þeim ekki óþarfa spennu og hugsanlegri togstreitu með því að kærandi hefði samskipti við drenginn þannig að þeir gætu einbeitt sér að því mikilvæga verkefni að tengjast drengnum. Tengslamyndun hefur gengið vel og C hefur dafnað og þroskast. Hann fékk tækifæri til að tengjast fósturforeldrum eins og um kynforeldra væri að ræða í frumbernsku, það er að segja á tveimur fyrstu árum ævi sinnar. Drengurinn mun ekki mynda sterk geðtengsl við aðra en þau þar sem djúptengslamyndun er lokið.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að nú sé uppi önnur staða en áður og eðlilegt sé að amma drengsins, þ.e. kærandi, fái möguleika á að sjá hann og hafa einhver samskipti við hann. Nefndin telur að slík umgengni sé ekki varhugaverð fyrir drenginn heldur geti hún þvert á móti þjónað hagsmunum hans. Hér ber ekki síst að líta til þess að drengurinn á albróður. Sá bróðir hefur tengsl við kæranda og bræðurnir hafa tengsl sín á milli. Ef samband bræðranna helst áfram er staða þeirra mjög ójöfn gagnvart kæranda sem er líffræðilega skyld þeim báðum. Það kynni að valda C hugarangri og vanlíðan að uppgötva seinna meir að bróðir hans eigi samskipti við kæranda en hann ekki. Kærandi er náskyld C en hún er ekki nátengd honum af því að tengslin eru engin. Þegar drengurinn hefur aldur og þroska til getur hann sjálfur metið og ákveðið hvort hann vill hafa samband við kæranda eða ekki. Úrskurðarnefndin telur að það sé réttur drengsins að honum séu búnar þær aðstæður sem gera honum kleift að taka sínar eigin ákvarðanir í framtíðinni varðandi umgengni við kæranda.

Að öllu þessu gættu verður að telja að þegar leyst var úr málinu með hinum kærða úrskurði hafi verið horft fram hjá framangreindum atriðum. Samkvæmt því var ekki lagður réttur grunnur að málinu við úrlausn þess. Er því óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og vísa málinu til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. Kröfu kæranda um umgengni við drenginn ber því að vísa til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur að nýju.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 1. mars 2017 er felldur úr gildi og málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum