Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 76/2016

 Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 76/2016

Fimmtudaginn 26. maí 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. febrúar 2016, kærir B f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 9. desember 2015, á umsókn hans um greiðslu húsaleigubóta.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 21. október 2015. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 9. nóvember 2015, með þeim rökum að hann ætti ekki lögheimili í leiguhúsnæðinu, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 9. desember 2015 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun velferðarráðs og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 27. janúar 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 7. apríl 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. apríl 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi fer fram á að synjun Reykjavíkurborgar um greiðslu húsaleigubóta verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að greiða honum húsaleigubætur.  

Kærandi greinir frá því að hann sé með lögheimili í Reykjavík en dvelji á sambýli að C í D sem rekið sé tímabundið af styrktarfélagi. Ástæða þess að lögheimili hans hafi ekki verið flutt til D sé sú að hjá Reykjavíkurborg liggi umsókn um sértæk búsetuúrræði. Kærandi vísar til undanþáguákvæðis 3. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur þar sem kveðið sé á um heimild fyrir sveitarfélag að greiða húsaleigubætur til leigjenda sem búa þurfa tímabundið í öðru sveitarfélagi vegna veikinda. Þar sem kærandi sé veikur/fatlaður og sambýlið tímabundið undir stjórn styrktarfélags sé hægt að túlka framangreinda undanþága honum í hag. Kærandi bendir einnig á að samkvæmt ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili sé dvöl á þar tilgreindum stöðum ekki talin til fastrar búsetu. Þá komi fram í 6. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1990 að verði eigi skorið úr um fasta búsetu manns samkvæmt 2. og 3. mgr. skuli maðurinn sjálfur ákveða hvar lögheimili hans skuli vera.    

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá því að kærandi hafi um margra ára skeið búið að C í D en verið með lögheimili að E í Reykjavík. Því verði ekki annað séð en að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 þar sem fram komi að þeir leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum sem leigi íbúðarhúsnæði til búsetu og eigi þar lögheimili. Ákvæði 3. mgr. 4. gr. laganna sé undantekningarákvæði og í samræmi við viðteknar lögskýringarreglur beri að skýra slíkt ákvæði þröngt. Ákvæðið eigi ekki við um kæranda þar sem ekki sé um að ræða tímabundna búsetu hans í öðru sveitarfélagi.

Reykjavíkurborg bendir á að þrátt fyrir að sambýlið, sem kærandi sé búsettur á, sé rekið tímabundið af styrktarfélagi veiti það eitt og sér ekki tilefni til að veita undanþágu frá meginreglunni um rétt til húsaleigubóta. Það breyti ekki þeirri staðreynd að föst búseta kæranda hafi verið um margra ára skeið að C. Ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 geti eingöngu komið til greina ef um sé að ræða tímabundna búsetu í öðru sveitarfélagi. Þar sem búseta kæranda hafi varað um margra ára skeið geti hún ekki talist tímabundin í skilningi ákvæðisins. Þá bendir Reykjavíkurborg á að kærandi hafi þegar verið upplýstur um að ef hann færi lögheimili sitt til D þá verði óskað eftir því að hann fái áfram að vera á biðlista eftir sértæku búsetuúrræði hjá borginni.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta.

Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur kemur fram að sveitarfélög greiða húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir sveitarfélaga að jafnaði afgreiðslu umsókna. Í 4. gr. laganna er kveðið á um rétt til húsaleigubóta. Þar segir í 1. mgr. að þeir leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili. Í 2. mgr. er síðan kveðið á um undanþágu frá þeirri reglu en þar segir að dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur geti viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. Þá segir í 3. mgr. að sveitarfélagi sé heimilt að greiða húsaleigubætur til leigjanda sem búa þarf tímabundið í öðru sveitarfélagi vegna veikinda. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.

Samkvæmt framangreindu er meginreglan því sú að leigjendur, sem óska eftir greiðslu húsaleigubóta, skulu vera búsettir í hinu leigða íbúðarhúsnæði og eiga þar lögheimili, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 og 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1990. Kærandi sótti um greiðslu húsaleigubóta vegna húsnæðis að C í D en er með lögheimili að E í Reykjavík. Óumdeilt er að kærandi hefur um margra ára skeið verið búsettur að C en verið með lögheimili að E og hefur kærandi greint frá ástæðu þess. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 138/1997 um að eiga lögheimili í hinu leigða húsnæði. Kemur þá til skoðunar hvort undanþáguákvæði 3. mgr. 4. gr. laganna eigi við um aðstæður kæranda. Í ákvæðinu kemur skýrt fram að sveitarfélagi sé heimilt að greiða húsaleigubætur til leigjenda sem búa þurfa tímabundið í öðru sveitarfélagi vegna veikinda. Þar sem kærandi hefur verið búsettur um margra ára skeið í D verður ekki séð að framangreind undantekning eigi við um hans aðstæður. Ákvæði laga nr. 21/1990 um lögheimili breyta engu þar um. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.      


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 9. desember 2015, um synjun á umsókn A um greiðslu húsaleigubóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum