Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 87/2014

Mál nr. 87/2014

Fimmtudaginn 20. október 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 10. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 21. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 9. október 2014.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 24. október 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1966. Hún býr í eigin íbúð að B sem er 67 fermetrar að stærð. Kærandi fær greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun og Greiðslustofu lífeyrissjóða.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 20. janúar 2012, eru 9.226.342 krónur. Til helstu skuldbindinga kæranda var stofnað á árunum 1998 og 2007.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til veikinda. Kveðst hún hafa átt við veikindi að stríða undanfarin X ár og hafi nú verið metin til örorku.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. janúar 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. nóvember 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði hafnað því að selja fasteign sína sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að mánaðarlegar meðaltekjur kæranda eftir greiðslu skatta hafi verið 201.000 krónur árið 2013. Kærandi eigi 30.000 krónur aflögu í hverjum mánuði til að greiða af skuldbindingum sínum að frádregnum kostnaði vegna framfærslu. Umsjónarmaður telji kæranda ekki geta greitt af fasteign sinni, auk þess sem ljóst sé að samningar náist ekki við kröfuhafa þar sem eignin sé ekki veðsett að fullu. Að mati umsjónarmanns sé því nauðsynlegt að selja eignina en kærandi hafi ekki fallist á sölu.

Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 22. maí 2014 þar sem henni var kynnt tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi hafði samband með tölvupósti 2. júlí 2014 og átti samskipti við umboðsmann skuldara símleiðis 3. og 8. ágúst sama ár.

Með ákvörðun 8. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar og krefst þess að málið verði sent aftur til umboðsmanns skuldara og að embættinu verði gert að senda frumvarp til greiðsluaðlögunar til kröfuhafa en það hafi ekki verið gert. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst verr sett á leigumarkaði en í eigin fasteign og telur það hag kröfuhafa að semja við hana. Kærandi mótmælir því að ekki sé hægt að hnika til framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara til að hægt sé að komast hjá því að selja fasteign hennar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara kveður meðaltal mánaðartekna kæranda vera 210.136 krónur og að framfærslukostnaður hennar sé áætlaður 165.695 krónur á mánuði. Kærandi hafi því 44.441 krónu aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum í hverjum mánuði, en áætluð mánaðarleg greiðslubyrði áhvílandi lána sé 70.000 krónur hið minnsta. Fasteignamat B sé 16.000.000 króna en áhvílandi skuldir séu 8.206.942 krónur samkvæmt skuldayfirliti. Þó megi gera ráð fyrir að veðkröfur séu hærri en skuldayfirlitið beri með sér með vísan til frestunar greiðsla samkvæmt 11. gr. lge. Umboðsmaður skuldara telji þó óhætt að fullyrða að eignastaða kæranda sé slík að mögulegt væri að leysa greiðsluerfiðleika hennar alfarið með sölu eignarinnar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að umsjónarmaður hafi metið það svo að samningar myndu ekki nást um eftirgjöf samningskrafna í ljósi eignastöðu kæranda og að embættið hafi fallist á mat umsjónarmanns, enda sé komin töluverð reynsla á niðurstöður í sambærilegum málum. Þá liggi einnig fyrir að kærandi geti ekki greitt af áhvílandi veðkröfum.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. er kveðið á um að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem sá fyrrnefndi telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að hann verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum um 13. gr. í frumvarpi til. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Kærandi gerir athugasemdir við að frumvarp hafi ekki verið lagt fyrir kröfuhafa. Í gögnum málsins kemur fram að umsjónarmaður átti fund með kæranda 14. mars 2012 og kynnti henni niðurstöður sínar. Þá átti kærandi samskipti við ráðgjafa hjá umboðsmanni skuldara í því skyni að reyna að leysa fjárhagsvanda hennar með því að semja við kröfuhafa utan greiðsluaðlögunar en það bar ekki árangur. Eins og áður hefur komið fram lagði umsjónarmaður til að fasteign kæranda að B yrði seld en að mati umsjónarmanns hefði kærandi ekki fjárhagslegt svigrúm til að greiða fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar. Þá taldi umsjónarmaður að ekki myndu nást samningar við kröfuhafa þar sem fasteignin væri ekki veðsett að fullu og eignastaða kæranda væri jákvæð. Í framhaldinu lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með bréfi 8. nóvember 2013, enda hafði þá jafnframt komið í ljós í samskiptum umsjónarmanns og kæranda að kærandi var ekki tilbúin til að fallast á að selja fasteign sína. Við þær aðstæður sem lýst er hér verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge. Eins og málið liggur fyrir verður að telja að skilyrði 5. mgr. 13. gr. lge. hafi verið uppfyllt en samkvæmt orðalagi ákvæðisins skiptir ekki máli við úrlausn á því hvort frumvarp hafi verið lagt fyrir kröfuhafa eða ekki.

Við mat á málsmeðferð umboðsmanns skuldara ber meðal annars að líta til rannsóknarreglu 5. gr. lge., sem styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál. Einnig ber að líta til leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem kemur fram í 7. gr. laga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlegar leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna hverjar skuldbindingar umsækjanda um greiðsluaðlögun séu, hver sé greiðslubyrði vegna þeirra og hve mikið hann geti greitt af þeim í mánuði hverjum að framfærslukostnaði frádregnum.

Í málinu liggur fyrir yfirlit frá staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra sem sýnir að laun kæranda frá janúar til maí 2014 voru alls 1.050.559 krónur eða 210.112 krónur á mánuði að meðaltali. Einnig liggur fyrir skattframtal 2011, vegna tekna 2010, þar sem fram kemur að fasteignamat B var 13.450.000 krónur árið 2010. Enn fremur er að finna gögn um greiðslubyrði áhvílandi lána á eigninni frá febrúar og mars 2012, en samkvæmt þeim var greiðslubyrðin alls 70.776 krónur á þeim tíma.

Hvorki liggja fyrir gögn um hver var fjárhæð áhvílandi veðlána í ágúst 2014, þegar umboðsmaður skuldara tók hina kærðu ákvörðun, né gögn um verðmæti fasteignarinnar á þeim tíma. Því er óupplýst um hvort og að hve miklu leyti koma þurfi til afskrifta á skuldum kæranda. Þá liggja heldur ekki fyrir gögn um greiðslubyrði áhvílandi veðlána á fasteign kæranda á fyrrgreindum tíma. Að þessu leyti skortir á að umboðsmaður skuldara hafi byggt ákvörðun sína á sjálfstæðri könnun viðhlítandi gagna

Þegar allt framanritað er virt verður að telja að umboðsmaður skuldara hafi í veigamiklum atriðum byggt hina kærðu ákvörðun á frásögn umsjónarmanns, án þess að staðreyna grundvallarupplýsingar eða leggja sjálfstætt mat á málsatvik og aðstæður kæranda.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda hafi verið felldar niður, án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt þeirri rannsóknarskyldu sem á honum hvílir samkvæmt 5. gr. lge. Af þeim sökum ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið til meðferðar að nýju.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum