Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 232/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 232/2016

Miðvikudaginn 9. nóvember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 22. júní 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. júní 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 27. júní 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. júlí 2016.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. júlí 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1975 og 1976. Þau eru gift og búa ásamt X börnum sínum í eigin einbýlishúsi að C. Húsið er 258,7 fermetrar að stærð.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 85.726.274 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína meðal annars til húsbyggingar, lækkunar fasteignaverðs og hækkunar lána.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 18. júní 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. september 2014 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Tveir umsjónarmenn hafa komið að máli kærenda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 30. mars 2016 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Umsjónarmaður hafi talið að kærendur uppfylltu ekki skilyrði til að halda eftir fasteign í greiðsluaðlögun og því yrði að kveða á um sölu eignarinnar samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. Kærendur hefðu ekki brugðist við því.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 18. apríl 2016 var þeim kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra á þeim grundvelli að þau hefðu ekki lagt nægilega fyrir í greiðsluskjóli samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Við skoðun umboðsmanns skuldara hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að kærendum væri ekki skylt að selja fasteign sína eins og umsjónarmaður lagði til. Kærendur komu andmælum sínum á framfæri með bréfi 2. maí 2016.

Með bréfi til kærenda 6. júní 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærendur vísa til þess að fyrri umsjónarmaður þeirra hafi gert frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun þar sem gert hafi verið ráð fyrir að kærendur héldu fasteign sinni. Frumvarpið hefði þó ekki verið sent til kröfuhafa svo sem lge. geri ráð fyrir. Þegar nýr umsjónarmaður hefði komið að málinu hafi hann gert kröfu um sölu á fasteign kærenda, meðal annars vegna þess að hún teldist óhófleg. Sú krafa hefði komið fram liðlega einu og hálfu ári eftir að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt og hafi komið kærendum í opna skjöldu. Kærendur hafi mótmælt þessum sjónarmiðum umsjónarmanns.

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 30. mars 2016 hafi umsjónarmaður lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður þar sem þau hefðu ekki orðið við því að selja fasteign sína. Í framhaldi af þessu hefði umboðsmaður skuldara tilkynnt kærendum með bréfi 18. apríl 2016 að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu að öllu óbreyttu felldar niður af þeirri ástæðu. Þeim hefði verið gefinn vikufrestur frá móttöku bréfsins til að leggja fram samning um söluþjónustu fasteignasala vegna eignarinnar.

Í þessu bréfi hafi einnig komið fram að embættið teldi að leggja þyrfti mat á það hvort kærendur hefðu sinnt skyldum sínum við greiðsluaðlögun um að leggja til hliðar fé umfram framfærsluskyldu. Þessi ástæða hafi ekki verið tilgreind í fyrrnefndu bréfi umsjónarmanns 30. mars 2016.

Kærendur telja að hinn langi málsmeðferðartími hjá Embætti umboðsmanns skuldara, síðar tilkomnar ákvarðanir umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara um nauðsyn á sölu fasteignar og það sjónarmið að kærendur hefðu ekki lagt nægilega háa fjárhæð fyrir á tímabili greiðsluskjóls, brjóti í bága við vandaða stjórnsýsluhætti og ákvæði 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæðið feli í sér að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem verða megi. Til þess verði að líta að fyrri umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda hafi lýst því yfir í október 2015 að sparnaður þeirra væri í samræmi við skyldu þeirra samkvæmt lge., sbr. tölvupóst umsjónarmannsins 15. október 2015.

Umboðsmaður skuldara hefði síðan hafnað tillögu umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda vegna þess að nauðsynlegt væri að selja fasteign þeirra. Það hafi verið eftir að gögn og röksemdir kærenda hafi borist embættinu, sbr. bréf þeirra 2. maí 2016. Eftir sem áður hafi greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verið felldar niður á grundvelli þess að þau hafi ekki lagt nægilega mikið til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana en eins og áður segi hafi tillaga umsjónarmanns 30. mars 2016 aðeins varðað sölu á fasteign kærenda. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi umboðsmanns skuldara 18. apríl sama ár að sparnaður hafi verið nefndur en þar segi orðrétt: „Að auki telur embættið að leggja þurfi mat á það hvort umsækjendur hafi sinnt skyldum sínum við greiðsluaðlögun og lagt til hliðar þá fjármuni sem fallið hafa til umfram framfærslukostnað þeirra eftir að frestun greiðslna hófst, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr.“

Ákvæði 2. mgr. 12. gr. lge. kveði á um að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli sá fyrrnefndi óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður. Samkvæmt orðanna hljóðan geri ákvæðið því ekki ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti upp á sitt einsdæmi fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir nema að undangenginni ósk frá umsjónarmanni. Greiðsluaðlögunarumleitanir verði því ekki felldar niður af öðrum ástæðum en þeim sem umsjónarmaður geri grein fyrir í bréfi sínu til embættisins, sbr. bréf 30. mars 2016. Kærendur telja þegar af þeirri ástæðu að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda hafi umsjónarmaður ekki lagt til að greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra yrðu felldar niður vegna þess að þau hefðu ekki lagt nægilega mikið til hliðar heldur vegna þess að hann taldi nauðsynlegt að selja fasteign þeirra.

Sé ekki fallist á að fella ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi vegna þessa, byggja kærendur á því að þau hafi fullnægt skyldum sínum um sparnað samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar af launum sínum það fé sem sé umfram það sem þau þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi lagt til hliðar 3.152.029 krónur á tímabili frestunar greiðslna. Að auki hafi þau orðið að leggja út fyrir óvæntum útgjöldum á tímabilinu, meðal annas vegna [...] og kaupa á þvottavél. Þá telja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi ekki gefið þeim nægilegt fjárhagslegt svigrúm vegna kostnaðar við stórhátíðir svo sem jól og páska. Kærendur krefjast þess að tekið sé mið af þessum kostnaði við mat á því hvað þeim hafi borið að leggja fyrir. Í ljósi hins langa málsmeðferðartíma og þess að frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings sé þegar tilbúið, telja kærendur jafnframt að leggja beri það í hendur kröfuhafa að taka afstöðu til þess hvort sparnaður þeirra teljist fullnægjandi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Skriflegar upplýsingar um skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. hafi fylgt ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 12. september 2014 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt ítrekaðar og útskýrðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. komi fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar. Kærendum hafi samkvæmt því borið að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. frá 12. september 2014.

Frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir í rúmlega 18 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. október 2014 til 31. mars 2016. Tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal barna- og vaxtabótum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur jan.-mars 2015 okt.-des. Tekjur alls
2016 2014
Launatekjur 2.302.404 8.492.020 2.018.333 12.812.757
Barna/vaxtabætur o.fl. 108.528 108.418 216.946
Samtals 2.302.404 8.600.548 2.126.751 13.029.703
Sparnaður 2016 2015 2014 Alls
Heildartekjur á ári 2.302.404 8.600.548 2.126.751 13.029.703
Meðaltekjur á mán. 767.468 716.712 708.917
Framfærsluk. á mán. 474.961 474.961 474.961
Greiðslugeta á mán. 292.507 241.751 233.956
Áætlaður sparnaður 877.521 2.901.016 701.868 4.480.405

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið 474.961 króna á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað aprílmánaðar 2016 fyrir hjón/sambýlisfólk með þrjú börn, auk upplýsinga frá kærendum sjálfum. Gengið sé út frá því að kærendur hafi alls haft heildartekjur að fjárhæð 13.029.703 krónur á fyrrgreindu tímabili og hafi átt að geta lagt fyrir 4.480.405 krónur.

Í október 2015 þegar mál kærenda hafi verið til meðferðar hjá fyrri umsjónarmanni hafi þau verið búin að leggja fyrir 2.210.112 krónur. Í andmælum kærenda við bréfi umboðsmanns skuldara frá 18. apríl 2016 hafi þau greint frá því að þau teldu sig þá hafa lagt til hliðar af launum sínum það sem hefði verið umfram framfærslukostnað alls 2.666.090 krónur.

Kærendur kveðist hafa orðið að greiða ýmis óvænt útgjöld. Kostnaður vegna [...]hafi verið 469.123 krónur. Einnig hafi útgjöld vegna tómstunda, skóla og dagvistunar verið hærri en umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir. Þá hafi kostnaður vegna jóla og páska haft áhrif á sparnaðinn.

Kærendur hafi lagt fram gögn að fjárhæð 387.623 krónur vegna [...] Sú fjárhæð komi til frádráttar á útreiknuðum sparnaði. Þá hafi kærendur lagt fram kvittanir vegna tómstunda, skóla og dagvistunar að fjárhæð 494.275 krónur. Í framfærslukostnaði sem umboðsmaður skuldara hafi reiknað fyrir kærendur hafi verið gert ráð fyrir 1.505.989 krónum vegna þessara liða á tímabilinu. Þannig hafi þegar verið gert ráð fyrir þessum útgjöldum í framfærslukostnaði kærenda. Samkvæmt þessu hafi kostnaður kærenda verið lægri en umboðsmaður skuldara hafi gert ráð fyrir og því ekki um aukinn kostnað þeirra að ræða. Loks hafi kærendur lagt fram kvittun að fjárhæð 89.900 krónur vegna kaupa á þvottavél og kemur sú fjárhæð til frádráttar á útreiknuðum sparnaði þeirra. Samkvæmt framansögðu teljist kærendur hafa þurft að leggja út fyrir nauðsynlegum viðbótarkostnaði að fjárhæð 477.523 krónur (89.900 + 387.623 ) á tímabili greiðsluskjóls. Því vanti 1.336.792 krónur upp á sparnað þeirra.

Hér verði að hafa í huga að þær aðstæður er 12. gr. lge. varðar séu þær að skuldari hafi sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Slíkir samningar feli að jafnaði í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum og leggi samningsferlið þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum sé unnt af kröfum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir standi yfir sé lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum eða innheimti kröfur á hendur skuldara, sbr. 3. gr. lge. Jafnframt beri skuldara að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf til að unnt sé að leggja fyrir á tímabilinu. Það sé mikilvægt að bæði skuldari og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verði framfærslukostnaður að styðjast við ákveðið viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið, liggi fyrir að ekki verði byggt á öðru viðmiði en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Við mat á þeirri fjárhæð, sem skuldari á að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli, beri því að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge.

Samkvæmt ofangreindu og 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum á meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Einnig sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Samkvæmt bankayfirliti sem hafi fylgt með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi kærendur lagt fyrir 3.152.029 krónur miðað við 21. júní 2016. Við ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana hafi sparnaður, eins og áður segir, verið 2.666.090 krónur og hafi kærendur á þeim tíma vantað 1.336.792 krónur upp á sparnaðinn. Í ákvörðun hafi einnig verið sýnt fram á að þótt aðeins væri miðað við sex mánaða tímabil frá október 2015 þegar fyrri umsjónarmaður hafi sagt sparnað kærenda fullnægjandi og út marsmánuð 2016 þegar umboðsmaður skuldara hafi ritað kærendum bréf og gefið þeim kost á andmælum, hafi þau vantað 453.196 krónur upp á sparnaðinn.

Frá því að ákvörðun var tekin um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar og til 21. júní 2016 hafi þeim tekist að leggja til hliðar 485.939 krónur. Í ljósi þess að kærendur njóti enn greiðsluskjóls svo og greiðslugetu þeirra, ætti sparnaðurinn að vera samkvæmt neðangreindri samantekt í krónum:

Miðað við allt tímabil greiðsluskjóls:
Áætlaður sparnaður skv. ákvörðun 4.480.405
Óvænt útgjöld skv. ákvörðun 477.523
Sparnaður skv. ákvörðun 2.666.090
Vantar upp á sparnað skv. ákvörðun 1.336.792
Geiðslugeta apríl - júní (292.507*3) 877.521
Aukinn sparnaður frá ákvörðun 485.939
Vantar upp á sparnað 391.582
Vantar upp á sparnað alls 1.728.374
Miðað við okt. 2015 til og með júní 2016:
Áætlaður sparnaður frá okt. 2015 skv. ákvörðun 1.007.147
Óvænt útgjöld frá okt. 2015 skv. ákvörðun 97.973
Áætlaður sparnaður frá okt. 2015 skv. ákvörðun 909.174
Raunsparnaður (2.666.090-2.210.112) 455.978
Vantar upp á sparnað skv. ákvörðun 453.196
Greiðslugeta apríl-júní (292.507*3) 877.521
Útgjöld vegna [...] 299.805
Aukning á sparnaði frá ákvörðun (3.152.029-2.666.090) 485.939
Vantar upp á sparnað 91.777
Vantar upp á sparnað alls 544.973

Samkvæmt þessu hafi kærendur brotið í bága við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og gildi einu hvort miðað sé við allt tímabil greiðsluskjóls eða tímabilið frá október 2015 þegar fyrri umsjónarmaður hafi talið sparnað þeirra fullnægjandi, til og með júní 2016. Það breyti því ekki niðurstöðunni að kærendur hafi aukið sparnað sinn frá því að ákvörðun var tekin í málinu þar sem sú viðbót sé ekki í samræmi við greiðslugetu kærenda.

Af málatilbúnaði kærenda megi ráða að þau telji umboðsmanni skuldara ekki heimilt að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar vegna vöntunar á sparnaði nema tillaga þar um hafi komið frá umsjónarmanni. Fyrir liggi að umsjónarmaður hafi með bréfi 30. mars 2016 lagt til að heimild kærenda yrði felld niður þar sem fasteign þeirra hafi þótt óhófleg og kærendur hefðu ekki fallist á að eignin yrði seld. Við mat umboðsmanns skuldara á tillögu umsjónarmanns hafi orðið ljóst að mánaðarleg greiðslugeta kærenda hafi verið veruleg. Af þeim ástæðum hafi komið til skoðunar hvort kærendur hefðu brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Embættið líti svo á að þegar umsjónarmaður leggi til að heimild til greiðsluaðlögunar-umleitana sé felld niður og í framhaldinu komi í ljós að fleira í málinu geti varðað niðurfellingu, beri embættinu að bregðast við því og óska eftir skýringum kærenda áður en ákvörðun sé tekin í málinu. Í þessu sambandi sé bent á úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 78/2012, 162/2012, 99/2013 og 155/2013 þar sem heimild til greiðsluaðlögunar var felld niður á grundvelli annarra lagatilvísana en upphafleg tillaga umsjónarmanns hafi byggt á.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að málsmeðferðartími hafi verið of langur og að málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin í máli þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu liggur fyrir að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt 12. september 2014. Umsjónarmaður var skipaður tæpum þremur mánuðum síðar eða 2. desember 2014. Málið var til meðferðar hjá fyrri umsjónarmanni í rúmlega 14 mánuði, eða þar til 17. febrúar 2016. Síðari umsjónarmaður var skipaður 2. mars 2016. Hann sendi umboðsmanni skuldara bréf 30. mars 2016 þar sem hann lagði til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður. Með bréfi til kærenda 18. apríl 2016 gaf umboðsmaður kærendum tækifæri til að tjá sig um tillögu umsjónarmanns. Kærendur svöruðu með bréfi 2. maí 2016. Greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda voru síðan felldar niður um það bil mánuði síðar eða 6. júní 2016. Að framangreindum atriðum virtum og með vísan til málsmeðferðarreglna lge. og málavaxta, þykir úrskurðarnefndinni ekki unnt að fallast á að málsmeðferðartíminn hafi verið óhóflega langur.

Þá gera kærendur athugasemdir við rökstuðning umboðsmanns skuldara er hann felldi niður heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður vísaði til 5. mgr. 13. gr. lge. í fyrrgreindu bréfi sínu til umboðsmanns 30. mars 2016 þar sem kærendur hefðu ekki orðið við ákvörðun hans um að selja fasteign sína. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 6. júní 2016 á þeim grundvelli að þau hefðu ekki lagt nægilega mikið fé fyrir í greiðsluskjóli. Kærendur telja umboðsmann skuldara ekki geta fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir af öðrum ástæðum en þeim sem umsjónarmaður hafi gert grein fyrir í bréfi sínu til embættisins 30. mars 2016. Þegar af þeirri ástæðu telja þau að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Fyrirsögn 15. gr. lge. er „niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana“. Í ákvæðinu segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til lge. segir meðal annars: „Samkvæmt 15. gr. skal umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana koma upp tilvik eða aðstæður sem hann telur munu hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. [...] Eins og kveðið er á um í frumvarpinu skal umsjónarmaður einnig tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef skuldari hefur með vísvitandi hætti brugðist skyldum sínum eða komið í veg fyrir að ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna verði framfylgt...“.

Samkvæmt ofangreindu gerir umsjónarmaður tillögu til umboðsmanns skuldara um að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður. Það er á hinn bóginn umboðsmaður skuldara sem tekur stjórnvaldsákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana að undangenginni málsmeðferð á grundvelli málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar. Þannig ber umboðsmanni meðal annars að sjá til þess að mál sé rannsakað með fullnægjandi hætti, andmælaréttur virtur og að borgari fái í hvívetna tryggt hagsmuni sína áður en ákvörðun um niðurfellingu er tekin samkvæmt 15. gr. lge. Við meðferð málsins er umboðsmaður því bundinn af framangreindum málsmeðferðarreglum og eigin mati en ekki tillögu umsjónarmanns. Leiði málsmeðferð umboðsmanns til þess að ný sjónarmið komi fram eða aðstæður í máli séu aðrar en umsjónarmaður gerir grein fyrir, ber umboðsmanni að byggja á þeim atvikum sem fram komu við hina stjórnsýslulegu málsmeðferð við mat á því hvort fella beri greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður. Með vísan til þessa getur úrskurðarnefndin ekki tekið undir þau sjónarmið kærenda að niðurfelling umboðsmanns skuldara hafi verið í ósamræmi við ákvæði 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur ekki lagt nægilega háa fjárhæð til hliðar en mögulega megi miða við mismunandi tímabil í því sambandi. Í október 2015 hefði þáverandi umsjónarmaður kærenda greint þeim frá því að sparnaður þeirra á þeim tíma væri „í samræmi við mögulegan sparnað“. Ef miðað væri við það vantaði 544.973 krónur upp á sparnað kærenda í greiðsluskjóli. Væri á hinn bóginn miðað við ráðstöfunartekjur kærenda og framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara allt tímabil greiðsluskjóls, eða frá október 2014 til og með júní 2016, vantaði 1.728.374 krónur upp á sparnað þeirra. Kærendur telja sig hafa lagt til hliðar í samræmi við skyldur sínar en þau hafa lagt fyrir 3.152.029 krónur.

Í málinu liggur fyrir tölvupóstur frá þáverandi umsjónarmanni til kærenda 15. október 2015 þar sem segir að þáverandi sparnaður sé „í samræmi við hvað mögulegur sparnaður“ eigi að vera. Samkvæmt bankayfirliti var sparnaðurinn á þeim tíma 2.110.112 krónur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að fyrrgreind ummæli umsjónarmanns hafi gefið kærendum tilefni til að ætla að sparnaður þeirra væri nægilegur. Úrskurðarnefndin telur því ekki rétt að miða við að kærendur hefðu átt að vera búin að leggja fyrir hærri fjárhæð á þeim tíma. Því ber að reikna sparnað kærenda út miðað við fyrrnefndar 2.110.112 krónur, auk sparnaðar fyrir tímabilið frá 1. nóvember 2015 (næstu mánaðamót á eftir tölvupósti umsjónarmanns) til 31. maí 2016 (næstu mánaðamót fyrir ákvörðun umboðsmanns skuldara).

Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort og þá hve miklar bætur kærendur fengu greiddar á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. desember 2015: Tveir mánuðir
Nettótekjur A 976.687
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 488.344
Nettótekjur B 525.896
Nettó mánaðartekjur Bað meðaltali 262.948
Nettótekjur alls 1.502.583
Mánaðartekjur alls að meðaltali 751.292
Tímabilið 1. janúar 2016 til 31. maí 2016: Fimm mánuðir
Nettótekjur A 2.881.034
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 576.207
Nettótekjur B 1.507.758
Nettó mánaðartekjur Bað meðaltali 301.552
Nettótekjur alls 4.388.792
Mánaðartekjur alls að meðaltali 877.758
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.891.375
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 841.625

Sé miðað við framfærslukostnað umboðsmanns skuldara og ofangreindar tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi á ofangreindu tímabili í krónum:

Tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. maí 2016: Sjö mánuðir
Nettótekjur alls á tímabilinu 5.891.375
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 841.625
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 474.961
Greiðslugeta kærenda á mánuði 366.664
Alls sparnaður í sjö mánuði í greiðsluskjóli x 366.664 2.566.648

Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 4.676.760 krónur á tímabili greiðsluskjóls (2.110.112 + 2.566.648).

Kærendur gera athugasemd við að umboðsmaður skuldara hafi ekki gefið þeim nægilegt fjárhagslegt svigrúm vegna kostnaðar við stórhátíðir. Kærendur krefjast þess að tekið sé mið af þessum kostnaði við mat á því hvað þeim hafi borið að leggja fyrir af launum sínum og öðrum tekjum í greiðsluskjóli. Við mat á því hver sú fjárhæð eigi að vera skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt við staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal ber honum að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærendur benda á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa en slíkir samningar fela að jafnaði í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði eins mikið og hann getur af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Kærendur hafa lagt fram yfirlit yfir millifærslur vegna ýmissa óvæntra útgjalda á tímabili greiðsluskjóls. Engin þessara millifærslna er studd kvittunum. Einnig kveðast þau hafa þurft að leggja út fyrir óvæntum kostnaði vegna [...] að fjárhæð 469.123 krónur en viðhlítandi gögn þar að lútandi skortir. Þannig er ekki unnt að taka tillit til þessara liða við útreikning á sparnaði. Loks kveðast kærendur hafa greitt hærri fjárhæð vegna tómstunda, skóla og dagvistunar en gert er ráð fyrir í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara en umboðsmaður gerir ráð fyrir 85.661 krónu á mánuði vegna þessa eða alls 418.305 krónum á því fimm mánaða tímabili sem hér um ræðir. Kærendur hafa ekki sýnt fram á að þessi kostnaður hafi verið hærri en framfærsluviðmið gerir ráð fyrir.

Eins og áður segir hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 4.676.760 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Þau hafa lagt fyrir 3.152.029 krónur og vantar því 1.524.731 krónu upp á sparnað þeirra.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefnd velferðarmála á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau nutu greiðsluskjóls. Þykir ekki breyta þeirri niðurstöðu hvort kröfuhafar hefðu fyrir sitt leyti talið þetta nægilegan sparnað.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum