Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2004

Ár 2005, 7. apríl, er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi ú r s k u r ð u r í stjórnsýslumáli nr. 20/2004, A gegn Siglingastofnun Íslands I. Aðild kærumáls og kröfur Með bréfi, dags. 22. október 2004, kærði A (kærandi) ákvörðun Siglingastofnunar Íslands (kærði), frá 19. október 2004, um að synja sér um leyfi til að flytja inn 18 feta skemmtibát frá Bandaríkjunum. Kærandi gerir kröfu um að samgönguráðuneytið endurskoði afstöðu Siglingastofnunar og veiti honum leyfi til innflutnings á umræddum báti til eigin nota. Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu: 1. Tölvupóstur sem hefur að geyma samskipti kærða við dönsku siglingastofnunina, dags.9.9.2004. 2. Tölvupóstur sem hefur að geyma samskipti sérfræðings kæranda hjá Lloyd's Register við sérfræðing sama fyrirtækis í Þýskalandi. 3. Bréf kærða til kæranda, dags. 19. október 2004, um synjun á innflutningi á 18 feta skemmtibáti frá Bandaríkjunum. 4. Stjórnsýslukæra, dags. 22. október 2004. 5. Beiðni ráðuneytisins um umsögn kærða, dags. 29. október 2004. 6. Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 1. nóvember 2004. Tilkynnt um stöðu mála og gefinn kostur á frekari framlagningu gagna. 7. Umsögn kærða, dags. 6. janúar 2005 8. Andmæli kæranda, dags. 24. janúar 2005 9. Bréf ráðuneytisins, dags. 14. febrúar 2005, þar sem tilkynnt er um fyrirsjáanlega töf á afgreiðslu málsins II. Málsmeðferð Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið hefur jafnframt aflað frekari gagna í samræmi við ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. III. Málsatvik Kærandi óskaði eftir leyfi kærða til innflutnings á 18 feta skemmtibáti frá Bandaríkjunum en var synjað um það með bréfi dags. 19. október 2004. Í framhaldi af því sendi kærandi ráðuneytinu erindi þar sem kærð er ákvörðun Siglingastofnunar og gerð krafa um endurskoðun á afstöðu hennar. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn kærða um erindið og barst hún 6. janúar 2005. Ráðuneytið sendi kæranda jafnframt bréf, dags. 1. nóvember 2004, þar sem staðfest var móttaka kærunnar. Þá var kæranda gefinn kostur á framlagningu frekari gagna máli sínu til stuðnings og ráðuneytið bauð fram aðstoð sína við málsmeðferð óskaði kærandi eftir því. Kæranda var send umsögn kærða til andmæla og ráðuneytinu bárust viðbrögð kæranda með bréfi dags. 24. janúar 2005. III. Málsástæður og rök kæranda Kærandi fer fram á það að ráðuneytið endurskoði og úrskurði um ákvörðun kærðu um að hafna innflutningi á skemmtibáti á þeim forsendum að báturinn sé ekki CE merktur. Kærandi kveðst ekki geta sætt sig við að geta ekki keypt bát og notað til eigin þarfa hér á landi hvort sem hann er CE merktur eða ekki. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til upplýsinga frá B hjá Lloyd's Register um dóm sem hafi fallið í Danmörku um samskonar mál, þ.e. innflutningur á báti frá Bandaríkjunum til eigin nota. Hann kveður að í því máli hafi hlutaðeigandi fengið leyfi til innflutnings að því tilskyldu að hann notaði bátinn sjálfur. Ef hann hins vegar ætli að selja hann, þ.e. að setja hann á markað, verði hann að fá bátinn vottaðan og CE merktan. Það sama kveður kærandi vera uppi á teningnum í Þýskalandi, þ.e. að einkaaðila sé leyfilegt að flytja inn skemmtibát frá landi utan Evrópusambandsins til eigin nota. Í umsögn sinni dags. 24. janúar sl. rekur kærandi samskipti sín við kærðu. Þar bendir kærandi jafnframt á að tiltekinn maður hafi fengið sinn bát úr tolli í Reykjavík eftir að kærða hafði heimilað að bátur hans væri tollaður. Kærandi kveðst undrandi á því vegna þess að hann telji að um sambærileg mál sé að ræða. Þó kemur fram að báturinn Helga II sem smíðaður er af Trefjum ehf. sé með haffærisskírteini og skráður af kærðu sem vinnubátur en ekki skemmtibátur. Kærandi segir sömu reglur gildi um báðar tegundir báta. Af þessum sökum fari kærandi fram á það við ráðuneytið að það endurskoði afstöðu kærðu og veiti leyfi til innflutnings á umræddum báti til eigin nota. IV. Málsástæður og rök Siglingastofnunar Ráðuneytið óskaði umsagnar kærðu um erindið. Umsögnin barst ráðuneytinu þann 6. janúar 2005. Þar vísar stofnunin í gildandi reglugerð um skemmtibáta nr. 168/1997, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 708/2000. Samkvæmt reglugerðinni skulu skemmtibátar og búnaður þeirra samræmast þeim grunnkröfum sem þar koma fram. Kærða kveður mikilvægt að átta sig á því að það að setja á markað sé ekki aðeins að selja skemmtibát heldur að skemmtibátur sé fluttur inn á Evrópska efnahagssvæðið án tillits til þess hvort það sé gert gegn greiðslu eður ei og án tillits til tilgangs innflutningsins. Þessi skilningur komi skýrt fram í leiðbeiningarefni með tilskipun Evrópusambandsins um skemmtibáta og á þeirri tilskipun byggi íslenska reglugerðin. Kærði kveður bát kæranda ekki vera CE merktan. Kærandi hafi ráðið til sín B, sérfræðing, til þess að taka bátinn út, þ.e. að velja aðferðareiningu samkvæmt reglugerðinni og tilskipuninni og meta hvort skemmtibáturinn uppfylli kröfur sem gerðar séu, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Sérfræðingurinn hafi hins vegar ekki treyst sér til þess að gefa út yfirlýsingu (e. decleration of conformity) um að báturinn uppfylli þær kröfur sem reglugerðin og tilskipunin gera til skemmtibáta. Þá hafi hann heldur ekki treyst sér til að merkja bátinn með CE merkinu eins og áskilið er í 9. gr. reglugerðar nr. 168/1997, sbr. reglugerð nr. 708/2000. Kærða kveðst samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 168/1997, um skemmtibáta hafa með höndum markaðseftirlit með skemmtibátum, búnaði og innflutningi þeirra. Það samrýmist ekki því hlutverki að taka út báta og meta hvort þeir uppfylli kröfur reglugerðarinnar. Kærða tekur fram að stofnunin hafi lagt sig fram við að kynna sér meðferð sambærilegra mála í öðrum Evrópuríkjum og kveðst geta staðfest að ekki sé um ólíka túlkun að ræða þar sem reglurnar séu þær sömu. Munurinn virðist felast í virkni markaðseftirlitsins í hverju landi. Þá bendir kærði á að ekki sé hægt að meta gildi tilvitnaðs dóms frá Danmörku þar sem engar frekari upplýsingar fylgi umsögn kæranda um efni hans. Kærða standi því við fyrri ákvörðun sína um að synja innflutningi á 18 feta löngum skemmtibáti frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, enda hafi ekkert komið fram sem bendir til þess að báturinn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkra báta hér á landi sem og í Evrópu. V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins Ágreiningur aðila snýst um það hvort lagaskilyrði séu fyrir innflutningi á 18 feta skemmtibáti frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Um er að ræða 18 feta skemmtibát sem ekki ber svonefnda CE merkingu en gerð er krafa um slíka merkingu samkvæmt íslenskum lögum. Reglugerð nr. 168/1997 um skemmtibáta, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 708/2000, mælir fyrir um kröfur sem gerðar eru til skemmtibáta almennt. Skemmtibátar verða að uppfylla grunnkröfur um öryggi, heilsu, umhverfisvernd og neytendavernd, sbr. 3. grein reglugerðarinnar. Í 4. gr. er tilgreind sú skylda að CE merkja innflutta skemmtibáta og að ekki megi banna, takmarka eða hindra markaðssetningu slíkra báta eða að þeir séu teknir í notkun að því skilyrði uppfylltu að þeir séu merktir CE merkinu sem um getur í IV. viðauka. Eins og fram hefur komið er reglugerð nr. 168/1997 um skemmtibáta með síðari breytingum innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/25/EC í íslenskan rétt. Í tilefni af úrvinnslu máls þessa aflaði ráðuneytið leiðbeiningarits um framkvæmd tilskipunarinnar sem útgefin er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (A guide to the application of Directive 94/25/EC of 16 june 1994 on the approximation of the laws, regulations and administrative provisions of the Member States relating to recreational craft, second edition - November 2003). Þar er að finna ítarlegar upplýsingar varðandi beitingu og túlkun tilskipunarinnar, m.a. undanþáguákvæða 3. tl. 1. gr. tilskipunarinnar, sem birtast í 2. gr. reglugerðar 168/1997 um skemmtibáta. Ekki verður fjallað nánar hér um undanþáguheimildir fyrir ýmsar gerðir báta s.s. kafbáta, svifbáta, gondóla eða brimbretti þar sem atvikin eru ólík. Aftur á móti taldi ráðuneytið tilefni til að skoða hvort undanþáguheimildin í g. lið 2. gr. ætti við hér um báta sem smíðaðir eru til eigin nota. Samkvæmt ákvæðinu eru bátar sem smíðaðir eru til eigin nota undanþegnir ákvæðum reglugerðarinnar að því tilskildu að þeir verði ekki settir á markað á Íslandi næstu fimm ár eftir að smíði lýkur enda verði notkun takmörkuð með tilliti til ástands bátsins. Í ofangreindu leiðbeiningarriti segir að undanþágan gildi aðeins um þá báta sem eru smíðaðir af framtíðareiganda bátsins að því gefnu að báturinn verði ekki settur á markað Evrópska efnahagssvæðisins innan fimm ára frá upphaflegri notkun bátsins. Lögð er áhersla á það að undanþágan eigi aðeins við um þann sem smíðar bátinn til eigin nota og gert að skilyrði að báturinn verði ekki settur á markað EES svæðisins innan fimm ára frá notkun. Ef eigandi bátsins vill svo koma bátnum á markað innan framangreinds frests þá taka gildi ákvæði reglugerðarinnar um CE merkingu. Tekið er fram að sérsmíðaður bátur hjá fagaðila eftir pöntun einstaklings falli ekki undir undanþáguna. Samkvæmt 6. og 7. gr. EES-samningsins eru tilskipanir sem teknar eru upp í samninginn skuldbindandi fyrir Ísland og skal vera hluti af löggjöf landsins. Því verða ekki veittar frekari undanþágur en tilskipunin og reglugerðin sem sett hefur verið til innleiðingar á henni leyfa. Undirliggjandi ákvæðum reglugerðar um skemmtibáta er meðal annars meginregla tilskipunar 94/25/EC um frjálsan flutning skemmtibáta innan Evrópska efnahagssvæðisins að því skilyrði uppfylltu að bátur beri CE merkingu. Nauðsynlegt er því að skýra hugtakið "að setja á markað", sbr. 2. gr. tilskipunarinnar. Hugtakið hefur verið skýrt svo að nægilegt sé að bátur sé fluttur inn á Evrópska efnahagssvæðið og tekinn í notkun þar. Því sé ekki skilgreiningaratriði að bátur gangi kaupum og sölum eða skipti um eigendur á annan hátt innan Evrópska efnahagssvæðisins. Heimasmíðaðir bátar eru eins og áður hefur komið fram undanþegnir þessari skilgreiningu í fimm ár eftir að smíði líkur. Þessi skýring er í samræmi við það sem segir í leiðbeiningarefni með tilskipun nr. 94/25/EC sem reglugerð um skemmtibáta byggir á sem að ofan greinir. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi látið fallprófa skemmtibátinn en það eitt jafngildir ekki kröfu reglugerðarinnar um CE merkingu og getur ráðuneytið því ekki byggt niðurstöðu sína á því. Vegna málsástæðna kæranda um beitingu nefndra reglna í öðrum löndum EES hefur ráðuneytið skoðað túlkun og framkvæmd tilskipunarinnar í Noregi og Danmörku. Eftirfarandi texti er á heimasíðu norsku Siglingastofnunarinnar um þetta atriði: "Før fritidsbåter kan settes på markedet eller tas i bruk i EØS-området for første gang, skal disse være CE-merket. Dette gjelder som hovedregel enten båten produseres i EØS-området, eller importeres fra et land utenfor EØS-området (tredjeland), om båten er ny eller brukt. Importeres båten fra et tredjeland, må båten CE-merkes selv om den kun er til eget bruk og selv om det finnes fartøyer av samme type eller modell på EØS-markedet. Fritidsbåter som omfattes av kravene til CE-merking og som importeres uten CE-merke, vil bli stoppet i tollen Se Importforskriften § 2.. Man har da valget mellom å CE-merke båten (gjennomføre etterkontroll), eller sende den ut av EØS-området". Samkvæmt þessu gildir í Noregi ófrávíkjanleg krafa um CE merkingu skemmtibáta hvort sem þeir eru innfluttir eða ekki. Þá má benda á sambærilegt leiðbeiningarefni um beitingu og túlkun ákvæða reglugerðar um skemmtibáta, sem er að finna á heimasíðu dönsku siglingastofnunarinnar (www.soefartsstyrelsen.dk.). Ekki er hægt að byggja á staðhæfingum kæranda um aðra túlkun og framkvæmd í Danmörku eða Þýskalandi þar sem ekki liggja fyrir nein gögn slíku til stuðnings þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar um. Varðandi staðhæfingu kæranda um að sömu reglur skuli gilda um skemmtibát sinn og tiltekinn bát sem hafi verið skráður sem vinnubátur tekur ráðuneytið fram að ekki gilda sömu reglur um skemmtibáta og vinnubáta. Vinnubátar falla alfarið utan gildissviðs reglugerðar um skemmtibáta og því ekki um brot á jafnræðisreglu að ræða. Að öllu ofangreindu virtu og með vísan til efnis g. liðar 2. gr. reglugerðar nr. 168/1997, um skemmtibáta eru ekki fyrir hendi lagaheimildir til að beita undanþáguákvæði reglugerðarinnar um smíði báts til eigin nota, þar sem skilyrðum ákvæðisins er ekki fullnægt. Forsenda þess að kærða geti veitt leyfi til innflutnings er að kæranda afli CE merkingar fyrir bátinn í samræmi við ákvæði reglugerðar um skemmtibáta nr. 168/1997. Krafa um CE merkingu skemmtibáta er að meginstefnu til gerð með öryggissjónarmið í huga og gæta ber jafnræðis við afgreiðslu slíkra mála. CE merking felur í sér ákveðinn gæðastimpil og um leið samræmingu öryggiskrafna inna EES markaðssvæðisins. Undanþágur frá meginreglunni um CE merkingu eru fáar og mjög afmarkaðar og ekki eru skilyrði fyrir beitingu þeirra í þessu máli. Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna mannabreytinga innan ráðuneytisins. Með vísan til þess sem að framan er ritað staðfestir ráðuneytið ákvörðun Siglingastofnunar Íslands um synjun á innflutningi umrædds skemmtibátar. Úrskurðarorð Ráðuneytið staðfestir hér með ákvörðun Siglingastofnunar Íslands um synjun á heimild kæranda til innflutnings á 18 feta skemmtibáti frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. F.h.r. Ragnhildur Hjaltadóttir Unnur Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum