Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Atvinnuleysistryggingar%20og%20vinnumarka%C3%B0sa%C3%B0ger%C3%B0ir

Nr. 142/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 142/2019

Mánudaginn 24. júní 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 4. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2019, um að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur á grundvelli 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 5. mars 2019. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2019, var umsókn kæranda hafnað á grundvelli 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. apríl 2019. Með bréfi, dags. 24. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 9. maí 2019. Með bréfi, dags. 13. maí 2019, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að hún hafi gerst brotleg vegna ferða erlendis á bótatíma. Hún hafi greitt til baka það sem ofgreitt var og þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi niðurstaðan verið sú að hún gæti ekki fengið bætur nema að hafa verið í vinnu samfleytt í 24 mánuði. Hún hafi verið með fastráðningu í ár en hafi misst hana vegna skipulagsbreytinga og gæti því ekki fullnægt skilyrðinu um 24 mánaða samfellda vinnu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Mál þetta varði ákvörðun stofnunarinnar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur með vísan til 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafi hún ekki starfað samfleytt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði. Upprunaleg ákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin þann 21. desember 2017. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé því liðinn. Eftir standi ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn kæranda, dags. 29. mars 2019.

Í 61. gr. sé fjallað um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana:

Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

Þegar viðurlög skv. 57.–59. gr. eða biðtími skv. 54. og 55. gr. hefur frestast skv. 3. mgr. 54. gr., 3. mgr. 55. gr., 3. mgr. 57. gr., 3. mgr. 58. gr. eða 3. mgr. 59. gr. leggst sá tími sem eftir var af fyrri viðurlagaákvörðun eða biðtíma saman við viðurlög skv. 1. mgr.

Endurtaki atvik sig sem lýst er í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili skv. 29. gr. skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

Ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæði þessu falla niður þegar nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst, sbr. 30. eða 31. gr. laganna.“

Af þessu leiði að komi til þess að atvinnuleitandi sæti viðurlögum í þriðja sinn á sama bótatímabili eða hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur skuli hann ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna en hún hljóði svo:

Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði í sem nemi 24 mánuðum frá og með desember 2017 er hún sótti um atvinnuleysisbætur þann 5. mars 2019. Hafi það því verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna bæri umsókn hennar um atvinnuleysisbætur, enda ætti hún ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefði starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá því að hún hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur þar til hún hafi starfað samfellt í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 59. gr. og 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var bótaréttur kæranda felldur niður 21. desember 2017 á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 vegna ferða kæranda erlendis. Að því virtu og þar sem kærandi hafði ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, sbr. 31. gr. laganna, bar Vinnumálastofnun að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur samkvæmt 4. mgr. 61. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja kæranda um bætur á grundvelli 61. gr. laga nr. 54/2006 staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2019, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum