Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 398/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 398/2018

Þriðjudaginn 12. mars 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. nóvember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að reikna örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda miðað við búsetutíma maka.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með tölvupóstum í október og nóvember 2018 óskaði kærandi eftir að örorkulífeyrisgreiðslur hans yrðu reiknaðar miðað við búsetutíma maka hans. Með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. október 2018 og 12. nóvember 2018, var beiðni kæranda synjað. Fram kemur meðal annars í bréfinu frá 25. október 2018 að Tryggingastofnun hafi ætíð metið það svo að ákvæðið í lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, um að taka megi tillit til búsetutíma maka ellilífeyrisþega, sé heimildarákvæði sem eigi einungis við um ellilífeyrisgreiðslur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 26. nóvember 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 3. desember 2018 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 4. desember 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í kæru en ráða má af gögnum málsins að kærandi krefjist þess að örorkulífeyrisgreiðslur hans verði reiknaðar miðað við búsetutíma maka hans.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi farið til Tryggingastofnunar ríkisins í eigin persónu fjórum sinnum, hringt fjórum sinnum og sent tölvupóst fjórum sinnum með beiðni um að farið væri eftir búseturétti eiginkonu hans sem sé einnig öryrki. Í 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi:

„Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.“

Kærandi vilji benda á að enginn hluti 1. mgr. 17. gr. sé útilokaður. Ekki sé vísað í 2. og 3. málslið. Í 1. mgr. 17. gr. laganna segir:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“ 

Fyrsti málsliðurinn í framangreindu ákvæði sé ekki notaður því þar sé ekki fjallað um búsetuhlutfall. Allir hinir málsliðirnir fjalli um búsetuhlutfall og vísi til örorkulífeyris. Því ætti ákvæðið að lesast með eftirfarandi hætti:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi örorku / ellilífeyris ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til örorku / ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá örorku /ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Það sé skoðun kæranda og allra sem hann hafi rætt við að þetta sé mjög skýrt. Kærandi sjái ekki hvar Tryggingastofnun hafi heimild til þess að útiloka síðasta málsliðinn. Kærandi hafi spurt starfsmann stofnunarinnar um hvar í lögunum hún fyndi eitthvað sem útilokaði síðasta málsliðinn en hún hafi ekki getað svarað því. Hún hafi þó vísað í úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 401/2009 sem hvorki hún né kærandi hafi getað fundið. Kærandi hafi fundið bréf umboðsmanns Alþingis frá 24. september 2010 vegna máls nr. 5919/2010. Í bréfinu segi:

„A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem því var hafnað að miða réttindi hennar til örorkulífeyris og tengdra greiðslna við réttindi eiginmanns hennar, B. Kvörtunin beindist jafnframt að því að réttindi A til örorkulífeyris og tengdra greiðslna hefðu verið skert vegna búsetuskilyrða laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og var því haldið fram að slíkt bryti í bága við jafnræðisreglu, meðalhófsreglu og ákvæði 72. og 76. gr. stjórnarskrár. Því var enn fremur haldið fram að dóttir A byggi við skert réttindi þar sem möguleikar A á að fullnægja framfærsluskyldu sinni gagnvart henni væru skertir með umræddu fyrirkomulagi. 

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 24. september 2010. Fyrir lá að B fékk greiddar makabætur skv. 5. gr. laga nr. 99/2007 sem ekki töldust til lífeyris samkvæmt lögum nr. 100/2007. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að hafna því að miða réttindi til örorkulífeyris og tengdra greiðslna við réttindi B enda lá ekki fyrir að hann hefði fengið greiddan lífeyri skv. lögum nr. 100/2007 eins og gert var að skilyrði í lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laganna.“

Fram kemur í kæru að umboðsmaður Alþingis hafi staðfest úrskurð úrskurðarnefndarinnar en niðurstaðan bendi til að kærandi hafi rétt fyrir sér. Umboðsmaður hafi kveðið á um að konan í málinu ætti ekki rétt á að nýta rétt eiginmannsins því eiginmaðurinn hafi fengið félagslegar bætur samkvæmt lögum nr. 99/2007 en ekki örorkubætur samkvæmt lögum nr. 100/2007. Aftur á móti séu kærandi og eiginkona hans bæði á örorku.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að með kæru, dags. 16. nóvember 2018, hafi kærandi kært ákvörðun stofnunarinnar um að synja honum um að beita því heimildarákvæði sem fram komi í lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Í kærugögnum vísi kærandi til þess að stofnunin hafi ekki kannað hvort kærandi hafi yfir höfuð verið búsettur í B. Tryggingastofnun sé ekki sammála þeirri fullyrðingu en gögn sem stofnunin hafi um kæranda bendi til þess að hann hafi verið búsettur í B. Þá hafi stofnunin einnig sent fyrirspurn til B 12. nóvember sl. en stofnuninni hafi ekki borist svar þaðan. Tryggingastofnun telji þó umrætt atriði ekki hafa áhrif á mál þetta þar sem kæruefnið í þessu tiltekna máli varði eingöngu beitingu á heimildarákvæði sem fram komi í lokamálsið 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar sé svohljóðandi:

,,Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylli tiltekin skilyrði. Þar segi:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, eru á aldrinum 18-67 ára og

a)    hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b)    eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Í 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga segi eftirfarandi:

,,Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.“

Út frá kærugögnum í máli þessu sé hvorki deilt um búsetuútreikning kæranda, sem sé 17.96%, né örorku kæranda en kærandi hafi verið talinn uppfylla skilyrði um örorkulífeyri og gildi örorkumat hans frá X 2018 til X 2022. Kæra kæranda snúi einvörðungu að heimildarákvæði sem fram komi í lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar en ákvæðið sé svohljóðandi: ,,Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“ Kærandi telji að umrætt ákvæði eigi einnig við þegar hjón séu bæði öryrkjar og njóti bæði örorkulífeyris.

Kærandi hafi óskað eftir skýringum á umræddu heimildarákvæði í tölvupósti 9. október 2018. Erindinu hafi verið svarað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 25. október 2018. Í bréfinu vísi Tryggingastofnun til þess að heimildarákvæðið eigi einungis við um ellilífeyrisþega og ellilífeyrisgreiðslur. Í áðurnefndu bréfi vísi Tryggingastofnun einnig til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 401/2009, dags. 1 júlí 2010. 

Kæranda hafi verið boðið að koma í viðtal hjá Tryggingastofnun X 2018. Kærandi hafi mætt í umrætt viðtal ásamt starfsmanni stofnunarinnar. Í kæru vísi kærandi til þess að starfsmaður hafi ekki getað svarað neinu. Starfsmaður hafi svarað ýmsum spurningum og sagt jafnframt að úrskurð nr. 401/2009 væri ekki að finna á vef nefndarinnar. Það hafi því ekki verið orð starfsmannsins að hann vissi ekki hvar úrskurðinn væri að finna. Starfsmaður hafi fjallað um ákvörðun stofnunarinnar og jafnframt bent kæranda á kæruleiðir.

Kærandi hafi sent frekari tölvupósta til Tryggingastofnunar. Tryggingastofnun hafi svarað umræddum tölvupóstum með bréfi, dags. 12. nóvember 2018. Þar vísi Tryggingastofnun til þess að ekki séu forsendur fyrir því að breyta ákvörðun stofnunarinnar, þ.e. að miða búsetuhlutfall út frá búsetuhlutfalli maka sem eigi hærri réttindatíma sem jafnframt sé örorkulífeyrisþegi.

Í kærugögnum málsins vísi kærandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 5919/2010. Tryggingastofnun telji umrætt álit ekki eiga við þar sem um makabætur hafi verið að ræða sem ekki teljist til lífeyris samkvæmt almannatryggingalögum.

Við túlkun á ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar verði að horfa til vilja löggjafans í þessum efnum sem og lagaþróunar frá 1971 líkt og gert hafi verið í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 401/2009. Líkt og fram komi í bréfum stofnunarinnar til kæranda hafi ákvæðið ávallt verið túlkað þannig að heimilt sé að miða við búsetu maka þegar komi að greiðslu ellilífeyris en ekki örorkulífeyris. Sú regla byggi á þeirri staðreynd að hjónaviðmiðum 1. mgr. 17. gr. hafi ekki verið ætlað að eiga við um öryrkja.

Í þessum efnum þurfi að skoða forsögu ákvæðisins fyrir endurútgáfu á almannatryggingalögum árið 2007 en þá hafi verið í gildi lög nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í lögunum hafi ákvæði um ellilífeyri verið í 11. gr. laganna og ákvæði um örorkulífeyri í 12. gr. laganna. Þáverandi 3. mgr. 12. gr. hafi verið svohljóðandi:

,,Fullur árlegur örorkulífeyrir skal vera 147.949 kr. og greiðist hann eftir sömu reglum og ellilífeyrir sbr. þó 4. mgr. Við ákvörðun lögheimilstíma sbr. 1. mgr. 11. gr.  Skal reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda.“

Ekki hafi verið að finna heimild til þess að taka tillit til búsetutíma hjóna í 1. mgr. 11. gr. en ákvæðið hafi verið svohljóðandi:

„Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og átt hafa lögheimili hér á landi a.m.k. þrjú almanaksár frá 16-67 ára aldurs. Fullur árlegur ellilífeyrir, 147.984 kr., greiðist þeim einstaklingum sem átt hafa lögheimili hér á landi a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við lögheimilstímann.“

Heimildarákvæðið, þ.e. til þess að miða við búsetutíma maka sem lengur hafi búið á Íslandi við útreikning ellilífeyris, hafi hins vegar verið að finna í 3. mgr. þáverandi 11. gr. en hún hafi verið svohljóðandi:

,,Lífeyrir hjóna sem bæði fá lífeyri skal nema 90% af lífeyri tveggja einstaklinga. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja við lögheimilstíma þess sem á lengri réttindatíma sbr. síðasta málslið 2. mgr. Þá er og heimilt að úrskurða hvoru hjónanna um sig einstaklingslífeyri ef þau eru eigi samvistun af heilsufarsástæðum eða öðrum ástæðum er tryggingaráð metur jafngildar.“

Eins og sjá megi á ofangreindu hafi í lögum nr. 117/1993 verið gerður skýr greinarmunur á heimildarákvæði þessu, þ.e. varðandi ellilífeyri og örorkulífeyri.

Í þessu samhengi vilji Tryggingastofnun einnig vekja athygli á því að rekja megi ofangreindan greinarmun lengra aftur í tímann eða allt aftur til ársins 1971 þegar lög nr. 67/1971 um almannatryggingar voru sett. Þá hafi þessi greinarmunur verið skýr, bæði í lögunum sjálfum og greinargerð er hafi fylgt frumvarpinu er síðar varð að lögum nr. 67/1971.

Út frá því sem hafi verið rakið hér að framan sé skýrt að annars vegar hafi verið um að ræða ákvæði er fjallaði um almennan útreikning á búsetu á Íslandi hvað varði réttindi til almannatrygginga og hins vegar þá sérreglu sem heimilt hafi verið að beita um hjón með lögum frá 1971 til ársins 2001.

Breytingar hafi verið gerðar með lögum nr. 93/2001, þ.e. breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð en þá hafi þáverandi 3. mgr. 11. gr. verið felld niður og sérreglunni um búsetuútreikning hjóna bætt við sem síðasta málslið 1. mgr. 11. gr. Síðasti málsliðurinn hafi verið svohljóðandi:

,,Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna sem bæði fá lífeyri við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma“.

Þegar skoðuð séu gögn, sem hafi fylgt frumvarpi sem varð að lögum nr. 93/2001, sé ekki að sjá að ætlunin hafi verið að veita giftum öryrkjum sem báðir njóti örorkulífeyris sömu réttarstöðu og giftum ellilífeyrisþegum sem báðir fái ellilífeyri greiddan.

Þá beri einnig að nefna að ítarleg skýrsla hafi verið lögð fram með frumvarpinu í maí 2001 ,,Álit vinnuhóps um endurskoðun almannatrygginga og samskipti þess við skattkerfið og lífeyrissjóði“. Í skýrslu þessari sé farið yfir markmið með þeim breytingum sem gerðar hafi verið með lagafrumvarpi þessu ásamt því að farið hafi verið yfir þær breytingar sem stefnt hafi verið að í náinni framtíð. Í skýrslunni hafi verið fjallað um hvaða áhrif lagabreytingarnar hefðu á gifta öryrkja en út frá orðalagi sem fram komi í umræddri skýrslu sé ekki að sjá að gert hafi verið ráð fyrir breytingum á rétti giftra öryrkja að þessu leyti, þ.e. að miða búsetuhlutfall út frá búsetuhlutfalli maka með lengri réttindatíma sem jafnframt sé örorkulífeyrisþegi.

Umræður hafi farið fram um frumvarpið og farið hafi verið ítarlega yfir þær breytingar sem gerðar yrðu á almannatryggingakerfinu. Flutningsmaður frumvarpsins hafi verið þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Jón Kristjánsson. Ráðherra hafi minnst á breytinguna um að flytja málslið úr 3. mgr. 11.gr. í 1. mgr. sömu lagagreinar. Ráðherra hafi sagt eftirfarandi:

,,Í 2. gr. frumvarpsins er hluti af 3. mgr. 11. gr. laga um almannatryggingar felldur brott. Í mgr. er kveðið á um að grunnlífeyrir hjóna sem bæði eru lífeyrisþegar nemi 90% af grunnlífeyri einstaklings. Frumvarpið gerir ráð fyrir að grunnlífeyrir hjóna hækki úr 90% af grunnlífeyri í 100%.

Sá hluti 3. mgr. sem fjallar um búsetuskilyrði er óbreyttur en hann er fluttur í 1. mgr. 11. gr. laganna.“

Út frá ofangreindu telji Tryggingastofnun að ekki hafi verið markmiðið að breyta réttarstöðu öryrkja að þessu leyti, heldur hafi ákvæðið átt að vera óbreytt. Vilji löggjafans með frumvarpi laga nr. 93/2001 hafi því fyrst og fremst verið til að bæta réttarstöðu giftra ellilífeyrisþega í samanburði við stöðu einhleypra ellilífeyrisþega. Ákvæðið hafi verið fært til eða í raun og veru setningin í 1. mgr. 11. gr. Að því sögðu telji stofnunin að ætlunin hafi ekki verið að breyta réttarstöðu öryrkja.

Lokamálslið 1. mgr. 17. gr. hafi aftur verið breytt en breytingar hafi verið gerðar með lögum nr. 116/2016 á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.). Breytingar þessar hafi haft í för með sér að skipt hafi verið út orðinu „lífeyri“ í „ellilífeyri“ og sé nú svohljóðandi:

,,Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“ 

Ekki sé að sjá á stjórnarfrumvarpi með lögunum (þingskjal 1624 -857 mál) að vilji löggjafans hafi verið að víkka út gildissvið ákvæðisins, þ.e. að það ætti að ná einnig yfir örorkulífeyrisþega. Efni frumvarpsins hafi verið að samræma þá stefnu stjórnvalda við að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku og meðal annars til þess að einfalda almannatryggingakerfið. Frumvarpið hafi því falið í sér breyttan stuðning við aldraða með áherslu á meiri sveigjanleika og einfaldara regluverk á sviði almannatrygginga. Ekki sé minnst einu orði á að lokamálsliður 1. mgr. 17. gr. eigi einnig að ná til örorkulífeyrisþega, þvert á móti telji stofnunin að með því að taka út orðið lífeyri og bæta inn ellilífeyri sé verið að undirstrika að ákvæðið eigi einungis við um ellilífeyrisþega. 

Samkvæmt framangreindu telji Tryggingastofnun það koma skýrlega fram að heimildarákvæði það sem fram komi í lokamálsið 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, þess efnis að miða megi ellilífeyri beggja hjóna sem bæði fái ellilífeyri við búsetutíma þess sem eigi lengri réttindatíma, eigi einungis við um ellilífeyrisþega. Vissulega sé vísað til þess í 4. mgr. 18. gr. laganna að örorkulífeyrir eigi að greiða eftir sömu reglum og ellilífeyri en út frá sögu ákvæðisins sem rakin hafi verið komi bersýnilega í ljós að vilji löggjafans hafi verið að heimildarákvæðið eigi einungis við um ellilífeyrisþega. Þá beri einnig að nefna að um heimildarákvæði sé að ræða en meginreglan sé sú að bótaréttindi byggð á búsetu miðist við búsetutíma þess sem bæturnar þiggi. Því sé um að ræða undantekningu sem fram komi í heimildarákvæði þessu sem eigi einungis við um réttindi til ellilífeyris. Frávik frá meginreglunni séu undantekningar sem skýra beri þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Þá telji Tryggingastofnun mikilvægt að horfa til framkvæmdarinnar varðandi heimildarákvæðið en henni hafi aðeins verðið beitt við ákvörðun ellilífeyris þegar bæði hjón uppfylli skilyrði hans.

 IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða lífeyrisgreiðslur kæranda við betri rétt maka til örorkulífeyrisgreiðslna með hliðsjón af búsetu.

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar segir í 1. mgr. svo:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla, eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. og:

  1. hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
  2. eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar:

„Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.“

Í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar segir:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Ljóst er af framangreindu að heimilt er að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi byggir á því að framangreind heimild eigi einnig við um örorkulífeyrisþega og óskar eftir því að við útreikning örorkulífeyrisgreiðslna til hans verði miðað við búsetutíma maka hans sem er einnig örorkulífeyrisþegi. Úrskurðarnefnd almannatrygginga, ein af forverum úrskurðarnefndar velferðarmála, tók til skoðunar í nokkrum úrskurðum hvort framangreind heimild ætti einnig við um örorkulífeyrisþega. Nýjasti úrskurðurinn er frá 15. maí 2013, mál nr. 284/2012, og af honum verður ráðið að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi fallist á að heimildin eigi einnig við um örorkulífeyrisþega. Í úrskurðinum segir meðal annars svo:

„Það er mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að ekki verði annað séð en að 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 eigi við í því tilviki sem hér um ræðir. Hjónin eru bæði örorkulífeyrisþegar og með tilvísun 4. mgr. 18. gr. um að örorkulífeyrir greiðist eftir sömu reglum og ellilífeyrir þá verður að líta til þess að í 1. mgr. 17. gr. er kveðið á um að heimilt sé að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að draga megi af framangreindum rökstuðningi þá ályktun að orðalagið í þágildandi 4. mgr. 18. gr. laga um almannatrygginga, um að örorkulífeyrir greiðist eftir sömu reglum og ellilífeyrir, hafi ráðið mestu um niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga. Síðan framangreindur úrskurður var kveðinn upp hefur 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar aftur á móti verið breytt, sbr. 3. gr. laga nr. 116/2016, sem tók gildi 1. janúar 2017. Ekki er lengur kveðið á um það í framangreindu ákvæði að örorkulífeyrir greiðist eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir meðal annars svo:

„Verði frumvarp þetta að lögum mun bótakerfi almannatrygginga vegna ellilífeyris verða gjörbreytt frá gildandi kerfi. Því er í b-lið lagt til að felld verði út tilvísun til reglna um ellilífeyri í 4. mgr. 18. gr. gildandi laga en þar segir að örorkulífeyrir greiðist eftir sömu reglum og ellilífeyrir. Í stað þess verði kveðið á um að við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skuli reikna með tímann þar til ellilífeyrisaldri er náð eins og hann verður hverju sinni, sbr. 2. gr. frumvarpsins sem verður 17. gr. laganna.“

Með lögum nr. 116/2016 var greiðslum ellilífeyris breytt töluvert og því eru ellilífeyrisgreiðslur orðnar mun ólíkari örorkulífeyrisgreiðslum en áður var. Þá er nú einungis vísað til þess í 2. málsl. 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skuli reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, um að heimilt sé að miða lífeyri hjóna, sem bæði fái ellilífeyri, við búsetutíma þess sem eigi lengri réttindatíma, eigi ekki við um örorkulífeyrisþega.

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða örorkulífeyrisgreiðslur kæranda við búsetutíma maka sem á lengri réttindatíma er því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða örorkulífeyrisgreiðslur A, við búsetutíma maka sem á lengri réttindatíma, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum