Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 70/2014

Mál nr. 70/2014

Fimmtudaginn 20. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 15. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. júlí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 16. júlí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. júlí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 11. ágúst 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 14. ágúst 2014 og var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kæranda með bréfi sama dag. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1973 og býr ásamt sambýlismanni sínum og X börnum í eigin fasteign að B sem er 94,2 fermetrar að stærð. Kærandi á 50% hlut í fasteigninni á móti sambýlismanni sínum. Kærandi hefur verið metin til 75% varanlegrar örorku. Hún starfar sem [...] hjá C í hlutastarfi. Í tekjur hefur kærandi laun og greiðslur frá Tryggingastofnun.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 14. september 2012, eru 2.861.607 krónur. Á fasteign kæranda hvílir lán frá D lífeyrissjóði og eru eftirstöðvar þess 13.353.587 krónur samkvæmt upplýsingum í skattframtali 2014, vegna tekna 2013. Sambýlismaður kæranda er lántaki og greiðandi lánsins.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til veikinda hennar og X barna hennar, atvinnuleysis og ýmiss kostnaðar sem hún hafi þurft að standa straum af.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. september 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. maí 2014 var lagt til að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði ekki lagt til hliðar fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir eða allt frá 30. júní 2011.

Í bréfinu kom fram að kærandi hefði átt að geta lagt 3.768.537 krónur fyrir frá því að frestun greiðslna hófst 30. júní 2011. Umsjónarmaður kveður kæranda hafa lagt fram reikninga vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð 154.170 krónur sem tekið sé tillit til við útreikninga umsjónarmanns og hefði hún því átt að leggja alls 3.614.367 krónur fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hafi einnig upplýst að nokkur kostnaður hefði hlotist af veikindum og erfiðleikum barna sinna en hafi ekki lagt fram gögn til að sýna fram á þann kostnað. Umsjónarmaður hafi í kjölfarið tilkynnt að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 16. júní 2014 þar sem henni var kynnt ákvörðun umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði með tölvupósti 23. júní 2014 og kom sjónarmiðum sínum á framfæri.

Með ákvörðun 10. júlí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður málatilbúnað hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að hún sé mjög illa stödd andlega og fjárhagslega og þurfi aðstoð við skuldavanda sinn heilsu sinnar vegna. Börn hennar séu með ADHD og kvíða, auk þess sem eitt barn hennar eigi við frekari veikindi að stríða. Kærandi kveðst bera hærri kostnað vegna lyfja og veikinda barna sinna en reiknað sé með í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Þá kveðst kærandi einnig hafa greitt 42.000 krónur í frístundaheimili fyrir X barnið.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi greiðsluskjól kæranda staðið yfir í 34 mánuði en miðað sé við tímabilið frá júlí 2011 til maí 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi fjárhagur kæranda verið eftirfarandi á tímabilinu í krónum:

Tekjur 1. júlí 2011 til 30. apríl 2014 að frádregnum skatti* 11.381.609
Meðaltekjur á mánuði 334.753
Framfærslukostnaður á mánuði 1. júlí 2011 til 31. desember 2013** 226.438
Framfærslukostnaður á mánuði 1. janúar 2014 til 30. apríl 2014*** 204.890
Heildarframfærslukostnaður á tímabili greiðsluskjóls í 34 mánuði 7.612.700
Meðalframfærslukostnaður á mánuði á tímabili greiðsluskjóls 223.902
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 110.851
Samtals greiðslugeta í 34 mánuði x 110.851 3.768.537

* Launatekjur, barnabætur og vaxtabætur.

**Framfærslukostnaður er reiknaður miðað við helming heildarútgjalda hjóna með þrjú börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í maí 2014 auk þess sem byggt er á upplýsingum frá kæranda. Enn fremur er reiknað með 35.000 krónum til greiðslu af láni sambýlismanns sem hvílir á fasteign kæranda.

***Framfærslukostnaður er reiknaður miðað við helming heildarútgjalda hjóna með tvö börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í maí 2014, auk þess sem byggt er á upplýsingum frá kæranda. Enn fremur er reiknað með 35.000 krónum til greiðslu af láni sambýlismanns sem hvílir á fasteign kæranda.

Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi kærandi átt að geta lagt 3.614.367 krónur til hliðar á tímabili greiðslufrestunar að teknu tilliti til útlagðs kostnaðar vegna tannviðgerða að fjárhæð 154.170 krónur. Kærandi hafi lagt fram gögn sem sýni fram á hærri lyfjakostnað en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir, en þó sé ekki hægt að áætla mánaðarlegan lyfjakostnað með nákvæmum hætti þar sem gögnin sýni einungis kostnað á tilteknu tímabili. Umsjónarmaður hafi reiknað með að læknis- og lyfjakostnaður kæranda væri 8.808 krónur á mánuði. Væri kæranda veitt ríflegt svigrúm og miðað við að læknis- og lyfjakostnaður hennar væri 30.000 krónur á mánuði kæmu 990.000 krónur til frádráttar áætluðum sparnaði vegna læknis- og lyfjakostnaðar á ofangreindu tímabili. Sú fjárhæð nemi um það bil 27% af áætlaðri upphæð sparnaðar á tímabilinu.

Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist haldbærar skýringar á því hvers vegna kærandi hafi ekki lagt til hliðar fé í samræmi við skyldur sínar og verði því að telja að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem féllu til umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var umsókn kæranda móttekin af hálfu umboðsmanns skuldara 30. júní 2011. Þá hófst frestun greiðslna og tóku skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. jafnframt gildi á þeim degi. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 3.614.367 krónur á fyrrnefndu tímabili að teknu tilliti til útlagðs tannlæknakostnaðar að fjárhæð 154.170 krónur samkvæmt gögnum frá kæranda.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, launaupplýsingum ríkisskattstjóra og yfirliti frá Tryggingastofnun hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: 6 mánuðir
Nettótekjur 1.557.983
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 259.664
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.990.995
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 249.250
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.873.649
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 239.471
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. júlí 2014: Sjö mánuðir
Nettótekjur 1.637.324
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 233.903
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.059.951
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 244.864

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, opinberar upplýsingar um tekjur kæranda, barnalífeyrisgreiðslur, barnabætur, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. júlí 2014: 37 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.059.951
Barna- og vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðsla 647.433
Skattfrjálsar greiðslur frá Tryggingastofnun 2.612.757
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 12.320.141
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 332.977
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara* 169.890
Greiðslugeta kæranda á mánuði 163.087
Alls sparnaður í 37 mánuði í greiðsluskjóli x 163.087 6.034.211

* Ekki er tekið tillit til 35.000 króna mánaðargreiðslu af láni sambýlismanns sem hvílir á fasteign kæranda.

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Notast er við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag.

Kærandi kveður lyfja- og lækniskostnað vera hærri en reiknað hafi verið með af hálfu umsjónarmanns. Kærandi lagði fram gögn sem sýndu lyfjakostnað hennar og barna hennar á einu ári. Samkvæmt þeim er lyfjakostnaður kæranda 62.939 krónur á ári en lyfjakostnaður barna hennar 20.462 krónur á ári. Gera má ráð fyrir að kærandi greiði helming lyfjakostnaðar barna á móti sambýlismanni sínum og er heildarkostnaður hennar vegna lyfja því alls 73.170 krónur á ári eða 6.098 krónur á mánuði. Í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara, sem lögð eru til grundvallar í framangreindum útreikningum, er gert ráð fyrir læknis- og lyfjakostnaði að fjárhæð 4.404 krónur á mánuði. Lyfjakostnaður kæranda er því 1.694 krónur umfram framfærsluviðmiðin og verður því tekið tillit til kostnaðar kæranda að fjárhæð 62.678 krónur (1.694 x 37mánuðir) vegna lyfja á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hefur einnig lagt fram gögn vegna tannlæknakostnaðar á tímabili greiðsluskjóls, samtals að fjárhæð 265.000 krónur, sem kemur til frádráttar áætluðum sparnaði. Kærandi hefði því átt að geta lagt 5.706.533 krónur (6.034.211-265.000-62.678) til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til upplýsinga um skyldur samkvæmt 12. gr. lge. og þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi lagði ekkert til hliðar á tímabilinu.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum