Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 302/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 302/2017

Föstudaginn 8. september 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. ágúst 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2016, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 26. febrúar 2015 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi, dags. 9. júní 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar vinnu og að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað að minnsta kosti 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fyrir tímabilið 26. febrúar til 31. maí 2015.

Kærandi bar ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í september 2015. Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 28. apríl 2016 var hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Með bréfi, dags. 9. júní 2016, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði fellt úr gildi fyrri ákvörðun um viðurlög samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun taldi að endurgreiðsluskylda kæranda samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 væri óbreytt þar sem hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta þann tíma sem hún uppfyllti ekki skilyrði laganna. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála 29. ágúst 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi ekki fengið tilkynningu um ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júní 2016 fyrr en með ítrekun um greiðslu ofgreiddra bóta þann 10. ágúst 2017. Kærandi tekur fram að Vinnumálastofnun hafi hvorki fært fram nein rök né sönnun fyrir ákvörðun um innheimtu. Kærandi telur undarlegt að Vinnumálastofnun beri ekki skylda til að tilkynna henni um ákvörðun sína á annan hátt en í samskiptakerfi stofnunarinnar. Kærandi hafi ekki haft ástæðu til að fylgjast með því kerfi þar sem atvinnuleysisbætur hennar hefðu verið felldar niður.

III. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júní 2016 um innheimtu ofgreiddra bóta.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2016, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru 29. ágúst 2017. Samkvæmt framangreindu barst kæran úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti.

Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess. Ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga mælir þannig fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísan til þess að kæra í máli þessu barst rúmlega ári frá því að ákvörðun var tilkynnt kæranda er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur óskað eftir endurupptöku á ákvörðun Vinnumálastofnunar telji hún skilyrði endurupptöku vera fyrir hendi. Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum