Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 89/2014

Mál nr. 89/2014

Fimmtudaginn 8. desember 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 19. ágúst 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. ágúst 2014, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 28. ágúst 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. október 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kærendur komu athugasemdum sínum á framfæri með bréfi sem móttekið var 29. janúar 2015 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 16. febrúar 2015. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1970 og 1965 og eru í sambúð. Þau búa í eigin húsnæði ásamt X börnum sínum, sem er 167 fermetra einbýlishús að C.

Kærandi A er [...] og starfar hjá D. Kærandi B hefur verið metin til örorku en starfar í hlutastarfi við [...] á E. Auk launatekna og örorkulífeyris frá Tryggingastofnun fá þau barnabætur.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 23. desember 2013, eru 45.903.882 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2006-2007 vegna endurfjármögnunar á fasteignalánum, íbúðarkaupa, fjármögnunar á lóðakaupum og húsbyggingar.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína fyrst og fremst til byggingar íbúðarhúsnæðis og afleiðinga efnahagshrunsins haustið 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun hjá Embætti umboðsmanns skuldara 29. ágúst 2013 og með ákvörðun embættisins 27. desember 2013 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum þeirra. Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 16. maí 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu ekki sinnt samráði við hann eins og þeim bæri skylda til samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Þá teldi umsjónarmaður enn fremur að fella ætti niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. þar sem fjárhagur þeirra væri óljós, enda lægi ekki fyrir hver upphæð sparnaðar þeirra á tímabili greiðsluskjóls væri.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 23. júní 2014 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra á grundvelli 1. mgr. 16. gr. og b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með tölvupósti 30. júní 2014 þar sem fram kom að þau hefðu ekki lagt fyrir fé á tímabilinu. Þá komu kærendur einnig á fund umboðsmanns skuldara 2. júlí 2014. Í kjölfar hans sendi umboðsmaður skuldara kærendum annað bréf 15. júlí 2014 þar sem þeim var kynnt fyrirhuguð niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana, nú á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., og þeim veitt færi á að koma andmælum sínum og athugasemdum á framfæri. Engin frekari viðbrögð voru af hálfu kærenda.

Með ákvörðun 5. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að mál þeirra verði tekið aftur fyrir hjá umboðsmanni skuldara og að þau verði betur upplýst um stöðu sína. Skilja verður kæru þeirra þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Í kæru kveðast kærendur eiga tvær fasteignir en þurfi aðeins aðra þeirra og séu ráðþrota þar sem fjárnám hafi verið gert í eignunum sem þau nái ekki að „losa“. Kærendur telja að umboðsmaður skuldara geti aðstoðað þau og óska eftir að embættið taki aftur við þeirra málum. Kærendur kveðast ekki hafa náð að leggja til hliðar eins og til stóð en það hafi að hluta til stafað af því að þau hafi borgað af einhverju sem ekki átti að borga af. Einnig hafi tekjur þeirra lækkað fyrri hluta árs.

Kærendur vekja athygli á því að Embætti umboðsmanns skuldara hafi aðeins reynt að hringja í kæranda A en ekki í kæranda B, þrátt fyrir að hann hafi ekki svarað í síma en hann eigi oft erfitt með það vinnu sinnar vegna. Kærendur kveðast meðvituð um að þau hafi ekki náð að leggja til hliðar og hafi ýmsar ástæður legið þar að baki. Þau telji útreikninga umboðsmanns „ekki virka“ en samkvæmt þeim sé of mikið áætlað sem afgangur tekna eftir útgjöld vegna framfærslu. Kærendur kveðast aldrei hafa fengið að vita hvort eitthvað væri búið að gera í þeirra málum eða hver staðan væri. Þau hafi reynt að ná í umsjónarmann og skilið eftir skilaboð með beiðni um að haft yrði samband við þau en það hafi ekki verið gert. Ekki liggi fyrir gögn um þetta í málinu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í sex mánuði sé miðað við tímabilið 1. janúar 2014 til 30. júní 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi á tímabili greiðsluskjóls í krónum:

Launatekjur 1. janúar 2014 til 30. júní 2014 3.772.989
Leigutekjur 593.400
Barnalífeyrir 312.972
Tekjur alls á tímabilinu 4.679.361
Mánaðarlegar meðaltekjur á tímabili greiðsluskjóls 779.894
Framfærslukostnaður á mánuði* 358.367
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 421.527
Samtals greiðslugeta á tímabilinu 2.529.159

* Framfærslukostnaður miðar við útgjöld hjóna með X börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í júlí 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum um annan kostnað.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. séu ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um skyldur skuldara fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun. Upplýsingarnar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Kærendur hafi ekki veitt umboðsmanni skuldara fullnægjandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafi ekkert lagt til hliðar á tímabilinu og því verði að telja að þau hafi brotið gegn skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kærenda samþykkt 27. desember 2013 og hófst frestun greiðslna sama dag. Frá og með þeim degi bar kærendum jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýstir um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 2.529.159 krónur á tímabili greiðsluskjóls en þau hafi ekkert lagt til hliðar.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa launatekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. júlí 2014: Sjö mánuðir
Nettótekjur kærenda 4.144.575
Nettó mánaðartekjur kærenda að meðaltali 592.082

Í hinni kærðu ákvörðun er byggt á því að kærendur hafi auk launatekna fengið greiddan barnalífeyri á tímabili greiðsluskjóls. Ekki er að finna gögn í málinu sem sýna fram á slíkar greiðslur og verður því ekki tekið mið af þeim við útreikning á tekjum kærenda.

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og skattframtölum um tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. júlí 2014: Sjö mánuðir
Nettólaunatekjur alls í greiðsluskjóli 4.492.023
Leigutekjur eftir frádrátt skatta á tímabilinu* 692.300
Heildarráðstöfunartekjur á tímabilinu 5.184.323
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 740.618
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns** 358.367
Greiðslugeta kærenda á mánuði 382.251
Alls sparnaður í sjö mánuði í greiðsluskjóli x 382.251 2.675.757

*Byggt er á upplýsingum frá kærendum um leigutekjur.

**Framfærslukostnaður miðaður við útgjöld hjóna samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í júlí 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum um annan kostnað.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Að þessu virtu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 2.675.757 krónur á tímabili greiðsluskjóls en kærendur hafa ekki lagt neitt til hliðar. Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur þegar umsókn þeirra var samþykkt, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum